Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1295  —  477. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir.

     1.      Hvað líður athugun ráðuneytisins á tillögum sem fram koma í skýrslu Kristjáns Más Magnússonar frá 31. ágúst 2004 um „skilgreiningu þriggja þjónustustiga í málefnum barna og unglinga með geðraskanir og aðgerðir til að auka samþættingu þjónustunnar“?
     2.      Hefur ráðuneytið mótað afstöðu sína til þeirra tillagna sem fram koma í skýrslunni?
    Menntamálaráðuneytið fagnar skýrslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins „Samhæfing í málefnum barna og unglinga með hegðunarvanda og geðraskanir. Tillaga um skilgreiningu þriggja þjónustustiga í málefnum barna og unglinga með geðraskanir og aðgerðir til að auka samþættingu þjónustunnar.“ Ráðuneytið er sammála greiningu Kristjáns Más Magnússonar verkefnisstjóra á vandanum og mikilvægi þess að auka samhæfingu á þessu sviði til að auka samþættingu þjónustunnar. Einnig er ráðuneytið sammála tillögu um skilgreiningu á þremur þjónustustigum, þ.e. grunnþjónustu, ýtarþjónustu og sérþjónustu. Menntamálaráðuneytið telur að skýrsla Kristjáns Más Magnússonar sé greinargóð og tekur undir skilgreiningu hans á málaflokknum. Menntamálaráðuneytið hefur sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf þar sem afstaða ráðuneytisins til skýrslunnar og tillagna hennar kemur fram.
    Í skýrslunni er dregin upp sú mynd af umfangi vandans að 80–85% barna séu ekki í neinni sérstakri þjónustuþörf en 12–15% séu með vægari geðraskanir og að 2–5% eigi við alvarlegar geðraskanir að stríða og séu í mjög mikilli þjónustuþörf. Síðasttaldi hópurinn er talinn eiga í alvarlegum örðugleikum í lífinu.
    Ráðuneytið leggur mikla áherslu á almennar aðgerðir í tengslum við skipulag skóla og vinnubrögð og starfshætti sem miðist að því að tryggja velferð og vellíðan nemenda í nánu samstarfi við foreldra. Nánari lýsingar á almennum starfsháttum skóla koma fram í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá grunnskóla. Einnig leggur ráðuneytið sérstaka áherslu á að skólar vinni skipulega gegn einelti og hefur undanfarin ár haft frumkvæði að innleiðingu Olweusaráætlunar gegn einelti sem nú tekur til rúmlega helmings grunnskólanemenda. Stefnt er að því að bjóða öllum grunnskólum að taka þátt í verkefninu á næstu árum en verulega hefur dregið úr einelti í þátttökuskólum. Ráðuneytið leggur einnig áherslu á hvers konar forvarnastarf í grunn- og framhaldsskólum. 1999 var skilgreind ný námsgrein, lífsleikni, í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla til að beina sjónum sérstaklega að nemendum sjálfum, persónuþroska, sjálfsstyrkingu þeirra og almennri lífsleikni. Endurskoðun á aðalnámskrám stendur nú yfir og verður lífsleikninámskráin endurskoðuð í ljósi reynslunnar en mikið þróunarstarf hefur farið fram í skólum. Loks má nefna að ráðuneytið leggur mikla áherslu á foreldrasamstarf og gagnkvæm tengsl og upplýsingamiðlun og virka þátttöku foreldra, m.a. til að byggja upp sem bestan skólabrag og heilbrigt skólasamfélag.
    Þótt öll almenn umgjörð skólasamfélagsins sé eins og best verður á kosið þá má alltaf gera ráð fyrir erfiðleikum vegna ákveðins hluta nemenda með hegðunarvanda og geðraskanir. Mikilvægt er að öll þjónusta sé skilvirk, aðgengileg og vel samþætt til þess að hægt sé að bregðast við vandanum með viðeigandi hætti. Í þessu sambandi vill ráðuneytið draga fram eftirfarandi atriði úr skýrslunni, sem beint lúta að starfssviði menntamálaráðuneytisins.

Reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla, nr. 386/1996.
    Í skýrslunni er lagt til að meðferðar- eða íhlutunarþáttur sérfræðiþjónustu við skóla verði efldur og hlutverk hans gagnvart börnum og unglingum með geðraskanir verði skýrt. Eins og fram kemur í skýrslunni á bls. 10 var í tengslum við flutning grunnskólans til sveitarfélaga dregið úr hlutverki stofnana á vegum sveitarfélaga og menntakerfis á sviði meðferðar og íhlutunar. Var gert ráð fyrir að sú starfsemi flyttist til heilbrigðisyfirvalda. Engu að síður hefur sérfræðiþjónusta skóla víða um land sinnt nemendum með hegðunarvanda og geðraskanir umfram ákvæði reglugerðar, en yfirlit liggur ekki fyrir um umfang þeirrar þjónustu. Í tengslum við heildarendurskoðun á grunnskólalögunum sem stendur fyrir dyrum þarf að skoða ákvæði laganna um sérfræðiþjónustu skóla, m.a. í ljósi skýrslunnar. Ljóst er að ef auka á íhlutun sérfræðiþjónustu skóla eins og lagt er til í skýrslunni þarf bæði laga- og reglugerðarbreytingu og aukið fjármagn til sérfræðiþjónustunnar. Ekki liggur fyrir kostnaðarmat en slíkar breytingar verða ekki gerðar nema fyrir liggi með hvaða hætti staðið verði að slíkum kostnaðarauka í ljósi verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Í framhaldi af setningu nýrra grunnskólalaga þarf að endurskoða reglugerðir við lögin, þ.m.t. reglugerð um sérfræðiþjónustu í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Einnig er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytið standi að rannsóknum og kerfisbundnu eftirliti með starfsemi sérfræðiþjónustu skóla. Ráðuneytið er reiðubúið að vinna að úttekt á starfsemi sérfræðiþjónustu skóla í samvinnu við Sambandið.

Reglugerðir um sérfræðiþjónustu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.
    Í skýrslunni er lagt til á bls. 12 að reglugerðir um sérfræðiþjónustu skóla fyrir öll skólastig, frá leikskóla til framhaldsskóla, verði samhæfðar og skilgreindur þar réttur barna og unglinga, frá 0–18 ára, með hvers konar sérþarfir til greiningar og íhlutunar. Menntamálaráðuneytið telur að í tengslum við áform um breytta námsskipan til stúdentsprófs og aukna samfellu í skólastarfi, sbr. skýrslu menntamálaráðuneytisins frá því í ágúst 2004, þurfi að kanna hvort sérfræðiþjónustan sé betur sett ef hún er skipulögð heildstætt fyrir öll þessi skólastig. Eðlilegast er að skipa nefnd með fulltrúum þeirra ráðuneyta sem málið varðar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að fara yfir þessa hugmynd og skilgreina sérstaklega hlut ríkisins varðandi sérfræðiþjónustu fyrir framhaldsskóla, en víða reka sveitarfélög saman sérfræðiþjónustu fyrir leik- og grunnskóla.

Skólaheilsugæsla.
    Lagt er til að hlutverk skólaheilsugæslu verði endurskoðað, með nýjum starfsreglum og verklýsingu. Menntamálaráðuneytið tekur undir tillögur sem lúta að eflingu skólaheilsugæslunnar og telur að sérstaklega þurfi að huga að eflingu skólaheilsugæslu fyrir framhaldsskólanemendur.

Íhlutunar- og meðferðarstarf í sérdeildum og sérskólum.
    Menntamálaráðuneytið telur eðlilegt að sérdeildir og sérskólar á vegum sveitarfélaga á grunnskólastigi og ríkisins á framhaldsskólastigi geti sinnt ákveðinni íhlutun í málefnum barna og unglinga með vægari geðraskanir. Sérdeildir hafa verið stofnaðar við marga framhaldsskóla og hefur starfsemin eflst mjög og fjárframlög aukist. Á grunnskólastigi hafa orðið breytingar á fyrirkomulagi, m.a. með stofnun Brúarskóla og Gaulverjaskóla, og breytingar hafa orðið á sérdeildum í ljósi stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Eðlilegt er í því sambandi að endurskoða úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gagnvart nemendum á grunnskólastigi annars vegar og framlög menntamálaráðuneytisins til sérdeilda á framhaldsskólastigi hins vegar.

