Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Nr. 24/132.

Þskj. 1496  —  391. mál.


Þingsályktun


um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2006–2009. Með byggðaáætluninni verði stefnt að því að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni landsins. Eftirfarandi meginmarkmið verði lögð til grundvallar:
     a.      Að landshlutakjarnar verði efldir en jafnframt hugað sérstaklega að leiðum til þess að treysta búsetu í þeim byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun.
     b.      Að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum á atvinnuháttum.
     c.      Að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni.
    Sérstök áhersla verði lögð á gildi menntunar og menningar, aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi, bættar samgöngur og fjarskipti og styrkingu landshlutakjarnanna Akureyrar, Ísafjarðar og Miðausturlands og annarra mikilvægra atvinnu- og þjónustumiðstöðva á landsbyggðinni.
    Á gildistíma byggðaáætlunar skulu stjórnvöld hafa þrjú meginatriði að leiðarljósi:
     a.      Að stórefla menntun á landsbyggðinni.
     b.      Að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.
     c.      Að efla Byggðastofnun og gera henni kleift með framlögum í fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála.
    Helstu aðgerðir sem gripið verði til í því skyni að ná markmiðum áætlunarinnar verði eftirfarandi:
     1.      Bættar samgöngur: Unnið verði að samgöngubótum og þróun almenningssamgangna á landsbyggðinni samkvæmt samgönguáætlun sem taki mið af mikilvægi þeirra fyrir eflingu byggðar. Byggðastofnun skal í samvinnu við Vegagerðina leggja mat á slík verkefni.
     2.      Efling sveitarstjórnarstigsins: Hafið verði markvisst samstarf milli ríkis og sveitarfélaga um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Jafnframt verði unnið að sameiningu eða samvinnu sveitarfélaga á heildstæðum atvinnu- og þjónustusvæðum sem taki við slíkri starfsemi.
     3.      Bætt fjarskipti: Unnið verði áfram að því að tryggja fjarskipti og bæta gagnaflutningsmöguleika á landsbyggðinni í samræmi við fjarskiptaáætlun og stuðlað að því að jafnaður verði mismunur á kostnaði við flutningana.
     4.      Gerð og framkvæmd vaxtarsamninga: Unnið verði að gerð og framkvæmd svæðisbundinna vaxtarsamninga þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar sameinast um aðgerðir til að efla samkeppnishæfni svæða og auka hagvöxt. Árangur af samningunum verði metinn reglulega.
     5.      Söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun: Árið 2006 verði skipulögð markviss söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna um byggðaþróun svo að reglubundin söfnun og úrvinnsla geti hafist hjá Byggðastofnun í upphafi árs 2007.
     6.      Undirbúningur að gerð landshlutaáætlana: Athugaðar verði niðurstöður verkefnis Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins um gerð svæðisáætlana á norðlægum slóðum og kannaðir kostir þess að gera landshlutaáætlanir á þeim grunni sem saman mundu ná yfir Ísland allt.
     7.      Athugun á stöðu byggðarlaga sem glíma við viðvarandi fólksfækkun: Gerð verði athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun. Styrkleikar þeirra og veikleikar verði metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna.
     8.      Styrking atvinnuþróunar: Stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni verði samhæft og starfið gert markvissara. Nýsköpunarmiðstöðinni á Akureyri og atvinnuþróunarfélögum verði áfram tryggður öruggur starfsgrundvöllur.
     9.      Efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar: Árið 2006 verði gerð áætlun um víðtæka eflingu rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni, m.a. á sviði orkumála, sjávarútvegs, ferðaþjónustu og landbúnaðar. Í áætluninni verði skilgreind áherslusvið og fyrirkomulag samstarfs mótað. Samstarfið verði rekið sem þróunarverkefni út gildistíma byggðaáætlunarinnar.
