Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 750. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1303  —  750. mál.
Svarheilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um daggjöld á Sóltúni.

     1.      Hver voru daggjöld á hjúkrunarheimilinu Sóltúni árin 2003, 2004 og 2005, sundurgreint, og hver voru meðaldaggjöld til annarra hjúkrunarheimila sömu ár?
    Áður en daggjöld Sóltúns og annarra hjúkrunarheimila eru borin saman ber að hafa í huga að daggjaldi Sóltúns er ætlað til að standa undir kostnaði við að byggja og reka hjúkrunarheimili, en daggjöldum annarra hjúkrunarheimila er ætlað til að mæta kostnaði við reka þau. Beinn samanburður sem gerður er án þess að taka tillit til þessa eðlismunar á samningsbundnum greiðslum til langs tíma og daggjöldum er marklaus.
    Daggjöld Sóltúns eru reiknuð út frá RUG 34 fl. RAI-kerfi, en daggjald annarra hjúkrunarheimila er reiknað út frá RUG 44 fl. RAI-kerfi. Auk þess er daggjald Sóltúns óbreytt miðað við bilið RAI = 1,05 til RAI = 1,20. Í þeim samanburði sem hér fer á eftir eru daggjöld til annarra hjúkrunarheimila miðuð við RAI = 1,01 og breytist það hlutfallslega miðað við hækkandi RAI.
    Lögð skal áhersla á og dregið sérstaklega fram að kostnaður við að byggja Sóltún er reiknaður inn í daggjald Sóltúns í formi húsnæðisgjalds, en hvorki byggingarkostnaður né húsnæðisgjald er innifalið í daggjaldi annarra hjúkrunarheimila. Þá er rétt að taka fram að Sóltún á, eðli samningsins vegna sem gerður var um rekstur heimilisins, ekki rétt á framlögum úr Framkvæmdasjóði.
    Í eftirfarandi yfirliti eru daggjöld Sóltúns og daggjöld annarra hjúkrunarheimila árin 2003–2005. Daggjald annarra hjúkrunarheimila árið 2004 er meðaltal af daggjaldi sem tók gildi 1. janúar 2004 og daggjaldi sem tók gildi 1. mars 2004. Daggjöld Sóltúns eru reiknuð að hluta út frá upplýsingum um meðallaun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna birtir. Kjararannsóknarnefnd hefur ekki birt upplýsingar um laun þessara stétta fyrir árið 2005 og eru daggjöld fyrir það ár áætluð og ekki endanleg.

Daggjöld Sóltúns og annarra hjúkrunarheimila.

Hjúkrunarheimili Rug RAI 2003 2004 2005
Sóltún 34 fl. 1,05–1,20 20.044 20.588 21.691
Önnur hjúkrunarheimili 44 fl. 1,01 12.360 13.042 13.754

     2.      Hver var greiðsla húsnæðiskostnaðar á fermetra sömu ár og af hve mörgum fermetrum var greitt? Hve stórt er hjúkrunarheimilið í fermetrum talið?
    Húsnæðisgjald Sóltúns á ári var 14.270 kr. á m 2 fyrir árið 2003, 14.759 kr. á m 2 árið 2004 og er áætlað 15.309 kr. á m 2 árið 2005. Innifalið í húsnæðisgjaldi Sóltúns er húsaleiga, viðhald o.fl. Viðhaldshluti húsnæðisgjalds Sóltúns á ári var 1.573 kr. á m 2 fyrir árið 2003, 1.626 kr. á m 2 árið 2004 og áætlað viðhald er 1.687 kr. á m 2 fyrir árið 2005.
    Greitt var húsnæðisgjald fyrir 6.731 m 2 árið 2003, 6.749 m 2 árið 2004 og fyrir 6.796 m 2 árið 2005. Hjúkrunarheimilið Sóltún er 6.800 m 2.
     3.      Hver var greiðsla húsnæðiskostnaðar á fermetra til annarra hjúkrunarheimila?
    Húsnæðisgjaldi sem greitt er til annarra hjúkrunarheimila er eingöngu ætlað að mæta kostnaði við almennt viðhald á húsnæði hjúkrunarheimila. Húsnæðisgjald á ári til annarra hjúkrunarheimila var 2.000 kr. á m 2 fyrir árið 2003, 2.050 kr. á m 2 fyrir árið 2004 og 2.114 kr. á m 2 fyrir árið 2005.

     4.      Er húsnæðisgjald greitt eftir sömu viðmiðum til Sóltúns og annarra hjúkrunarheimila?
    Nei, húsnæðisgjald er ekki greitt eftir sömu viðmiðum til Sóltúns og annarra hjúkrunarheimila. Hins vegar er viðhaldsþáttur húsnæðisgjalds Sóltúns sambærilegur við húsnæðisgjald annarra hjúkrunarheimila, sbr. svar við 2. lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Hver var þátttaka ráðuneytisins í magnleiðréttingum lyfjakaupa samkvæmt kafla 0.1.53 í samningi milli ráðuneytis og Sóltúns árin 2003, 2004 og 2005? Njóta önnur hjúkrunarheimili sambærilegra leiðréttinga vegna lyfjakaupa?
    Þátttaka í lyfjakostnaði samkvæmt kafla 0.1.53 í samningi milli ráðuneytisins og Sóltúns var 4.312.828 kr. fyrir árið 2003, 2.969.370 kr. fyrir árið 2004. Umsókn frá Sóltúni um þátttöku í lyfjakostnaði fyrir árið 2005 liggur ekki fyrir.
    Önnur hjúkrunarheimili njóta ekki sambærilegra leiðréttinga vegna lyfjakaupa. Hins vegar geta lítil öldrunarheimili sótt um framlög úr sjóði sem er í umsjá ráðuneytisins þegar lyfjakostnaður þeirra er talsvert umfram það sem gert er ráð fyrir í daggjöldum öldrunarheimila.