Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 748. máls.

Þskj. 1085  —  748. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands,
nr. 13 13. apríl 1973, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)
1. gr.

    Lokamálsliður e-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Leyfishafi greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald, þó ekki hærri fjárhæð en 150.000.000 kr.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 7. gr. laganna og orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna er vöruhappdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna heimilt að greiða út vinninga úr flokkahappdrættum í peningum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að höfðu samráði við Happdrætti Háskóla Íslands, felur í sér breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands nr. 13 13. apríl 1973.
    Á síðastliðnu ári voru sett lög um almenn happdrætti, sbr. lög um happdrætti, nr. 38 13. maí 2005, sem fólu í sér endurskoðun happdrættislaganna frá 1926. Þar var ekki hróflað við sérlögum um peningahappdrætti og vöruhappdrætti, þ.e. Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 13 13. apríl 1973, Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sbr. lög nr. 16 13. apríl 1973, og Happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, sbr. lög nr. 18 22. apríl 1959, en tvö síðarnefndu hafa lengi óskað eftir því að fá lagaheimild til að greiða út vinninga í reiðufé. Var því lýst yfir við afgreiðslu málsins að dóms- og kirkjumálaráðherra mundi huga að leiðum til að koma til móts við þessar óskir og er það gert með þessu frumvarpi.
    Lagt er til að Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga verði heimilt að greiða út peningavinninga í flokkahappdrættum án þess þó að fella niður einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands, en hins vegar er ákveðin hámarksfjárhæð til árlegrar útgreiðslu. Fjárhæðin sem Happdrætti Háskóla Íslands greiðir rennur eftir sem áður í Tækjasjóð samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3 3. febrúar 2003. Hagnist Happdrætti Háskóla Íslands á þessari nýskipan rennur hagnaðurinn til Háskóla Íslands.
    Verði frumvarpið að lögum á því þingi sem nú situr er miðað við að þessi skipan gildi fyrst um greiðslu einkaleyfisgjalds vegna rekstrar árið 2005.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að ákvæðið standi óbreytt að því undanskildu að tilgreind er hámarksfjárhæð, 150 millj. kr., sem Happdrætti Háskóla Íslands ber að greiða árlega til ríkissjóðs. Sanngjarnt þykir að lögfest verði slík hámarksfjárhæð í ljósi þess að gert er ráð fyrir í frumvarpinu að hin lögbundnu vöruhappdrætti fái heimild til að greiða út peningavinninga, þrátt fyrir einkaleyfi Happdrætti Háskóla Íslands, án sérstakrar gjaldtöku.
    Tekjur af einkaleyfisgjaldi happdrættisins renna skv. 3. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir til Tækjasjóðs. Samkvæmt ríkisreikningi voru tekjur ríkissjóðs af einkaleyfisgjaldi árið 2004 156.000.000 kr., árið 2003 111.000.000 kr. og árið 2002 114.000.000 kr.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að vöruhappdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna verði heimilt að greiða út vinninga úr flokkahappdrættum í peningum. Með þessu er komið til móts við eindregnar óskir frá þessum happdrættum um að fá að greiða út slíka vinninga.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 13/1973, um Happdrætti Háskóla Íslands.

    Í frumvarpinu er lagt til að Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga verði heimilað að greiða út peningavinninga í flokkahappdrættum, en Happdrætti Háskóla Íslands greiði eftir sem áður 20% af nettóársarði sem einkaleyfisgjald til Tækjasjóðs. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að einkaleyfisgjaldið verði að hámarki 150 m.kr. á ári í ljósi þess að lögbundnu vöruhappdrættin fá einnig leyfi til að greiða út peningavinninga. Ef Happdrætti Háskóla Íslands greiðir minna í einkaleyfisgjald en ella vegna hámarksins verður hagnaður þess meiri sem því nemur. Samkvæmt lögum skal hagnaðinum varið til framkvæmda við byggingar Háskóla Íslands, til að greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja o.fl. Tækjasjóður úthlutar rannsóknastofnunum styrkjum til kaupa á dýrum tækjum og búnaði og hefur Háskóli Íslands að jafnaði fengið talsvert af framlögum úr honum. Verður því ekki séð að samþykkt frumvarpsins leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs heldur kynni það að hafa einhver áhrif á innbyrðis fjárstreymi milli aðila en þó varla umtalsverð.