Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 602. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1174  —  602. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um kostnað við meðferð langveikra og alvarlega fatlaðra barna erlendis.

     1.      Greiðir Tryggingastofnun ríkisins allan kostnað við meðferð langveikra og alvarlega fatlaðra barna erlendis og ef svo er ekki, hversu mikinn hluta kostnaðarins greiðir stofnunin?
    Ef langveiku eða alvarlega fötluðu barni er brýn nauðsyn á viðurkenndri læknismeðferð erlendis vegna þess að ekki er unnt að veita því nauðsynlega hjálp hér á landi greiðir Tryggingastofnun ríkisins allan kostnað við meðferðina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis í tengslum við meðferðina, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Sérstök nefnd innan Tryggingastofnunar ríkisins (siglinganefnd) ákveður hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi og hvar viðkomandi skuli njóta meðferðar erlendis, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Aðrar reglur gilda ef langveikt eða alvarlega fatlað barn veikist erlendis og þarf á meðferð að halda. Ef barnið þarf nauðsynlega á aðstoð að halda við tímabundna dvöl í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) geta foreldrar framvísað evrópsku sjúkratryggingakorti (sem fæst hjá Tryggingastofnun ríkisins) hjá þjónustuaðilum sem samning hafa við opinberu tryggingarnar í viðkomandi landi og greiða þá sama gjald og íbúar landsins, í samræmi við reglur EES-samningsins. Ef viðkomandi hefur kortið ekki meðferðis getur hann óskað eftir endurgreiðslu þegar heim er komið (enda hafi þjónustan verið veitt hjá aðila sem samning hefur við opinbera tryggingakerfið) og fer endurgreiðslan þá eftir þeim reglum sem gilda í landinu sem dvalið var í.
    Ef langveikt eða alvarlega fatlað barn þarf nauðsynlega á aðstoð að halda við dvöl í landi utan EES er farið eftir reglum tryggingaráðs nr. 281/2003 um endurgreiðslu kostnaðar vegna veikinda eða slysa erlendis. Í þeim segir m.a.: „Ef sjúkratryggðum einstaklingi er nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis greiðir Tryggingastofnun sjúkrakostnaðinn eins og um sjúkrahjálp innan lands væri að ræða.“ Enn fremur er heimilt að greiða hlutfall umframkostnaðar sé um verulegan kostnað að ræða.

     2.      Greiðir Tryggingastofnun ríkisins foreldrum eða fylgdarmönnum dagpeninga á þessum ferðum og er þá um að ræða fulla dagpeninga? Ef svo er ekki, um hvaða upphæðir er að ræða skipt eftir löndum, borgum og öðru sem áhrif hefur á upphæðina?
    Ef siglinganefnd hefur samþykkt meðferð erlendis greiðir Tryggingastofnun eftirfarandi, í samræmi við reglugerð nr. 827/2002 um ferðastyrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis:
          Tryggingastofnun ríkisins greiðir að fullu fargjald fram og til baka (fargjald innan lands er þó greitt að hluta).
          Tryggingastofnun ríkisins greiðir ferðastyrk vegna fylgdarmanns ef sjúklingur er yngri en 18 ára, ósjálfbjarga eða mjög mikil áhætta fylgir meðferð og/eða ferðalagi. Ef aðstæður eru þannig að nauðsyn er á að heilbrigðisstarfsmaður fylgi sjúklingi greiðir stofnunin ferðastyrk vegna starfsmannsins. Að jafnaði skal einungis greiddur ferðastyrkur vegna eins fylgdarmanns en ef læknisfræðilegar ástæður krefjast þess að heilbrigðisstarfsmaður fylgi sjúklingi er heimilt að greiða ferðastyrk vegna tveggja fylgdarmanna og þá aðallega ef sjúklingur er yngri en 18 ára. Ef um er að ræða erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms er heimilt að greiða ferðastyrk fyrir báða foreldra (eða tvo nánustu aðstandendur) ef sjúklingur er yngri en 18 ára.
          Tryggingastofnun ríkisins greiðir dagpeninga vegna nauðsynlegs uppihaldskostnaðar sjúklings erlendis utan sjúkrastofnunar, svo og vegna nauðsynlegs uppihaldskostnaðar fylgdarmanns. Greiðsla dagpeninga fer eftir sömu reglum og gilda um þjálfun, nám og eftirlitsstörf ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis, sbr. auglýsingu ferðakostnaðarnefndar og umburðarbréf nefndarinnar sem í gildi er á hverjum tíma (sbr. hér að neðan). Einungis skal greiða fjórðung dagpeninga fyrir börn yngri en fjögurra ára og helming dagpeninga fyrir fjögurra til ellefu ára börn. Ef fylgd heilbrigðisstarfsmanns hefur reynst nauðsynleg á hann rétt á greiðslu dagpeninga. Ef samþykktur hefur verið ferðastyrkur fyrir báða foreldra (eða nánustu aðstandendur) barns greiðast dagpeningar að fullu til annars foreldris en að hálfu til hins.
          Samkvæmt auglýsingu ferðakostnaðarnefndar nr. 3/2005 eru fjárhæðir dagpeninga eftirfarandi:

Gisting Annað Samtals
Almennir dagpeningar:
London, New York borg,

Washington DC og Tókíó

SDR 145 110 255
Annars staðar SDR 110 100 210
Dagpeningar vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsstarfa:


London, New York borg,

Washington DC og Tókíó

SDR 93 70 163
Annars staðar SDR 70 64 134