fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.
Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og fiskvinnslu. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Jóhann Ársælsson.
Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd sem fái það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Frumvarpið verði lagt fram á þessu þingi og að því stefnt að lögin taki gildi 1. janúar 2008.
Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“
Svofelld greinargerð fylgir þessari tillögu, hæstv. forseti:
Lagalegar forsendur.
a. Kröfur EES-samnings um virka samkeppni á markaði.
Núgildandi lög og reglur fela í sér að gerðar eru miklar kröfur um siðareglur í viðskiptum, virka samkeppni á markaði og gegnsæi hans. Lögleiðing samkeppnislaga, nr. 8/1993, markaði tímamót á þessu sviði. Einnig má vísa til þess að Ísland er bundið af samkeppnisreglum ESB vegna aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur sú skuldbinding víðtæk áhrif í íslenskum lögum og reglum. Sem dæmi um viðbrögð löggjafans má nefna þingsályktun um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði sem samþykkt var á 125. löggjafarþingi, en þar voru hafðar til hliðsjónar reglur framkvæmdastjórnar ESB.
Í greinargerð þeirrar þingsályktunartillögu segir m.a.: „Markmið reglnanna er að gefa viðmið fyrir siðlegt athæfi alls staðar á því svæði sem þær ná til, greiða fyrir virkri starfsemi verðbréfamarkaða og gæta almannahagsmuna.“ Á öðrum stað segir: „Til þess að hann [þ.e. verðbréfamarkaðurinn] megi þróast eðlilega allri þjóðinni til hagsbóta er nauðsynlegt að hlúa að heilbrigðum og gagnsæjum viðskiptaháttum á öllum fjármagnsmarkaðinum.“
Fullvíst má telja að viðskiptalegt umhverfi verslunar með óunninn fisk hér á landi fullnægir ekki settum kröfum EES-samningsins um virka samkeppni.
b. Íslensk samkeppnislög.
Þingsályktunartillaga þessi á sér meginstoðir í lögbundnum markmiðum gildandi samkeppnislaga, nr. 44/2005, og er ætlað að þjóna þeim, en í 1. gr. laganna segir:
„Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum.“
Einnig má vísa til ýmissa annarra ákvæða samkeppnislaganna, svo sem 10. og 11. gr., og að auki er vert að benda á ákvæði 14. gr. en þar segir:
„Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar“ — eins og ég tel að gerist í sjávarútveginum með úthlutun aflaheimilda — og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.“
Sé fullrar sanngirni gætt verður ekki annað séð en að framangreind ákvæði 14. gr. eigi fyllilega við um þann mikla aðstöðumun sem skapast milli útgerðarfyrirtækja sem árlega fá úthlutað aflaheimildum og njóta þannig verndar með slíkum stjórnvaldsbundnum leyfum og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem engrar slíkrar verndar njóta en starfa í óheftri samkeppni á markaði.
Óviðunandi ástand er á innlendum fiskkaupamarkaði, hæstv. forseti.
Með vísan til framangreindra ákvæða samkeppnislaga hlýtur það ástand sem nú ríkir og varað hefur um árabil á markaði um kaup og sölu á óunnum fiski, og alkunnugt er hvernig er háttað, að teljast óviðunandi. Engin skilyrði eru til eðlilegrar verðmyndunar á fiski og ótruflaðrar samkeppni í fiskviðskiptum þrátt fyrir að í landinu hafi um árabil starfað uppboðsmarkaðir fyrir ferskfisk.
Fiskviðskipti við núverandi kringumstæður skapa ófrið um verðlagningu á fiski milli sjómanna og útvegsmanna og grafa einnig undan tilvistargrundvelli innlendra fiskmarkaða. Skiptir þá ekki meginmáli hvort um viðskipti milli óskyldra eða skyldra aðila er að ræða. Þá ríkir mikil samkeppnisleg mismunun í fiskvinnslunni sem bitnar hart á fiskvinnslufyrirtækjum sem ekki tengjast útgerð.
Enda þótt sá fiskur sem kemur til sölu á íslenskum fiskmörkuðum seljist að öllu jöfnu á mjög háu verði ríkir samt sem áður mikill fiskskortur á mörkuðunum. Í stað þess að selja fiskinn hæstbjóðanda leita útgerðir í auknum mæli eftir svokölluðum „beinum viðskiptum“. Þá er samið um fast verð á fiskinum sem er langt undir ríkjandi verði á mörkuðum, oftast aðeins um helmingur eða jafnvel minna.
