Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 447. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1239  —  447. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason og Guðna Olgeirsson frá menntamálaráðuneyti, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólaf Loftsson og Þórð Hjaltested frá Félagi grunnskólakennara, Stefán Jón Hafstein frá menntaráði Reykjavíkurborgar, Jón Inga Einarsson og Kristin Breiðfjörð frá Skólastjórafélagi Íslands, Ingibjörgu Rafnar, umboðsmann barna, Margréti Pálu Ólafsdóttur frá Hjallastefnunni og Samtökum sjálfstæðra skóla, Jónínu Kárdal og Gunnlaugu Hartmannsdóttur frá Félagi starfs- og námsráðgjafa, Jóhönnu Rósu Arnardóttur frá Samtökum foreldrafélaga leikskóla í Reykjavík, Helga Grímsson frá Samtökum áhugafólks um skólaþróun, Elínu Thorarensen og Maríu Kristínu Gylfadóttur frá Heimili og skóla og Herdísi Storgaard frá Árvekni.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Kennaraháskóla Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþjóðahúsinu ehf., Eyþingi, Samtökunum Börnin okkar, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SAMFOK (Sambandi foreldrafélaga og foreldraráða í Reykjavík), SAMKÓP (Samtökum foreldrafélaga og foreldraráða í Kópavogi), Samtökum sjálfstæðra skóla, Hjallastefnunni ehf., Skólastjórafélagi Íslands, Heimili og skóla, menntaráði Reykjavíkurborgar, Samtökum áhugafólks um skólaþróun, Félagi náms- og starfsráðgjafa, umboðsmanni barna, Félagi grunnskólakennara, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi grunnskólalögum hvað varðar m.a. stofnun grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og lágmarksframlög sveitarfélaga til þeirra. Frumvarpið kveður einnig á um ýmsar breytingar sem lúta að foreldraráðum og einnig skyldu til að stofna nemendaráð við hvern skóla ásamt fleiri breytingum.
    Athugasemdir bárust um nokkur atriði og meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu er lúta einkum að réttindum og skyldum nemenda og foreldra og einnig varðandi málsmeðferð og eru þær í samræmi við ábendingar frá umboðsmanni barna.
    Við umfjöllun nefndarinnar um 23. gr. frumvarpsins sem fjallar m.a. um viðurkenningu grunnskóla sem eru reknir af öðrum en sveitarfélögum og einnig um framlag úr sveitarsjóði til starfsemi þeirra hafa komið fram skiptar skoðanir um hvort rétt sé að kveða í lögum á um lágmarksframlag frá sveitarfélögunum til framangreindra skóla. Meiri hlutinn telur að nauðsynlegt sé að kveða á um slíkt, einkum með hliðsjón af því að slíkt ákvæði tryggir betur rekstrargrundvöll skólanna og enn fremur jafnræði nemenda.
    Þau sjónarmið hafa komið fram að æskilegt sé að fresta frumvarpinu og láta efnisatriði þess bíða heildarendurskoðunar grunnskólalaganna sem nú er hafin í nefnd skipaðri af menntamálaráðherra. Meiri hlutinn telur að þrátt fyrir framangreinda heildarendurskoðun sé tilefni til að frumvarpið verði nú að lögum þar sem það bæti verulega núgildandi grunnskólalög. Það sjónarmið kom einnig fram hjá umboðsmanni barna.
    Verður nú gerð grein fyrir breytingartillögum meiri hlutans:
     1.      Lagt er til að 3. gr. verði í fyrsta lagi breytt á þá leið að skýrar verði kveðið á um afdráttarlausa skyldu skólastjóra til að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef misbrestur er á skólasókn barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli henni. Samkvæmt frumvarpsgreininni eins og hún er orðuð nú, um að skólastjóri skuli leita leiða til úrbóta, „eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda“, mætti álykta að um mat skólastjóra væri að ræða en svo er ekki. Skv. 6. gr. laganna ber forráðamaður ábyrgð á því að barn sæki skóla. Ef misbrestur er á skólasókn án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli má telja að foreldrar séu að bregðast framangreindum skyldum og einnig forsjárskyldum sínum. Í ákvæðum 16. og 17. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda, m.a. sérstaklega kveðið á um í 17. gr. þeirra laga um tilkynningarskyldu skólastjóra. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að skýrar verði kveðið á um tilkynningarskyldu skólastjóra til barnaverndaryfirvalda. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að forráðamönnum verði einnig veitt heimild til að vísa málum til úrlausnar skólanefndar í þeim tilvikum þar sem þeir sætta sig ekki við ákvörðun skólastjórans en í frumvarpinu er eingöngu gert ráð fyrir að skólastjóri geti vísað málinu til skólanefndar. Rökin fyrir þeirri breytingu eru þau að misbrestur á skólasókn getur stafað af atvikum er snúa að skólanum sjálfum, t.d. einelti í skólanum sem skólastjórnin hefur ekki tekið á að mati forráðamanna.
