Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 17:15:31 (4029)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir alveg sérstaklega góðar undirtektir við það frumvarp sem ég hef hér mælt fyrir, frumvarp til nýrra vegalaga. Það er vissulega uppörvandi fyrir mig sem samgönguráðherra að heyra hversu góðan skilning þingmenn hafa á málinu í heild sinni og þeim meginbreytingum sem hér er verið að gera á gildandi lögum. Hins vegar er, eins og liggur í hlutarins eðli, bent á ýmislegt sem þarf að skoða. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt og í samræmi við vinnulag okkar í þinginu að samgöngunefndin fari mjög vandlega yfir þau atriði. Ég ætla að gera að umtalsefni nokkra þætti af þeim ábendingum sem hafa komið fram hjá hv. þingmönnum.

Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að við þurfum að gera stórátak í vegamálum. Þessi lagabreyting er mikilvægur lykill að þeirri aðgerð. Vonandi tekst okkur fljótlega að komast inn í umræður um samgönguáætlunina en heimildin í þessu frumvarpi gefur okkur tækifæri til þess að fela einkaaðilum veghaldið. Sú breyting er byggð á reynslunni sem við höfum úr Hvalfjarðargöngunum og þetta er geysilega mikilvæg breyting til að komast inn í þá leið sem hefur verið tengd einkaframkvæmdum í vegagerð.

Vegagerðin er góð stofnun og henni hefur tekist afskaplega vel að sinna uppbyggingu og þjónustu og rekstri á vegakerfinu en þróunin hefur orðið sú hjá okkur að við höfum farið inn á þá braut að efna til einkaframkvæmda. Hvalfjarðargöngin eru dæmi um slíkt. Ráðstefnu- og tónlistarhúsið er mjög stórt og mikið dæmi um þessa einkaframkvæmdarleið. Sveitarfélögin hafa verið að fara þá leið o.s.frv. þannig að hér erum við að marka og móta nýja stefnu.

Á grundvelli 17. gr. frumvarpsins þar sem við erum að leggja á ráðin um nýtt form innheimtuafnota af vegakerfinu spurðist hv. þm. Kristján L. Möller fyrir um það hvort nota mætti það til að innheimta vegskatta, þá í tengslum við hugmyndir um gjaldtöku af umferðinni. Allt er þetta hægt. Það er spurning um ákvörðun Alþingis og tillögur frá ríkisstjórninni hvernig við högum þessari gjaldtöku af umferðinni. Ef við tökum upp þetta kerfi sem byggist á GSM-símasamböndum og fjarskiptatækninni er ýmislegt hægt en aðalatriðið er að taka ákvörðun um það eftir hvaða leiðum við innheimtum fyrir notkunina á vegakerfinu. Ég er ekki með neinar tillögur uppi í þessu samhengi um að auka á beina gjaldtöku af tilteknum vegarköflum eða vegamannvirkjum. Það hefur komið aðeins til tals að fara hina svokölluðu skuggagjaldsleið. Ef hún væri notuð væri þetta kerfi sem lagt er upp með í 17. gr. alveg upplagt en þetta er næsti fasi í þessari umræðu í raun og veru. Fyrst er að skapa þennan ramma, skapa þessa möguleika, þessa heimild, og síðan er þá spurningin um hvernig við notum þetta.

Nokkuð var rætt um 28. gr. þar sem fjallað er um vegi og skipulag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vegir skulu lagðir í samræmi við gildandi skipulagsáætlun eins og nánar er kveðið á um í lögum um skipulag og í lögum þessum.“

Þarna komum við náttúrlega að alveg geysilega umfangsmiklu og flóknu máli sem er samstarf Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Þarna er lögð sú meginlína að vegirnir skuli lagðir í samræmi við gildandi skipulag og þar koma sveitarfélögin að sem lykilaðilar. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið og ráða mjög miklu um þær útfærslur en hins vegar hefur Vegagerðin samkvæmt gildandi lögum heilmikil áhrif á það hvernig vegir eru lagðir og hvernig tengt er inn á þá. Hv. þm. Kristján L. Möller vakti sérstaka athygli á gatnamótum á hringveginum, m.a. í þéttbýli. Mér er vel ljóst að Vegagerðin hefur það sem meginstefnu að hafa gatnamót sem fæst, nota hringtorg og tengingar inn á meginleiðirnar og tengja síðan með hliðarvegum til þess að fækka gatnamótum. Þetta er meginlínan. Þarna þarf samstarf sveitarfélaganna annars vegar og Vegagerðarinnar hins vegar og við höfum allar heimildir til þess en hér er skerpt á þessum ákvæðum öllum og reynt að læra af reynslunni. Ég held að hér sé alls ekki farið offari um það að Vegagerðin hafi óeðlilegar heimildir. Þetta byggist allt meira og minna á samkomulagi. Hins vegar er þetta fræga ákvæði 28. gr. þessara heildarlaga að ef leggja þarf veg eftir sérstökum óskum sveitarfélaganna eru heimildir til þess að sveitarfélögin greiði þann kostnað. Þessu hefur ekki verið beitt. Sveitarfélögin hafa ekki verið mikið í því að taka slíkar skipulagsákvarðanir en engu að síður eru þess dæmi. Það hefur þá yfirleitt verið í góðu samstarfi við Vegagerðina og sættir hafa náðst um það. Það er ekkert í þessu frumvarpi og það kom ekkert fram í umræðunum sem bendir til þess að þingmenn telji of langt gengið í heimildum Vegagerðarinnar gagnvart sveitarfélögunum.

