Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 21. nóvember 2006, kl. 17:08:44 (1971)


133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:08]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu afskaplega einfalt frumvarp sem er í rauninni ekki nema ein grein, fyrir utan gildistökugreinina, og felur í sér ártal þar sem verið er að framlengja ákvæði í gildandi lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o. fl.

Umræðan hefur, eins og gjarnan þegar þessi mál ber á góma, farið út um víðan völl og verið afskaplega upplýsandi og hefur kannski fyrst og fremst snúist um orkugjafa í samgöngum, á bíla og ökutæki. Svo sem vænta má, bæði hér eins og annars staðar, sýnist þar sitt hverjum með hvaða hætti skuli staðið að orkugjöfum á bíla. Þetta mál má nálgast með ýmsum hætti, eins og menn hafa gert hér í umræðunni, en það sem hlýtur þó að vera útgangspunkturinn og tengist þessu frumvarpi er kostnaðurinn.

Menn hafa m.a. talað um að vetnið, sem nýr hugsanlegur orkugjafi, sé dýrt en menn vita jú líka að bensín og jarðefnaeldsneyti eru dýrir orkugjafar. Þegar við ræðum um kostnað er mjög mikilvægt að hafa í huga alla þætti málsins, því að kostnaður er ekki bara eins og hann birtist á dælum á bensínstöðvum eða vetnisstöðinni, við þurfum að taka allan kostnaðinn. Ég vil þannig halda því fram að kostnaður vegna jarðefnaeldsneytis og þeirrar uppbyggingar sem sprengivélin byggir á sé að sumu leyti niðurgreiddur af hinu opinbera. Þá á ég við að þau áhrif sem sprengihreyfillinn og útblásturinn af jarðefnaeldsneyti hefur á umhverfi sitt.

Nú er það þekkt í flestum borgum þar sem bílaumferð er mikil að eitt mesta vandamálið sem borgarbúar eiga við að glíma er útblástur af völdum jarðefnaeldsneytis á sprengihreyflum. Í úttekt sem gerð hefur verið, bæði á vegum Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, liggur fyrir að árlega deyja þúsundir einstaklinga af völdum mengunar sem beinlínis má rekja til jarðefnaeldsneytis, útblásturs af sprengihreyflum með jarðefnaeldsneyti. Þá er ótalinn sá kostnaður sem fylgir veikindum, m.a. öndunarfærasjúkdómar, sem herja á íbúa stórborga sem lifa í þessu mengaða lofti, og hv. þingmenn þekkja örugglega af reynslu í ferðalögum sínum. Meira að segja í hinni hreinu Reykjavík má sjá á björtum og stilltum vetrardögum grútarský liggja yfir borginni sem rekja má beinlínis til útblásturs frá bílum og á ákveðnum stöðum á ákveðnum tíma sólarhringsins fer útblástur og svifryk jafnvel yfir hættumörk.

Þetta er kostnaður sem lendir beint og óbeint á samfélaginu og verður að teljast með þegar verið er að tala um kostnað af því að byggja upp innviði í orkumálum og í samgöngumálum. Við getum því ekki bara tekið kostnaðinn eins og hann er á dælu í bensínstöð eða vetnisstöð. Við þurfum að taka allan kostnaðinn á samfélagið í heild sinni. Þannig má segja að í gegnum heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið sé hið opinbera að greiða niður bein og óbein áhrif af útblæstri jarðefnaeldsneytis. Við þurfum sem sagt að taka umhverfisáhrifin með. Enda er umræðan víðast hvar sú að taka þennan samfélagslega kostnað inn í útselda verðið á eldsneytinu og taka upp svokallaða græna skatta. Sú umræða hefur t.d. verið mjög áberandi innan Evrópusambandsins, m.a. í vinnuhópi sem skoðaði þau mál og samsettur var bæði af stjórnmálamönnum og fulltrúum bílaframleiðenda í Evrópu.

