Almennar stjórnmálaumræður

Miðvikudaginn 14. mars 2007, kl. 20:35:09 (6413)


133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:35]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Ágætu landsmenn. Fyrir tæpum fjórum árum var stefnuræða forsætisráðherra lesin úr þessum ræðustól. Ræðan var jafnframt stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem tekist hafði með naumindum að endurnýja umboð sitt í þingkosningum árið 2003. Formenn stjórnarflokkanna hafa dregið inn í þingið frumvarp um að setja ákvæði um þjóðareign náttúruauðlinda í stjórnarskrá. Hér kemur nýting sjávarauðlindarinnar strax í umræðuna. Hún er uppspretta mikilla auðæfa og skiptir höfuðmáli fyrir byggðir landsins.

Rifjum upp hvað ríkisstjórnarflokkarnir sögðust ætla að gera í sjávarútvegsmálum á kjörtímabilinu sem nú er að renna skeið sitt á enda. Þetta var sagt í stjórnarsáttmálanum:

„Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða, til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrarbáta með línu. Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.“

Hvað af þessu hefur verið efnt? Nánast ekki neitt. Það eina sem hefur verið efnt af þessu er hin svokallaða línuívilnun en einungis að litlu leyti og með miklum semingi.

Núna loksins þegar fjögur ár eru liðin og einungis nokkrir dagar eftir af kjörtímabilinu koma stjórnarflokkarnir með illa undirbúna tillögu um breytingu á stjórnarskránni. Þingmenn stjórnarliða tala meira að segja um í sömu andrá að þetta sé eiginlega alveg merkingarlaust ákvæði og maður hefur það á tilfinningunni að þetta sé eiginlega bara sett fram í gamni.

Á sama tíma og það blasir við að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt á kjörtímabilinu til að rétta hlut sjávarbyggðanna stöndum við frammi fyrir því að hin svokallaða uppbygging þorskstofnsins virðist hafa mistekist gjörsamlega og byggðunum blæðir út. Það er nú þannig, góðir landsmenn, að það skiptir öllu máli fyrir okkur sem þjóð að landið sé í byggð. Á þessu höfum við í Frjálslynda flokknum hamrað allt kjörtímabilið. Við viljum losa byggðirnar við drápsklyfjar kvótakerfisins og færa þeim aftur atvinnufrelsið og nýtingarréttinn sem af þeim hefur verið tekinn. Við viljum byrja þá vegferð með því að auka frelsi minni báta til veiða. Þessi atvinnutæki skapa flest störf í heimabyggð. Það er óumdeilt. Þau skipta miklu máli.

Ágætu landsmenn. Frjálslyndi flokkurinn hefur einn flokka óhikað og af festu tekið upp hreinskipta umræðu um málefni innflytjenda. Málefni þeirra eru víða í ólestri. Fólk býr í atvinnuhúsnæði, skráning og eftirlit er gloppótt, brotið er á réttindum fólks, íslenskukennslan er af skornum skammti og svona getum við haldið áfram að telja. Umræðan hefur skilað árangri. Ríkisstjórnin hefur aukið fé til íslenskukennslu og hún reynir að bæta lagaumhverfið sem snýr að erlendum starfsmönnum hér á landi. En betur má ef duga skal. Mjög mikið innstreymi hefur verið af fólki hingað til lands og aldrei meira en síðustu mánuði. Við þekkjum tölurnar. Fjöldinn er nú um 20 þús. manns, nálgast 15% af vinnuafli hér á landi.

