Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 178. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 178  —  178. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.


Flm.: Valdimar L. Friðriksson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 28. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða bifreiðir fatlaðra, og“ í h-lið falla brott.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: á merktu stæði fyrir bifreiðir fatlaðra.

2. gr.

    Í stað orðanna „1. mgr. 108. gr.“ í 2. mgr. 100. gr. laganna kemur: a-lið 1. mgr. 108. gr.

3. gr.

    Í stað orðanna „a-, b-, h- og i-liða“ í b-lið 1. mgr. 108. gr. laganna kemur: a-, b-, h-, i- og j-liða.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 132. löggjafarþingi (þskj. 1054, 718. mál).
    Bifreiðastæði merkt fötluðum eru þeim einstaklingum afar mikilvæg til að geta verið virkir þátttakendur í samfélaginu og verið sjálfbjarga í daglegu lífi. Reglugerð nr. 369/2000, um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, með síðari breytingum, tekur mið af sambærilegum reglum hjá EES-löndunum. Hér á landi er verulega ábótavant að reglur um nefnd stæði fatlaðra séu virtar af ökumönnum og oft lagt í þessi stæði þó P-stæðiskort hreyfihamlaðra sé ekki til staðar í bifreið. Það er því rík ástæða til að skapa úrræði í umferðarlögum sem hvetja til þess að nefnd stæði komi réttum einstaklingum að gagni.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á 108. gr. umferðarlaga og kveðið á um að leggja megi á gjald ef bifreið er lagt í stæði sem er merkt fötluðum.
    Í 2. mgr. 100. gr. laganna kemur fram að ekki skuli refsað fyrir þau brot sem greint er frá í 108. gr. nema stöðvun og lagning ökutækis hafi haft í för með sér hættu fyrir aðra eða að óþörfu valdið óþægindum í umferðinni. Lagt er til að þessu verði breytt þannig að refsað verði fyrir brot sem tilgreind eru í 1. mgr. 108. gr. nema þau sem kveðið er á um í a-lið ákvæðisins, þ.e. þegar lagt er í stæði sem ekki eru sérstaklega merkt á þann hátt eða þegar lagt er á gangstétt.