Ástæðurnar fyrir slíkum viðskiptum er að finna í ákvæðum gildandi laga um fiskveiðistjórn sem heimila frjálst framsal aflaheimilda án þess að slíku framsali séu settar nægilegar skorður og enn mun framsalið og þessi viðskipti aukast með kvótasetningu smábátaflotans. — Sem var framkvæmd á smábátaflotanum. Þar höfum við séð breytingarnar og tilfærsluna.
Þessi „beinu viðskipti“ verða vegna þess að útgerð viðkomandi fiskiskips sér sér hag í því að leggja aflann upp hjá fiskverkanda með þeim skilmálum að hluti aflaverðmætis greiðist með peningum en hinn hlutinn með því að fiskverkandi kaupi veiðiheimildir á viðkomandi skip, eða leggi þær fram og fénýti á þennan hátt, hafi hann yfir slíkum heimildum að ráða. — Um þetta tókum við m.a. umræðu áðan, hæstv. forseti, að því er varðar leiguheimildir og hvernig verðmyndunin er á kvótanum og ætla ég ekki að endurtaka það í þessari umræðu þar sem fyrri umræðu er í raun og veru nýlokið. — Aflahlutur áhafnar miðast síðan aðeins við þann hlutann sem greiddur er með peningum og sama máli gegnir um lögboðin gjöld, svo sem hafnargjöld. Raunverðið á fiski í þessum viðskiptum, þegar allt er talið, er hins vegar í fullu samræmi við ríkjandi verð á fiskmörkuðum á sama tíma.
„Viðskipti“ milli útgerðar og fiskvinnslu í eigu sama aðila eru að því leyti sama marki brennd og viðskipti milli óskyldra aðila að viðmiðunarverðið á fiskinum til hlutaskipta er a.m.k. að mestu leyti úr öllum tengslum við ríkjandi markaðsverð. — Þetta sjáum við, hæstv. forseti, mjög vel þegar við fáum að sjá uppgjör hjá fyrirtækjum sem reka bæði útgerð og fiskvinnslu og verðmynda ekki í gegnum fiskmarkaðinn. Þá er verðið í raun allt annað til þeirra sjómanna sem þar starfa en viðgengst á fiskmarkaðnum í óskyldum viðskiptum milli aðila og þar sem verðmyndunin byggist á framboði og eftirspurn og sölu og kaupum viðkomandi aðila.
Núverandi ástand í fiskviðskiptum með svo brengluðu verðmyndunarkerfi, eins og fyrr er lýst, er algjörlega óhæft. Þær ráðstafanir sem Alþingi greip til árið 1998 með setningu laga um stofnun Kvótaþings og Verðlagsstofu skiptaverðs, og ætlað var að færa ástand þessara mála til betra horfs, hafa samkvæmt fenginni reynslu mistekist. — Það sjáum við, hæstv. forseti, vel í þeirri verðmyndun sem á sér stað hér á landi í dag.
Við teljum, hæstv. forseti, að þjóðhagsleg hagkvæmni veiða og vinnslu mundi aukast með því að hér yrði verðmyndun almennt um fiskmarkaði. Við teljum að taka eigi upp þennan aðskilnað. Þá fullyrðingu mætti rökstyðja í löngu máli en verður ekki gert hér, enda ætti þess ekki að gerast þörf, málið ætti að vera flestum kunnugt sem koma að sjávarútvegi eða fylgjast með í sjávarútvegi.
Þingsályktunartillaga þessi miðar að því, eins og áður segir, að koma á eðlilegri samkeppni í viðskiptum með fisk. Virk samkeppni er árangursríkasta leiðin til þess að ná sem hagkvæmastri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins eins og kveðið er á um í 1. gr. gildandi samkeppnislaga. Löng reynsla annarra þjóða af virkri samkeppni sem árangursríkustu leiðinni til eðlilegra viðskiptahátta talar skýru máli. Til lengri tíma litið má því einnig telja fullvíst að breytingin yrði til góðs fyrir atvinnugreinina hér á landi. Þess vegna er tillaga þessi endurflutt einu sinni enn, en hefur verið flutt hér oft áður, hæstv. forseti.
Tilefni þess að flytja tillöguna á þingi ár eftir ár er auðvitað það að hér ríkir ekki eðlileg samkeppni milli aðila. Eðlileg samkeppni ríkir ekki á milli þeirra aðila sem kaupa allan sinn afla á fiskmarkaði, tengjast ekki útgerð og eru að vinna sinn afla og selja í samkeppni við aðra aðila sem tengjast útgerð og geta ráðið verðmyndun fisksins inn til fyrirtækisins. Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að um mjög stórt mál er að ræða, þ.e. hér er stefnumarkandi mál um það hvernig viðskipti eigi að gerast í sjávarútvegi með ferskfisk til land vinnslunnar.
