133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

opinber innkaup.

277. mál
[01:36]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um opinber innkaup frá hv. frá efnahags- og viðskiptanefnd en það er að finna á þingskjali 1053. Á því þingskjali er að finna hvaða gestir komu á fund nefndarinnar og að umsagnir hafi borist frá fjölda aðila.

Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á lögum um opinber innkaup. Því er lýst í þessu nefndaráliti sem er að finna á þingskjali 1053.

Nefndin ræddi talsvert um það til hvaða aðila reglur frumvarpsins taki en líkt og í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir að sveitarfélögin undirgangist þær skyldur sem kveðið er á um í 2. þætti laganna um opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES. Nefndin ræddi um að fara þyrfti rólega í sakirnar, enda eðlilegt að gætt sé sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga. Fram kom á fundum nefndarinnar að við setningu gildandi laga hafi verið um það rætt að reglur um opinber innkaup undir framangreindum viðmiðunarfjárhæðum ættu einnig að gilda um sveitarfélögin. Ekki náðist samstaða um það á þeim tíma og var skipuð nefnd til að fjalla um málið sem hefur ekki enn lokið störfum. Sveitarfélögin sýsla með opinbert fé líkt og ríkið og töldu margir gesta nefndarinnar í ljósi þess ekki við það unað að sveitarfélögunum væri í sjálfsvald sett hvort þau undirgengjust þær auknu skyldur við opinber innkaup sem felast í 2. þætti laganna. Nefndin er sammála þessu, einkum í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um hvort sveitarfélögin muni taka við sífellt fleiri verkefnum af ríkinu. Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu í því skyni að stíga hóflegt skref í átt að því að reglur um opinber innkaup taki til sveitarfélaganna. Þannig verði kveðið á um það berum orðum í lögunum að sveitarfélögum sé heimilt að beita reglum 2. þáttar frumvarpsins um innkaup sín. Geri þau það ekki beri þeim sjálfum að setja sér reglur um innkaup. Nefndin leggur þó til nokkurn aðlögunartíma, þ.e. til 1. janúar 2008. Nefndin hvetur einnig til þess að sú nefnd sem fjármálaráðherra skipaði í febrúar 2002 til að gera tillögur um gildissvið laga um opinber innkaup gagnvart sveitarfélögunum ljúki verkefni sínu og skili tillögum hið fyrsta.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um rammasamninga og þá hættu sem þeir geta haft í för með sér að tiltekin fyrirtæki eða bjóðendur verði útilokaðir frá markaðnum eða þá að nýir aðilar komist ekki inn á markaðinn. Ríkið er langstærsti kaupandinn og á sumum sviðum sá eini og varða því miklu þeir hagsmunir sem eru fólgnir í því að gera rammasamning. Rammasamningar sem slíkir teljast ekki andstæðir samkeppnislögum en hins vegar er það metið í hvert og eitt sinn hvort svo teljist vera. Hvað þessi atriði varðar þá skiptir tímalengd rammasamnings miklu. Í 3. mgr. 34. gr. frumvarpsins er kveðið á um að gildistími rammasamnings megi ekki vera lengri en fjögur ár, nema í undantekningartilfellum sem skulu helgast af málefnalegum ástæðum. Fram kom á fundum nefndarinnar að við samningu frumvarpsins hafi verið gengið út frá því að lög um opinber innkaup takmarki ekki gildissvið samkeppnislaga. Ræddi nefndin jafnframt þá stöðu sem upp getur komið ef kaupanda samkvæmt rammasamningi bjóðast jafngóðar vörur á mikið lægra verði, t.d. 30% lægra, á almennum markaði, t.d. á netinu. Telur nefndin eðlilegt að tekið sé mið af slíkum tilfellum í rammasamningnum sjálfum.

Hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Möller og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Svanhvít Aradóttir, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara, og Sæunn Stefánsdóttir.