Efling rannsókna og endurmenntunar.
    Ráðuneytið tekur undir tillögur í skýrslunni um íslenskrar rannsóknir um algengi og eðli geðraskana og árangur íhlutunar. Einnig tekur ráðuneytið undir nauðsyn þess að huga vel að endurmenntun starfsmanna sem sinna börnum og unglingum á þessu sviði þannig að starfið verði sem markvissast. Hægt er að sækja um styrki úr Endurmenntunarsjóðum grunnskóla og framhaldsskóla til ýmiss konar endurmenntunar.

Nemendaverndarráð grunnskóla.
    Í gildandi grunnskólalögum frá 1995 er heimildarákvæði um nemendaverndarráð til að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda varðandi námsráðgjöf, sérfræðiþjónustu og heilsugæslu. Á undanförnum árum hefur starfsemi nemendaverndarráða eflst til muna. Í tengslum við fyrirhugaða heildarendurskoðun á grunnskólalögum kemur vel til greina að víkka hlutverk nemendaverndarráða til þess að hægt sé að tryggja meiri samhæfingu í málefnum einstakra nemenda í samstarfi við sérfræðiþjónustu og heilsugæslu. Að mati ráðuneytisins þurfa úrræði innan skóla að vera markviss og samhæfð og myndu öflug nemendaverndarráð stuðla að því.
    Ráðuneytið telur mikilvægt í framhaldi þessarar vinnu að hafa einnig til hliðsjónar „Skýrslu nefndar forsætisráðherra um stefnu í málefnum barna og ungmenna“ sem lögð var fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005. Nefndin var skipuð til að undirbúa opinbera stefnu í málefnum barna og ungmenna og markmiðin lúta t.d. að forvörnum, greiningu og meðferð geð- og atferlisraskana hjá börnum og ungmennum og heilsugæslu í skólum.
    Ráðuneytið hefur fylgst með umræðum hér á landi um svokallaða MST-meðferð, þ.e. fjölþáttameðferð (multisystemic treatment) sem er hnitmiðuð meðferð sem beinist að gervöllu félagslegu umhverfi barns/unglings, fjölskyldu, vinahópi, skóla, tómstundum o.s.frv. Meðferðin er þróuð í Bandaríkjunum og hefur t.d. náð mikilli útbreiðslu í Noregi. Þessi meðferðarkostur er lítillega kynntur í skýrslu Kristjáns en var kynntur sérstaklega á ráðstefnu á vegum Barnaverndarstofu 12. maí 2005. Menntamálaráðuneytið telur æskilegt að huga að tilraunaverkefni hér á landi með MS-fjölþáttameðferð. Slíkt geti verið góður valkostur fyrir börn og ungmenni með geðraskanir. Mikilvægt er að auka valkosti í meðferð barna og ungmenna með hegðunar- og geðraskanir og gera tilraunir í þeim efnum. Ráðuneytið er tilbúið til frekari viðræðna við önnur ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga um með hvaða hætti unnt sé að auka valkosti í meðferð.
    Ráðuneytið hvetur til þess að mikilvægar samhæfingaraðgerðir í kjölfar skýrslu um málefni barna og unglinga með geðraskanir og hegðunarvanda séu undir einni stjórn til að taka heildstætt á málefninu. Þær hugmyndir sem lagðar eru fram í skýrslunni eru innlegg í þá vinnu og verður að fara fram í samhengi við þá stefnu sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tekur í framhaldinu. Mikilvægt er að setja upp framkvæmda- og fjárhagsáætlun til nokkurra ára til að unnt verði að bæta markvisst samhæfinguna á þessu sviði. Menntamálaráðuneytið er reiðubúið að taka þátt í þeirri vinnu.

     3.      Ef nefnd hefur verið sett í málið, hverjir eiga sæti í henni, hvenær hóf hún störf og hvenær á hún að ljúka störfum?
    Ekki hefur verið skipuð formleg nefnd til áframhaldandi vinnu í kjölfar skýrslu Kristjáns Más en aðstoðarmenn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra hafa myndað óformlegan starfshóp til að vinna áfram að málinu milli ráðuneytanna.