Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 14:50:31 (6078)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:50]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum hér um frumvarp og nefndarálit um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands, um starfskjör starfsmanna þeirra. Rétt eins og aðrir þingmenn vil ég byrja á að fagna þessu frumvarpi. Segja má að það sé rökrétt framhald af lagasetningu um starfsmannaleigur sem sett var í fyrra. Þetta gengur öllu lengra og má segja að búið sé að taka inn í það nokkrar athugasemdir umsagnaraðila og stjórnarandstöðu varðandi frumvarpið um starfsmannaleigur. Við erum sammála um það í nefndinni að þetta frumvarp horfi til almannaheilla, eins og hér segir.

Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og segja má að fyrir því séu einkum þrjár ástæður. Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með í þessu máli og ég tel henni skammtað naumt fé. Það kemur fram í frumvarpinu að um sé að ræða 7,5 millj. kr. sérstaklega út af þessu. Síðustu þrjú árin hafa verið lögð fram nokkur mál er tengjast Vinnumálastofnun sem fæst gera ráð fyrir miklu fé til hennar og yfirleitt ekki aukafjármagni þrátt fyrir að lögð séu á hana fleiri og fleiri verkefni. Ég hefði að auki viljað sjá greiðari aðgang verkalýðsfélaga að upplýsingum um erlenda starfsmenn. Í þriðja lagi geri ég fyrirvara varðandi húsnæðismál. Hér er að vísu breytingartillaga frá félagsmálanefnd um að fylgja skuli með upplýsingar um dvalarstað og áætlaðan dvalarstað starfsmanna hér á landi. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af húsnæðismálum erlendra starfsmanna eins og við þekkjum úr fjölmiðlum en mörgum þeirra er ætlað að dveljast í iðnaðarhúsnæði. Menn muna nú eftir því þegar menn byrjuðu á Kárahnjúkum, hvers konar húsnæði mörgum erlendum starfsmönnum var þar búið í upphafi þótt trúnaðarmenn og verkalýðsfélög hafi náð að breyta því flestu ef ekki öllu til bóta. En það eru einkum þessar þrjár ástæður þess að ég skrifa undir álitið með fyrirvara.

Þetta frumvarp eykur ábyrgð notendafyrirtækja eins og stjórnarandstaðan óskaði eftir varðandi starfsmannaleigufrumvarpið sem var áður til afgreiðslu. Þá var ekki vilji meiri hlutans fyrir að setja meiri ábyrgð á notendafyrirtækin. Hér hefur verið vitnað lauslega í breytingartillögu stjórnarandstöðunnar við starfsmannaleigufrumvarpið. En hún hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Notendafyrirtæki bera ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara sem fullnægi áskilnaði 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu.“

Tekið hefur verið ákveðið tillit til þessarar beiðni frá stjórnarandstöðu og umsagnaraðilum varðandi starfsmannaleiguna. Þannig má segja að þetta sé í rétta átt þótt maður hefði viljað að gengið yrði enn lengra. Ég held að það sé rétt að þessi lög séu ávallt í endurskoðun. Það eru miklar breytingar á vinnumarkaði og stór hópur fólks kemur til landsins til að starfa í styttri eða lengri tíma. Það er því ástæða til að þessi lög séu stöðugt í endurskoðun. Um það var einmitt getið í lögum um starfsmannaleigur og er þetta óbeint framhald af því.

Að sjálfsögðu á að taka vel á móti útlendingum. Með þessari eftirfylgni erum við ekki einungis að tryggja þeim bestu kjör er hingað koma til að starfa heldur og, eins og fram hefur komið, að vernda íslenska launþega gegn undirboðum í launum. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja að fylgst sé vel með starfsréttindum þeirra sem hingað koma til að starfa.

Samkvæmt svari frá félagsmálaráðherra við fyrirspurn minni frá því ekki fyrir löngu er það ekki fast í hendi að Vinnumálastofnun gangi eftir því að fá upplýsingar um starfsréttindi erlendra starfsmanna. En það er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum, bæði út frá launamálum en einnig út frá öryggissjónarmiðum, að hingað komi ekki iðnaðarmenn til að vinna með hættuleg efni eða við hættulegar aðstæður án þess að hafa til þess að nægilega þekkingu eða réttindi. Ég tel ástæðu til þess að menn fylgist vel með starfsréttindum þeirra sem hingað koma þannig að það sé öllum til hagsbóta, ekki til að reyna aftra því að menn komi heldur til að tryggja að þeir hafi tilskilin réttindi og verði ekki sjálfum sér eða öðrum að skaða, svo ekki sé minnst á að þeir skili góðu verki í byggingaiðnaði o.s.frv.

Hér hefur svolítið verið vitnað í umsögn Verkalýðsfélags Akraness. Það er mjög eðlilegt þar sem formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, hefur unnið mikið í málum varðandi starfsmannaleigur og erlenda starfsmenn. Eins og kom fram hjá honum fyrir rúmu ári síðan eyddi hann um 70% af starfstíma sínum í að fylgjast með réttindum og skyldum fyrirtækja gagnvart erlendum starfsmönnum.

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi á heildina litið og tel að það verði til mikilla bóta enda hefur verið óskað eftir slíkum lögum. En ég hefði viljað sjá ögn meiri samvinnu við stéttarfélögin. Það má vera að við endurskoðun á þessum lögum, eftir ár eða svo, taki menn samvinnuna upp. En ég ætla að leyfa mér að vitna að lokum í umsögn Verkalýðsfélags Akraness, með leyfi forseta:

„Reynsla félagsins af þessum málum hefur sannað nauðsyn þess að stéttarfélögin fái skýra heimild til afla gagna varðandi erlent vinnuafl, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar. Er eðlilegt að þessi heimild nái til allra aðila er koma að slíku vinnusambandi, þ.e. fyrirtæki, notendafyrirtæki og Vinnumálastofnun. Reynslan sýnir að erlent starfsfólk veit almennt lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og veigrar sér við að leita aðstoðar verkalýðsfélaganna. Dæmin sanna einnig að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér þessa vankunnáttu, jafnvel aðilar sem almennt er talið að láti sér annt um ímynd sína. Er ljóst að þótt ráðningarsamningur liggi fyrir sem tryggir laun í samræmi við gildandi lög er það engin trygging fyrir því að viðkomandi launþega séu greidd lögbundin laun í samræmi við ráðningarsamning. Hér þarf verulega eftirfylgni.“

Málið snýst um þetta, herra forseti, þ.e. aðkomu stéttarfélaga, ekki trúnaðarmanna heldur sjálfra stéttarfélaganna að eftirliti með því að erlendir starfsmenn njóti sömu réttinda og kjara og íslenskir starfsmenn njóta hér á landi.