Þingsályktunartillagan er um að skipuð verði nefnd til að semja lagafrumvarp um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útgerðar annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar, sem falli þá að núgildandi samkeppnislögum. Við getum ekki fullyrt um það nákvæmlega, ef tillagan yrði samþykkt, hvernig slíkt frumvarp mundi líta út þegar það kæmi til meðferðar í hv. þingi. En meginmarkmið þess þyrfti auðvitað að vera, hæstv. forseti, að hér kæmust á betri og eðlilegri viðskiptahættir með allt sjávarfang en nú eiga sér stað. Við vitum vel, hæstv. forseti, að stærstu útgerðaraðilarnir, sem jafnframt reka fiskvinnslur, hafa yfirburðastöðu í þessu kerfi að mörgu leyti. Yfir það hef ég farið í ræðum um önnur sjávarútvegsmál sem hæstv. sjávarútvegsráðherra mælti fyrir á undan þessu máli og ætla þess vegna ekki að endurtaka það hér þar sem svo stutt er á milli umræðna. (Sjútvrh.: Það er stutt í handboltann.) Það mun einnig vera stutt í handboltann, upplýsir hæstv. sjávarútvegsráðherra, og það hefði auðvitað verið rétt að spyrja hæstv. forseta hvort þingmenn njóti ekki jafnræðis á við aðra landsmenn um að fá að horfa á handboltaleik en það virðist ekki vera. Hér er beitt harðræði við stjórn. (MÁ: Hvar eru ráðherrarnir?) Það er aðeins einn ráðherra í salnum og hann sennilega þjáist með okkur sem erum að missa af handboltanum, en við erum nú að ræða þjóðþrifamál og víkjumst auðvitað ekki undan því að sinna skyldum okkar í þeim efnum.
Ég held að menn hljóti að spyrja sig að því hvort það sé neikvætt fyrir íslenskt þjóðarbú ef fiskverð almennt leitar þess jafnvægis að nálgast markaðsverð, eins og það er raunverulega á ferskfiskmarkaði. Ég held að það hljóti að vera jákvætt fyrir íslenskt þjóðarbú. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Sum fiskvinnslufyrirtæki hafa starfað án útgerðar í áratug eða meira og þau hafa verið að kaupa allan sinn fisk á fiskmarkaði á verulega hærra verði en fiskvinnslan sem er í beinum viðskiptum með eigin útgerð hefur gert. Þetta vita menn mætavel og menn vita einnig að einmitt þau fyrirtæki, minni fyrirtæki sem hafa verið að leita að nýjum markaðstækifærum og hafa verið að kaupa á hæsta verði, hafa verið að finna nýja markaði sem gefið hafa þjóðinni hærra fiskverð en ella hefði verið. Síðan hefur það iðulega gerst að stærri fyrirtækin hafa komið þar á eftir og jafnvel reynt að leggja undir sig þá fiskkaupasamninga sem minni fyrirtæki hafa gert og fundið leiðir inn á í krafti þess að þau hefðu aðgang að kvóta og aðgang að hráefni og gætu tryggt það, en hin yrðu að sitja við það borð að þurfa að keppa á samkeppnismarkaðnum.
Það er vissulega svo, hæstv. forseti, að fiskvinnslan hefur breyst mikið á undanförnum árum. Áður fyrr, ef við förum kannski 15–20 ár aftur í tímann, var svo til allur fiskur á Íslandi annaðhvort frystur, saltaður eða hertur. Í dag er mikið af fiskinum unnið ferskt. Ferskur fiskur sem fluttur er úr landi er kældur niður með sérstökum hætti og oft vakúmpakkaður og fluttur út í sérstökum kössum sem viðhalda kælingunni. Kælitæknin er ekkert annað en geymsluaðferð með nákvæmlega sama hætti og frystingin var áður eina geymsluaðferðin. Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að á mörkuðum heimsins vill fólk frekar ferskan fisk ef það fær hann í því formi að hann sé ferskur og góður. Þess vegna er það svo að ferskfiskmarkaðirnir borga alla jafnan hærra verð og það hlýtur að vera það sem þjóðin sækist eftir, það hlýtur að vera það sem sjávarútvegurinn sækist eftir og það hlýtur að vera það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra vill stefna að, að þannig náum við sem bestu verði fyrir allan afla.