Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 637. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 941  —  637. mál.
Tillaga til þingsályktunarum lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, nr. 18 2. nóvember 1992.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Össur Skarphéðinsson, Guðrún Ögmundsdóttir,     Jóhanna Sigurðardóttir,


Valdimar L. Friðriksson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Einar Már Sigurðarson,


Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Skal frumvarp sem felur í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að sáttmálanum vera lokið 20. nóvember 2006.

Greinargerð.


    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er nefndur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Ísland undirritaði sáttmálann í New York 26. janúar 1990 með fyrirvara um fullgildingu. Ísland fullgilti síðan samninginn 27. nóvember 1992.
    Samningurinn öðlaðist gildi 2. september 1990 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann en flest ríki Sameinuðu þjóðanna eru nú aðilar að honum. Til fróðleiks má nefna að það var ríkisstjórn Póllands sem átti frumkvæði að gerð samningsins árið 1978 þótt rekja megi tilurð hans allt til ársins 1924 þegar Þjóðabandalagið gaf Genfaryfirlýsinguna út.
    Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi börnum til handa, óháð réttindum hinna fullorðnu. Þótt aðildarríkin að samningnum séu skuldbundin til að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn veitir þeim er sú skuldbinding aðeins samkvæmt þjóðarétti. Vegna tvíeðliskenningarinnar sem lögð er til grundvallar í lagatúlkun hér á landi þarf að lögfesta alþjóðlega samninga ef þeir eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi. Því er ekki hægt að beita barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum.
    Flutningsmenn telja hins vegar rétt að slíkur grundvallarsáttmáli verði lögfestur hér á landi með sama hætti og gert var með mannréttindasáttmála Evrópu. Vægi barnasáttmálans yrði þá meira hér á landi þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða börn.
    Noregur lögfesti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 1. október árið 2003, en sá dagur er alþjóðlegur barnadagur.
    Á 121. löggjafarþingi lagði Rannveig Guðmundsdóttir fram þingsályktunartillögu um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sú tillaga gekk m.a. út á að skipuð yrði nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi nefnd átti einnig að meta hvort rétt væri að lögleiða sáttmálann í heild sinni. Þessi framsýna tillaga var hins vegar ekki samþykkt á Alþingi. Hér er hins vegar lagt til að gengið verði skrefinu lengra og ályktað um lögfestingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir 20. nóvember nk. en þá verða 27 ár liðin síðan sáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Stutt yfirlit yfir efni barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Barnasáttmálinn felur í sér viðurkenningu á að börn hafi sjálfstæð réttindi óháð vilja foreldra eða forráðamanna. Samningurinn tryggir ekki einungis borgaraleg réttindi heldur einnig félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi. Með samningnum skuldbinda aðildarríki hans sig til að tryggja börnum ákveðin lágmarksréttindi.
    Samningurinn nær til barna undir 18 ára aldri nema lögræðisaldur sé lægri samkvæmt lögum viðkomandi lands (1. gr.). Aðildarríkjum ber að tryggja börnum þau réttindi sem samningurinn kveður á um án mismununar (2. gr.). Þegar tekin er ákvörðun sem varðar barn skal fyrst og fremst haft í huga hvað barninu er fyrir bestu (3. gr.).
    Aðildarríki eiga að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að réttindi þau sem samningurinn kveður á um verði virk (4. gr.). Varðandi fjárhagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi er gerður sá fyrirvari að aðildarríki skuli grípa til þeirra ráðstafana sem þau hafa bolmagn til. Aðildarríki eru hvött til alþjóðlegrar samvinnu til að tryggja þau réttindi sem samningurinn kveður á um. Aðildarríki eiga að virða réttindi og skyldur foreldra til þess að leiðbeina börnum sínum þannig að þau megi njóta þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um (5. gr.). Kveðið er á um rétt barna til þess að lifa og ná þroska (6. gr.), til þess að fá nafn og ríkisfang, vera skráð strax eftir fæðingu (7. gr.) og til að halda persónulegum auðkennum sínum (8. gr.).
    Fjallað er um rétt barna sem skilin hafa verið frá foreldri sínu eða foreldrum gegn vilja þeirra (9. gr.). Aðildarríkjum ber að greiða fyrir sameiningu fjölskyldna sem ekki búa í sama landi og stuðla að því að barn geti viðhaldið sambandi við foreldri sem ekki býr í sama landi og það (10. gr.). Þau skulu gera ráðstafanir gegn því að börn séu flutt ólöglega úr landi og þeim haldið erlendis (11. gr.).
    Börn eiga að hafa rétt til að tjá sig í málum sem varða þau sjálf (12. gr.). Í samningnum eru almenn ákvæði um tjáningarfrelsi barna (13. gr.), trúfrelsi (14. gr.), félagafrelsi og friðhelgi einkalífs (15.–16. gr.). Kveðið er á um rétt barna til aðgangs að upplýsingum og hlutverk fjölmiðla í því sambandi (17. gr.).
    Aðildarríkjum ber að virða þá meginreglu að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á börnum sínum og aðstoða foreldra við að gegna foreldrahlutverki sínu (18. gr.). Aðildarríkjum ber að vernda börn gegn hvers konar illri meðferð (19. gr.).
    Sérstök ákvæði eru um börn sem talin eru þurfa á sérstakri vernd að halda, svo sem börn sem ekki eru í umsjá fjölskyldna sinna (20. gr.), börn sem eru ættleidd, einkum milli landa (21. gr.), börn sem eru flóttamenn (22. gr.) og fötluð börn (23. gr.). Kveðið er á um rétt barna til heilbrigðisþjónustu (24. gr.) og rétt barna sem vistuð eru á stofnunum (25. gr.). Fjallað er um rétt barna til almannatrygginga (26. gr.), rétt þeirra til fullnægjandi lífsskilyrða (27. gr.) og menntunar (28.–29. gr.). Sérstakt ákvæði er um réttindi barna sem tilheyra minnihlutahópum (30. gr.).
    Aðildarríkjum ber að virða rétt barna til hvíldar og tómstunda og rétt þeirra til að taka þátt í menningar- og listalífi (31. gr.). Börn eiga rétt á vernd gegn arðráni og vinnu sem getur verið þeim skaðleg (32. gr.).
    Aðildarríkjum ber að vernda börn gegn ólögmætri notkun ávana-, fíkni- og skynvilluefna (33. gr.) og gegn kynferðislegri notkun og misnotkun (34. gr.). Þeim ber að grípa til ráðstafana til að hindra brottnám barna og verslun með þau (35. gr.). Síðan er almennt ákvæði (36. gr.) um að aðildarríkjum beri að vernda börn gegn hvers kyns annarri notkun sem gæti verið þeim skaðleg.
    Fjallað er um réttindi barna sem hafa verið svipt frelsi (37. gr.) og sérstakt ákvæði er um börn sem lenda í vopnuðum átökum (38. gr.). Kveðið er á um skyldur aðildarríkja til þess að sjá börnum, sem sætt hafa illri meðferð eða eru fórnarlömb vopnaðra átaka, fyrir endurhæfingu og félagslegri aðlögun (39. gr.). Fjallað er um réttarvernd barna sem eru ákærð eða dæmd fyrir refsiverða verknaði (40. gr.). Ekkert í samningnum á að koma í veg fyrir að barni verði veittur meiri réttur með innlendum eða alþjóðlegum lögum (41. gr.).
    Sérstök nefnd, svokölluð barnaréttarnefnd (Committee on the Rights of the Child), var sett á stofn til að fylgjast með hvort og hvernig aðildarríkin fullnægðu skuldbindinum sínum samkvæmt samningnum (II. hluti).

Hugsanlegar lagabreytingar vegna lögfestingar barnasáttmálans.
    Fljótlega eftir undirritun barnasáttmálans af hálfu Íslands var hafist handa við að laga íslenskan rétt að ákvæðum hans og voru gerðar ýmsar réttarbætur í því sambandi. Barnasáttmálinn er hins vegar mjög víðfemur og stundum matskenndur. Það getur því stundum verið álitamál hvort viðkomandi ákvæði sáttmálans sé nú þegar að finna í lögum eða ekki. Sömuleiðis getur verið munur á lögunum sjálfum og framkvæmd þeirra.
    Í skýrslu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um Ísland frá árinu 2003 eru m.a. margs konar vangaveltur um stöðu barnasáttmálans og barna almennt á Íslandi. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur frá 10. maí 2005 (þskj. 1284, 747. mál) er fjallað um athugasemdir barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans. Sömuleiðis koma fram margs konar upplýsingar um hugsanlegar brotalamir í íslenskum lögum í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002 sem var m.a. skilað til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
    Með þingsályktunartillögu þessari leggja flutningsmenn til að ríkisstjórnin skoði hvort og þá hverju beri að breyta í gildandi löggjöf við lögfestingu sáttmálans. Hér geta margir lagabálkar komið við sögu, svo sem barnalög, barnaverndarlög, almenn hegningarlög, lög um leikskóla, lög um grunnskóla, lög um framhaldsskóla, almannatryggingalög, lög um heilbrigðisþjónustu, lög um málefni fatlaðra, ættleiðingarlög, lög um umboðsmann barna o.s.frv. Þá telja flutningsmenn að við lögfestingu barnasáttmálans sé nauðsynlegt að laga texta barnasáttmálans að hefðbundnu lagaformi.
    Hér á eftir má finna nokkur ákvæði barnasáttmálans sem þyrfti að hafa í huga þegar kemur að öðrum lagabreytingum. Þessi upptalning er ekki tæmandi en gefur þó einhverja hugmynd um hugsanlegar lagabreytingar.

1.
    Í fyrsta lagi ber að líta á 1. gr. barnasáttmálans sem segir að barn sé einstaklingur sem ekki hefur náð átján ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur. Í íslenskri löggjöf er nokkurt misræmi um aldursmörk barna þótt lögræðisaldur sé 18 ár hér á landi. Í tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans frá 2003 er m.a. mælst til þess að íslensk löggjöf verði endurskoðuð í því skyni að tryggja að samræmi sé í aldursmörkum í ýmsum lögum.
    Sem dæmi má nefna að barnabætur eru einungis greiddar foreldrum þar til barn er orðið 16 ára þótt forsjá barnsins sé til 18 ára aldurs þess. Börn eru síðan sjálfstæðir skattaðilar frá 16 ára aldri. Þá er í sumum lögum miðað við fæðingarár en í öðrum fæðingardag barns.
    Umboðsmaður barna hefur bent á að ítrekað fái hann ábendingar um gjaldtöku, svo sem á almannaþjónustu, þar sem fullorðinsgjald miðast við 12 ára aldur. Umboðsmaður telur að þetta geti skapað ójafnræði meðal barna vegna mismunandi fjárhagsstöðu foreldra og sé því í ósamræmi við 2. gr. barnasáttmálans sem segir m.a. að aðildarríki skuli virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, svo sem sökum félagslegrar stöðu og eigna eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.

2.
    Í öðru lagi ber að hafa í huga 3. gr. barnasáttmálans sem tryggir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi sem ber að virða.
    Í ársskýrslu sinni frá árinu 2002 benti umboðsmaður barna á að víða í íslensku samfélagi væru hagsmunir hinna fullorðnu teknir fram yfir hagsmuni ungu kynslóðarinnar og þótt margt hafi áunnist á liðnum árum sé enn langt í land með að tryggja sérhverju barni þann rétt sem því ber. Á það ekki síst við um framkvæmd ýmissa laga, segir umboðsmaður barna.
    Umboðsmaður barna hefur sömuleiðis gagnrýnt að í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, er ekki kveðið á um þennan sjálfstæða rétt barnsins. Þá hefur m.a. verið bent á að réttindi skv. 3. gr. barnasáttmálans séu ekki nægilega tryggð innan stjórnsýslu ýmissa sveitarfélaga.
    Í niðurstöðum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans frá 2003 kemur m.a. fram að gera þurfi fullnægjandi ráðstafanir svo að lög, stjórnvaldsfyrirmæli og aðgerðaráætlun varðandi börn komi til framkvæmda, svo sem með fjárframlögum sem eiga að fylgja eftir efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum barna.

3.
    Í þriðja lagi er nauðsynlegt að líta á 4. gr. barnasáttmálans sem fjallar um að gera skuli allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau sem viðurkennd eru í samningnum komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.
    Af þessari grein leiðir að aðildarríki eru ekki einungis ábyrg fyrir því að löggjöf þeirra sé í samræmi við samninginn heldur einnig lagaframkvæmd. Í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002 er fjallað um 4. gr. barnasáttmálans og þar er talið að auka þurfi almennar upplýsingar í stjórnsýslunni um börn, heilsu barna, brottfall barna úr skólum o.s.frv.

