Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 691. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1021  —  691. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á stöðu selastofna við Ísland.

Flm.: Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,     Mörður Árnason,


Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,
Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera úttekt á stöðu selastofna við Ísland. Leitað verði upplýsinga um stofnstærð útsels og landsels og fjölda og staðsetningu sellátra á landinu. Einnig verði leitað upplýsinga um þróun stærðar selastofna við Ísland frá árinu 1987 til 2006. Úttektinni ljúki fyrir 1. júní 2007.

Greinargerð.


    Ýmsar vísbendingar eru um að selastofnum við Ísland hafi hrakað á síðustu árum en svo virðist sem ekkert íslenskt ráðuneyti telji sig bera ábyrgð á selnum.
    Selur hefur verið veiddur takmarkalaust hér við land undanfarin ár, m.a. fyrir tilstilli svokallaðrar hringormanefndar sem greiðir fyrir hvern drepinn sel án þess þó að afurðir af selnum séu nýttar á nokkurn hátt. Þannig hefur verið gengið fram á rotnandi selshræ í látrum þar sem aðeins kjálkabeinið hefur verið hirt en það eru þær sönnur fyrir drápinu sem hringormanefnd fer fram á gegn greiðslu verðlaunafjár.
    13. aðalfundur Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, NAMMCO, skoraði á íslensk stjórnvöld að setja sér markmið um framtíð útselsstofnsins við Ísland en ekki hefur verið brugðist við þeirri áskorun. Fyrir tuttugu árum voru landselir hér við land um 40 þúsund en síðan þá hefur stofninum hnignað verulega og vísbendingar um að hann eigi heima á alþjóðlegum válistum.
    Selabændur, sem veiða sel og nýta bæði skinn og kjöt, hafa lýst áhyggjum af fækkandi sel við strendur landsins.
    Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um lax- og silungsveiðar þar sem heimilað er, ef samþykkt verður, að eyða sellátrum í grennd við veiðiár landsins. Sú staðreynd ásamt því sem að framan greinir gefur ástæðu til að stofnstærð sels og ástand selastofna við landið sé kannað og reynt að meta hvert veiðiþol viðkomandi stofna er.