Hér var nokkuð rætt um girðingarmálin. Samkvæmt 51. og 52. gr. og í X. kaflanum raunar er fjallað um girðingar og göng fyrir búfé en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Veghaldara er heimilt að girða meðfram vegum sínum, m.a. til að tryggja öryggi umferðar …“

Þetta er geysilega mikilvægt atriði. Það er nýmæli að heimila uppsetningu á göngum fyrir búfé sem er mjög mikilvægt öryggisatriði. Ég tel að það sem fram kom í umræðum hv. þingmanna sé gott tilefni til þess að nefndin fari yfir þetta með Vegagerðinni annars vegar og hins vegar fulltrúum Bændasamtakanna sem hafa lýst skoðunum sínum á þessu. Komið hafa fram óskir frá einstökum landeigendum um að bæta hér enn frekar úr, en það eru heimildir í 52. gr. til þess bæði að kosta girðingar og viðhald þeirra en þarna ræður för það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar. Það þarf auðvitað að gæta hófs í því öllu. Ég tel að það sé ágætt og í rauninni nauðsynlegt að nefndin fari rækilega yfir X. kaflann með þeim aðilum sem að þessu koma.

Aðeins varðandi það sem kom fram, og það hefði mátt tengjast umfjöllun um 17. gr. og gjaldtökur og fleira, hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að gjaldtakan í Hvalfjarðargöngunum hafi haft áhrif á þróun umferðar eða byggðar. Staðreyndin er sú að það er mikil aukning í umferð vestur á land um Hvalfjörðinn. Mun meiri aukning hefur orðið á umferðinni þar á tilteknum tíma og eftir að jarðgöngin komu en í umferðinni austur fyrir fjall. Það er ekkert sem bendir til þess að gjaldtakan hamli eða dragi úr eða komi í veg fyrir umferð eða vöxt hennar, enda er þar um að ræða tvo kosti. Hvalfjörðurinn er vel fær og þar er góður vegur. Þetta vildi ég sérstaklega nefna hér út af því sem kom fram.

Hvað varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um 28. gr. og ákvæði skipulagslaga og það að hugsanlegur vegur um Grunnafjörð fengi sérstaka umfjöllun vil ég bara vekja athygli á því að hugmyndir um veg yfir Grunnafjörðinn milli Akraness og Borgarbyggðarsvæðisins fela í sér mjög mikla styttingu og væri mikil bragarbót. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að við eigum að huga að því. En þar stendur hnífurinn í þeirri kúnni að skipulagsyfirvöld og forsvarsmenn umhverfismála hafa algerlega lagst gegn öllum hugmyndum um að þvera þann fjörð. Áður en vegagerð á því svæði gæti orðið að veruleika þarf að ná samkomulagi milli sveitarfélaganna og umhverfis- og skipulagsyfirvalda og síðan Vegagerðar þannig að ég vísa til þess.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mælti fram þá ágætu og gullvægu setningu að að mestu leyti væri þetta frumvarp þakkarvert, og ég er ánægður með það, en hann vakti athygli á því sem snýr að 17. gr. frumvarpsins, að e.t.v. mætti nýta tæknina og innheimtumöguleika til að dreifa styrkjum vegna flutninga til tiltekinna byggða, einkum þá jaðarbyggða sem ættu í erfiðleikum og inn á svæði þar sem vegir eru ófullnægjandi. Þetta er athyglisverð ábending og ég tel að við þurfum að huga að þeim möguleikum öllum en hins vegar sitjum við uppi með það að regluverkið um stuðning við einstaka flutningaaðila er snúið og svokallaður ólögmætur ríkisstuðningur er nokkuð sem stjórnvöld eiga ekki auðvelt með að komast upp með, ef svo mætti segja. Ef þessi tækni verður engu að síður tekin upp er sá möguleiki til staðar þótt ég sé ekki að mæla með því sérstaklega.

Virðulegur forseti. Ég held að það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi sé eitt af því sem samgöngunefndin þarf að líta til í yfirferð sinni en að öðru leyti þakka ég enn og aftur fyrir góðar undirtektir undir frumvarpið og vænti þess að nefndin fjalli rækilega um það.