Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 18:19:21 (1153)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[18:19]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ein af spurningunum sem ég ætlaði að leggja fyrir hv. þingmann var hvort hann væri á móti þessu frumvarpi. En hann svaraði henni áður en ég fékk orðið þannig að það liggur fyrir. Þeir sem hafa talað fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í dag, sem er stærri flokkurinn í ríkisstjórninni, eru báðir á móti frumvarpinu. Við erum því að endurlifa þá umræðu sem fram fór í fyrra. Sjálfstæðismenn eru alfarið á móti þessu frumvarpi. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að flytja frumvarp í þinginu sem hefur ekki stuðning nema annars stjórnarflokksins, ef það hefur þá stuðning hans í heilu lagi?

Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra þurfi að huga svolítið betur að málinu. Auðvitað verður honum fyrirgefið að hafa ekki sett sig inn í öll mál. En þó er svolítið erfitt að fyrirgefa honum að hafa ekki sett sig inn í þetta mál af því að hann hefur á undanförnum árum verið svo nátengdur þeirri starfsemi sem þarna er á ferðinni.

Hv. þingmaður gaf þessum tveimur stofnunum, sem átti að sameina áður en Byggðastofnun var bætt við, heilbrigðisvottorð, sagði að þetta væru heilbrigðar stofnanir. Hann sagði það í ræðu sinni. Til viðbótar sagði hann svo að hann vildi að þær yrðu einkavæddar og settar á markað. Gott og vel, ekki að vísu Impra. Hann áttaði sig á því að það væri kannski ekki mjög heppilegt. Er sú starfsemi sem Impra er með á höndum óhugsandi úti í hinu grimma samkeppnisatvinnulífi? Ég spyr að því.