Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 776. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1306  —  776. mál.
Svarheilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um bið eftir endurhæfingu.

    Fyrispurnin hljóðar svo:
    Hversu margir bíða nú eftir endurhæfingu á heilbrigðisstofnunum, flokkað eftir stofnunum? Hve lengi hafa þeir sjúklingar beðið sem beðið hafa lengst og hversu löng er biðin nú?

    Samkvæmt upplýsingum sem safnað var um mánaðarmótin apríl/mars sl. voru biðlistar eftir endurhæfingu á fjórum heilbrigðisstofnunum á landinu.
    Á endurhæfingardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri á Kristnesi eru 195 á biðlista. Sá sem lengst hefur verið á listanum hefur verið þar í rúmlega þrjú ár. Meðalbiðtími er tæpir átta mánuðir. Ekki eru taldir með þeir sem koma beint af öðrum deildum sjúkrahússins og fara ekki á biðlista.
    Á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði eru 538 á biðlista. Lengsta bið er tæplega fjórir mánuðir en meðalbiðtími rúmlega tveir og hálfur mánuður.

Biðlistar á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands.

Á biðlista Biðtími, vikur
Öldrunarlína 138 12–16
Stuðningslína 71 2–4
Gigtarlína 63 12–16
Bæklunarlína 59 4–12
O–lína 53 12–16
Verkjalína 50 12–16
Hjartalína 40 12–16
Heilsuefling 30 12–16
Krabbameinslína 20 2
Liðskiptalína 14 2
Samtals á biðlista 538

    Eftir endurhæfingu á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi bíða 95. Meðalbiðtími er um sjö og hálfur mánuður. Inni í þessari tölu eru um 30 manns sem hefur verið boðin innlögn en hafa óskað eftir að fresta komu og vera áfram á biðlista. Þetta skekkir töluna nokkuð og því er ekki raunhæft að setja fram tölur um lengsta biðtíma.
    Á Reykjalundi eru 1.225 manns á biðlista. Lengsti biðtími er á gigtarsviði, 114 vikur, eða um það bil 26 mánuðir. Verið er að endurskoða þann biðlista og búist er við að hann styttist töluvert við það. Bið eftir þjónustu annarra sviða er 6–43 vikur, mismunandi eftir sviðum. Ekki tókst innan þess frests sem gefinn var til að svara fyrirspurninni að fá upplýsingar um meðalbiðtíma eftir þjónustu Reykjalundar.


Biðlistar á Reykjalundi.

Á biðlista Biðtími, vikur
Atvinnuendurhæfing 11
Gigtarsvið 243 114
Lungnasvið 93 27,3
Hjartasvið 78 22
Verkjasvið 212 27
Næringarsvið 376 64
Taugasvið 54 6,1–43
Geðsvið 158 39
1.225

    Ekki hefur enn gefist ráðrúm til að fara yfir biðlistana með tilliti til þess hvort einhverjir eru á lista hjá fleiri en einni stofnun en það verður gert innan skamms.