Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 623. máls.

Þskj. 916  —  623. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
       a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Skráðum hlutafélögum og einkahlutafélögum, svo og samlagshlutafélögum, enda sé þess óskað við skráningu að samlagshlutafélagið sé sjálfstæður skattaðili. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta ekki myndað samlagshlutafélag er sé sjálfstæður skattaðili.
       b.      Á eftir „5.“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: og 6.
       c.      Á eftir orðinu „samlagsfélags“ í 3. mgr. kemur: samlagshlutafélags.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
          6.      Lífeyrissjóðir sem starfa skv. III. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær meginbreytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Annars vegar er lagt til að samlagshlutafélag teljist ekki sjálfstæður skattaðili nema eftir því sé sérstaklega óskað við skráningu og hins vegar að kveðið verði skýrar á um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir greiðslu tekjuskatts.
    Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, er samlagshlutafélag sjálfstæður skattaðili með sama hætti og hlutafélag og einkahlutafélag, þó svo að hluti félagsaðila í samlagshlutafélagi beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. Í löggjöf nágrannaríkjanna er víða að finna ákvæði þess efnis að samlagshlutafélög séu ekki sjálfstæðir skattaðilar, nema annars sé óskað, og beri því að skattleggja tekjur samlagshlutafélaga hjá eigendum þeirra. Þannig er því t.d. háttað í dönskum rétti, þó svo að önnur ákvæði dönsku hlutafélagalaganna, eins og um skráningu í hlutafélagaskrá, gildi um samlagshlutafélög eftir því sem við á. Sams konar ákvæði er að finna í 159. gr. íslensku hlutafélagalaganna.
    Á það hefur verið bent að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem kveðið er á um sjálfstæða skattskyldu samlagshlutafélaga, hafi leitt til þess að þetta tiltekna félagaform hafi ekki verið notað í neinum mæli hér á landi þrátt fyrir ýmsa kosti sem því fylgi. Íslensk löggjöf á sviði tekjuskatta sem og hlutafélaga hefur tekið mið af danskri löggjöf og er með frumvarpi þessu lagt til að sambærilegar reglur gildi í íslenskum lögum um skattskyldu samlagshlutafélaga og eru í danskri löggjöf. Er áfram gert ráð fyrir að reglur hlutafélagalaga gildi almennt um samlagshlutafélög, þ.m.t. reglur um skráningu.
    Í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu. Þar á meðal eru lífeyrissjóðir, sbr. 5. tölul. 4. gr., svo fremi sem þeir reki ekki atvinnustarfsemi. Í vissum tilvikum hefur leikið vafi á því hvort lífeyrissjóður teljist stunda atvinnustarfsemi, m.a. í tilviki samlagsfélaga, þrátt fyrir takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum samlagsins. Tillaga frumvarpsins er sú að tekin verði af öll tvímæli um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir skattskyldu af hvers konar tekjum af starfsemi sem þeim er á annað borð heimil samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslenskir lífeyrissjóðir eru þegar meðal stærstu og virkustu fjárfesta á innlendum fjármálamarkaði, en með þessari breytingu er þeim gert kleift að fjárfesta í formi samlaga eða samlagshlutafélaga, t.d. sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, án þess að skattskylda myndist.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 2. gr. í gildandi lögum er samlagshlutafélag skattlagt með sama hætti og hlutafélag og einkahlutafélag, þ.e. sem sjálfstæður skattaðili, þó svo að einstakir eigendur þess beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins, andstætt því sem gildir um hlutafélag eða einkahlutafélag. Hér er hins vegar lagt til að samlagshlutafélögum verði gert kleift að starfa án þess að vera sjálfstæðir skattaðilar með sambærilegum hætti og gildir um sameignarfélög og samlagsfélög. Þetta þýðir að sé þess óskað við skráningu að samlagshlutafélag beri ekki sjálfstæða skattaðild eru tekjur félagsins skattlagðar hjá eigendum.
    Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting á 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. í þá veru að við skráningu samlagshlutafélags í hlutafélagaskrá verði kveðið óafturkræft á um skattalega stöðu félagsins, þ.e. hvort það sé sjálfstæður skattaðili eður ei. Samræmis vegna er í 2. málsl. lagt til að hjónum, einum sér eða með ófjárráða börnum sínum, sé óheimilt að mynda samlagshlutafélag sem ekki sé sjálfstæður skattaðili, til samræmis við það sem gildir um sameignarfélag og samlagsfélag. Þess ber að geta að reglur hlutafélagalaga um skráningu og þau gögn sem liggja þurfa fyrir við skráningu gilda um samlagshlutafélög, sbr. 159. gr. hlutafélagalaga.
    Í b-lið er að finna breytingu til samræmis við þá tillögu sem er í 2. gr. frumvarpsins, sbr. umfjöllun hér að neðan.
    Í c-lið er lögð til breyting á 3. mgr. 2. gr. til samræmis við það sem að framan greinir, en 3. mgr. fjallar um skiptingu tekna og eigna milli félagsaðila þegar félagið sjálft er ósjálfstæður skattaðili.

Um 2. gr.


    Í 4. gr. gildandi laga kemur fram hvaða aðilar séu undanþegnir skattskyldu. Þar á meðal eru lífeyrissjóðir, sbr. 5. tölul. greinarinnar, svo fremi sem þeir reki ekki atvinnustarfsemi. Ríkt hefur ákveðin óvissa um það í hvaða tilvikum lífeyrissjóður geti talist reka atvinnustarfsemi, enda er í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, kveðið á um að lífeyrissjóður megi ekki stunda atvinnustarfsemi. Hér eru tekin af öll tvímæli um skattundanþágu lífeyrissjóða með tillögu um nýjan tölulið, þ.e. 6. tölul. 4. gr., sem taki eingöngu til lífeyrissjóða skv. III. kafla í lögum nr. 129/1997, en það eru þeir sjóðir sem heimild hafa til að taka á móti skyldubundnum iðgjöldum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003,


um tekjuskatt, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu er lagt til annars vegar að ekki verði farið með samlagshlutafélög sem sjálfstæða skattaðila nema eftir því sé óskað við skráningu og hins vegar að kveðið verði skýrar á um það en nú er gert að lífeyrissjóðir séu undanþegnir greiðslu tekjuskatts. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.