4.
    1. mgr. 7. gr. sáttmálans lýtur að réttinum til nafns, ríkisfangs og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
    Hér þarf að hafa í huga rétt barnsins til að þekkja foreldra sína og hvort þetta eigi við sæðisgjafa og kynforeldra ættleiddra barna. Á þetta hefur umboðsmaður barna nýlega bent.

5.
    Í 12. sáttmálans segir að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.
    Í 13. gr. sáttmálans segir síðan m.a. að barn eigi rétt til að láta í ljós skoðanir sínar og felur það í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum, án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum að vali þess.
    Umboðsmaður barna hefur bent á að íslensk barnalög séu ekki hvað þetta varðar að fullu leyti í samræmi við barnasáttmálann. Réttur barnsins skv. 12. gr. sáttmálans er ekki einungis bundinn við persónuleg málefni heldur nær hann einnig til málefna samfélagsins. Umboðsmaður nefnir dæmi um ákvarðanir sem varða skólastarf, tómstundir, forvarnastarf og skipulag íbúðahverfa.
    Hinn 16. apríl 2000 sagði umboðsmaður barna í viðtali við Morgunblaðið: „Hvernig getum við vitað hvað börnunum er fyrir bestu ef þau eru ekki spurð álits á þeim málum sem þau varða? Af hverju ekki að fá sjónarmið þeirra þegar verið er að skipuleggja íþrótta- eða útivistarsvæði sem ætluð eru þeirra aldurshópum eða þegar fjallað er um forvarnir í þágu þeirra, svo dæmi séu tekin?“
    Tryggja þarf í lögum formlegan vettvang fyrir nemendur að láta í ljós skoðun sína á málefnum innan skólans sem snerta þá sjálfa. Umboðsmaður barna telur að það eigi að vera skylt að stofna lýðræðislega kjörið nemendaráð í hverjum skóla en það sé ekki nægilegt að það sé heimilt, sbr. lög um grunnskóla 66/1985. Í ársskýrslu umboðsmanns barna frá 2004 koma fram hugmyndir að breytingum á lögum um grunnskóla.
    Umboðsmaður barna hefur nokkrum sinnum haldið svokallað netþing – unglingaþing umboðsmanns barna á netinu, þar sem fulltrúum ungu kynslóðarinnar eru m.a. gefin færi á ræða sín á milli og koma skoðunum sínum á framfæri við þá sem valdið hafa í þjóðfélaginu. Í athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fór nefndin lofsamlegum orðum um netþingin og mæltist til þess að ríkisstjórnin styddi verkefnið. Af því hefur þó ekki orðið.
    Hjá umboðsmanni barna var nýlega unnin skýrsla um umgengnisrétt og hvernig sjónarmið barna komast að þegar úrskurðað er í slíkum málum skv. 4. mgr. 7. gr., sbr. 43. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Helstu niðurstöður þessarar skýrslu voru m.a. að ræða þyrfti við börn í mun fleiri tilvikum en nú væri gert hjá sýslumannsembættum. Það ætti að ræða við yngri börn en nú væri gert og leyfa börnum að tjá sig í öllum málum sem snerta viðkomandi barn. Afstaða foreldra réði því í of mörgum tilvikum hvort rætt væri við barn eða ekki. Meta ætti þroska barns sjálfstætt í hverju einstöku tilviki.
    Í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002 er því velt upp hvort nauðsyn sé að endurskoða lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði þar sem forráðamenn taka ákvörðun um hvort upplýsingar um einstaklinga undir 18 ára aldri fari í gagnagrunninn eða ekki. Séu upplýsingar um viðkomandi einstakling komnar í gagnagrunninn er ekki hægt að taka þær úr honum, segir í skýrslu Barnaheilla.
    Umboðsmaður barna hefur sömuleiðis bent á að það vanti talsvert upp á að þessi grein barnasáttmálans sé í heiðri höfð við meðferð mála sem varða börn innan stjórnsýslu ýmissa sveitarfélaga. Umboðsmaður mælti með í skýrslu sinni frá árinu 2004 að sett yrði í sveitarstjórnarlögin nýtt ákvæði sem mælir fyrir um formlegan samráðsvettvang milli barna og sveitarstjórna.
    Í barnaverndarlögum er hins vegar tryggt að barn sem orðið er 15 ára geti orðið aðili barnaverndarmáls og í 2. mgr. 46. gr. laganna segir að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skuli réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ávallt skal gefa barni sem náð hefur 12 ára aldri kost á að tjá sig um mál. Það er álitamál hvort rétt sé að hafa sérstök aldursviðmið í sjálfum lögunum.
    Í ættleiðingarlögum er tryggt að barn sem orðið er 12 ára megi ekki ættleiða án samþykkis þess nema andlegum högum þess sé svo farið að það geti ekki gefið marktækt samþykki eða ef varhugavert þykir vegna hagsmuna þess að leita eftir því. Ef barn sem ættleiða á er yngra en 12 ára skal með sama hætti leita eftir afstöðu þess til fyrirhugaðrar ættleiðingar ef slíkt þykir gerlegt miðað við aldur þess og þroska. Ættleiðingarlögin virðast því vera í samræmi við barnasáttmálann hvað þetta varðar.
    
6.
    14. gr. barnasáttmálans fjallar um rétt barnsins til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Sömuleiðis skal virða rétt og skyldur foreldra og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess. Þá segir enn fremur að frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skuli einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.
    29. gr. sáttmálans er um að hverju menntun barns skuli beinast. Þar segir m.a. að móta eigi með barninu virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs. Sömuleiðis að undirbúa beri barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa og fólks af frumbyggjaættum.
    Þessi tvö ákvæði barnasáttmálans kalla hugsanlega á breytingar á grunnskólalögum og námskrá t.d. hvað varðar kennslu um aðrar þjóðir, menningarheima og trú. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gerði að umtalsefni árið 2003 stöðu nýbúabarna hér á landi og vildi sjá frekari ráðstafanir til að bregðast við þeim möguleika að vandamál rísi vegna kynþáttafordóma í kjölfarið á fjölgun útlendinga í landinu. Barnaréttarnefndin vildi sömuleiðis sjá að mannréttindafræðsla yrði felld inn í námskrá allra grunnskóla og framhaldsskóla, einkum hvað varðar virðingu fyrir jafnrétti kynjanna og minnihlutahópum. Styrkja bæri ráðstafanir til að bregðast við tíðu brotthvarfi nýbúabarna frá námi.
    Lög um trúfélög, nr. 18/1975, gera ráð fyrir að foreldrar geti tekið ákvörðun um inngöngu eða úrsögn barns þeirra yngra en 16 ára úr trúfélagi en hafi það náð 12 ára aldri skuli leita álits þess um slíka ákvörðun. Það er álitamál hvort aldursmarkið 16 ára sé ekki of hátt og hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna bent á það í skýrslu sinni frá árinu 2003.
    
7.
    Í 16. gr. barnasáttmálans er einkalíf barns m.a. varið. Þetta ákvæði getur kallað á lagabreytingar í þá áttina að friðhelgi einkalífs barns sé virt í hvívetna. Ragnhildur Thorlacius lögfræðingur vann skýrslu fyrir umboðsmann barna árið 2003 um friðhelgi einkalífs þar sem komu fram fjölmargar tillögur að lagabreytingum til að tryggja friðhelgi einkalífs barns og sjálfsákvörðunarrétt.
    Má þar nefna helst setningu almenns ákvæðis um rétt barns til að njóta friðhelgi einkalífs og ákvæði um sjálfsákvörðunarrétt í barnalög, nr. 76/2003 og ákvæði um samráðsrétt og tjáningarrétt í grunnskólalög, nr. 66/1995. Setja bæri einnig ákvæði um sjálfsákvörðunarrétt barna í lög nr. 47/1997, um réttindi sjúklinga, í lög nr. 139/1998, um gagnagrunn á heilbrigðissviði, í lög nr. 100/2000, um lífsýnasöfn, í lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.
    Þá var nefnt að setja bæri í barnaverndarlög, nr. 80/2002, almennt ákvæði um rétt barns til að njóta friðhelgi einkalífs á heimilum og stofnunum á ábyrgð ríkisins. Almennt ákvæði um rétt barns til að njóta friðhelgi einkalífs meðan það dvelst á heimili eða stofnun á vegum ríkisins verði sett í upphaf þess kafla laganna sem fjallar um takmarkanir réttinda og beitingu þvingunarráðstafana á heimilum og stofnunum fyrir börn á ábyrgð ríkisins.
    Eins og áður hefur komið fram eru í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002 vangaveltur um hvort nauðsyn sé að endurskoða lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði með hliðsjón af upplýsingum um einstaklinga undir 18 ára aldri. Þau lög þarf því að skoða með hliðsjón af 16. gr. barnasáttmálans.
    
8.
    17. gr. sáttmálans er um viðurkenningu á mikilvægi fjölmiðla, og að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og öðrum, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki sáttmálans skulu í þessu skyni m.a. hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega. Þau skulu einnig stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum ásamt því að stuðla að því að barnabækur séu samdar og þeim dreift. Þá skal hvetja fjölmiðla til að taka sérstakt tillit til tungumálaþarfa barns sem tilheyrir minnihlutahópi eða er af frumbyggjaættum. Loks skal stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningarreglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess.
    Þetta ákvæði barnasáttmálans þarf að hafa í huga þegar kemur að nýrri löggjöf um fjölmiðla sem hefur verið boðuð af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    
9.
    18. gr. sáttmálans lýtur að því að virða þá meginreglu að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.
    Þetta ákvæði getur kallað á ýmsar breytingar á lögum á sviði sifjaréttar. Nú þegar liggur fyrir þingi stjórnarfrumvarp sem tryggir sameiginlega forsjá sem meginreglu. Umboðsmaður barna hefur hvatt til að sett verði skylda á hjón eða sambúðarfólk með börn undir 18 ára aldri til að leita ráðgjafar áður en til skilnaðar eða sambúðarslita kemur. Umboðsmaður telur það umdeilt hvort börn geti leitað ráðgjafar í svona tilvikum án samþykkis foreldra og það sé því í andstöðu við barnasáttmálann að réttur barna til tjáningar í svona málum sé látinn ráðast af vilja foreldra.
    
10.
    Í 19. gr. barnasáttmálans er m.a. talað um að gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni. Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð, svo og, ef við á, til að tryggja afskipti dómara.
    Þetta ákvæði sáttmálans getur kallað á heildarendurskoðun á þeim köflum almennra hegningarlaga sem fjalla um ofbeldi. Má þar nefna þá staðreynd að í íslenskri löggjöf er ekki að finna neitt lagaákvæði sem tekur á heimilisofbeldi með fullnægjandi og heildstæðum hætti. Sömuleiðis má benda á að samkvæmt íslenskum hegningarlögum er kynferðislegur lögaldur 14 ára og þyrfti hann að mati flutningsmanna að hækka. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna mælist til að börnum eldri en 14 ára verði í löggjöf tryggð full vernd gegn kynferðislegri misnotkun.
    Þetta ákvæði sáttmálans kallar að mati flutningsmanna sömuleiðis á að starfsemi Barnahúss verði tryggð. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna telur æskilegt að þær hugmyndir sem Barnahús byggist á verði styrktar. Þar er einnig hvatt til að embætti umboðsmanns barna verði tryggð nægileg aðstaða, mannafli og fjármagn til að það geti sinnt hlutverki sínu á árangursríkan hátt. Þar er sömuleiðs hvatning til sveitarfélaga að móta opinbera fjölskyldustefnu.
    Umboðsmaður barna benti í skýrslu sinni frá árinu 2004 á nauðsynina á afdráttarlausu ákvæði í barnalögum sem banni foreldrum að beita barn sitt líkamlegu ofbeldi og hvers konar annarri vanvirðandi framkomu. Slíkt bann þarf að vera í barnalögum svo að þjóðréttarlegar skuldbindingar séu uppfylltar að mati umboðsmanns barna.
    
