Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.

Þskj. 308  —  295. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003 .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
         

1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun, tækniþróun og nýsköpun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu öllu.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Stefna stjórnvalda í vísindum, tækni, nýsköpun og atvinnuþróun skal mörkuð af Vísinda- og nýsköpunarráði til þriggja ára í senn. Umfjöllun á þessum sviðum skal undirbúin af vísindanefnd og nýsköpunarnefnd.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Forsætisráðherra skipar 16 menn í Vísinda- og nýsköpunarráð til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara. Tveir skulu skipaðir án tilnefningar en 14 samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila.
     b.      Í stað orðsins „tvo“ í 2. mgr. kemur: fjóra.
    

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. og 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð“ kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Vísinda- og nýsköpunarráð.
     b.      Í stað orðsins „tækninefnd“ kemur (í viðeigandi beygingarfalli): nýsköpunarnefnd.

5. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Vísinda- og nýsköpunarráð.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

7. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 71/1994: Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráðs“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Vísinda- og nýsköpunarráðs .
     2.      Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003: Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð“ í 1. mgr. 2. gr., 1. og 7. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 5. gr., 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. 8. gr. og 10. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Vísinda- og nýsköpunarráð .
     3.      Lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, nr. 4/2003:
                  a.      Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð“ í 3. gr., 1. mgr. 4. gr., 2. og 3. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Vísinda- og nýsköpunarráð.
                  b.      Í stað orðanna „tækninefndar Vísinda- og tækniráðs“ í a- og b-lið 1. mgr. 6. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): nýsköpunarnefndar Vísinda- og nýsköpunarráðs.
                  c.      Í stað orðsins „tækninefnd“ í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: nýsköpunarnefnd.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Forsætisráðherra skipar tvo menn í Vísinda- og nýsköpunarráð frá 1. janúar 2007 til 31. mars 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð eigi útrætt.
    Vísinda- og tækniráð varð til með lögum nr. 2/2003. Markmiðið með stofnun stefnumótandi ráðs um vísindi, tækniþróun og nýsköpun undir forustu forsætisráðherra og með þátttöku fleiri ráðherra var að samhæfa stefnumótun sem um langt skeið hafði verið á ábyrgð einstakra fagráðuneyta. Sú stefnumótun hafði að mestu leyti verið án heildarsamræmingar þeirra á milli.
    Á þeim þremur árum sem ráðið hefur starfað hefur komið ótvírætt í ljós að starfsemi þess hefur leitt til raunverulegrar samhæfingar og veigamikilla breytinga. Meðal annars hefur skilningur aukist á mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslegar framfarir. Tekist hefur að samræma ólík sjónarmið ráðuneyta og skapa aukinn skilning og tengsl milli háskóla og fyrirtækja. Þá hefur samhæfing opinberra samkeppnissjóða verið árangursrík.
    Að frumkvæði Vísinda- og tækniráðs hefur verið unnið að sameiningu rannsóknastofnana. Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp um stofnun Matvælarannsókna hf. sem á að geta leyst af hendi verkefni sem nú eru hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og Matvælarannsóknum Keldnaholti. Einnig var fyrirkomulag stofnana iðnaðarráðuneytisins tekið til endurmats og er niðurstaðan sú að sameina beri Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun í nýja stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Með sameiningunni er stigið skref til að sameina og samþætta tæknirannsókir og stuðningsumhverfi atvinnulífsins.
    Atvinnuþróunarstarfsemi nær aftur á móti út fyrir verksvið iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og krefst því samstöðu fleiri ráðuneyta sem koma að atvinnu- og efnahagsþróun. Því er lagt til í frumvarpi þessu að víkka út starfsemi Vísinda- og tækniráðs þannig að það taki til umfjöllunar málefni atvinnuþróunar auk málefna vísinda, tækni og nýsköpunar eins og nú. Útvíkkun starfsemi Vísinda- og tækniráðs með þessum hætti eykur þýðingu þess í stefnumótun ríkisstjórnarinnar í atvinnuþróun. Vegna þessarar viðbótar við verksvið ráðsins er lagt til að nafn þess taki breytingum til samræmis og það nefnt Vísinda- og nýsköpunarráð.
    Þá er gerð tillaga um að fulltrúum í ráðinu verði fjölgað um tvo sem forsætisráðherra skipi án tilnefningar. Jafnframt er gert ráð fyrir að forsætisráðherra verði heimilt að kveðja allt að fjóra ráðherra til setu í ráðinu í stað tveggja nú.
    Ef hugmyndir þessar ná fram að ganga verða tvær nefndir, eftir sem áður, starfandi á vegum ráðsins sem undirbúa málefni á milli funda þess. Annars vegar er vísindanefnd sem undirbýr stefnu stjórnvalda á sviði grunnvísindarannsókna og hagkvæmra vísindarannsókna. Hins vegar verður nýsköpunarnefnd sem undirbýr stefnu á sviði tækni, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Náið samstarf þarf að vera á milli þeirra, enda um eina samfellda stefnu að ræða. Sú stefna þarf að taka til þátta sem fram til þessa hafa ekki verið á dagskrá ráðsins. Markmiðið er að vísinda- og nýsköpunarstefna ríkisstjórnarinnar geti orðið svo heildstæð að ýmiss konar sértækari stefnumótun væri samræmd við hana eða félli jafnvel inn í hana. Hér er m.a. vísað til stefnumótandi byggðaáætlunar sem er á verksviði iðnaðarráðuneytis. Byggðaáætlunin byggist nú þegar að talsverðu leyti á stefnu Vísinda- og tækniráðs og tekið er tillit til fjarskiptaáætlunar og stefnu í sveitarstjórnarmálum, svo dæmi séu nefnd. Atvinnupólitísk stefnumótun Vísinda- og nýsköpunarráðs gæti orðið samnefnari slíkrar afmarkaðri stefnumótunar.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði þessa frumvarps taki gildi 1. janúar 2007 og skipi þá forsætisráðherra tvo nýja fulltrúa, svo sem áður var nefnt, til setu í ráðinu til loka mars 2009. Vísinda- og tækniráð samþykkti vorið 2006 vísinda- og tæknistefnu til ársins 2009. Á fyrri hluta árs 2007 mun ráðið væntanlega fara yfir stefnu sína með hliðsjón af útvíkkuðu hlutverki þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að markmiðum laganna verði breytt þannig að þeim verði framvegis einnig ætlað að efla nýsköpun og með því móti verði samkeppnisstaða atvinnulífsins styrkt og stuðlað að auknum lífsgæðum í landinu öllu.

