Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 4  —  4. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson,


Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi ályktar að Þjórsárver, stærsta og gróðurríkasta votlendi á hálendi Íslands, skuli vernduð í heild sinni. Í því augnamiði skuli núverandi mörkum friðlandsins í Þjórsárverum breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna ásamt með Þjórsá og nærliggjandi svæðum að Sultartangalóni. Þá skuli unnið að því að hið stækkaða Þjórsárverafriðland verði tilnefnt inn á heimsminjaskrá UNESCO. Alþingi felur ríkisstjórn að hefja nú þegar nauðsynlegan undirbúning að framkvæmd ályktunarinnar svo að auglýsa megi hin nýju friðlandsmörk eigi síðar en vorið 2007.

Greinargerð.


     Tillaga þessi er flutt óbreytt frá 132. löggjafarþingi. Hún er í aðalatriðum samhljóða tillögu sem flutt var á 127., 128., 130. og 131. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Á 127. löggjafarþingi var tillagan send til umsagnar nokkurs fjölda aðila er tengjast málinu. Hún fékk afar jákvæðar umsagnir en í hópi umsagnaraðila voru Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Þjórsárveranefnd, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Jöklarannsóknarfélag Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands, Samband dýraverndunarfélaga Íslands, Landvernd, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera og hreppsnefnd Gnúpverjahrepps. Einungis Landsvirkjun og hreppsnefnd Ásahrepps mæltu ekki með samþykkt tillögunnar. Frá því að tillagan var upphaflega lögð fram hefur baráttan um Þjórsárver magnast og þeim fjölgað sem vilja að Þjórsárver njóti víðtækrar og markvissrar verndar svo hvorki raskist vistkerfi veranna né hin sérstæða landslagsheild sem þau mynda. Krafan um að hætt verði við öll áform um Norðlingaölduveitu verður æ háværari og hugmyndir um að Þjórsárver eigi skilið sæti á heimsminjaskrá UNESCO heyrast nú víða.
    Náttúruverndarsamtök Íslands létu í árslok 2004 kanna hug þjóðarinnar til stækkunar friðlands Þjórsárvera og sýndu niðurstöður könnunarinnar, sem IMG Gallup vann fyrir samtökin, að 2/ 3hlutar þjóðarinnar væru hlynntir stækkun friðlandsins.

Heimsminjaskrá UNESCO.
    Hugmyndin um að Þjórsárver eigi skilið sæti á heimsminjaskrá UNESCO kemur fyrir alvöru inn í umræðuna sumarið 2004. Þá fékk Landvernd tvo færa sérfræðinga, þá Roger Crofts og Jack D. Ives, sem báðir eru afar vel að sér um Þjórsárver, til að skila Landvernd greinargerðum um málefni veranna, verndargildi þeirra og framtíðarsýn. Í greinargerðum þeirra beggja kemur fram að núverandi friðlandsmörk séu algerlega ófullnægjandi og að þeir telji nauðsynlegt að stækka friðlandið til mikilla muna svo verndun nái tilgangi sínum. Þá fjalla þeir báðir um möguleikana á því að Þjórsárver fái sess á heimsminjaskrá UNESCO. Þeir Crofts og Ives hafa báðir unnið með UNESCO og IUCN við að meta umsóknir um skráningu svæða á þennan mikilvæga lista og hafa því mikla þekkingu og reynslu í þeim efnum. Það segir sína sögu að þeir skuli báðir telja að svæðið eigi skilið að um það verði fjallað á vettvangi heimsminjaskrárinnar og kannað verði til hlítar hvort það búi yfir þeim kostum sem gætu skipað því á heimsminjaskrá.

Staðan nú.
    Frá því að úrskurður setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, var kveðinn upp í janúar 2003 hefur Landsvirkjun sótt fast að fá endanlegar heimildir til að reisa Norðlingaölduveitu með Norðlingaöldulóni í 568 m hæð yfir sjávarmáli ásamt set- og veitulóni suðaustan undir Hofsjökli. Um málið var fjallað á vettvangi sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli og loks féllst hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps á að setja framkvæmdina inn á aðalskipulag þar sem miðað yrði við að lónhæð næði 566 m y.s. að sumarlagi og 567,5 m y.s. að vetrarlagi. Sú tilhögun var kynnt og auglýst í janúar 2005, bæði af hreppsnefndinni og samvinnunefnd miðhálendis. Hreppsnefndinni bárust 98 athugasemdir er vörðuðu Norðlingaölduveitu og voru þær undirritaðar af 275 einstaklingum. Samvinnunefndin fékk athugasemdir frá 146 aðilum sem allar, utan ein, vörðuðu Norðlingaölduveitu. Ákvað samvinnunefndin að taka tillit til þessarar miklu andstöðu með því að breyta umfangi Norðlingaölduveitu á endanlegri skipulagstillögu auk þess sem ljóst var orðið að ekki var lengur meiri hluti fyrir því í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps að heimila Norðlingaölduveitu. Hinn 12. ágúst 2005 samþykkti samvinnunefnd miðhálendis tillögu að breytingu á staðfestu svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 fyrir svæðið sunnan Hofsjökuls. Þar voru tekin út set- og veitulón þau er fyrirskrifuð voru sem mótvægisaðgerðir í úrskurði setts umhverfisráðherra ásamt með mannvirkjum tengdum þeim. Þannig var skipulagstillagan send umhverfisráðherra til staðfestingar og þannig ákvað hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps, á fundi sínum í september 2005, að auglýsa aðalskipulag sveitarfélagsins.
    Skipulagsstofnun fjallaði um tillögu samvinnunefndarinnar og taldi að með breytingunni á útfærslu Norðlingaölduveitu hefði samvinnunefndin breytt auglýstri tillögu í grundvallaratriðum og því bæri að auglýsa tillöguna á nýjan leik. Einnig taldi Skipulagsstofnun að þær breytingar sem nefndin gerði á tillögunni stönguðust á við lög um raforkuver (2. mgr. 2. gr.), þar sem útfærsla framkvæmdarinnar hefði verið lögfest með úrskurði setts umhverfisráðherra. 29. desember 2005 staðfesti umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, svo skipulagstillögu samvinnunefndarinnar að öðru leyti en því að hún synjaði þeim hluta tillögunnar staðfestingar sem varðaði breytingar á Norðlingaölduveitu. Þannig stendur málið nú og má því segja að skipulag svæðisins sunnan Hofsjökuls sé á byrjunarreit. Því telja flytjendur þessarar tillögu að nú sé lag og kærkomið tækifæri til að vernda til framtíðar dýrmætustu gróðurvin á hálendi Íslands, Þjórsárver.


Fylgiskjal.


Umhverfisstofnun:

Náttúruverndaráætlun 2004–2008, tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar.


Viðauki 7 – Tillögur á Suðurlandi, Þjórsárver (stækkun friðlands).



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.