11.
    Sérstök ákvæði eru um börn sem talin eru þurfa á sérstakri vernd að halda, svo sem börn sem ekki eru í umsjá fjölskyldna sinna (20. gr.), börn sem eru ættleidd, einkum milli landa (21. gr.), börn sem eru flóttamenn (22. gr.) og fötluð börn (23. gr.). Kveðið er á um rétt barna til heilbrigðisþjónustu (24. gr.) og rétt barna sem vistuð eru á stofnunum (25. gr.). Fjallað er um rétt barna til almannatrygginga (26. gr.), rétt þeirra til fullnægjandi lífsskilyrða (27. gr.) og menntunar (28.–29. gr.). Sérstakt ákvæði er um réttindi barna sem tilheyra minnihlutahópum (30. gr.).
    Þetta eru ákvæði sem geta verið matskennd í eðli sínu. Það er hins vegar ljóst að með lögfestingu þeirra munu dómstólar gera ríkari kröfur til þess að þau réttindi barna sem þarna koma fram séu virt. Hér getur komið sérstaklega til skoðunar staða langveikra barna, fatlaðra barna, geðsjúkra barna og fátækra barna og barna nýbúa í íslenskum lögum. Þessi ákvæði barnasáttmálans geta sömuleiðis kallað á ýmsar aðrar lagabreytingar.
    Þótt Íslendingar séu ein yngsta þjóð Evrópu og sú yngsta allra Norðurlandaþjóða verja þeir talsvert minna fé í félagsmál barna en aðrar Evrópuþjóðir. Samtökin Barnaheill hafa kallað eftir heildarskoðun á stöðu fátækra barna í íslensku samfélagi. Í tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans frá 2003 kemur m.a. fram að auka þurfi aðstoð við einstæða foreldra og við fjölskyldur fatlaðra barna.
    
12.
    Í 31. gr. sáttmálans er fjallað um rétt barna til hvíldar og tómstunda og rétt þeirra til að taka þátt í menningar- og listalífi. Í 32. gr. er rétturinn til verndar gegn arðráni og vinnu sem getur verið þeim skaðleg.
    Þessar kröfur geta sömuleiðis verið matskenndar og þyrfti að skoða vel hvort þær kalli á einhverjar lagabreytingar. Í því sambandi ber aðildarríkjum m.a. að setja reglur um lágmarksaldur við ráðningu í störf og reglur um vinnutíma og starfskjör.
    
13.
    34. gr. sáttmálans fjallar um vernd barna fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi.
    Í þessu sambandi má velta því fyrir sér hvort fyrningarfrestur kynferðisbrota gegn börnum sé ekki í bága við þetta ákvæði barnasáttmálans. Það er alveg ljóst að börn sem verða fyrir kynferðislegri misnotkun leita sér iðulega hjálp seint á lífsleiðinni en þá geta samkvæmt núgildandi lögum þau brot verið fyrnd. Þar með geta núverandi fyrningarfrestir dregið úr vernd barna og möguleikum þeirra á að sækja rétt sinn. Umboðsmaður barna hefur ítrekað lagt til að kynferðisafbrot gegn börnum fyrnist ekki.
    Hann hefur sömuleiðis lagt til sérstakt refsihækkunarákvæði og um lágmarksrefsingu vegna grófra kynferðisbrota gegn börnum. Þá hefur verið bent á, m.a. í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002, að kynferðislegur lögaldur þurfi að hækka, en hann er nú 14 ár.
    
14.
    Í 37. gr. barnasáttmálans segir m.a. að fara eigi mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir. Einkum skal halda hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki, og á barn rétt á að halda tengslum við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum, nema sérstaklega standi á.
    Þetta ákvæði krefst endurskoðunar á lögum um fangelsi en í núgildandi kerfi er hægt að vista börn með fullorðnum í fangelsum landsins. Þegar Ísland fullgilti barnasáttmálann 1992 gaf Ísland út sérstaka yfirlýsingu hvað varðar aðskilnað ungra fanga frá eldri.
    Hinn 15. apríl 1998 kom eftirfarandi fram í Morgunblaðinu: „Umboðsmaður barna telur að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé brotinn með því að ungir fangar sem afplána refsivist eru um þessar mundir ekki aðskildir frá eldri föngum heldur vistaðir á almennum deildum afplánunarfangelsa og njóta þar engrar sérstöðu.“
    Flutningsmenn telja því að skoða eigi sérstök úrræði fyrir fanga undir 18 ára aldri og reyndar mætti nýta þau úrræði fyrir fanga sem eru allt að 24 ára.
    Í tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans frá 2003 koma m.a. fram tilmæli um að hér á landi verði tekið upp sérstakt réttarfarskerfi í sakamálum ungmenna með alþjóðlegar viðmiðunarkröfur að leiðarljósi.
    Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, kemur m.a. fram að óheimilt er að beita barn innilokun, einangrun og öðrum slíkum þvingunarráðstöfunum eða agaviðurlögum nema nauðsyn beri til og þá samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Barnaverndarstofu. Enn fremur segir að óheimilt sé hafa eftirlit með póstsendingum, tölvusamskiptum og símtölum barns nema sérstakar ástæður komi til og þá samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Barnaverndarstofu.
    Vegna þessa ákvæðis barnaverndarlaga hefur umboðsmaður barna sagt að hann telji að nauðsynlegt sé að kveða í lögum nákvæmlega á um réttarstöðu barna við þessar aðstæður þar sem hann telur öldungis ófullnægjandi og bjóða hættunni heim að kveða á um þvingunarráðstafanir og agaviðurlög í reglugerð sem sett sé af framkvæmdarvaldinu. Umboðsmaður segir einnig í ársskýrslu sinni frá árinu 2003 að hann telji að þetta sé hugsanlega brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir m.a. að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.
    
15.
    Í 39. gr. er fjallað um viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því að barn, sem sætt hefur vanrækslu, notkun eða misnotkun af nokkru tagi, pyndingum eða annars konar grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eða er fórnarlamb vopnaátaka, hljóti líkamlegan og sálrænan bata og aðlagist samfélaginu á ný. Leita skal bata og aðlögunar í umhverfi sem hlynnir að heilsu, sjálfsvirðingu og göfgi barnsins.
    Þetta ákvæði gerir kröfu um fullnægjandi stuðning og meðferð af hálfu opinberra aðila. Það getur verið umdeilt hvort þessu ákvæði sé fullnægt með núgildandi úrræðum.
    
16.
    Í 40. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir m.a. að viðurkenna þurfi rétt hvers þess barns sem er grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum til meðferðar sem styrkir vitund þess um eigin göfgi og manngildi, sem treystir virðingu þess fyrir mannréttindum og mannfrelsi annarra, og tekur tillit til aldurs barnsins og þess að æskilegt sé að stuðla að aðlögun þess og því að það gegni jákvæðu hlutverki í samfélaginu. Í þessu ákvæði eru sömuleiðis talin upp þau réttindi sem barn í þessari stöðu hefur, svo sem með tillit til óhlutdrægar málsmeðferðar og forvarnastarfs.
    Í skýrslu Barnaheilla frá árinu 2002 til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna kom m.a. fram að styrkja þyrfti meðferðarúrræði fyrir unga kynferðisafbrotamenn. Sömuleiðis þyrfti að styrkja þær stofnanir sem sjá sérstaklega um unga afbrotamenn og unga þolendur.

17.
    Að lokum má nefna að í niðurstöðum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna vegna skýrslu Íslands um framkvæmd barnasáttmálans frá 2003 eru íslensk yfirvöld hvött til að auka upplýsingagjöf um barnasáttmálann og framkvæmd hans og standa að varanlegri og kerfisbundinni fræðslu um mannréttindi fyrir alla sem starfa fyrir börn og með börnum. Þar kemur einnig fram hvatning til stjórnvalda til að safna tölfræðilegum upplýsingum á þeim sviðum sem samningurinn tekur til.Fylgiskjal.Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins,

nr. 18 2. nóvember 1992.


Inngangur.


    Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum,
    sem telja, í samræmi við meginreglur þær er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, að viðurkenning á meðfæddri göfgi og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,
    sem hafa í huga að hinar Sameinuðu þjóðir hafa í sáttmálanum enn staðfest trú sína á grundvallarmannréttindi og virðingu og gildi allra manna, og hafa einsett sér að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum við meira frjálsræði,
    sem viðurkenna að Sameinuðu þjóðirnar hafa í mannréttindayfirlýsingunni og í alþjóðasamningunum um mannréttindi lýst því yfir og samþykkt að hver maður skuli eiga kröfu á réttindum þeim og frelsi sem þar er lýst, án nokkurs greinarmunar, svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna,
    sem minnast þess að hinar Sameinuðu þjóðir hafa lýst því yfir í mannréttindayfirlýsingunni að börnum beri sérstök vernd og aðstoð,
    sem eru sannfærð um að veita beri fjölskyldunni, sem grundvallareiningu samfélagsins og hinu eðlilega umhverfi til vaxtar og velfarnaðar allra meðlima sinna, en sérstaklega þó barna, nauðsynlega vernd og aðstoð til að sinna til hlítar þeirri ábyrgð sem á henni hvílir í samfélaginu,
    sem viðurkenna að barn eigi að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þess geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt,
    sem telja að undirbúa beri barnið að fullu til að lifa sjálfstæðu lífi innan samfélagsins, og ala það upp í anda þeirra hugsjóna sem lýst er í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, sérstaklega í anda friðar, virðingar, umburðarlyndis, frelsis, jafnréttis og samstöðu,
    sem minnast þess að þeirrar nauðsynjar að barninu sé veitt sérstök vernd hefur verið getið í Genfaryfirlýsingu um réttindi barnsins frá 1924 og í yfirlýsingu um réttindi barnsins sem samþykkt var á allsherjarþinginu hinn 20. nóvember 1959, og hefur hún verið viður kennd í mannréttindayfirlýsingunni, í alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sérstaklega 23. og 24. gr.), í alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (sérstaklega 10. gr.), og í samþykktum og ýmsum löggerningum sérstofnana og alþjóðastofnana sem láta sig velferð barna varða,
    sem hafa í huga að barn þarfnist þess „að því sé látin í té sérstök vernd og umönnun þar sem það hafi ekki tekið út líkamlegan og andlegan þroska, þar á meðal viðeigandi lögvernd, jafnt fyrir sem eftir fæðingu“, eins og segir í yfirlýsingunni um réttindi barnsins, sem minnast ákvæða yfirlýsingarinnar um félagslegar og lagalegar meginreglur um vernd barna og velferð með sérstakri hliðsjón af fóstri barna og ættleiðingu innanlands og milli ríkja, almennra lágmarksreglna Sameinuðu þjóðanna um meðferð afbrotamála ungmenna (Beijing-reglnanna), og yfirlýsingarinnar um vernd kvenna og barna er neyð ríkir eða ófriður geisar,
    sem gera sér grein fyrir að í öllum löndum heims eru börn sem búa við sérstaklega erfiðar aðstæður, og að þau þarfnist sérstakrar athygli,
    sem taka fullt tillit til þess hversu mikilvægar siðvenjur og menningararfleið hverrar þjóðar eru til þess að vernda barnið og tryggja að það þroskist á jákvæðan hátt,
    sem viðurkenna mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu svo bæta megi lífskjör barna í öllum löndum, en þó sérstaklega í þróunarlöndum,
    hafa komið sér saman um eftirfarandi:

I. hluti.


1. gr.

    Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð átján ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.

2. gr.

    1. Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.
    2. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.

3. gr.

    1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.
    2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.
    3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.

4. gr.

    Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.

5. gr.

    Aðildarríki skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra, eða eftir því sem við á þeirra sem tilheyra stórfjölskyldu eða samfélagi samkvæmt staðbundnum venjum, eða lögráðamanna eða annarra sem að lögum eru ábyrgir fyrir barni, til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum.

6. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna að sérhvert barn hefur meðfæddan rétt til lífs.
    2. Aðildarríki skulu eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast.

7. gr.

    1. Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
    2. Aðildarríki skulu tryggja að réttindum þessum sé komið í framkvæmd í samræmi við lög sín og skuldbindingar í viðeigandi alþjóðasamningum á þessu sviði, einkum í þeim tilvikum þegar barn yrði ella ríkisfangslaust.

8. gr.

    1. Aðildarríki skuldbinda sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta.
    2. Sé barn ólöglega svipt einhverju eða öllu því sem auðkennir það sem einstakling skulu aðildarríkin veita viðeigandi aðstoð og vernd í því skyni að bæta úr því sem fyrst.

9. gr.

    1. Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess.
    2. Við alla málsmeðferð samkvæmt 1. tölul. þessarar greinar skal veita öllum aðilum sem hagsmuna hafa að gæta kost á að taka þátt í málsmeðferð og að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum.
    3. Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.
    4. Nú á aðskilnaður rætur að rekja til aðgerða af hálfu aðildarríkis, svo sem varðhalds, fangelsunar, útlegðar, brottvísunar úr landi eða andláts annars hvors foreldranna eða beggja eða barnsins (þar á meðal andláts af hvaða orsök sem er meðan ríkið hafði hinn látna í gæslu), og skal þá aðildarríkið þegar þess er beiðst veita foreldrunum eða barninu, eða öðrum í fjölskyldu þeirra ef við á, nauðsynlega vitneskju um hvar þeir fjölskyldumeðlimir eru niðurkomnir, sem fjarverandi eru, enda skaði það ekki barnið að láta vitneskjuna í té. Aðildarríki skulu enn fremur sjá til þess að það eitt að slík beiðni sé borin fram hafi ekki slæmar afleiðingar fyrir það fólk sem í hlut á.

