Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 177  —  177. mál.




Frumvarp til laga



um fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni.

Flm.: Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Jóhann Ársælsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jón Gunnarsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að hækkun menntunarstigs og eflingu þekkingar- og samkeppnishæfni einstaklinga og atvinnulífs á starfssvæðum þeirra. Þeim skal auk þess vera heimilt að standa fyrir eða eiga samvinnu um tómstundanámskeið og annars konar fræðslustarfsemi.

2. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna skal vera að stuðla að auknu námsframboði á starfssvæði sínu, hvetja íbúa og atvinnulíf til að nýta sér námsframboðið og auðvelda þeim að stunda nám.
    Meðal verkefna fræðslu- og símenntunarmiðstöðva skal vera:
     a.      ráðgjöf varðandi sí- og endurmenntun,
     b.      upplýsingagjöf og kynning á námsmöguleikum,
     c.      frumkvöðlastarf í þróun fullorðinsfræðslu,
     d.      rekstur aðstöðu fyrir starfsmenn og nemendur.
    Meðal sérverkefna fræðslu- og símenntunarmiðstöðva skal vera:
     a.      fræðsla á strjálbýlli svæðum,
     b.      íslenskukennsla fyrir nýbúa,
     c.      miðlun háskólanáms,
     d.      sérstök verkefni sem menntamálaráðuneytið kann að fela þeim.
    Önnur tilfallandi samstarfsverkefni stöðvanna og svæðisbundinna ríkisstofnana, framhaldsskóla, rannsóknastofnana, sveitarfélaga eða annarra aðila við vinnu að verkefnum sem falla undir tilgang fræðslu- og símenntunarmiðstöðva skv. 1. gr.

3. gr.
Stofnun, stjórn og starfslið.

    Stofna má fræðslu- og símenntunarmiðstöð til að vinna að markmiðum laga þessara.
    Hver fræðslu- og símenntunarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra.
    Í stjórn fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar skulu eiga fast sæti fæst þrír menn og a.m.k. einn varamaður. Stjórnarmenn skulu velja nýja menn til setu í stjórninni. Við val stjórnarmanna skal einfaldur meiri hluti ráða. Falli atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða. Sé ekki valinn stjórnarmaður í stað þess sem lætur af störfum innan árs skal ráðherra velja hann.
    Menntamálaráðherra velur menn til stjórnarsetu ef ekki eru tilskilin ákvæði um slíkt í skipulagsskrá miðstöðvarinnar.
     Í samþykktum má ákveða að auk stjórnar skuli vera fulltrúaráð í stofnuninni. Þar skal kveða á um val og starfstíma fulltrúaráðsins og hlutverk eða starfssvið stofnunarinnar sem skal meðal annars velja í stjórn miðstöðvar í samræmi við ákvæði samþykkta, vera tengiliður milli stofnenda og stjórnar eftir því sem við á, fylgjast með rekstri stofnunarinnar og hafa þá eftirlit með því hvernig stjórn og framkvæmdastjóri, ef svo ber undir, ráða málum hennar, þ.m.t. fjármálum, og setja stofnuninni nauðsynlegar starfsreglur.
    Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn mega ekki skipa meiri hluta fulltrúaráðs.
    Samþykktum sjálfseignarstofnana verður ekki breytt nema með heimild í þeim. Til breytinga á samþykktum þarf samþykki minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst en 2/ 3 hlutar hluta þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir. Til að auka skuldbindingar aðila þarf þó samþykki þeirra allra.
    Þó er fulltrúaráði, eða stjórn ef ekki er gert ráð fyrir fulltrúaráði í stofnuninni, heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum ef sýnt er að samþykktirnar séu ekki framkvæmanlegar eða andstæðar tilgangi stofnunarinnar. Láti fulltrúaráðið eða stjórnin undir höfuð leggjast að gera breytingar í slíkum tilvikum eftir að ráðherra hefur veitt hæfilegan frest til þess er honum heimilt að breyta samþykktum.
    Stjórninni er heimilt að ráða einn eða fleiri framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri getur ekki verið stjórnarformaður stofnunarinnar. Meiri hluta stjórnar skulu þeir mynda sem eru ekki framkvæmdastjórar stofnunarinnar.
    Stjórn og framkvæmdastjóri stofnunarinnar skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár.
    Fulltrúaráð skal velja einn eða fleiri endurskoðendur (eða endurskoðunarfélög) eða skoðunarmenn og varamenn þeirra í samræmi við ákvæði samþykkta. Sé ekki gert ráð fyrir fulltrúaráði í fræðslu- og símenntunarmiðstöðinni skal endurskoðandi endurskoða reikninga stofnunar og velur stjórn félagsins hann. Sé fræðslu- og símenntunarmiðstöðin án endurskoðanda eða skoðunarmanns skal ráðherra velja hann eða þá.