Þá hefur þetta líka með sjálfbærni að gera. Við flytjum inn jarðefnaeldsneyti fyrir milljarða króna en flytjum í rauninni út peninga, þ.e. peningana sem við kaupum mengandi jarðefnaeldsneyti fyrir. Við flytjum þá úr landi úr okkar efnahagskerfi og tökum inn jarðefnaeldsneyti í staðinn. Ef vetnistæknin og efnarafalatæknin verður hins vegar að veruleika munum við hugsanlega geta snúið þessu dæmi við, í stað þess að flytja út peninga getum við flutt úr landi vetni og fengið peninga í staðinn. Við getum snúið dæminu við og að minnsta kosti orðið sjálfbær hvað varðar orku og haft þannig efnahagslegan ávinning af þessu.

Segja má að við stöndum núna á ákveðnum tímamótum varðandi orku í samgöngumálum, svipað og heimurinn stóð frammi fyrir fyrir svona 100 árum. Fyrir rúmlega 100 árum voru aðalsamgöngutækin í borgum heimsins hestar og hestvagnar. Þeim fylgdi reyndar einn vandi, nefnilega hrossaskítur um borg og stræti og mikil mengun, sýnileg mengun, bæði lyktarmengun og sjónmengun. Það kom einfaldlega upp sú krafa meðal borgarbúa Evrópu og Ameríku að leysa þann umhverfisvanda sem hrossaskíturinn var. Í New York borg voru árlega þúsundir tonna af hrossataði á götum borgarinnar. Menn geta ímyndað sér áhrif þess fyrir íbúana.

Það kom upp sú krafa að breyta þessu og hver var lausnin? Hún var T-módelið af Ford með sprengihreyfli. Það er þessi sprengihreyfill sem við höfum notast við síðustu 100 árin. En nú hillir undir að þar sé að verða breyting. Við stöndum á ákveðnum tímamótum og þau tímamót fela í sér tækifæri en líka ákveðin vandamál, því að við höfum byggt upp innviði í kringum sprengihreyfilinn, í kringum jarðefnaeldsneyti á þennan sprengihreyfil með kostum þess og göllum. Gallarnir eru augljóslega ekki hrossatað eða hrossaskítur á götum borganna heldur mengun í andrúmsloftinu sem veldur miklum skaða eins og ég nefndi hér að framan.

Nú erum við á þessum tímamótum og hvert munum við stefna? Um það er í rauninni ekkert hægt að fullyrða en þó eru ýmsar vísbendingar. Hér hafa verið nefndir metangasbílar og sannarlega skapa þeir tækifæri. Það er mjög ánægjulegt að sjá þær tilraunir sem gerðar hafa verið uppi í Gufunesi, ekki síst fyrir frumkvæði og áræði forstöðumannsins þar, Ögmundar Einarssonar, sem hefur verið mjög dugmikill í því að virkja metangasið sem sprettur upp úr sorphaugunum og er 25 sinnum áhrifameira í mengun en koldíoxíðið. Í stað þess að láta það rjúka út í andrúmsloftið er það beislað, ýmist til að knýja bíla eða framleiða rafmagn. Það er til fyrirmyndar. Menn hafa á sama hátt verið að velta fyrir sér að safna saman kúamykju af sveitabæjum á Suðurlandi og búa til metangas úr henni til að knýja áfram bíla, og nota síðan í áburð og þar fram eftir götunum.

Hins vegar liggur það fyrir að langsamlega flestir bílaframleiðendur heimsins veðja á vetni og efnarafala sem undirstöðu í samgöngutækni 21. aldar. Hvaða skoðun sem við höfum á því, sem þingmenn eða Íslendingar, þá breytir það ekki því að þúsundir vísindamanna á vegum flestra bílaframleiðenda heimsins vinna að því hörðum höndum í harðri samkeppni að þróa þessa tækni. Og sannarlega hefur þessi tækni þróast hratt og vel.