10. gr.

    1. Í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt 1. tölul. 9. gr. skulu aðildarríki með jákvæðu hugarfari, mannúðlega og með skjótum hætti afgreiða beiðni barns eða foreldris þess um að koma til eða fara frá aðildarríki vegna endurfunda fjölskyldu. Aðildarríki skulu enn fremur sjá til þess að það eitt að slík beiðni sé borin fram hafi ekki slæmar afleiðingar fyrir beiðendur eða aðra í fjölskyldu þeirra.
    2. Barn sem á foreldra búsetta í mismunandi ríkjum á rétt til þess að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, nema sérstaklega standi á. Í því skyni, og í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt 1. tölul. 9. gr., skulu aðildarríki virða rétt barns og foreldra þess til að fara frá hvaða landi sem er, þar á meðal eigin landi, og til að koma til eigin lands. Réttur til að fara frá hvaða landi sem er skal einungis háður þeim takmörkunum sem ákveðnar eru með lögum og nauðsynlegar eru til að gætt sé öryggis þjóðarinnar, allsherjarreglu (ordre public), heilbrigðis almennings eða siðgæðis, eða réttar og frelsis annarra, og sem samræmast öðrum réttindum viðurkenndum í samningi þessum.

11. gr.

    1. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir gegn því að börn séu ólöglega flutt úr landi og haldið erlendis.
    2. Í því skyni skulu aðildarríki stuðla að því að gerðir séu um það tvíhliða eða marghliða samningar, eða aðild fengin að samningum sem þegar hafa verið gerðir.

12. gr.

    1. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
    2. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.

13. gr.

    1. Barn á rétt til að láta í ljós skoðanir sínar, og felur það í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum, án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum að vali þess.
    2. Láta má rétt þennan sæta vissum takmörkunum, en þó aðeins að því marki sem mælt er fyrir í lögum og er nauðsynlegt
                  a)      til þess að virða réttindi eða mannorð annarra, eða
                  b)      til að gæta öryggis þjóðarinnar eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigðis almennings eða siðgæðis.

14. gr.

    1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
    2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.
    3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.
    

15. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að mynda félög með öðrum og koma saman með öðrum með friðsömum hætti.
    2. Þessi réttindi skulu ekki háð öðrum takmörkunum en þeim sem settar eru í samræmi við lög og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna öryggis þjóðarinnar eða almennings, allsherjarreglu (ordre public), verndunar heilbrigðis almennings eða siðgæðis eða verndunar réttinda og frelsis annarra.

16. gr.

    1. Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.
    2. Barn á rétt á vernd laganna fyrir slíkum afskiptum og árásum.

17. gr.

    Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni:
          a)      Hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega og samræmist anda 29. gr.
          b)      Stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum.
          c)      Stuðla að því að barnabækur séu samdar og þeim dreift.
          d)      Hvetja fjölmiðla til að taka sérstakt tillit til tungumálaþarfa barns sem tilheyrir minnihlutahópi eða er af frumbyggjaættum.
          e)      Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess, með ákvæði 13. og 18. gr. í huga.

18. gr.

    1. Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar, eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.
    2. Til þess að tryggja og efla réttindi þau sem kveðið er á um í samningi þessum skulu aðildarríki veita foreldrum og lögráðamönnum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og aðstaða og þjónusta veitt til umönnunar barna.
    3. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn foreldra sem stunda atvinnu fái notið góðs af þjónustu og aðstöðu til umönnunar barna sem þau kunna að eiga rétt á.

19. gr.

    1. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.
    2. Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð svo sem lýst hefur verið, svo og ef við á til að tryggja afskipti dómara.

20. gr.

    1. Barn sem tímabundið eða til frambúðar nýtur ekki fjölskyldu sinnar, eða sem með tilliti til þess sem því sjálfu er fyrir bestu er ekki unnt að leyfa að sé lengur innan um fjölskyldu sína, á rétt á sérstakri vernd og aðstoð ríkisvaldsins.
    2. Aðildarríki skulu í samræmi við lög sín sjá barni sem þannig er ástatt um fyrir annarri umönnun.
    3. Slík umönnun getur meðal annars falist í fóstri, kafalah samkvæmt islömskum lögum, ættleiðingu eða, ef nauðsyn krefur, vistun á viðeigandi stofnun sem annast börn. Þegar lausna er leitað skal tekið tilhlýðilegt tillit til þess að æskilegt er að stöðugleiki verði í uppeldi barns og til þjóðlegs, trúarlegs og menningarlegs uppruna þess og tungumáls.

21. gr.

    Aðildarríki sem viðurkenna og/eða leyfa ættleiðingu skulu tryggja að fyrst og fremst sé litið til þess sem barni er fyrir bestu, og skulu:
       a)      Sjá til þess að ættleiðing barns sé aðeins heimiluð af þar til bærum stjórnvöldum sem ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð og á grundvelli viðeigandi og áreiðanlegra upplýsinga að ættleiðing sé leyfileg með hliðsjón af stöðu barnsins gagnvart foreldrum þess, skyldmennum og lögráðamönnum og þeir sem í hlut eiga hafi ef þess er krafist veitt samþykki sitt fyrir ættleiðingu, að íhuguðu máli og að fenginni nauðsynlegri ráðgjöf.
       b)      Viðurkenna að taka megi ættleiðingu milli landa til athugunar sem aðra leið til að sjá barni fyrir umönnun, ef ekki er unnt að koma því í fóstur eða til ættleiðingar eða veita því með einhverjum viðeigandi hætti umönnun í upprunalandi sínu.
       c)      Sjá til þess að barn sem ættleitt er milli landa njóti sömu verndar og við ættleiðingu innanlands og um það gildi sömu reglur.
       d)      Gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ættleiðing milli landa hafi ekki í för með sér óeðlilegan fjárgróða fyrir þá sem hlut eiga að henni.
       e)      Stuðla að því, þar sem við á, að markmiðum greinar þessarar verði náð með því að koma á tvíhliða eða marghliða tilhögun eða samningum, og leitast innan þess ramma við að tryggja að þar til bær stjórnvöld eða stofnanir sjái um að koma barni fyrir í öðru landi.

22. gr.

    1. Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.
    2. Í þessu skyni skulu aðildarríki veita Sameinuðu þjóðunum, svo og öðrum hæfum milliríkjastofnunum eða stofnunum, sem ríki eiga ekki aðild að, er hafa samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, alla þá samvinnu er þau telja að við eigi, í viðleitni þeirra til að vernda og aðstoða börn sem þannig er ástatt um, og við að leita uppi foreldra barns sem er flóttamaður, eða aðra í fjölskyldu þess, til að afla upplýsinga sem þörf er á til að fjölskyldan geti sameinast. Þegar ekki er unnt að hafa uppi á foreldrum eða öðrum í fjölskyldunni skal veita barni sömu vernd og hverju því barni ber sem til frambúðar eða tímabundið nýtur ekki fjölskyldu sinnar, hver sem ástæða þess er, eins og kveðið er á um í samningi þessum.

23. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.
    2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.
    3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.
    4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þ. á m. með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.

24. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.
    2. Aðildarríki skulu stefna að því að réttur þessi komist að fullu til framkvæmda, og einkum gera viðeigandi ráðstafanir:
       a)      Til að draga úr ungbarna- og barnadauða.
       b)      Til að tryggja öllum börnum nauðsynlega læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu, með áherslu á uppbyggingu heilsugæslu.
       c)      Til að berjast gegn sjúkdómum og vannæringu, þ. á m. innan heilsugæslunnar, meðal annars með því að beita þeirri tækniþekkingu sem er auðveldlega tiltæk og með því að útvega nægilega holla fæðu og hreint drykkjarvatn um leið og tekið sé tillit til hættu á umhverfismengun og áhrifa af völdum hennar.
       d)      Til að tryggja mæðrum viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir og eftir fæðingu.
       e)      Til að sjá um að allir þjóðfélagshópar, en einkum foreldrar og börn, fái upplýsingar um og eigi aðgang að fræðslu og fái aðstoð við að beita grundvallarþekkingu á heilbrigði barna og næringu, kostum brjóstagjafar, hreinlæti, umhverfishreinlæti og slysavörnum.
       f)      Til að þróa heilsuvernd, leiðbeiningar til foreldra og fræðslu og aðstoð við fjölskylduáætlanir.
    3. Aðildarríki skulu gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna.
    4. Aðildarríki skuldbinda sig til að stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu er beinist að því að smám saman komi réttur sá sem viðurkenndur er í grein þessari til fullra framkvæmda. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.

25. gr.

    Aðildarríki viðurkenna að barn sem þar til bær stjórnvöld hafa falið öðrum til umönnunar, verndar eða meðferðar vegna líkamlegrar eða andlegrar vanheilsu eigi rétt á að meðferð þess og allar aðrar aðstæður sem að vistinni lúta sæti athugun reglulega.

26. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til að njóta félagslegrar aðstoðar, þar með talið almannatrygginga, og skulu þau gera nauðsynlegar ráðstafanir samkvæmt lögum sínum til að rétti þessum sé komið til fullra framkvæmda.
    2. Bætur skulu þar sem við á veittar með hliðsjón af efnum og aðstæðum barns og þeirra sem bera ábyrgð á framfærslu þess, svo og öllu öðru sem snertir umsókn um bætur lagða fram af barninu eða öðrum fyrir þess hönd.

27. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til lífsafkomu sem nægir því til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska.
    2. Foreldrar eða foreldri, eða aðrir sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns, bera höfuðábyrgð á því í samræmi við getu sína og fjárhagsaðstæður að sjá barni fyrir þeim lífsskilyrðum sem eru því nauðsynleg til að komast til þroska.
    3. Aðildarríki skulu í samræmi við aðstæður sínar og efni gera viðeigandi ráðstafanir til að veita foreldrum og öðrum sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns aðstoð til að neyta þessa réttar, og skulu þegar þörf krefur láta í té efnislega aðstoð og sjá fyrir stuðningsúrræðum, einkum að því er fæði, klæðnað og húsnæði snertir.
    4. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að innheimta framfærslueyri með barni frá foreldrum eða öðrum sem bera fjárhagslega ábyrgð á barninu, bæði innanlands og frá útlöndum. Einkum skulu þau stuðla að aðild að alþjóðasamningum eða að gerð slíkra samninga svo og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga þegar sá sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu býr í öðru ríki en barnið.

28. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum:
       a)      Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.
       b)      Stuðla að þróun ýmiss konar framhaldsmenntunar, þar á meðal almennrar menntunar og starfsmenntunar, veita öllum börnum kost á að njóta hennar, og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga, svo sem með því að veita ókeypis menntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hennar þurfa með.
       c)      Veita öllum kost á æðri menntun eftir hæfileikum, með hverjum þeim ráðum sem við eiga.
       d)      Sjá til þess að upplýsingar og ráðgjöf um nám og starfsval séu fyrir hendi og aðgengilegar öllum börnum.
       e)      Gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.
    2. Aðildarríki skulu gera allt það sem við á til að tryggja að námsaga sé haldið uppi með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og í samræmi við samning þennan.
    3. Aðildarríki skulu stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu um menntamál, einkum í því skyni að leggja fram skerf til útrýmingar á vanþekkingu og ólæsi hvarvetna í heiminum, og greiða fyrir aðgangi að vísinda- og tækniþekkingu og nútímakennsluaðferðum. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.

29. gr.

    1. Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að:
          a)      Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess.
          b)      Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.
          c)      Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.
          d)      Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum.
          e)      Að móta með því virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins.
    2. Eigi skal líta svo á að í grein þessari eða í 28. gr. sé fólgin nein íhlutun í rétt manna og hópa til að koma á fót og stjórna menntastofnunum, enda sé ávallt gætt þeirra meginreglna, sem fram koma í 1. tölul. þessarar greinar, og lágmarkskrafna sem ríkisvaldið kann að gera til menntunar sem slíkar stofnanir veita.
    

30. gr.


    Í ríkjum þar sem minnihlutahópar hafa myndast vegna sérstakra þjóðhátta, trúarbragða eða tungumála, eða þar sem frumbyggjar eru, skal barni sem heyrir til slíks hóps ekki meinað að njóta eigin menningar, játa og iðka eigin trú, og nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum.

31. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.
    2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

32. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að vera verndað fyrir arðráni og vinnu sem líklegt er að því stafi hætta af eða komið gæti niður á námi þess eða skaðað heilsu þess eða líkamlegan, sálrænan, andlegan, siðferðislegan eða félagslegan þroska.
    2. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsmála og menntamála til að tryggja framkvæmd þessarar greinar. Í því skyni, og með hliðsjón af viðeigandi ákvæðum annarra alþjóðlegra löggerninga, skulu aðildarríki einkum:
       a)      Kveða á um lágmarksaldursmark eða -mörk til ráðningar í starf.
       b)      Setja viðeigandi reglur um vinnutíma og vinnuskilyrði.
       c)      Mæla fyrir um viðeigandi refsingar eða önnur viðurlög til að tryggja að ákvæðum greinar þessarar verði framfylgt á virkan hátt.

33. gr.

    Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsmála og menntamála, til verndar börnum gegn ólöglegri notkun ávana- og fíkniefna og skynvilluefna svo sem þau eru skilgreind í alþjóðasamningum sem um þau fjalla, og til að koma í veg fyrir að börn séu notuð við ólöglega framleiðslu slíkra efna og verslun með þau.

34. gr.


    Aðildarríki skuldbinda sig til að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi. Í þeim tilgangi skulu þau einkum gera allt sem við á, bæði innanlands og með tvíhliða og marghliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir:
          a)      Að barn sé talið á eða þvingað til að taka þátt í hvers konar ólögmætri kynferðislegri háttsemi.
          b)      Að börn séu notuð til vændis eða annarra ólögmætra kynferðisathafna.
          c)      Að börn séu notuð í klámsýningum eða til að búa til klámefni.

35. gr.

    Aðildarríki skulu gera allt sem við á, bæði innanlands og með tvíhliða og marghliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir brottnám barna, sölu á börnum og verslun með börn í hvaða tilgangi sem er, og hvernig sem slíkt á sér stað.

36. gr.

    Aðildarríki skulu vernda börn gegn hvers kyns annarri notkun sem á einhvern hátt getur stefnt velferð þeirra í hættu.

37. gr.

    Aðildarríki skulu gæta þess að:
     a)      Ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið.
     b)      Ekkert barn sé ólöglega eða gerræðislega svipt frjálsræði sínu. Handtaka, varðhald og fangelsun barns skal eiga sér stað samkvæmt lögum, og skal slíku aðeins beitt sem síðasta úrræði og í skemmsta tíma sem við getur átt.
     c)      Farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir. Einkum skal halda hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki, og á barn rétt á að halda tengslum við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum, nema sérstaklega standi á.
     d)      Hvert það barn sem svipt er frjálsræði eigi rétt á skjótri lögfræðilegri aðstoð og annarri viðeigandi aðstoð, svo og rétt til að vefengja lögmæti frjálsræðissviptingar sinnar fyrir dómstól eða öðru þar til bæru óháðu og óhlutdrægu stjórnvaldi, og til að fá skjótan úrskurð þar um.

38. gr.

    1. Aðildarríki skuldbinda sig til að virða og tryggja virðingu fyrir þeim alþjóðlegu mannúðarreglum sem gilda gagnvart þeim í vopnaátökum og varða börn.
    2. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að þeir sem ekki hafa náð fimmtán ára aldri taki ekki beinan þátt í vopnaviðskiptum.
    3. Aðildarríki skulu forðast að kalla þá sem hafa ekki náð fimmtán ára aldri til herþjónustu. Við herkvaðningu þeirra sem náð hafa fimmtán ára aldri en hafa ekki náð átján ára aldri skulu aðildarríki leitast við að láta hina elstu ganga fyrir.
    4. Í samræmi við skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarreglum til að vernda óbreytta borgara í vopnaátökum skulu aðildarríki gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja börnum, sem áhrif vopnaátaka ná til, vernd og umönnun.

39. gr.

    Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því að barn, sem sætt hefur vanrækslu, notkun eða misnotkun af nokkru tagi, pyndingum eða annars konar grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eða er fórnarlamb vopnaátaka, hljóti líkamlegan og sálrænan bata og aðlagist samfélaginu á ný. Leita skal bata og aðlögunar í umhverfi sem hlynnir að heilsu, sjálfsvirðingu og göfgi barnsins.

40. gr.

    1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers þess barns, sem er grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum, til meðferðar sem styrkir vitund þess um eigin göfgi og manngildi, sem treystir virðingu þess fyrir mannréttindum og mannfrelsi annarra, og sem tekur tillit til aldurs barnsins og þess að æskilegt sé að stuðla að aðlögun þess og því að það gegni jákvæðu hlutverki í samfélaginu.
    2. Skulu aðildarríki í þessu skyni, og með hliðsjón af viðeigandi ákvæðum alþjóðlegra löggerninga, einkum sjá til þess að:
       a)      Ekkert barn sé grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum vegna verknaða eða aðgerðarleysis sem ekki var lagt bann við í landslögum eða að þjóðarétti á þeim tíma er verknaðurinn eða aðgerðarleysið átti sér stað.
       b)      Hvert það barn sem grunað er eða ásakað um refsilagabrot njóti eftirgreindra lágmarksréttinda:
                  i)      Að vera talið saklaust þar til það er fundið sekt að lögum.
                  ii)      Að fá vitneskju um kærurnar gegn því án tafar og beint, og, ef við á, fyrir milligöngu foreldra sinna eða lögráðamanna og að njóta lögfræðilegrar aðstoðar eða annarrar viðeigandi aðstoðar við undirbúning og framsetningu á vörn sinni.
                  iii)      Að fá gert út um mál sitt án tafar af þar til bæru, óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól, við réttláta og lögmælta rannsókn, enda sé til staðar lögfræðileg eða önnur viðeigandi aðstoð, svo og foreldrar þess eða lögráðamenn, nema það sé ekki talið barninu fyrir bestu, sérstaklega með tilliti til aldurs eða aðstæðna þess.
                  iv)      Að verða ekki þröngvað til að bera vitni eða játa á sig sök, að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn því, og að vitni þess komi fyrir og séu spurð við sömu aðstæður.
                  v)      Að ákvörðun um að það hafi brotið gegn refsilögum svo og ráðstafanir sem gerðar eru vegna hennar séu endurskoðaðar af æðra þar til bæru óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól samkvæmt lögum.
                  vi)      Að fá ókeypis aðstoð túlks ef barnið skilur ekki eða talar ekki tungumál það sem notað er.
                  vii)      Að friðhelgi einkalífs þess sé virt að fullu á öllum stigum málsmeðferðarinnar.
    3. Aðildarríki skulu hvetja til þess að settar séu lagareglur, og reglur um málsmeðferð, skipuð stjórnvöld og settar á fót stofnanir sérstaklega fyrir börn sem eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um refsilagabrot, og einkum:
          a)      Ákveða þann lágmarksaldur, sem börn verða að hafa náð til þess að vera talin sakhæf.
          b)      Gera, þegar það á við og þykir henta, ráðstafanir til að fara með mál slíkra barna án þess að leita til dómstóla, enda sé mannréttinda og lögverndar gætt að fullu.
    4. Séð skal til þess að grípa megi til ýmiss konar ráðstafana, svo sem umsjónar, leiðsagnar, eftirlits, ráðgjafar, skilorðs, fósturs, fræðslu- og starfsnámsáætlana og annarra valkosta í stað vistunar á stofnunum, til að tryggja að með börn sé farið á þann hátt sem velferð þeirra hæfir og samræmist bæði aðstæðum þeirra og brotinu.

41. gr.

    Ekkert í samningi þessum skal hafa áhrif á reglur sem stuðla frekar að því að réttindi barnsins komist til framkvæmda og vera kunna í
       a)      lögum aðildarríkis, eða
       b)      alþjóðalögum sem í gildi eru gagnvart því ríki.

II. hluti.

42. gr.

    Aðildarríki skuldbinda sig til að kynna meginreglur og ákvæði samnings þessa víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum.

43. gr.

    1. Til þess að kanna hvernig aðildarríkjum miðar við að koma í framkvæmd þeim skuldbindingum sem þau taka á sig með samningi þessum skal setja á stofn nefnd um réttindi barnsins, er fer með þau verkefni sem hér á eftir segir.
    2. Í nefndinni skulu eiga sæti tíu sérfræðingar sem séu vammlausir og viðurkenndir fyrir hæfni á því sviði sem samningur þessi tekur til. Nefndarmenn skulu valdir af aðildarríkjum úr hópi ríkisborgara þeirra og starfa sem einstaklingar, en taka skal tillit til þess að landfræðileg dreifing sé sanngjörn, svo og til helstu réttarkerfa.
    3. Nefndarmenn skulu kjörnir leynilegri kosningu af skrá um menn sem aðildarríki hafa tilnefnt. Hvert aðildarríki getur tilnefnt einn mann úr hópi eigin ríkisborgara.
    4. Fyrsta kosning nefndarmanna skal fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi, og síðan annað hvert ár. Eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir hvern kjördag skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna senda aðildarríkjum bréf, og bjóða þeim að leggja fram tilnefningar sínar innan tveggja mánaða. Skal aðalframkvæmdastjóri síðan gera skrá í stafrófsröð um þá sem tilnefndir hafa verið, þar sem getið sé aðildarríkis þess sem tilnefndi, og leggja hana fyrir aðildarríkin.
    5. Kosning skal fara fram á fundum aðildarríkja, sem aðalframkvæmdastjóri kallar saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á fundunum, sem eru lögmætir ef tveir þriðju aðildarríkjanna sækja þá, skulu þeir teljast kosnir til nefndarinnar sem fá flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða fulltrúa aðildarríkja sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.
    6. Kjörtímabil nefndarmanna er fjögur ár. Þá má endurkjósa ef þeir eru tilnefndir að nýju. Kjörtímabil fimm þeirra nefndarmanna sem kosnir eru í fyrstu kosningu rennur út að liðnum tveimur árum, og skal fundarstjóri velja nöfn þeirra með hlutkesti þegar er fyrsta kosning hefur farið fram.
    7. Nú deyr nefndarmaður eða segir af sér, eða lýsir því yfir að hann geti ekki lengur sinnt nefndarstörfum af einhverjum öðrum ástæð um, og skal þá aðildarríki það sem tilnefndi hann tilnefna annan nefndarmann úr hópi ríkisborgara sinna er gegni störfum það sem eftir lifir kjörtímabilsins, enda samþykki nefndin það.
    8. Nefndin setur sér sjálf starfsreglur.
    9. Nefndin kýs embættismenn sína til tveggja ára.
    10. Fundir nefndarinnar skulu að jafnaði haldnir í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna, eða á öðrum hentugum fundarstað að ákvörðun nefndarinnar. Nefndin skal yfirleitt koma saman árlega. Á fundi aðildarríkja að samningi þessum skal ákveðið, og endurmetið ef þörf krefur, hve lengi fundir nefndarinnar skuli standa að áskildu samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
    11. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal sjá fyrir nauðsynlegu starfsliði og aðstöðu til þess að nefndin geti rækt starf sitt á fullnægjandi hátt samkvæmt samningi þessum.
    12. Þeir sem sæti eiga í nefnd þeirri sem stofnuð er samkvæmt samningi þessum skulu, með samþykki allsherjarþingsins, fá þóknun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna, og með þeim skilmálum og skilyrðum sem þingið kann að ákveða.

44. gr.

    1. Aðildarríki skuldbinda sig til að láta nefndinni í té fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skýrslur um það sem þau hafa gert til að koma í framkvæmd réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum, og um hvernig miðað hefur í beitingu þeirra:
          a)      innan tveggja ára frá því er samningur þessi hefur öðlast gildi gagnvart aðildarríki því sem í hlut á,
          b)      og síðan á fimm ára fresti.
    2. Í skýrslum sem gerðar eru samkvæmt þessari grein skal bent á þá þætti og þau vandkvæði, ef um það er að ræða, sem áhrif kunna að hafa á að hve miklu leyti tekist hefur að fullnægja þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í samningi þessum. Í skýrslunum skulu einnig koma fram upplýsingar er nægja til að veita nefndinni gagngera yfirsýn yfir framkvæmd samningsins í viðkomandi landi.
    3. Samningsríki, sem lagt hefur fyrir nefndina í upphafi alhliða skýrslu, þarf ekki í síðari skýrslum sínum til nefndarinnar samkvæmt b-lið 1. tölul. þessarar greinar að endurtaka grundvallarupplýsingar sem veittar hafa verið áður.
    4. Nefndin getur óskað frekari upplýsinga frá aðildarríkjum sem skipta máli fyrir framkvæmd samningsins.
    5. Nefndin skal fyrir milligöngu efnahags- og félagsmálaráðs leggja skýrslu um störf sín fyrir allsherjarþingið á tveggja ára fresti.
    6. Hvert aðildarríki skal sjá um að skýrslur þess séu auðveldlega tiltækar almenningi í landi sínu.