4. gr.
Samþykktir.

    Í samþykktum (skipulagsskrá) fræðslu- og símenntunarmiðstöðva skal greina eftirtalin atriði:
     a.      heiti,
     b.      heimili og aðalstarfsstöð,
     c.      tilgang,
     d.      stofnendur og framlagsfé þeirra,
     e.      stofnfé sjálfseignarstofnunar,
     f.      hvort sjálfseignarstofnun skuli taka við öðrum fjármunum en reiðufé í tengslum við stofnunina,
     g.      hvort stofnendur eða aðrir skuli njóta sérstakra réttinda í sjálfseignarstofnuninni,
     h.      fjölda stjórnarmanna og hugsanlegra fulltrúaráðsmanna, m.a. varamanna, og endurskoðenda (eða endurskoðunarfélaga) eða skoðunarmanna, starfstíma þeirra og hvernig þeir skuli valdir, svo og hvernig háttað skuli vali nýs stjórnarmanns eða fulltrúaráðsmanns í lausa stöðu,
     i.      hvert reikningsárið skuli vera,
     j.      hvernig ráðstafa skuli hagnaði eða fara með ef tap verður á rekstri sjálfseignarstofnunar,
     k.      hver sé bær um að ákveða breytingar á samþykktum, leggja sjálfseignarstofnun niður eða sameina hana annarri, svo og hvernig standa skuli að ráðstöfun eigna við slit hennar.
    Skjöl, sem vísað er til í samþykktum en ekki eru tekin upp í þær, skulu fylgja þeim.
    Í skipulagsskrá skal kveðið á um starfssvæði viðkomandi fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar, aðila að henni og áhersluatriði í starfseminni önnur en kveðið er á um í lögum þessum.

5. gr.
Stofnfé.

    Stofnfé fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar skal vera minnst 1.000.000 kr. Þessari lágmarksfjárhæð getur ráðherra breytt í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Breytingin skal öðlast gildi við upphaf árs, enda hafi verið tilkynnt um hana eigi síðar en 15. desember árið áður. Fjárhæðinni skal þó ekki breytt nema efni séu orðin til breytingar sem nemur a.m.k. tuttugu af hundraði frá því að breyting var síðast gerð. Þá skal lágmarksfjárhæð jafnan standa á heilu hundraði þúsunda króna.
    Nú uppfyllir fræðslu- og símenntunarmiðstöð kröfu um lágmarksfjárhæð þegar hún er stofnuð og er henni þá ekki skylt að hækka síðar stofnfé í samræmi við endurskoðun lágmarksfjárhæðar samkvæmt þessari grein.
    Greiðsla stofnfjár má ekki felast í skyldu til að vinna verk eða veita þjónustu.

6. gr.
Fjárveitingar.

    Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar fá föst framlög frá ríkinu af fjárlögum hvers árs.
    Um fjárveitingar til fræðslu- og símenntunarmiðstöðva gildir eftirfarandi:
     a.      Rekstrarkostnaður skal greiddur að fullu úr ríkissjóði, þ.m.t. laun, launatengd gjöld, stjórnunarkostnaður, rekstur fjarkennslunets, rekstur húsnæðis og kostnaður við önnur verkefni sem fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum eru falin samkvæmt lögum.
     b.      Stofnkostnaður skal greiddur af ríkissjóði.
     c.      Kostnað við aðra starfsemi sem stjórn fræðslu- og símenntunarmiðstöðva ákveður og greiðist ekki af fjárveitingum skv. a- og b-lið greiðir fræðslu- og símenntunarmiðstöð og aflar til þess sértekna.
    Ráðuneytið skal standa straum af sérverkefnum sem það kann að fela stöðvunum, samkvæmt sérstökum samningi hverju sinni, hvort heldur er árlegum verkefnum eða verkefnum sem ráðast þarf í vegna sérstakra svæðis- eða tímabundinna aðstæðna.

7. gr.
Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.

8. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem eru starfandi við gildistöku laga þessara og falla undir gildissvið þeirra skulu innan eins árs frá gildistöku að telja aðlaga starfsemi sína að lögunum.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 132. löggjafarþingi en ekki tókst að ljúka afgreiðslu málsins.
    Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar hafa starfað í meira en áratug. Reynslan af þeim hefur verið einkar jákvæð. Óhætt er að segja að þær hafi reynst afar mikilvægar fyrir menntunarmöguleika fullorðinna á landsbyggðinni. Í þeim efnum hafa þær sannarlega lyft grettistaki. Auk eigin námsframboðs miðla miðstöðvarnar kennslu á öllum skólastigum, að frátöldu grunnskólastigi. Þær vinna jafnframt mikilvægt hvatningarstarf, annast kynningu á námsframboði, greina menntunarþörf einstaklinga og sjá um skipulagningu náms og tilboðsgerð. Miðstöðvarnar bjóða upp á námsaðstöðu og semja um þátttöku við sveitarfélög, skóla, fyrirtæki og stofnanir.
    Þrátt fyrir að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar hafi starfað í meira en áratug búa þær enn við óvissu í skipulagsmálum og formi. Þær eru sjálfseignarstofnanir og heyra eðli málsins samkvæmt undir menntamálaráðuneytið en eru ekki á föstum fjárlögum. Þeim hefur ekki verið settur starfsrammi af hálfu ráðuneytisins og fjárframlög til þeirra eru án alls tillits til eðlis og umfangs þeirra verkefna sem þær hafa með höndum eða starfsumhverfis þeirra. Þannig er ekki tekið tillit til mismunandi landfræðilegra starfsaðstæðna, mismunandi fólksfjölda á starfssvæði þeirra, hvaða hópum þær þjóna, né annars sem augljóslega skapar miðstöðvunum þó mismunandi grundvöll og aðstæður.
    Miðlun háskólanáms hefur stóraukist í starfsemi fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna. Sá þáttur hefur þó reynst þeim afar kostnaðarsamur og í raun um megn. Sveitarfélög á viðkomandi starfssvæðum hafa því ekki átt annars úrkosti en að axla þennan kostnað, sem í raun á að falla á ríkissjóð, til að komast hjá taprekstri og jafnvel gjaldþroti stöðvanna. Nemur kostnaður sveitarfélaga allnokkrum milljónum króna árlega á dreifbýlum svæðum þar sem margar útstöðvar eru nauðsynlegar, t.d. nam kostnaður sveitarfélaga á Vesturlandi tæpum 4 millj. kr. árið 2004.
    Lögum sem samþykkt yrðu á grundvelli þessa frumvarps er ætlað að setja fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum lagalegan ramma og tryggja rekstrarumhverfi þeirra til framtíðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt rannsóknum hafa íbúar landsbyggðarinnar að jafnaði styttri skólagöngu að baki en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum er ekki síst ætlað að jafna þennan mun með því að auðvelda fullorðnum aðgengi að menntun og auka samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þeim ber að vinna að þessu markmiði með stofnunum sem sinna fræðslu, hvort heldur er opinberum eða einkareknum, auk eigin námsframboðs.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um það meginverkefni fræðslu- og símenntunarmiðstöðva að greina þarfir og veita þjónustu í samræmi við þær og að miðstöðvarnar skuli einbeita sér jafnt að atvinnulífinu sem einstaklingum. Markmiði sínu skulu þær þjóna með eigin námsframboði og miðlun náms frá öðrum stofnunum eða skólum. Stöðvarnar skulu sinna kynningar- og hvatningarstarfi, ráðgjöf og upplýsingagjöf samhliða mikilvægu frumkvöðlastarfi hver á sínu svæði.
    Auk ofangreinds skulu fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar sinna sérstökum verkefnum, svo sem dreifingu fræðslu til strjálbýlli svæða þar sem íbúar eiga oft sérstaklega erfitt með að afla sér þekkingar eða endurnýja hana.
    Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar skulu sinna íslenskukennslu fyrir nýbúa en þar er um að ræða brýnt samfélagslegt hagsmunamál sem krefst sérhæfðs kennsluefnis og kennslufræði. Þær skulu miðla háskólanámi til þeirra staða á starfssvæði þeirra þar sem markaður er fyrir hendi.
    Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar skulu vinna að sérverkefnum sem menntamálaráðuneytið felur þeim enda sé gert ráð fyrir slíku í fjárveitingum til stofnananna eða gjald komi fyrir hverju sinni. Einnig skulu þær ásamt öðrum vinna að sérverkefnum sem falla undir tilgang stöðvanna og stjórn þeirra felur þeim.
    Leitast skal við að innan vébanda fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna sé jafnan til staðar nægileg þekking á kennslufræði fullorðinna jafnt sem nýjasta kennslutækni og -búnaður á hverjum tíma.