Fyrir sjö árum átti ég þess kost að fá að prófa einn vetnisknúinn bíl með efnarafölum. Þar var einungis pláss fyrir einn ökumann og ekkert meira. Hann var fullur af tækjum og dóti. Sjö árum síðar eru til hjá ýmsum bílaframleiðendum bílar með efnarafölum knúnir vetni sem komast upp undir 500 kílómetra á fyllingunni sem er talið nokkuð ásættanlegt til þess að byggja upp dreifikerfi, og eru að öðru leyti alveg eins og venjulegir bílar fyrir utan það að þeir valda engri mengun og eru hljóðlausir. Þeir framleiða sitt eigið rafmagn úr vetni og súrefni. Eini útblásturinn er hreint vatn sem er í rauninni drykkjarhæft. Sama aðferð var notuð í Appollo-geimförunum til að framleiða drykkjarvatn handa geimförunum.

Hvort sem við höfum trú á þessu eða ekki, þá tel ég það ekki skipta máli. Við munum ekki stjórna þeirri atburðarás fyrir heiminn, það munu bílaframleiðendur sjálfir gera. Ég ítreka það að flestir ef ekki allir bílaframleiðendur heimsins hafa veðjað á vetni og efnarafala. Það er það sem við Íslendingar höfum verið að bjóða. Við höfum boðið Ísland sem tilraunavettvang fyrir þær stórbrotnu tilraunir sem bílaframleiðendur hafa verið að gera út um allan heim. Einn angi þess er strætisvagnaverkefnið. Hingað hafa líka komið bílar frá Daimler-Benz-verksmiðjunum sem hafa verið lánaðir hingað og ég veit að innan fárra vikna eða mánaða stendur okkur til boða að fá hingað nokkra tugi farþegabíla.

Við erum að bjóða Ísland sem tilraunavettvang vegna smæðar landsins og vegna reynslu okkar af því að framleiða vistvænt rafmagn úr okkar vistvænu, fallegu fallvötnum og jarðhitanum. Við höfum reynslu af því að búa til þessa vistvænu orku, við höfum reynslu af því að breyta úr einum orkagjafa yfir í annan, samanber þegar við fórum úr kolum og olíu í húshitun yfir í rafmagn og heitt vatn. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa reynslu af því. Vegna smæðar okkar er tiltölulega auðvelt að byggja upp nýja innviði á Íslandi í dreifikerfi og að reyna þessa nýju tækni. Smæðin gerir okkur einmitt stór.

Ástæðan fyrir því að hinir erlendu aðilar hafa valið Ísland á þessum vettvangi er einmitt þessi smæð og sú reynsla sem við höfum, aðgangur okkar að vistvænni orku og þar fram eftir götunum. En ekki síst sú stefnumörkun sem hæstv. ríkisstjórn hefur mótað, undirrituð af fyrrverandi forsætisráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, um að Ísland bjóði hinum erlendu aðilum aðgang að íslensku samfélagi með hinni nýju tækni. Fyrsta ríkisstjórn veraldar sem það gerir. Við höfum fyrir vikið notið verðskuldaðrar athygli og umfjöllunar í hundruðum erlendra blaða og tímarita og sjónvarps- og útvarpsþáttum þar sem draumur okkar Íslendinga um að verða fyrsta vetnisvædda þjóðfélagið vekur athygli og verðskuldaða athygli vil ég segja.

Við höfum ekki bara lýst því yfir með almennu orðalagi að Ísland vilji verða fyrsta vetnissamfélagið heldur höfum við fylgt því eftir, m.a. á hv. Alþingi eins og við erum að gera í þessu frumvarpi, með því að fella niður aðkomugjöld á hina vistvænu bíla, ef kalla má þá þeim nöfnum, og þá hluti sem þarf vegna vetnistilrauna. Við erum fyrsta þjóðin sem grípur til þess en aðrar þjóðir eru að taka við sér, m.a. Norðmenn og Kaliforníubúar, vegna þess að nú er að myndast samkeppni. Menn gera sér grein fyrir því að bílaframleiðendur veraldar eru, hver um sig, að keppast um að verða fyrstur inn á hinn stóra markað með þessar nýju gerðir af bílum. Við höfum þar ákveðið forskot vegna þess að hér hefur verið þverpólitísk samstaða um að bjóða okkur sem tilraunavettvang, sýna það í verki með beinum framlögum til vetnisfélagsins Íslensk NýOrka, og með því skattalega umhverfi sem við höfum skapað hér og erum m.a. að fjalla um í þessu frumvarpi þar sem við erum að framlengja undanþáguákvæði vegna þessarar tilraunar.

