Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 567. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1225  —  567. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Hauk Guðmundsson frá dómsmálaráðuneyti og Hallgrím Snorrason og Skúla Guðmundsson frá Hagstofu.
    Umsagnir um málið bárust frá Persónuvernd, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóra og Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem leiða af flutningi þjóðskrár og almannaskráningar frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um tilkynningar aðsetursskipta sem leiða af nýjum norrænum samningi um almannaskráningu frá 1. nóvember 2004. Samkvæmt samningnum á skráning á flutningi fólks milli Norðurlandanna að byggjast á rafrænum flutningstilkynningum milli þjóðskrár ríkjanna í stað samnorrænna flutningsvottorða.
    Nefndin telur mikilvægt, með vísan til nefndarálits um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, að unnið verði að því í dómsmálaráðuneyti með Persónuvernd að endurskoða þau ákvæði laga sem skráning persónuupplýsinga í þjóðskrá byggist á.
    Þá leggur nefndin til að gildistöku verði frestað til 1. júlí 2006 svo að tími gefist til að ljúka verkefnum og undirbúa flutninginn.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    30. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.

    Atli Gíslason sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 27. apríl 2006.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Birgir Ármannsson.


Björgvin G. Sigurðsson.


Kjartan Ólafsson.



Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Guðrún Ögmundsdóttir.