Það er varla ofmælt að segja að Ísland upplifi nú í fyrsta sinn aðstæður sem aldrei hafa komið upp áður þar sem mikill fjöldi erlends fólks mun keppa við Íslendinga um vinnu. Iðnaðarmenn, iðnverkafólk og fólk í verslun og þjónustu finnur æ betur fyrir því að nú er komin upp áður óþekkt staða á íslenskum vinnumarkaði þar sem þeir sem eru fyrir í landinu mæta samkeppni frá erlendum nýbúum. Afleiðingarnar eru að hópar launafólks hér á landi eru að dragast aftur úr í kjörum. Að sjálfsögðu hefur það víðtæk þjóðfélagsáhrif þegar þúsundir erlendra nýbúa setjast að hér á landi í atvinnuleit til lengri og skemmri tíma. Íslendingar eru fámenn þjóð og viðkvæm fyrir því þegar hömlulausir aðflutningar eiga sér stað eins og við höfum upplifað á undanförnum missirum og munum væntanlega gera áfram ef ekkert verður að gert.

Við í Frjálslynda flokknum ætlum að takmarka á ný frjálst flæði launafólks frá nýjum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hér er ekki verið að tala um að loka landinu eða reka fólk í burtu heldur eingöngu lögð áhersla á það að sökum smæðar þjóðarinnar er það okkur Íslendingum nauðsynlegt að stýra sjálf flæði erlendra nýbúa til landsins. Ef við í Frjálslynda flokknum fáum umboð kjósenda til að setjast í ríkisstjórn ætlum við að láta reyna á ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem veitir heimildir til að taka upp takmarkanir á frjálsri för launafólks. Okkur er nauðsyn að verja íslensk gildi og menningararf og takmarka innflutning fólks við félagslega og fjárhagslega getu þjóðarinnar til að halda uppi því velferðarkerfi sem hefur verið byggt upp af miklum dugnaði undanfarna áratugi þótt alltaf megi gera betur. Yfirvöld í okkar litla landi verða að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Öllum sem sækja hér um dvalarleyfi ber að skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá og nema íslensku.

Góðir landsmenn. Mikilvægt er að virkja innlent vinnuafl frekar og betur en nú er gert. Þannig getum við nýtt betur þann mannauð sem er fyrir í landinu. Breyta á skattkerfi, t.d. ósanngjörnum skerðingarreglum sem bitna nú harðast á eldri borgurum og öryrkjum sem og því hvernig skattbyrði hefur þróast gagnvart lágtekjufólki. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur stundað linnulaust auðmannadekur allan sinn valdatíma. Nú er komið að alþýðu landsins. Við ætlum að koma okurflokkunum frá. Venjulegt fólk á að fá að njóta skattalækkana. Ekki bara þeir sem þegar hafa meira en nóg á milli handanna. Við viljum koma fólki út úr þeirri fátæktargildru sem stjórnvöld hafa skapað með stefnu sinni í skatta- og peningamálum. Hækka á skattleysismörk í 150 þús. kr. og heimila bótaþegum að afla sér tekna án þess að bætur til þeirra séu skertar.

Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að verðtrygging á lánsfé verði afnumin til hagsbóta fyrir almenning, t.d. fyrir ungt fólk sem er að eignast sína fyrstu íbúð. Lánsfé á að vera í boði á svipuðum kjörum og í nágrannalöndunum. Við sættum okkur ekki við að verðlag á nauðsynjum hér á landi sé hærra en annars staðar í okkar heimshluta. Við ætlum að berjast fyrir því að verslun verði frjáls með allar vörur sem leyfðar eru á innlendum markaði.

Góðir landsmenn. Að lokum heiti ég því að Frjálslyndi flokkurinn muni, komist hann til valda, beita sér fyrir því að gera stórátak til að bæta hag aldraðra og öryrkja í landinu. Ísland er gott og ríkt land og býr yfir stórkostlegum möguleikum. Hér á enginn að þurfa að búa við skort.

Ágætu landsmenn. Ég vil að lokum nota tækifærið til að koma á framfæri samúðarkveðjum til ættingja og vina þeirra sem fórust og urðu að lúta í lægra haldi fyrir náttúruöflunum í mynni Ísafjarðardjúps í gærkvöldi. Guð geymi minningu góðra drengja. — Góðar stundir.