Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:21:06 (5397)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:21]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en finnst þó vanta upp á svörin varðandi 3. gr. Lögin kveða á um að Fiskistofa staðfesti flutning ef hún fái staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur. Þannig eru lögin í dag. Í athugasemdunum um 3. gr. segir að Fiskistofa hafi ekki staðfest flutning aflamarks til fiskiskipa nema að fenginni umræddri staðfestingu. Þannig hefur Fiskistofa unnið og samkvæmt lögum. Ég óskaði eftir því við hæstv. ráðherra að hann útskýrði fyrir mér setninguna sem kemur þar kemur á eftir: „Hér er lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt til samræmis við þá framkvæmd.“

Þetta hefur verið framkvæmt nákvæmlega eins og lögin eru og í þessu frumvarpi er engu breytt. Hvernig stendur á því að svona athugasemdir koma með frumvarpinu? Það er nánast, frú forseti, út í hött að setja málið fram með þessum hætti.