Ég er sjálfur sannfærður um að stefnan verði sú að innan örfárra ára munum við sjá hér vetnisknúna bíla í hundraðavís. Miðað við það sem er að gerast hjá bílaframleiðendum þá hygg ég að 21. öldin verði öld efnarafala og vetnis alveg eins og 20. öldin var öld sprengihreyfla og jarðefnaeldsneytis.

Það er spennandi fyrir okkur að vera þátttakendur, að vera beinir þátttakendur í samstarfi við erlenda bílaframleiðendur. Ég vek líka athygli á því að Shell International, sem hefur deild sem þeir kalla Shell Hydrogen, eru þátttakendur og að hluta til eigendur í Íslenskri NýOrku vegna þess að þeir vilja fylgja á eftir sem orkudreifingaraðilar, vilja fylgja bílaframleiðendum eftir. Ef bílabransinn fer út í efnarafala og vetni þurfa orkudreifingarfyrirtækin að fylgja eftir í því og það ætla Shell-menn sér að gera líka og aðrir koma örugglega í kjölfarið.

Menn hafa aðeins velt því upp hér hvort við höfum næga orku fyrir þetta. Það liggur fyrir að af því sem Orkustofnun telur nýtanlega orku, þegar búið er að taka frá helstu perlur landsins eins og t.d. Dettifoss, Gullfoss og Geysi, þarf ekki nema innan við 10% til þess að við verðum sjálfbær um framleiðslu á vetni fyrir allan bílaflotann okkar og allan fiskiskipaflotann. Og ég minni á að þriðjungur af allri koldíoxíðsmengun okkar Íslendinga stafar einmitt af útblæstri frá bílum og annar þriðjungur af útblæstri frá fiskiskipaflota okkar. Með öðrum orðum að tveir þriðju af öllum útblæstri Íslendinga eiga rætur sínar að rekja til bíla og skipa. Þar eru syndir okkar mestar og þar er líka mesta vinnan fyrir okkur varðandi Kyoto-samkomulagið og þar fram eftir götunum. Þess vegna er það líka spennandi fyrir okkur að vera þátttakendur í vetnistilraununum, vetnisvæðingunni, og geta þar með ráðist á syndir okkar þar sem þær eru mestar og dregið mikið úr menguninni. Við getum farið að spara gjaldeyri og jafnvel skapa gjaldeyri og þar fram eftir götunum.

Þegar ég tala um að það þurfi innan við 10% af nýtanlegri orku okkar er ég einungis að tala um hefðbundinn jarðhita og hefðbundin vatnsföll. Þá tek ég ekki með í dæmið hugsanlega útkomu úr djúpborunum, ekki vindorkuna, sjávarföllin og ölduorkuna og aðra þá orkugjafa sem við eigum algerlega ónýtta hér af því að við höfum haft aðgang að svo ódýrri orku fram að þessu. Við höfum því mikla burði til þess að vera áfram leiðandi á þessu sviði. Það er ekki síst að þakka frumvarpi eins og þessu, þar sem verið er að framlengja undanþáguákvæði, og ég trúi því að við munum halda áfram að framlengja það enn um hríð, til að búa í haginn fyrir þær tilraunir sem nú eiga sér stað og Ísland er kannski stærsta tilraunastofa veraldar á þessu sviði. Þess vegna er það fagnaðarefni að þetta litla frumvarp skuli fá svona mikla og jákvæða umræðu.