Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 767. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1305  —  767. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um Framkvæmdasjóð aldraðra.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve mikið fé var veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarheimila árin 2003, 2004 og 2005 og til hvaða hjúkrunarheimila var það?
     2.      Hvaða skuldbindingar hvíla nú á sjóðnum?


    Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs hjúkrunarheimila var 276,5 millj. kr. á árinu 2003, 231,5 millj. kr. á árinu 2004 og 231,5 millj. kr. á árinu 2005.
    Framlag Framkvæmdasjóðs aldraðra er reiknað inn í daggjöld hjúkrunarheimila og greitt til allra hjúkrunarheimila sem fá greidd daggjöld skv. A-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1162/2005, um daggjöld stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2006. Daggjald fyrir hjúkrunarrými er reiknað út frá framlagi frá ríkissjóði, framlagi frá Framkvæmdasjóði aldraðra og áætlaðri þátttöku vistmanna í rekstri hjúkrunarrýma. Fjárhæð Framkvæmdasjóðs til einstaks hjúkrunarheimilis er því misjafnt og fer eftir fjölda rýma sem greitt er fyrir og eftir RAI-mati heimilisins.
    Framlag Framkvæmdasjóðs aldraðra sem hlutfall af daggjaldi miðað við RAI = 1,01 var 3,93% eða 486 kr. á árinu 2003. Á árinu 2004 var hlutfallið 2,73% eða 350 kr. og árið 2005 var hlutfall framlags Framkvæmdasjóðs aldraðra í daggjaldi 2,44% eða 335 kr.
    Skuldbindingar Framkvæmdasjóðs aldraðra ná einungis til þeirra úthlutana sem ráðherra samþykkir að greiddar verði úr sjóðnum á hverju ári. Við úthlutun úr sjóðnum er farið yfir umsóknir um framlög vegna nýrra og eldri framkvæmda sem ýmist er lokið eða enn í vinnslu og metið að hve miklu leyti sjóðurinn greiði í þessum verkum samkvæmt lögum og reglugerðum um Framkvæmdasjóð aldraðra.