Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 77  —  77. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samvinnu vestnorrænna landa og upplýsingamiðlun í baráttunni gegn reykingum.

Flm.: Halldór Blöndal, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að auka og efla samvinnu og upplýsingamiðlun í baráttunni gegn reykingum. Skorað er á löndin að halda námsstefnu eða ráðstefnu fyrir vestnorrænar heilbrigðisstéttir um málið.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2006 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 21. ágúst 2006 í Þórshöfn í Færeyjum. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að auka og efla samvinnu og upplýsingamiðlun í baráttunni gegn reykingum. Skorað er á löndin að halda námsstefnu eða ráðstefnu fyrir vestnorrænar heilbrigðisstéttir um málið.

Rökstuðningur.
    Reykingar eru eitt erfiðasta heilsuvandamál sem við er að kljást á Vesturlöndum. Hið sama er uppi á teningnum á Vestur-Norðurlöndum. Eins og kunnugt er valda reykingar mörgum sjúkdómum og leiða í versta falli til ótímabærs dauða. Á Vesturlöndum er eining um að bráða nauðsyn beri til að berjast gegn reykingum íbúanna til að fækka reykingamönnum. Því ber að ná fram með því að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að reykja og reyna að fá fólk sem þegar reykir til að hætta. Það tekst aðeins með markvissum aðgerðum.
    Takist að draga úr fjölda þeirra sem reykja mun draga úr sjúkdómum sem tengjast reykingum, langlífi aukast og fleiri lifa lífinu lausir við alvarlega sjúkdóma. Við bætist efnahagslegur ávinningur, bæði fyrir Vestur-Norðurlönd og vestnorræn heimili. Það verður efnahagslegur ávinningur fyrir löndin ef færri hafa þörf fyrir meðferð vegna sjúkdóma sem tengjast reykingum. Jafnframt verður það sparnaður fyrir heimilin þegar minna fé er eytt í tóbakskaup.
    Vestur-Norðurlönd hafa langa hefð fyrir góðri og víðtækri samvinnu. Það er áríðandi að þau sameinist um að berjast gegn sameiginlegum óvini, tóbakinu. Það geta þau meðal annars með því að miðla hvert öðru af baráttuaðferðum sínum og reynslu.
    Reykingar eru vandamál á öllum Vestur-Norðurlöndum. Á heilbrigðisráðstefnu Vestnorræna ráðsins árið 2003 kom fram að reykingar eru eitt mesta heilsuvandamálið á Grænlandi. Reykingar eru einnig of útbreiddar í Færeyjum og á Íslandi. Á Íslandi hefur þó tekist á síðustu 20 árum að draga töluvert úr fjölda reykingamanna. Árið 1985 reyktu 40% Íslendinga á aldrinum 18–69 ára en árið 2005 var hlutfall íslenskra reykingamanna í sama aldursflokki komið niður í 21%. Þetta náðist með markvissum aðgerðum. Beitt hefur verið upplýsingaherferð um reykingar og afleiðingar þeirra, þar sem fléttað hefur verið saman jákvæðum reyklausum fyrirmyndum og vítum til varnaðar, auk þess sem reykingar hafa verið bannaðar á mörgum opinberum stöðum, t.d í öllum opinberum byggingum.
    Vestnorræna ráðið skorar á heilbrigðisráðherra Vestur-Norðurlanda að auka og efla samstarf sitt í baráttunni gegn reykingum, bæði með því að skiptast á upplýsingum og miðla af reynslu sinni. Vestnorræna ráðið hvetur til þess að gerð verði grein fyrir því hvaða aðferðir hafa skilað árangri í baráttunni gegn reykingum. Enn fremur er hvatt til þess að löndin þrjú haldi síðan námsstefnu eða ráðstefnu með fólki úr heilbrigðisstéttum, sem vinnur við varnir gegn reykingum, þar sem það deili með sér reynslu, læri hvert af annars baráttuaðferðum og miðli upplýsingum.“