Um 3. gr.

    Grein þessi á sér fyrirmynd í 14., 22., 28., 30., og 36. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Um 4. gr.

    Grein þessi á sér fyrirmynd í 9. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

Um 5. gr.

    Grein þessi á sér fyrirmynd í 10. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur og 2. mgr. 11. gr. sömu laga.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ríkissjóður skuli leggja rekstrarfjármagn til þeirra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem viðurkenndar hafa verið af menntamálaráðuneytinu og fengið starfsleyfi sem nægir til að standa undir skilgreindum rekstrarkostnaði. Rekstrarkostnaður er eðli máls samkvæmt misjafn eftir umfangi starfsemi, landfræðilegum aðstæðum og mannfjölda á viðkomandi starfssvæði. Þannig má áætla að hlutfallslega dýrara sé að halda uppi fræðslustarfsemi á strjálbýlum og fámennum svæðum með mörgum útstöðvum en í þéttbýli þar sem aðeins er haldið uppi starfsemi á einum stað. En til að ná yfirlýstum markmiðum frumvarpsins teljast þrír starfsmenn lágmarksfjöldi, þ.e. framkvæmdastjóri, skrifstofumaður og námsráðgjafi.
    Mikill kostnaður fylgir því fyrir fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar að veita háskólanemendum í fjarnámi þjónustu. Felst sá kostnaður m.a. í rekstri svokallaðs FS-nets, sem er fjarkennslunet háskóla, símenntunarmiðstöðva og framhaldsskóla, þjónustu við nemendur á mörgum námsstöðvum, húsnæði fyrir búnaðinn og námsaðstöðu nemenda. Reikna má með að sá kostnaður geti numið töluverðum upphæðum fyrir þær fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem hafa flestar útstöðvar. Sveitarfélög hafa fram til þessa lagt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum lið til að standa straum af þessum kostnað. Hann á þó rætur sínar að rekja til þjónustu við framhalds- og háskólanemendur og aðstöðu sem ríkið eða sjálfseignarstofnanir leggja til á þeim stöðum sem háskólar eru staðsettir. Það er því jafnræðismál að ríkissjóður taki á sig þann kostnað sem af rekstri FS-netsins hlýst, aðstöðu og þjónustu við það.
    Menntamálaráðuneytið hefur verið í samvinnu við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar um ýmis sérverkefni, t.d. viku símenntunar, íslenskukennslu fyrir útlendinga o.fl. Eðlilegt er að reikna með slíku samstarfi framvegis og að sérstök greiðsla komi fyrir.

Um 7.– 8. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.