     10.      Uppbygging þekkingarsetra/háskólasetra: Áfram verði unnið að uppbyggingu þekkingarsetra/háskólasetra á landsbyggðinni.
     11.      Efling dreifmenntunar á öllum skólastigum: Kostir dreifmenntunar, þar sem aðferðum fjarkennslu og staðbundinnar kennslu er beitt saman, verði nýttir til að veita fjölbreytt námsframboð á öllum skólastigum með samstarfi skóla. M.a. verði stuðlað að samstarfi háskóla um fjarkennslu. Skilgreind verði ákveðin marksvið í starfsmenntun á landsbyggðinni og unnið að eflingu þeirra í samstarfi framhaldsskóla, fyrirtækja og móðurskóla í starfsmenntun.
     12.      Efling símenntunar: Framboð símenntunar á landsbyggðinni verði aukið í samstarfi símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Jafnframt verði stuðlað að samstarfi símenntunarmiðstöðva og framhaldsskóla um starfsmenntun fyrir fullorðna.
     13.      Efling menningarstarfsemi: Áfram verði unnið að gerð menningarsamninga við sveitarfélög. Stuðlað verði að auknu samstarfi safna á landsbyggðinni innbyrðis og við höfuðsöfn. Skoðaðir verði möguleikar þess að nýta nýja tækni, m.a. stafrænt sjónvarp, við gerð og miðlun menningar- og sjónvarpsefnis af landsbyggðinni. Unnið verði að eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfs á landsbyggðinni.
     14.      Hagnýting upplýsingatækni: Unnið verði að því að gera afrakstur tilraunaverkefnisins um rafrænt samfélag aðgengilegan fyrir önnur byggðarlög á landsbyggðinni.
     15.      Bætt heilbrigðisþjónusta: Unnið verði að bættri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, m.a. með flutningi verkefna á sviði heilbrigðismála frá ríki til sveitarfélaga. Heilbrigðisnet, sem m.a. tengir saman heilbrigðisstofnanir og gerir fjarlækningar mögulegar, verði þróað áfram og tekið í fulla notkun.
     16.      Efling þjónustu við innflytjendur og aukin fjölmenning: Unnið verði markvisst að gagnkvæmri samfélagsaðlögun innflytjenda. Kannað verði að frumkvæði heimamanna í hverjum landshluta hvort kostur sé á að stofna þjónustumiðstöðvar fyrir innflytjendur.
     17.      Greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina – efling opinberrar þjónustu: Gerð verði úttekt á stöðu landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar á landsbyggðinni og greind helstu sóknarfæri og nýsköpunarmöguleikar þessara hefðbundnu atvinnugreina. Hugað verði að því hvort efla megi opinbera þjónustu við þessar atvinnugreinar á landsbyggðinni, t.d. með flutningi tiltekinna verkefna.
     18.      Uppbygging ferðaþjónustu: Unnið verði að öflugri uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Áhersla verði lögð á sérkenni hvers landshluta og skipulagningu vaxtarsvæða. Þá verði unnið að því að bæta aðstöðu ferðamanna í þjóðgörðum og tryggja öruggt aðgengi þeirra.
     19.      Stuðningur við atvinnurekstur kvenna: Unnið verði að því að efla þátt kvenna í atvinnurekstri með ráðgjöf og námskeiðum. Hugað verði að leiðum til þess að gera stoðkerfi atvinnulífsins aðgengilegra fyrir konur.
     20.      Styrking skapandi greina: Unnið verði að eflingu skapandi greina í samræmi við ályktun Vísinda- og tækniráðs frá 2. júní 2005 með virkri þátttöku landsbyggðarinnar.
     21.      Efling umhverfisstarfs í sveitarfélögum: Umhverfisstarfsemi sveitarfélaga verði efld með áherslu á framkvæmd Staðardagskrár 21, einkum í fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni.
     22.      Þátttaka í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP): Ísland verði áfram virkur þátttakandi í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins.
     23.      Efling Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA): Ísland vinni áfram að því að útvíkka starfsemi NORA og beiti sér fyrir því að samstarfslöndin fjármagni starf nefndarinnar.
    Iðnaðarráðherra skipi verkefnisstjórn til þess að hafa umsjón með framvindu byggðaáætlunarinnar.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.