Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 682. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1392  —  682. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Má Sigurðsson frá utanríkisráðuneyti.
    Hinn 31. ágúst 2005 var undirritaður í Hoyvík í Færeyjum samningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar. Markmið samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Samningurinn nær til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar, samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Jafnframt tekur samningurinn til fullrar fríverslunar með landbúnaðarvörur sem er nýmæli í samningum Íslands við önnur ríki. Grunnregla samningsins er bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru en hann felur þó ekki í sér samræmingu löggjafar á þeim sviðum sem samningurinn nær til.
    Til að innleiða samninginn þarf að gera margvíslegar breytingar á löggjöf og er frumvarp þetta lagt fram í því skyni. Breytingarnar sem lagðar eru til lúta að atriðum í löggjöf sem fjalla um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og rétt til stofnsetningar fyrirtækja hér á landi. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á lögum til að standa undir skuldbindingum Íslands samkvæmt nýjum stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Vaduz-samningnum svokallaða.
    Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að smávægilegar lagfæringar þurfti að gera á frumvarpinu en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða. Í fyrsta lagi er um lagfæringu á orðalagi að ræða en í öðru lagi er lagt til að 107. og 108. gr. frumvarpsins falli brott enda varða þær greinar breytingar á lagaákvæðum sem felld voru brott með lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. apríl 2006.Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Magnús Stefánsson.Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson.


Bjarni Benediktsson.