Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 787. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1320  —  787. mál.
Svarsamgönguráðherra við fyrirspurn Halldórs Blöndals um styttingu þjóðleiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða vegaframkvæmdir eru nú í athugun við endurskoðun samgönguáætlunar til styttingar á þjóðleiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur?

    Á Hringveginum á milli Akureyrar og Reykjavíkur hefur verið gerð mjög lausleg yfirlitsáætlun yfir fjóra styttingarmöguleika. Þriggja þeirra er getið á verkefnalista sem gerður hefur verið til undirbúnings vinnu við samgönguáætlun (2007–2018). Einn þeirra er sýnu vænstur. Er það leið um Svínavatn, sunnan Blönduóss, en þar mætti stytta leiðina um 13–15 km, eftir leiðavali. Aðrir möguleikar til styttingar eru: Leið sunnan Varmahlíðar, 3–4 km stytting. Yfir Grunnafjörð norðan Akrafjalls, 1 km stytting. Einnig hefur verið nefnd leið austan Holtavörðuheiðar, um Vesturár- og Fitjárdal, um 9 km stytting, en til þess þyrfti að leggja rúmlega 60 km langan kafla af Hringveginum. Óvíst er á þessu stigi hvaða verk koma til framkvæmda á næstu samgönguáætlun og hvort eða hvenær verður ráðist í einhver þessara verkefna.