45. gr.

    Til að hlynna að virkri framkvæmd samnings þessa og stuðla að alþjóðlegri samvinnu á gildissviði hans:
       a)      Eiga sérstofnanirnar, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna rétt á fyrirsvari þegar fjallað er um framkvæmd þeirra reglna samningsins sem skyldur þeirra varða. Nefndin getur boðið sérstofnununum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og öðrum þar til hæfum stofnunum að veita sérfræðilega ráðgjöf um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem varða skyldur hverrar stofnunar um sig, eins og hún telur henta. Nefndin getur boðið sérstofnununum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna að leggja fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem falla innan starfssviðs þeirra.
       b)      Skal nefndin eins og hún telur henta senda sérstofnununum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og öðrum hæfum stofnunum skýrslur aðilda rríkja þar sem beiðni er borin fram um tæknilega aðstoð eða aðra hjálp, eða þar sem fram kemur að slíks sé þörf, ásamt athugasemdum og tillögum nefndarinnar varðandi slíka beiðni eða ábendingu, ef við á.
       c)      Getur nefndin mælst til þess við allsherjarþingið að það fari fram á við aðalframkvæmdastjóra að hann geri fyrir hönd nefndarinnar athuganir á tilgreindum álitaefnum sem varða réttindi barnsins.
       d)      Getur nefndin lagt fram tillögur og almenn tilmæli er byggjast á vitneskju sem henni hefur borist samkvæmt 44. og 45. gr. samnings þessa. Slíkar tillögur og almenn tilmæli skulu send hverju því aðildarríki sem málið varðar, og skal allsherjarþinginu skýrt frá þeim og athugasemdir aðildarríkja látnar fylgja, ef um þær er að ræða.

III. hluti.

46. gr.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja.

47. gr.

    Samningur þessi er háður fullgildingu. Fullgildingarskjölum skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

48. gr.

    Öllum ríkjum skal heimilt að gerast aðilar að samningi þessum. Aðildarskjölum skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

49. gr.

    1. Samningur þessi gengur í gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalinu hefur verið komið til vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2. Gagnvart sérhverju ríki sem fullgildir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalinu hefur verið komið í vörslu skal hann öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fullgildingar- eða aðildarskjali þess hefur verið komið í vörslu.

50. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal síðan senda hana aðildarríkjum, ásamt tilmælum um að þau tilkynni hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkja til þess að athuga tillögurnar og greiða atkvæði um þær. Ef að minnsta kosti einn þriðji aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu innan fjögurra mánaða frá því er tilmælin eru borin fram skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga, sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem ráðstefnuna sækja og atkvæði greiða, skal lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
    2. Breytingartillaga, sem samþykkt er skv. 1. tölul. þessarar greinar, skal öðlast gildi þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt hana og hún hefur verið staðfest af tveimur þriðju hluta aðildarríkjanna.
    3. Þegar breytingartillaga öðlast gildi er hún bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana, en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af samningi þessum og fyrri breytingum sem þau hafa samþykkt.

51. gr.

    1. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal taka við og framsenda öllum ríkjum texta þeirra fyrirvara sem ríki gera er þau fullgilda samninginn eða gerast aðilar að honum.
    2. Ekki er heimilt að gera fyrirvara sem ósamrýmanlegur er markmiðum og tilgangi samnings þessa.
    3. Fyrirvara má afturkalla hvenær sem er með tilkynningu um það til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem síðan skýrir öllum ríkjum frá því. Tilkynningin öðlast gildi á þeim degi er aðalframkvæmdastjóri tekur við henni.

52. gr.

    Aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögn öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjóri tekur við tilkynningunni.

53. gr.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er tilnefndur vörsluaðili samnings þessa.

54. gr.

    Frumrit samnings þessa, en arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spánskur texti hans eru jafngildir, skal komið til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.

Valfrjáls bókun við samninginn um réttindi barnsins um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám.

     Ríkin, sem eru aðilar að bókun þessari,
     telja að til þess að ná enn frekar markmiðum samningsins um réttindi barnsins og koma ákvæðum hans í framkvæmd, einkum 1., 11., 21., 32., 33., 34., 35. og 36. gr., sé viðeigandi að aðildarríkin geri frekari ráðstafanir til þess að tryggja að barnið njóti verndar gegn sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi,
     telja einnig að samningurinn um réttindi barnsins viðurkenni rétt barnsins til þess að njóta verndar gegn arðráni og vinnu sem líklegt er að því stafi hætta af eða gæti komið niður á námi barnsins eða verið skaðlegt heilsu þess eða líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðislegum eða félagslegum þroska,
     hafa þungar áhyggjur af umtalsverðri og síaukinni verslun með börn milli landa í þeim tilgangi að selja þau, vegna barnavændis og barnakláms,
     hafa af því alvarlegar áhyggjur að kynlífsferðamennska, sem börn eru sérstaklega varnarlaus gegn, hefur breiðst út og færst í aukana, þar sem slíkt stuðlar að sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi,
     viðurkenna að til eru margir hópar sem eru sérlega varnarlausir, þar á meðal eru stúlkubörn, sem eru frekar í hættu að sæta kynlífsmisnotkun og að fjöldi stúlkubarna er vantalinn meðal þeirra sem sæta kynlífsmisnotkun,
     hafa áhyggjur af auknu framboði á barnaklámi á Netinu og í gegnum aðra tækni sem er í þróun og með alþjóðaráðstefnuna um baráttuna gegn barnaklámi á Netinu, sem haldin var í Vín 1999, í huga, einkum ályktun hennar um að krefjast þess að framleiðsla, dreifing, útflutningur, sending, innflutningur, eign af ásetningi og auglýsingar á barnaklámi verði flokkuð sem glæpsamlegt athæfi um heim allan og að leggja áherslu á mikilvægi náinnar samvinnu milli stjórnvalda og Netiðnaðarins og að þau bindist samtökum,
     álíta að með heildarnálgun verði auðveldara að útrýma sölu barna, barnavændi og barnaklámi, og með því að takast á við áhrifaþætti, þar á meðal vanþróun, fátækt, mismunandi efnahag, ójöfnuð í félagslegu og efnhagslegu skipulagi, vanhæfar fjölskyldur, menntunarskort, búferlaflutninga fólks úr sveit í borg, mismunun kynjanna, óábyrga kynlífshegðun fullorðinna, skaðlegar hefðir, vopnuð átök og verslun með börn,
     álíta að aðgerða sé þörf til að auka skilning almennings í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn neytenda eftir börnum sem söluvöru, barnavændi og barnaklámi og álíta einnig að mikilvægt sé að styrkja alheimssamtök allra þátttakenda og að bæta framkvæmd á landsvísu,
     vekja athygli á ákvæðum alþjóðalagagerninga sem skipta máli vegna verndar á börnum, þar á meðal Haag-samningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa, Haag-samningnum um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa og Haag-samningnum um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samvinnu vegna ábyrgðar foreldra og aðgerða til verndar börnum og samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana,
     finna til hvatningar vegna yfirgnæfandi stuðnings við samninginn um réttindi barnsins sem sýnir hve útbreitt fylgið er við að stuðla að og vernda réttindi barnsins,
     viðurkenna mikilvægi þess að komið verði í framkvæmd ákvæðum aðgerðaáætlunar um að hindra sölu á börnum, barnavændi og barnaklám og yfirlýsingu og dagskrá sem samþykkt var á heimsþingi í Stokkhólmi dagana 27. til 31. ágúst 1996 um aðgerðir gegn því að hafa börn að féþúfu og til kynlífsnota, og öðrum ákvörðunum og tilmælum viðeigandi alþjóðlegra stofnana sem máli skipta,
     taka tilhlýðilegt tillit til þess hversu siðvenjur og menningarleg gildi sérhverrar þjóðar eiga stóran þátt í því að vernda barnið og tryggja að það þroskist á jákvæðan hátt,
     og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

    Aðildarríki skulu banna sölu á börnum, barnavændi og barnaklám eins og kveðið er á um í bókun þessari.

2. gr.

    Í bókun þessari merkir:
          a)      sala á börnum: hvers kyns aðgerð eða viðskipti þar sem einstaklingur eða hópur fólks framselur öðrum barn gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi;
          b)      barnavændi: notkun barns í kynlífsathöfnum gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi;
          c)      barnaklám: hvers kyns framsetning, með hvaða hætti sem hún er, á barni sem tekur þátt í augljósum kynlífsathöfnum, við raunverulegar eða tilbúnar aðstæður eða hvers kyns framsetning á kynfærum barns þegar megintilgangurinn með henni tengist kynlífi.

3. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal að lágmarki tryggja að eftirfarandi aðgerðir og athafnir falli að öllu leyti undir hegningar- og refsilög þar í landi hvort sem brotin eru framin í landinu eða milli landa eða hvort um einstök eða skipulögð tilvik er að ræða:
       a)      þegar um er að ræða sölu á börnum eins og hún er skilgreind í 2. gr.:
                  i)      að bjóða, afhenda eða þiggja barn, með hvaða hætti sem er, í þeim tilgangi að:
            a. misnota barnið í kynlífi;
              b. hagnast á líffæraflutningi úr barninu;
              c. setja barnið í vinnuþrælkun;
               ii)      að fá fram, sem milligöngumaður, samþykki fyrir ættleiðingu barns á óviðeigandi hátt og með því að brjóta gegn gildandi alþjóðalagagerningum um ættleiðingu;
          b)      að bjóða, ná í, festa kaup á eða útvega barn vegna barnavændis, eins og það er skilgreint í 2. gr.;
          c)      að framleiða, dreifa, breiða út, flytja inn, flytja út, bjóða, selja eða eiga barnaklám í þeim tilgangi sem að ofan greinir eins og það er skilgreint í 2. gr.
    2. Með fyrirvara um ákvæði í landslögum aðildarríkis skal hið sama gilda um tilraun til að fremja einhverja þessara athafna og um samsekt eða þátttöku í einhverri þessara athafna.
    3. Hvert aðildarríki skal gera þessi brot refsiverð með viðeigandi hegningu þar sem tekið er tillit til þess hversu alvarleg þau eru.
    4. Með fyrirvara um ákvæði í landslögum skal hvert aðildarríki gera ráðstafanir, þar sem við á, til að færa sönnur á ábyrgð lögaðila vegna brota sem staðfest eru í 1. mgr. þessarar greinar. Með fyrirvara um lagalegar meginreglur í aðildarríkinu getur, að því er lögaðila varðar, verið um að ræða refsiábyrgð, einkaréttarábyrgð eða stjórnsýsluábyrgð.
    5. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi lagalegar og stjórnsýslulegar ráðstafanir til að tryggja að allir einstaklingar sem hlut eiga að máli við ættleiðingu barns aðhafist í samræmi við þá alþjóðalagagerninga sem við eiga.

4. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að færa sönnur á lögsögu þess yfir brotunum sem vísað er til í 1. mgr. 3. gr. þegar brotin eru framin á yfirráðasvæði þess eða um borð í skipi eða flugvél sem skráð er í því ríki.
    2. Hvert aðildarríki getur gert þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að koma á lögsögu þess vegna þeirra brota sem um getur í 1. mgr. 3. gr. í eftirfarandi tilvikum:
       a)      ef meintur afbrotamaður er ríkisborgari þess ríkis eða einstaklingur með fasta búsetu á yfirráðasvæði þess;
       b)      ef fórnarlambið er ríkisborgari þess ríkis.
    3. Hvert aðildarríki skal einnig gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að koma á lögsögu sinni yfir þeim brotum sem nefnd eru hér að framan þegar meintur afbrotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki til annars aðildarríkis af þeirri ástæðu að brotið hafi verið framið af ríkisborgara í því ríki.
    4. Þessi bókun undanskilur ekki neina refsilögsögu sem er beitt í samræmi við innlend lög.

5. gr.