     2.      Meiri hlutinn leggur til að bætt verði málslið við 5. gr. er kveði á um að forráðamaður geti vísað synjun skólastjóra um undanþágu frá skólasókn til skólanefndar. Ákvörðun skólastjóra um tímabundna undanþágu frá skólasókn getur varðað nemanda miklu og meiri hlutinn telur því mikilvægt að forráðamaður geti vísað synjun skólastjóra til skólanefndar.
     3.      Lögð er til breyting á 8. gr. frumvarpsins. Samkvæmt greininni skal foreldraráð fá til umsagnar fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær liggur fyrir. Meiri hlutinn leggur til að í stað orðanna „liggur fyrir“ komi orðin „er tekin“. Merkingarmunur getur verið á framangreindum orðasamböndum, bæði málsfarslegur og lagalegur.
     4.      Meiri hlutinn leggur til breytingar á 9. gr. Í fyrsta lagi að greinin kveði á um það að nemendaráð fái skólanámskrá og aðrar áætlanir eða breytingar á skólahaldi til umsagnar en ekki til kynningar. Með þeirri breytingu telur meiri hlutinn að betur séu tryggð réttindi barna skv. 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um skyldu aðildarríkja til að tryggja barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum þeim málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Með framangreindri breytingu er umsagnarréttur nemenda lögbundinn. Meiri hlutinn áréttar að með framangreindri breytingu er ekki verið að skylda nemendaráð til að gefa umsögn heldur er með breytingunni skýrar kveðið á um að nemendur hafi rétt til þess og skylt sé að leita eftir því óháð því hvort nemendur gefa umsögn. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til sams konar orðalagsbreytingu og á 8. gr. frumvarpsins sem gerð er grein fyrir hér að framan.
     5.      Lagt er til að 12. gr. falli brott. Í greininni er gert ráð fyrir því að skylda til ráðningar aðstoðarskólastjóra í grunnskóla þar sem starfa 12 starfsmenn eða fleiri, sbr. 2. mgr. 23. gr. gildandi laga, verði felld brott. Vart hefur verið við verulega andstöðu við þessa breytingu, m.a. hjá Kennarasambandi Íslands og Heimili og skóla, og því er lagt til að 23. gr. gildandi laga standi óbreytt.
     6.      Þá er lögð til breyting á b-lið 14. gr. frumvarpsins um að bætt verði við upptalningu á 4. mgr. 29. gr. laganna orðunum „og stöðu að öðru leyti“. Með þeirri viðbót telur meiri hlutinn að skýrt komi fram að ekki sé um að ræða tæmandi talningu í ákvæðinu auk þess sem slík viðbót er betur í samræmi við orðalag 65. gr. stjórnarskrárinnar.
     7.      Lögð er til breyting á 16. gr. frumvarpsins þannig að skýrt komi fram að skólanámskrá skuli send nemendaráði til umsagnar en ekki einungis kynnt nemendaráði eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þessi breyting er í samræmi við breytinguna á 9. gr. frumvarpsins.
     8.      Þá er lögð til breyting á 17. gr. frumvarpsins. Greinin felur í sér auknar heimildir til mats á námi utan grunnskóla til valgreina. Meiri hlutinn telur að ákvörðun um að fá starf eða nám utan skólans metið sé mikilvæg fyrir nemendur og því æskilegt að forráðamaður geti kært ákvörðun skólastjóra um synjun til skólanefndar.
     9.      Meiri hlutinn leggur til að bætt verði við 20. gr. ákvæði um skyldu skólastjóra og skólanefndar til að gera forráðamönnum nemanda grein fyrir þeim reglum sem um málsmeðferð gilda, m.a. um kærurétt.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 2006.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.Ingvi Hrafn Óskarsson.


Hjálmar Árnason.