Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 52  —  52. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    33. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til felld verði brott úr lögum um fjárreiður ríkisins lagagrein sem heimilar fjármálaráðherra að greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Greinin er svohljóðandi:
    „Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“
    Greinin var umdeild þegar frumvarpið, sem síðar varð að lögum um fjárreiður ríkisins, var rætt og afgreitt á Alþingi á 121. löggjafarþingi vorið 1997. Var á það bent að greinin færi í bága við 41. gr. stjórnarskrárinnar en hún hljóðar svo:
    „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“
     Tvær breytingartillögur komu fram við 33. gr. sem báðar miðuðu að því að lögin gengju ekki lengra en stjórnarskráin var talin heimila en þær voru báðar felldar. Að öðru leyti er vísað til umræðunnar sem þá fór fram um málið sem var 100. mál þingsins, þskj. 103.
    Flutningsmaður vill að nýju flytja þá tillögu að fella alveg brott 33. gr. og undirstrika með því að löggjafarvaldinu er samkvæmt stjórnarskrá ætlað að fara með fjárveitingavaldið. Verði frumvarpið að lögum mun það styrkja löggjafarvaldið og stefna að aðgreiningu þess og framkvæmdarvaldsins, líkt og frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem einnig er flutt á þessu þingi (12. mál).