Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.

Þskj. 390  —  359. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum,
eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 2006“ í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 31. desember 2008.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að framlengd verði tímabundin heimild til að lækka vörugjald af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Þessi tímabundna heimild fellur að óbreyttu úr gildi 31. desember 2006 og er hér lagt til að hún verði framlengd um tvö ár. Innflutningsverð umræddra bifreiða er alla jafna nokkru hærra en hefðbundinna ökutækja og er heimildinni ætlað að gera þær samkeppnisfærari á almennum markaði. Markmiðið með framlengingunni er að styðja áfram við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum. Einnig hefur verið bent á að notkun umræddra bifreiða sé nauðsynlegt skref í frekari þróun í framleiðslu bifreiða sem eingöngu verða knúnar öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu. Það byggist meðal annars á því að dreifikerfi fyrir aðra orkugjafa er enn svo gisið að ekki er unnt að reikna með almennri notkun slíkra bifreiða strax. Enn fremur eru ýmsar aðrar tæknilegar hindranir því til fyrirstöðu. Síðast en ekki síst er aukin notkun umræddra bifreiða í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og þá stefnu stjórnvalda að auka hlut innlendra orkugjafa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Í gildandi lögum er tímabundin heimild til 31. desember 2006 til þess að lækka vörugjald af svonefndum tvíorkubifreiðum sem knúnar eru með metangasi eða rafmagni að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Í frumvarpinu er lagt til að heimildin verði framlengd til 31. desember 2006. Ekki er gert ráð fyrir að framlenging á þessu lagaákvæði hafi teljandi áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.