Um 2. gr.

    Vísinda- og nýsköpunarráði er ætlað að marka stefnu stjórnvalda í vísindum, tækni, nýsköpun og atvinnuþróun. Nýsköpun og atvinnuþróun bætast við þau mál sem ráðinu er ætlað að móta stefnu um. Er þetta í samræmi við ný markmið laganna.

Um 3. gr.

    Til samræmis við það að málaflokkurinn sem Vísinda- og nýsköpunarráði er ætlað að móta stefnu um er umfangsmeiri en sá málaflokkur sem Vísinda- og tækniráð mótar stefnu um samkvæmt gildandi lögum er lagt til að nefndarmenn í Vísinda- og nýsköpunarráði verði fleiri en nú eru í Vísinda- og tækniráði. Er lagt til að nefndarmönnum verði fjölgað úr 14 í 16. Lagt er til að forsætisráðherra skipi þá tvo er bætast við án tilnefningar. Er við það miðað að þeir komi úr atvinnulífinu og hafi reynslu eða sérþekkingu sem nýst getur við hagnýtingu rannsókna. Með þessu opnast sá möguleiki að skipa í ráðið menn sem eru starfandi í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Þá er forsætisráðherra heimilt að kveðja allt að fjóra ráðherra til setu í ráðinu í stað tveggja nú, til viðbótar þeim ráðherrum sem eiga fasta setu í ráðinu.

Um 4. gr.

    Lagt er til að heiti tækninefndar verði breytt í nýsköpunarnefnd. Er það í samræmi við stærra hlutverk nefndarinnar.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að heiti laganna verði breytt. Vísinda- og tækniráð mun eftir gildistöku laganna heita Vísinda- og nýsköpunarráð. Eru breytingarnar á heiti laganna og heiti ráðsins í samræmi við það viðbótarhlutverk sem ráðinu er ætlað með lagabreytingunni.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/2003,
um Vísinda- og tækniráð.

    Með frumvarpinu er lagt til að verksvið núverandi Vísinda- og tækniráðs samkvæmt lögum nr. 2/2003 verði útvíkkað svo það nái einnig til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Jafnframt eru tillögur um nafnabreytingar, sem undirstrika útvíkkað svið, og fjölgun í ráðinu um tvo fulltrúa. Seta í ráðinu er ólaunuð og gerir fjármálaráðuneytið því ekki ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á kostnað ríkisins verði það að lögum.