Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 100. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 100  —  100. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,
Guðjón A. Kristjánsson, Gunnar Örlygsson, Sæunn Stefánsdóttir,
Ágúst Ólafur Ágústsson, Dagný Jónsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild, sbr. 17. gr. hjúskaparlaga, er heimilt að staðfesta samvist.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild samkvæmt hjúskaparlögum verði heimilt að staðfesta samvist.
    Samkvæmt lögum um staðfesta samvist geta einungis sýslumenn og fulltrúar þeirra staðfest samvist. Prestum og forstöðumönnum trúfélaga er það ekki heimilt en skiptar skoðanir eru meðal þeirra um hvort heimila eigi slíkt. Staðfest samvist er hliðstæður löggerningur við giftingu, en hún er einungis heimil í borgaralegri athöfn eins og lögin eru nú. Mikilvægt er að söfnuðir og trúfélög hafi einnig heimild til þess að framkvæma staðfestingu á samvist til jafns við giftingar gagnkynhneigðra.
    Til þess að ná fullu jafnrétti eins og mælt er fyrir um í 65. gr. stjórnarskrárinnar þarf prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga sem þess óska að vera heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra. Í því felst ekki nein nauðung heldur yrði valið á hendi safnaðanna sjálfra. Eins og lögin um staðfesta samvist eru nú má hins vegar telja að ákveðin nauðung felist í því að heimila ekki þeim söfnuðum sem það kjósa að staðfesta samvist. Við slíkt verður ekki unað og er því þetta frumvarp flutt til að tryggt verði fullt jafnrétti milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra hvað varðar giftingu og staðfesta samvist.