Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 782. máls.

Þskj. 1179  —  782. mál.



Skýrsla

samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar
sjóslysa (RNS) fyrir árið 2005.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Samgönguráðherra skipar rannsóknarnefnd sjóslysa í samræmi við lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000. Nefndarmenn og varamenn þeirra eru skipaðir til fjögurra ára í senn.
    Nefndarmenn eru nú skipaðir til 31. ágúst 2008. Þeir eru: Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður, formaður, Agnar Erlingsson skipaverkfræðingur, Hilmar Snorrason, skipstjóri og skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, Pétur Ágústsson skipstjóri og Pálmi K. Jónsson vélfræðingur.
    Eftirtaldir aðilar eru skipaðir varamenn til sama tíma: Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, varaformaður, Karl Lúðvíksson skipatæknifræðingur, Júlíus Skúlason skipstjóri, Rúnar Pétursson vélfræðingur og Símon Már Sturluson, skipstjóri og útgerðarmaður.
    Starfsmenn RNS eru Jón A. Ingólfsson framkvæmdastjóri og Guðmundur Lárusson fulltrúi.
    Fjárveiting til nefndarinnar í fjárlögum ársins 2005 var 31,9 millj. kr. Á árunum 1995– 2005 var kostnaður vegna starfsemi nefndarinnar eins og að aftan greinir. Tölur eru á verðlagi hvers árs en sambærilegar þar eð á árinu 2002 hefur verið tekið tillit til óreglulegs 8,4 millj. kr. kostnaðar vegna flutnings á starfsemi nefndarinnar út á land.

1995 8.707.209 kr.
1996 8.756.513 kr.
1997 11.555.170 kr.
1998 16.204.272 kr.
1999 14.914.467 kr.
2000 17.659.880 kr.
2001 20.662.317 kr.
2002 24.791.935 kr.
2003 32.367.836 kr.
2004 31.536.540 kr.
2005 24.835.358 kr.

    Á árinu 2005 voru haldnir sex fundir hjá RNS og 178 mál afgreidd. Skýrslur sem hefur verið skilað með nefndaráliti voru 88 en ekki var ályktað í 89 málum. Einu máli var vísað frá. Skilað var til Siglingastofnunar Íslands 4 tillögum í öryggisátt og verður vikið nánar að því síðar.
    Eins og fram kemur í töflu I fjölgar málum til nefndarinnar á milli ára 2004 og 2005 úr 151 í 168 eða um 10%. Tilkynnt og skráð mál hjá nefndinni hafa aldrei verið fleiri og af þessum málum var einungis eftir að afgreiða 27 um áramót. Á töflunni má sjá grófa flokkun á eðli mála ársins 2005 í samanburði við síðastliðin tíu ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur eru eðli mála eins og í meðalári nema að áberandi fjölgun er undir liðunum Eldur um borð og Árekstur. Þrjú banaslys voru á árinu. Skipverji lést er hann varð á milli toghlera og gálga á veiðum á Faxaflóa og tveir bátsverjar létust í slysi þegar skemmtibátur sigldi á sker innan hafnarsvæðis Faxaflóahafna. Auk þessara banaslysa fórst annar erlendra skipverja um borð í bandarískri skútu á milli Íslands og Grænlands. Það mál er ekki í töflu I.
    Undir liðnum Annað eru skráð þau mál sem ekki falla undir flokkun í þessari töflu og má þar nefna atvik þegar skip fengu í skrúfuna og voru dregin til hafnar, bilanir í búnaði, skemmdir vegna veðurs, farmskemmdir o.fl.
    Af 168 skráðum málum ársins hjá RNS voru 44 eða 26% tekin úr fjölmiðlum, 54 eða 32% komu frá lögregluembættum á landinu, 48 eða 28% komu frá útgerð og skipstjórum en þess ber að gæta að 31 af þeim málum komu frá tveimur útgerðum. Landhelgisgæslan og Vaktstöð siglinga voru saman með 9 eða 6%, aðrir voru með 13 eða 8%.
    Til að hafa áhrif á þetta gaf RNS út upplýsingarit á árinu um starfsemi nefndarinnar, áherslur, meðferð mála og skyldur aðila. Nefndin telur mjög mikilvægt að ná til allra atvika á sjó og vista þau í gagnagrunn RNS til notkunar á tölulegum upplýsingum í framtíðarvinnu við að auka öryggi til sjós.
    Á árinu 2005 var gefin út prentuð skýrsla RNS fyrir árin 2002 og 2003. Skýrslurnar eru gefnar út saman og í sama broti og skýrslurnar fyrir 2000 og 2001 sem komu út á síðasta ári. Stefnt er að því að ljúka útgáfu skýrslna RNS með þessum hætti þar til komið verði að árlegri útgáfu. Hægt er að nálgast útgefnar prentaðar skýrslur á PDF-formi á vef RNS ásamt öllum lokaskýrslum auk tilkynntra atvika til nefndarinnar sem birtast þar strax.
    Eins og á undanförnum árum kemur aðeins hluti þeirra mála er varða slys á sjómönnum til RNS miðað við tilkynnt slys til Tryggingastofnunar ríkisins (TR). En eins og síðustu ár hefur hlutfall tilkynntra slysa til RNS verið í hærra lagi og á árinu 2005 fékk RNS til sín um 25% af tilkynntum slysum á sjómönnum til TR. Til ársins 2004 var meðaltalið um 17%. Markmið RNS er að ná til sín og skrá öll óhöpp og slys til sjós.
    Tilkynnt slys á sjómönnum til TR á árinu 2005 voru 363 en voru 311 allt árið 2004. Það ár var talsvert undir meðaltali áranna á undan sem var 379. Eins og sjá má á þessum tölum er ljóst að stærstur hluti aðila virðir ekki tilkynningarskyldu sína til RNS samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/2000, um rannsókn sjóslysa.
    Tafla II sýnir fjölda bótaskyldra slysa samkvæmt tilkynningum til TR frá árinu 1996 til 2005.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í byrjun mars 2005 sótti framkvæmdastjóri stofnfund hjá E-MAIIF (European Marine Accident Investigators International Forum) í Helsinki. Fundinn sóttu í þetta sinn 31 aðilar frá 18 löndum. Meginástæða þess að stofnuð var deild innan Evrópu er að ljóst þykir að mestar líkur eru á miklu samstarfi Evrópulanda þegar litið er til framtíðar. Í febrúar og nóvember 2005 var framkvæmdastjóra boðið á tvo fundi hjá EMSA (European Maritime Safety Agency) til Brussel. Á fyrri fundinum kynnti EMSA vinnu sína að samræmdum reglum fyrir Evrópuríki um rannsóknir á sjóslysum. Á seinni fundinum var kynntur fyrirhugaður sameiginlegur gagnagrunnur fyrir rannsóknir innan Evrópu.