    1. Brotin, sem um getur í 1. mgr. 3. gr., skulu flokkuð sem afbrot sem geta varðað framsali í öllum framsalssamningum sem til eru á milli aðildarríkja og sem afbrot sem geta varðað framsali í öllum framsalssamningum sem síðar verða gerðir milli þeirra í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í þessum samningum.
    2. Ef aðildarríki, sem setur það skilyrði fyrir framsali að til sé samningur, fær beiðni um framsal frá öðru aðildarríki sem það hefur ekki framsalssamning við má líta á þessa bókun sem lagalegan grunn fyrir framsali með tilliti til þessara brota. Framsal skal háð skilyrðum sem kveðið er á um í lögum ríkisins sem beiðni er beint til.
    3. Aðildarríki, sem ekki setja það skilyrði fyrir framsali að til sé samningur, skulu sín í milli viðurkenna þessi brot sem afbrot sem varða framsali með fyrirvara um skilyrðin sem kveðið er á um í lögum ríkisins sem beiðni er beint til.
    4. Að því er varðar framsal milli aðildarríkja skal fara með þessi afbrot eins og þau hefðu ekki aðeins verið framin á þeim stað þar sem þau áttu sér stað heldur einnig á yfirráðasvæði þeirra ríkja sem farið er fram á að færi sönnur á lögsögu sína í samræmi við 4. gr.
    5. Ef beiðni um framsal með tilliti til brots sem lýst er í 1. mgr. 3. gr. kemur fram og ef aðildarríkið sem beiðni er beint til fer ekki fram á eða vill ekki verða við beiðni um framsal vegna ríkisfangs brotamannsins skal það ríki gera tilheyrandi ráðstafanir til að leggja málið fyrir lögbær yfirvöld þess til saksóknar.

6. gr.

    1. Aðildarríki skulu gefa hvort öðru kost á ómældri aðstoð í tengslum við málsmeðferð vegna rannsóknar, saksóknar eða framsals sem varðar þau afbrot sem sett eru fram í 1. mgr. 3. gr., þar á meðal aðstoð við að afla sönnunargagna sem þau hafa handbær og eru nauðsynleg málsmeðferðinni.
    2. Aðildarríki skulu standa við skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar í samræmi við samninga eða annars konar samkomulag um gagnkvæma réttaraðstoð sem kann að vera í gildi milli þeirra. Þegar slíkir samningar eða samkomulag er ekki fyrir hendi skulu aðildarríkin veita hvert öðru aðstoð í samræmi við landslög.

7. gr.

    Aðildarríki skulu, með fyrirvara um ákvæði í landslögum þeirra:
          a)      gera ráðstafanir til að kveða á um haldlagningu og eignaupptöku, eftir því sem við á, á:
                  i)      búnaði, eins og efnum, eignum og öðrum hlutum sem notaðir eru til að fremja afbrot eða auðvelda þau samkvæmt bókun þessari;
                  ii)      hagnaði sem fenginn er með slíkum afbrotum;
       b)      framkvæma beiðnir frá öðrum aðildarríkjum um haldlagningu og eignaupptöku muna eða hagnaðar sem um getur í i-lið a-liðar;
       c)      gera ráðstafanir sem miða að því að loka tímabundið eða til frambúðar athafnasvæðum sem notuð eru til að fremja slík afbrot á.

8. gr.

    1. Aðildarríki skulu samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að vernda réttindi og hagsmuni barna sem eru fórnarlömb þeirra athafna sem eru bönnuð samkvæmt þessari bókun á öllum meðferðarstigum sakamáls, sérstaklega með því að:
          a)      viðurkenna varnarleysi barna sem eru fórnarlömb og aðlaga málsmeðferð þannig að tekið sé tillit til sérstakra þarfa þeirra, þar á meðal sérstakar þarfir þeirra sem vitna;
          b)      upplýsa börn sem eru fórnarlömb um réttindi þeirra, hlutverk þeirra og umfang, tímasetningu og framvindu málsmeðferðarinnar og lúkningu mála þeirra;
          c)      gefa færi á að sjónarmið, þarfir og áhyggjuefni barna sem eru fórnarlömb komi fram og séu tekin til greina við málsmeðferð þar sem persónulegir hagsmunir þeirra eru í húfi á þann hátt sem er í samræmi við málsmeðferðarreglur landslaga;
          d)      veita börnum sem eru fórnarlömb viðeigandi stuðningsþjónustu meðan á málarekstri stendur;
          e)      vernda, eftir því sem við á, einkalíf og upplýsingar um hver þau börn eru sem eru fórnarlömb og gera ráðstafanir í samræmi við landslög til að forðast óviðeigandi dreifingu upplýsinga sem gætu leitt til þess að borin væru kennsl á börn sem eru fórnarlömb;
          f)      sjá til þess, þegar við á, að tryggja öryggi barna sem eru fórnarlömb, fjölskyldna þeirra og þeirra sem vitna í þeirra þágu, gegn ógnunum og hefndum;
          g)      forðast óþarfa tafir í lúkningu mála og framkvæmd fyrirmæla og réttarúrskurðar þar sem börnum sem eru fórnarlömb eru ákvarðaðar skaðabætur.
    2. Aðildarríki skulu tryggja að óvissa um raunverulegan aldur fórnarlambsins komi ekki í veg fyrir að hafin sé rannsókn sakamáls, þar á meðal rannsókn sem miðar að því að komast að aldri fórnarlambsins.
    3. Aðildarríki skulu tryggja að fyrst og fremst sé hugað að hvernig hagmunum barnsins sé best borgið í meðferð réttarkerfisins á börnum sem eru fórnarlömb þeirra afbrota sem er lýst í þessari bókun.
    4. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir til að tryggja viðeigandi menntun fyrir þá einstaklinga sem vinna með fórnarlömbum afbrotanna sem eru bönnuð samkvæmt þessari bókun, sérstaklega í lögum og sálfræði.
    5. Aðildarríki skulu, þegar við á, samþykkja ráðstafanir til þess að tryggja öryggi og heiðarleika þeirra einstaklinga og/eða samtaka sem taka þátt í fyrirbyggjandi aðgerðum og/eða vernd og endurhæfingu fórnarlamba slíkra afbrota.
    6. Ekkert í þessari grein skal túlkað sem skaðlegt eða í ósamræmi við réttindi hins ákærða til að fá réttláta og óhlutdræga dómsmeðferð.

9. gr.

    1. Aðildarríki skulu samþykkja eða efla, framkvæma og breiða út lög, stjórnsýsluaðgerðir, félagslega stefnu og áætlanir til að koma í veg fyrir afbrotin sem um getur í þessari bókun. Sérstaka athygli skal gefa að því að vernda börn sem standa sérstaklega varnarlaus gagnvart þessum athöfnum.
    2. Aðildarríki skulu með öllum viðeigandi ráðum veita upplýsingar, menntun og fræðslu sem stuðlar að því að allur almenningur, þar á meðal börn, vakni til vitundar um skaðleg áhrif þeirra afbrota sem um getur í þessari bókun og um forvarnarráðstafanir gegn þeim. Aðildarríki skulu til að fullnægja skuldbindingum sínum samkvæmt þessari grein hvetja til þátttöku samfélagsins, sérstaklega barna og þeirra barna sem eru fórnarlömb, til að veita þessar upplýsingar, menntun og fræðslu, þar á meðal á alþjóðlegum vettvangi.
    3. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir með það að markmiði að tryggja alla viðeigandi aðstoð við fórnarlömb slíkra afbrota, þar á meðal að þau aðlagist samfélaginu á ný og hljóti fullan líkamlegan og sálrænan bata.
    4. Aðildarríki skulu tryggja að öll börn sem eru fórnarlömb afbrotanna sem lýst er í þessari bókun eigi rétt á fullnægjandi málsmeðferð til að krefjast, án mismununar, skaðabóta vegna tjónsins frá þeim sem bera lagalega ábyrgð.
    5. Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir sem miða að því að banna á skilvirkan hátt framleiðslu og dreifingu efnis þar sem auglýst eru afbrot þau sem lýst er í þessari bókun.

10. gr.

    1. Aðildarríki skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að efla alþjóðlegt samstarf með marghliða, svæðisbundinni og tvíhliða tilhögun í því skyni að hindra, ljóstra upp um, rannsaka, saksækja og refsa þeim sem bera ábyrgð á gerðum sem felast í sölu á börnum, barnavændi, barnaklámi og kynlífsferðamennsku tengdri börnum. Aðildarríki skulu einnig hvetja til alþjóðasamvinnu og samræmingar milli yfirvalda í ríkjunum, innlendra og alþjóðlegra frjálsra félagasamtaka og alþjóðasamtaka.
    2. Aðildarríki skulu stuðla að alþjóðlegri samvinnu til að aðstoða börn sem eru fórnarlömb við að ná líkamlegum og sálrænum bata, aðlagast samfélaginu á ný og senda þau til heimkynna sinna.
    3. Aðildarríki skulu stuðla að því að efla alþjóðlega samvinnu í því skyni að taka á grundvallarorsökunum fyrir varnarleysi barna, sölu á börnum, barnavændi, barnaklámi og kynlífsferðamennsku tengdri börnum, til að mynda fátækt og vanþróun.
    4. Aðildarríki sem hafa tækifæri til þess skulu veita fjárhagslega, tæknilega eða aðra aðstoð með marghliða, svæðisbundnum, tvíhliða eða öðrum áætlunum sem til eru.

11. gr.

    Ekkert í bókun þessari skal hafa áhrif á neinar reglur sem stuðla frekar að því að réttindi barnsins komist til framkvæmda og kunna að vera í:
       a)      lögum aðildarríkis;
       b)      alþjóðalögum sem í gildi eru að því er það ríki varðar.

12. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal, innan tveggja ára frá því að bókunin öðlast gildi að því er það aðildarríki varðar, leggja skýrslu fyrir nefndina um réttindi barnsins þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að koma ákvæðum bókunarinnar í framkvæmd.
    2. Eftir framlagningu þessarar ítarlegu skýrslu skal hvert aðildarríki, í samræmi við 44. gr. samningsins, láta allar frekari upplýsingar í tengslum við framkvæmd bókunarinnar koma fram í skýrslum sem þau leggja fyrir nefndina um réttindi barnsins. Önnur aðildarríki bókunarinnar skulu leggja fram skýrslu á fimm ára fresti.
    3. Nefndin um réttindi barnsins getur óskað eftir að aðildarríki leggi fram frekari upplýsingar sem skipta máli fyrir framkvæmd bókunar þessarar.

13. gr.

    1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu sérhvers ríkis sem er aðili að samningnum eða hefur undirritað hann.
    2. Bókun þessi er háð fullgildingu og er sérhverju ríki, sem er aðili að samningnum eða hefur undirritað hann, heimilt að gerast aðili að henni. Fullgildingar- og aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

14. gr.

    1. Bókun þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir að tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent til vörslu.
    2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir að hún hefur öðlast gildi öðlast bókun þessi gildi einum mánuði eftir að það ríki hefur afhent til vörslu eigið fullgildingar- eða aðildarskjal.

15. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er sagt upp bókun þessari með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal eftir það tilkynna það öðrum aðildarríkjum samningsins og öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn. Uppsögnin skal öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tekur við tilkynningunni.
    2. Slík uppsögn skal ekki hafa þau áhrif að aðildarríkið sé leyst undan neinum skuldbindingum sínum samkvæmt bókun þessari að því er varðar nokkurt brot sem á sér stað fyrir þann dag sem uppsögnin öðlast gildi. Uppsögn skal eigi heldur á nokkurn hátt hafa áhrif á áframhaldandi meðferð máls sem þegar var til meðferðar hjá nefndinni fyrir þann dag sem uppsögnin öðlaðist gildi.

16. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki má gera breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal því næst senda breytingartillöguna til aðildarríkjanna ásamt tilmælum um að þau tilkynni hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkja til þess að taka tillögurnar til meðferðar og greiða atkvæði um þær. Ef að minnsta kosti einn þriðji hluti aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu innan fjögurra mánaða frá þeim degi er tilmælin voru borin fram skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar undir forystu Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem ráðstefnuna sækja og atkvæði greiða skal lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
    2. Breytingartillaga sem samþykkt er skv. 1. mgr. þessarar greinar skal öðlast gildi þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt hana og hún hefur verið staðfest af tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna.
    3. Þegar breytingartillaga öðlast gildi skal hún vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessarar bókunar og öllum fyrri breytingum sem þau hafa samþykkt.

17. gr.

    1. Bókun þessi, en arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spánskur texti hennar eru jafngildir, skal komið til vörslu í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna.
    2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda staðfest afrit af bókun þessari til allra aðildarríkja samningsins og allra ríkja sem hafa undirritað samninginn.

Valfrjáls bókun við samninginn um réttindi barnsins
um þátttöku barna í vopnuðum átökum.

