Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 553. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 942  —  553. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Söndru Franks um fjármagnstekjuskatt líknarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörg félög, sem falla undir skilgreiningu Hagstofunnar á líknarfélögum, greiddu fjármagnstekjuskatt á síðasta ári?
     2.      Hversu mikinn fjármagnstekjuskatt greiddu þau:
                  a.      af vaxtatekjum,
                  b.      af arði,
                  c.      af söluhagnaði fasteigna,
                  d.      af hlutabréfum,
                  e.      samtals?


    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra eru 135 félög skráð í starfsemi sem fellur undir atvinnugrein 85.32.8, líknarfélög og annað hjálparstarf félagasamtaka, samkvæmt atvinnugreinaflokkunarkerfi Hagstofu Íslands, Ísat-95. Fjármagnstekjuskattur var ekki lagður á neitt þessara félaga árið 2005 vegna rekstrar ársins 2004. Þess ber hins vegar að geta að hafi félag/stofnun ekki aðrar fjármagnstekjur en arð eða staðgreiðsluskyldar vaxtatekjur og hafi staðgreiðsla verið réttilega ákvörðuð og haldið eftir af þeim tekjum, af hinum skilaskylda aðila, teljast það fullnaðarskil. Fjármagnstekjur eru hvorki taldar fram við framtalsskil né er fjármagnstekjuskattur lagður á viðkomandi lögaðila við álagningu þó svo að félögin hafi greitt fjármagnstekjuskatt í staðgreiðslu, en engar upplýsingar liggja fyrir um það.