Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 16:38:39 (4026)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:38]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu sem segja má að einskorðist af því einu að almennt séu þingmenn mjög ánægðir með þetta framtak hæstv. samgönguráðherra sem er framlagning þessa frumvarps til vegalaga, sem er náttúrlega gjörbylting og breyting á þeim lögum sem nú eru í gildi. Það var vissulega tímabært að endurskoða vegalögin með tilliti til nútímans og þeirrar miklu umferðar sem við höfum upplifað á síðustu árum sem kemur kannski fyrst og fremst til vegna þess að hér á landi hefur ríkt mikið góðæri og menn hafa því getað veitt sér þann munað að kaupa fleiri bifreiðar. En eins og fram hefur komið er bifreiðaeign Íslendinga með því mesta sem gerist miðað íbúafjölda og það má kannski segja að við höfum ekki haldið vöku okkar nægilega hvað varðar uppbyggingu vega.

Menn hafa verið að blanda nokkuð saman 12 ára áætlun um samgöngumál og þessu ágæta frumvarpi og það er kannski ekki óeðlilegt í sjálfu sér. Það sem er líka merkilegt við hana er að þar hefur hæstv. samgönguráðherra lagt fram samræmda samgönguáætlun í flugi, á sjó og á landi og það passar auðvitað mjög vel við nútímann og er eðlilegt að horft sé til þess.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller um heimild til gjaldtöku af umferð sem hér er lögð til og þá tækni sem fram undan er og tæknimöguleika sem menn hafa til að leggja af þungaskatt og kílómetragjald eða olíugjald og taka upp þá tækni sem felst í GPS-tækjum, þá er auðvitað eðlilegt að líta til framtíðar hvað það áhrærir.

Rætt hefur verið um að varúðarbjöllur sveitarfélagsmanna hefðu hringt þegar þeir unnu með nefndinni. Ég átti þess kost að sitja í þeirri ágætu nefnd. Þeir töldu að hafa yrði allan vara á gagnvart ríkinu vegna greiðslu sem fylgja mundi þeirri framkvæmd sem færð yrði yfir á sveitarfélögin ef samningar tækjust um það. Það má kannski segja að sporin hræði þar þegar litið er til fortíðar. Hitt er annað mál að ég varð ekki var við annað en að sveitarstjórnarmenn litu björtum augum til þeirra breytinga sem hér er verið að gera og þeirra spora sem hér er verið að stíga til framtíðar. Það er alveg ljóst og var margrætt í nefndinni að fullur hugur er á því að ganga fram í þessu máli með það að leiðarljósi að taki sveitarfélögin að sér framkvæmd þeirra mála sem nú voru sett á bið fylgi auðvitað fjármagn með henni. Þarna var þó opnuð önnur leið sem felst í því að Vegagerðin getur samið við sveitarfélögin um að taka að sér verk og þá fylgir ákveðin greiðsla þegar þau mál eru afgreidd.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði mikið mál úr greiðslum í Hvalfjarðargöng sem snertir náttúrlega samgönguáætlunina. Hæstv. samgönguráðherra rifjaði upp fortíð þess máls og það var bara af hinu góða. Hitt er annað mál, og ég held að það hafi blundað meðal þjóðarinnar, að það er alveg ljóst að í Hvalfjarðargöng hefði ekki verið ráðist ef þessi samningur hefði ekki legið fyrir. Mér finnst það því skjóta nokkuð skökku við þegar menn koma í dag og segja að nú séu aðrir tímar og að samningurinn og það sem menn vildu á þeim tíma sé bara allt í plati. Ég tel að þetta hafi verið mikið framfaraspor og það hafi verið framsýnir menn sem stofnuðu fyrirtækið Spöl og lögðu í þetta ævintýri. Ótrúlega margir fræðimenn og fræðingar á verkfræðisviði lögðust mjög gegn þessu máli, höfðu allt á hornum sér og töldu kjark úr mönnum við að ráðast í þessa framkvæmd.

Síðan gerði hv. þingmaður íbúðabyggð að umræðuefni og hvernig hún hefði þróast og taldi að íbúðabyggð á Suðurlandi hefði aukist vegna Hvalfjarðarganganna. Það er merkilegt að slíkur heiðursþingmaður skuli ekki líta um öxl og gera sér grein fyrir því að í uppsveitum Borgarfjarðar og jafnvel norður í land hefur orðið gjörbreyting á verðmætamati lóða og jarða með tilkomu Hvalfjarðarganganna.

Ég tel ákvæðið um heimild til að taka gjald vegna umferðar af hinu góða. Við vorum alveg sannfærð um það sem sátum í nefndinni að það gæti leitt til enn hraðari uppbyggingar vega og yrði mikil samgöngubót sem er auðvitað forsenda byggðar.

Virðulegi forseti. Ég veit að tekið verður vel á þessu máli í samgöngunefnd þar sem ég á sæti og ef marka má hvernig þingmenn hafa tekið undir frumvarpið þá er ég sannfærður um að það fær góða umfjöllun og góða afgreiðslu út úr nefndinni.