     Ríkin, sem aðilar eru að bókun þessari,
     finna til hvatningar vegna yfirgnæfandi stuðnings við samninginn um réttindi barnsins sem sýnir hve útbreitt fylgið er við að stuðla að og berjast fyrir verndun réttinda barnsins,
     lýsa því yfir enn á ný að réttindi barna þarfnast sérstakrar verndar og kalla á að stöðugt sé unnið að umbótum á aðstæðum barna án mismununar og að þau fái að þroskast og mennta sig við aðstæður þar sem friður og öryggi ríkir,
     er brugðið vegna skaðlegra og útbreiddra áhrifa sem vopnuð átök hafa á börn og afleiðinganna, þegar til lengri tíma er litið, sem þau hafa í för með sér á varanlegan frið, öryggi og þróun,
     fordæma að börn séu notuð sem skotmörk þar sem vopnuð átök eiga sér stað og að beinar árásir séu gerðar á fyrirbæri sem njóta verndar samkvæmt þjóðarétti, þar með talið staði þar sem búast má við að mikið sé af börnum, til dæmis skóla og sjúkrahús,
     vekja athygli á að samþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn hefur verið samþykkt og sérstaklega að í henni er það talinn stríðsglæpur að kveðja til að gegna herskyldu börn undir 15 ára aldri eða skrá þau í herinn eða láta þau taka virkan þátt í hernaðarátökum, hvort sem um er að ræða vopnuð átök milli ríkja eða innanlands,
     telja því að til þess að styrkja enn frekar framkvæmd þeirra réttinda sem viðurkennd eru í samningnum um réttindi barnsins þurfi að vernda börn í auknum mæli gegn því að taka þátt í vopnuðum átökum,
     vekja athygli á að í 1. gr. samningsins um réttindi barnsins er tekið fram, að því er varðar þann samning, að barn merki hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri nema hann nái lögræðisaldri fyrr samkvæmt gildandi lögum sem hann lýtur,
     eru sannfærð um að valfrjáls bókun við samninginn, þar sem aldursmörk vegna mögulegrar herkvaðningar í vopnaða heri og þátttöku í hernaðarátökum eru hækkuð, muni stuðla að árangri við framkvæmd þeirrar meginreglu að fyrst og fremst skuli tekið tillit til þess, að því er varðar allar ráðstafanir vegna barna, hvernig hagsmunum barnsins sé best borgið,
     vekja athygli á að á tuttugustu og sjöttu alþjóðlegu ráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans í desember 1995 var meðal annars mælst til þess að aðilar sem eiga í átökum geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að börn yngri en 18 ára taki ekki þátt í hernaðarátökum,
     fagna því að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana var samþykkt einróma í júní 1999 sem meðal annars bannar að þvinga eða skylda börn til herþjónustu til þess að nota þau í vopnuðum átökum,
     fordæma og lýsa yfir alvarlegum áhyggjum yfir því að börn séu kvödd til, þjálfuð og notuð í átökum vopnaðra hópa, annarra en ríkisherja, innan landamæra og yfir landamæri og viðurkenna ábyrgð þeirra sem kveðja til, þjálfa og nota börn til slíkra verka,
     minna á að það er skylda hvers sem á aðild að vopnuðum átökum að hlýða ákvæðum þjóðaréttar um mannúðarmál,
     leggja áherslu á að þessi bókun er með fyrirvara um markmið og meginreglur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar með talin 51. gr., og viðeigandi viðmiðanir laga um mannúðarmál,
     hafa í huga að skilyrði um frið og öryggi sem byggjast á fullri virðingu fyrir markmiðum og meginreglum sáttmálans og að löggerningum um mannréttindi sé hlýtt eru lífsnauðsynleg til að veita megi börnum fulla vernd, sérstaklega í vopnuðum átökum og meðan á hernámi stendur,
     viðurkenna sérstakar þarfir þeirra barna sem eru sérstaklega varnarlaus gagnvart herkvaðningu eða þátttöku í hernaðarátökum sem ganga þvert á þessa bókun vegna efnahagslegrar eða félagslegrar stöðu eða kynferðis,
     eru minnug þess að nauðsyn krefst þess að hugað sé að efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum orsökum þess að börn taka þátt í vopnuðum átökum,
     eru þess fullviss að þörf er á að efla alþjóðasamstarf við framkvæmd þessarar bókunar auk þess að þau börn sem eru fórnarlömb, vopnaðra átaka fái líkamlega og sálræna endurhæfingu og aðlagist samfélaginu á ný,
     hvetja til þátttöku samfélagsins, sérstaklega barna og þeirra barna sem eru fórnarlömb, í að dreifa kynningar- og fræðsluáætlunum sem varða framkvæmd bókunarinnar,
     og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

    Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að liðsmenn vopnaðra herja þeirra sem ekki hafa náð 18 ára aldri taki ekki beinan þátt í hernaðarátökum.

2. gr.

    Aðildarríki skulu tryggja að einstaklingar sem hafa ekki náð 18 ára aldri séu ekki skyldaðir til herþjónustu í vopnuðum herjum þeirra.

3. gr.

    1. Aðildarríki skulu hækka lágmarksaldur vegna skráningar sjálfboðaliða í heri landsins frá því sem tilgreint er í 3. mgr. 38. gr. samningsins um réttindi barnsins með tilliti til meginreglnanna í greininni og viðurkenna að samkvæmt samningnum eiga einstaklingar yngri en 18 ára rétt á sérstakri vernd.
    2. Hvert aðildarríki skal, við fullgildingu bókunarinnar eða aðild að henni, afhenda til vörslu bindandi yfirlýsingu þar sem tilgreindur er sá lágmarksaldur sem það mun miða skráningu sjálfboðaliða í vopnaðar hersveitir landsins við og lýsing á þeim öryggisráðstöfunum sem það hefur samþykkt til að tryggja að slík skráning sé ekki vegna nauðungar eða þvingunar.
    3. Aðildarríki sem leyfa skráningu sjálfboðaliða yngri en 18 ára í vopnaðar hersveitir lands síns skulu vinna að öryggisráðstöfunum til að tryggja að lágmarki að:
          a)      slík skráning sé í raun af frjálsum vilja;
          b)      slík skráning sé með upplýstu samþykki foreldra eða lögráðamanna einstaklingsins;
          c)      slíkir einstaklingar hafi fengið allar upplýsingar um þær skyldur sem felast í slíkri herþjónustu;
          d)      slíkir einstaklingar leggi fram áreiðanlegar sannanir um aldur sinn áður en þeir eru teknir í herinn.
    4. Hvert aðildarríki getur hvenær sem er styrkt yfirlýsingu sína með því að senda tilkynningu í því skyni til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem kunngjörir hana öllum aðildarríkjunum. Slík tilkynning öðlast gildi á þeim degi sem aðalframkvæmdastjórinn tekur við henni.
    5. Krafan um að hækka aldurinn í 1. mgr. þessarar greinar gildir ekki um skóla, sem starfræktir eru eða stjórnað er af herjum aðildarríkjanna, í samræmi við 28. og 29. gr. samningsins um réttindi barnsins.

4. gr.

    1. Vopnaðir hópar, aðrir en her ríkis, skulu ekki undir neinum kringumstæðum skrá einstaklinga yngri en 18 ára í herinn eða beita þeim í hernaðarátökum.
    2. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíka skráningu og beitingu, þar á meðal að samþykkja nauðsynleg lagaákvæði til að banna slíkar aðgerðir og gera þær refsiverðar.
    3. Beiting þessarar greinar samkvæmt bókun þessari hefur ekki áhrif á réttarstöðu neins þátttakanda í vopnuðum átökum.

5. gr.

    Ekki skal túlka neitt í þessari bókun þannig að það útiloki ákvæði í lögum aðildarríkis eða í alþjóðagerningum og ákvæðum þjóðaréttar um mannréttindi sem styður frekar að réttindi barnsins komi til framkvæmda.

6. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir er varða lög og stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja virka framkvæmd og fullnustu ákvæða þessarar bókunar innan lögsögu sinnar.
    2. Aðildarríki skuldbinda sig til að breiða út og kynna með viðeigandi hætti meginreglur og ákvæði þessarar bókunar, jafnt fyrir fullorðnum sem börnum.
    3. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að einstaklingar innan lögsögu þeirra sem hafa verið skráðir í herinn eða beitt í hernaðarátökum andstætt þessari bókun séu afvopnaðir eða veitt lausn frá þjónustu á annan hátt. Aðildarríki skulu, þegar nauðsynlegt er, veita þessum einstaklingum alla viðeigandi aðstoð til að þeir nái líkamlegum og sálrænum bata og aðlagist samfélaginu á ný.

7. gr.

    1. Aðildarríki skulu vinna saman að framkvæmd þessarar bókunar, þar á meðal að koma í veg fyrir alla starfsemi sem er andstæð bókuninni og við endurhæfingu og aðlögun einstaklinga sem eru fórnarlömb aðgerða sem eru andstæðar þessari bókun, þar á meðal með tæknilegri samvinnu og fjárhagsaðstoð. Slík aðstoð og samvinna skal gerð í samráði við hlutaðeigandi aðildarríki og viðeigandi alþjóðastofnanir.
    2. Aðildarríki sem eru í þeirri aðstöðu að geta veitt aðstoð skulu gera það í gegnum marghliða eða tvíhliða áætlanir eða aðrar áætlanir eða meðal annars í gegnum frjálsan sjóð sem stofnsettur er í samræmi við reglur allsherjarþingsins.

8. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal innan tveggja ára frá því að bókunin öðlast gildi að því er það aðildarríki varðar leggja fyrir nefndina um réttindi barnsins skýrslu þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að koma ákvæðum bókunarinnar í framkvæmd, þar á meðal ráðstafanir sem gerðar eru til að koma ákvæðunum um þátttöku og herskráningu í framkvæmd.
    2. Eftir að hin ítarlega skýrsla hefur verið lögð fram skal hvert aðildarríki, í samræmi við 44. gr. samningsins, láta allar frekari upplýsingar í tengslum við framkvæmd bókunarinnar koma fram í skýrslunum sem þau leggja fyrir nefndina um réttindi barnsins. Önnur aðildarríki bókunarinnar skulu leggja fram skýrslu á fimm ára fresti.
    3. Nefndin um réttindi barnsins getur óskað eftir að aðildarríki leggi fram frekari upplýsingar sem máli skipta fyrir framkvæmd bókunarinnar.

9. gr.

    1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu sérhvers ríkis sem er aðili að samningnum eða hefur undirritað hann.
    2. Bókun þessi er háð fullgildingu og er öllum ríkjum heimilt að gerast aðilar að henni. Fullgildingar- og aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    3. Í krafti umboðs síns sem vörsluaðili samningsins og bókunarinnar skal aðalframkvæmdastjórinn tilkynna öllum aðildarríkjum samningsins og öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn um hvert yfirlýsingarskjal skv. 13. gr.

10. gr.

    1. Bókun þessi skal öðlast gildi þremur mánuðum eftir að tíunda fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent til vörslu.
    2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir bókun þessa eða gerist aðili að henni eftir að hún hefur öðlast gildi öðlast bókun þessi gildi einum mánuði eftir að það ríki hefur afhent eigið skjal um fullgildingu eða aðild til vörslu.

11. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er sagt upp bókun þessari með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal eftir það tilkynna það hinum aðildarríkjum samningsins og öllum ríkjum sem hafa undirritað samninginn. Uppsögnin skal öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjórinn tekur við tilkynningunni. Ef aðildarríkið við lok þess árs á í vopnuðum átökum öðlast uppsögnin hins vegar ekki gildi fyrr en endi hefur verið bundinn á átökin.
    2. Slík uppsögn skal ekki hafa þau áhrif að aðildarríkið sé leyst undan skuldbindingum sínum samkvæmt bókun þessari að því er varðar nokkrar aðgerðir sem eiga sér stað fyrir þann dag sem uppsögnin öðlast gildi. Uppsögnin skal eigi heldur á nokkurn hátt hafa áhrif á áframhaldandi meðferð máls sem þegar var til meðferðar hjá nefndinni fyrir þann dag sem uppsögnin öðlaðist gildi.

12. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal því næst senda breytingartillöguna til aðildarríkjanna ásamt tilmælum um að þau tilkynni hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til þess að taka til meðferðar tillögurnar og greiða atkvæði um þær. Ef að minnsta kosti einn þriðji hluti aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu innan fjögurra mánaða frá þeim degi er tilmælin voru borin fram skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar undir forystu Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem ráðstefnuna sækja og atkvæði greiða skal lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
    2. Breytingartillaga sem samþykkt er skv. 1. mgr. þessarar greinar skal öðlast gildi þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt hana og hún hefur verið staðfest af tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna.
    3. Þegar breytingartillaga öðlast gildi skal hún vera bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af ákvæðum þessarar bókunar og öllum fyrri breytingum sem þau hafa samþykkt.

13. gr.

    1. Bókun þessi, en arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spænskur texti hennar eru jafngildir, skal varðveitt í skjalasafni Sameinuðu þjóðanna.
    2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda staðfest afrit af bókun þessari til allra aðildarríkja samningsins og allra ríkja hafa undirritað samninginn.