Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 706. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1036  —  706. mál.
Tillaga til þingsályktunarum stofnun háskólaseturs á Selfossi.

Flm.: Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir.    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun háskólaseturs á Selfossi í samvinnu við heimamenn og háskóla- og rannsóknarstofnanir í héraði. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir undirbúningsstarfinu og tillögum sínum um uppbyggingu háskólanáms á Selfossi fyrir 1. september 2006.

Greinargerð.


    Eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar er efling menntastofnana og rannsóknasetra sem víðast um landið. Reynslan hefur sýnt fram á kosti þess að heimamenn stjórni slíkri starfsemi að sem mestu leyti sjálfir og byggi þá á tækniþekkingu, menningu, atvinnulífi og auðlindum hvers héraðs um sig. Nægir í því sambandi að horfa til háskólanna á Hvanneyri, Bifröst og Hólum sem hafa með sjálfstæði sínu, frumkvæði og sveigjanleika staðist fyllilega þær kröfur sem gerðar eru til háskóla. Fáir efast heldur um það núorðið að sjálfstæði Háskólans á Akureyri var ein meginforsenda þess að hann næði að vaxa og dafna. Hins vegar er samstarf sjálfstæðra menntastofnana ávallt af hinu góða, hvort heldur er samstarf við skóla í öðrum landshlutum eða erlendis.
    Blómlegt mannlíf byggist á menntun, fjölbreyttri atvinnu og góðri almannaþjónustu. Enginn einn þessara þátta nægir. Íbúum á Suðurlandi hefur fjölgað umtalsvert á umliðnum árum og útlit er fyrir áframhaldandi fjölgun íbúa á næstu árum. Afar mikilvægt er því að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu, efla menntunarmöguleika og almenna þjónustu við íbúana.
    Sunnlendingar hafa ekki fengið sams konar framlög til uppbyggingar og miðlunar háskólanáms og Vestfirðir, Norðurland og Austurland á umliðnum árum. Eins og víðar á landsbyggðinni er lægra hlutfall háskólamenntaðra í landshlutanum en á höfuðborgarsvæðinu.
    Á aðalfundi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga dagana 25. og 26. nóvember 2005 var samþykkt ályktun þar sem áhersla er lögð á að efling háskólamenntunar og bætt aðgengi almennings að henni sé eitt brýnasta hagsmunamál landshlutans í framtíðinni. Ákveðið var á fundinum að 80 millj. kr., sem sveitarfélög á Suðurlandi eiga í sjóði hjá Atvinnuþróunarsjóði og ætlunin var að setja í sérstakan sjóð til eflingar atvinnulífi á svæðinu, verði varið til að treysta undirstöður háskólanáms í landshlutanum. Á aðalfundinum var jafnframt skorað á ríkisvaldið að koma myndarlega að uppbyggingu háskólanáms á Suðurlandi enda er málaflokkurinn á verksviði þess samkvæmt lögum.
    Sú ákvörðun sveitarfélaganna í landshlutanum að verja 80 millj. kr. til uppbyggingar háskólanáms á svæðinu sýnir áhuga þeirra á málinu. Í framhaldinu er mikilvægt að ríkisvaldið komi að þessari uppbyggingu með framlögum til jafns við aðra landshluta.
    Þótt ekki sé orðið ýkja langt að fara milli Selfoss og Reykjavíkur, þar sem þegar eru starfræktir háskólar, má ætla að aðstæður fólks til að sækja slíkt nám þangað séu alls ekki alltaf nógu góðar, auk þess sem benda má á að fjarlægðir frá Reykjavík í uppsveitir Árnessýslu og austur í Skaftafellssýslu eru alls ekki boðlegar til daglegs aksturs fram og til baka. Það gefur augaleið að háskólasetur, sem mundi færa námið til fólksins, gerbreytti aðstæðum fólks til að sækja sér frekari menntun.
    Ekki er vafi á því að stofnun háskólaseturs á Selfossi yrði kærkomin viðbót við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem þar er fyrir. Slíkar menntastofnanir mundu styðja vel hvor við aðra, og ekki bara á sviði menntunar þótt sú samvinna yrði hvað dýrmætust.
    Á meðal íbúa á Suðurlandi er mikil eftirspurn eftir háskólamenntun í heimabyggð. Háskólasetur á Selfossi mundi styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin á svæðinu og koma þar með til móts við eindregnar óskir íbúanna. Því er lagt til að menntamálaráðherra skipi nú þegar nefnd með heimamönnum sem vinni tillögur að stofnun háskólaseturs á Selfossi og að hún skili áliti fyrir 1. september í haust svo að hægt sé að hafa hliðsjón af tillögum hennar við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2007.