Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 247. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 414  —  247. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um málefni fatlaðra.

    Við vinnslu þessa svars var aflað upplýsinga frá svæðisskrifstofum málefna fatlaðra, sjálfseignarstofnunum og félagsþjónustum sveitarfélaga sem hafa tekið að sér þjónustu við fatlaða samkvæmt þjónustusamningum við ráðuneytið.

     1.      Hvaða starfsemi fyrir fatlaða, annarri en þeirri sem tilkomin er vegna átaks í málefnum geðfatlaðra, er áætlað að hleypa af stokkunum árið 2007 og hve margir sem ekki njóta þjónustu nú munu fá hana, sundurgreint samkvæmt neðangreindu:
             a.    búsetu,
             b.    atvinnu/dagþjónustu,
             c.    öðrum stuðningsúrræðum?

Búseta.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 41 millj. kr. rekstrarfjárveitingu til sambýlis fyrir mikið fatlað fólk í Reykjavík, umfram þá fjárveitingu sem kemur til vegna átaks í málefnum geðfatlaðra. Það útilokar þó ekki að unnt verði að koma til móts við óskir fleira fatlaðs fólks um búsetuþjónustu á árinu. Þar kemur eftirfarandi til:
     1.      Unnið er að því af hálfu félagsmálaráðuneytisins að verja meira fé í málaflokk fatlaðra á árinu 2007.
     2.      Komið verður til móts við fatlað fólk sem nýtur ekki búsetuþjónustu nú með lögboðinni liðveislu félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. lög nr. 40/1991 þar að lútandi, og/eða frekari liðveislu, sbr. lög nr. 59/1992. Það er háð því að slík þjónusta nægi til þess að koma til móts við þjónustuþarfir þeirra og að þeir búi í leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana, eigin íbúðum eða íbúðarhúsnæði sem tengist Framkvæmdasjóði fatlaðra. Gert er ráð fyrir að þjónustuaðilar endurskipuleggi þjónustu sína í því skyni að hún nýtist betur þeim fötluðu einstaklingum sem á henni þurfa að halda.
     3.      Gert er ráð fyrir að nýir þjónustusamningar við sveitarfélög sem hafa tekið að sér þjónustu við fatlaða samkvæmt slíkum samningum við félagsmálaráðuneytið, sem og sjálfseignarstofnanir, rýmki svigrúm þessara rekstraraðila til þess að koma til móts við nýja umsækjendur um búsetuþjónustu. Niðurstaða þessa veltur á því hvert endanlegt innihald samninganna verður.
     4.      Hleypt verður af stokkunum búsetuþjónustu við fatlað fólk á árinu 2007 sem verið hefur í undirbúningi á yfirstandandi ári. Rekstrarfjárveiting til að hefja undirbúning er á fjárlögum 2006.
    Svör þjónustuaðila hvað a-lið varðar koma fram í töflu 1 og ber þá að hafa í huga það sem greinir í 1.–4. lið hér að ofan.
    Tekið skal fram að í svari Styrktarfélags vangefinna kemur fram að ýmis ný verkefni séu í deiglunni en að ákvarðanir um þau verði teknar þegar nýr þjónustusamningur við félagsmálaráðuneytið hefur verið undirritaður. Umsvif félagsins muni mótast af því og þeim biðlistum sem Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík heldur utan um. Núgildandi þjónustusamningur gildir til ársloka 2006.

Atvinnu/dagþjónusta.

    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er ekki gert ráð fyrir beinum, auknum rekstrarfjárveitingum til þjónustu vegna atvinnuþátttöku eða dagþjónustu (í merkingunni hæfing/iðja samkvæmt lögum um málefni fatlaðra) umfram þær sem til eru komnar vegna átaks í málefnum geðfatlaðra. Það útilokar þó ekki að unnt verði að koma til móts við óskir fleira fatlaðs fólks um atvinnuþátttöku eða dagþjónustu á árinu en njóta hennar nú. Þar koma til sömu forsendur og tilgreindar eru í 1. og 3. tölul. í kaflanum um búsetu hér að framan. Upplýsingar frá þjónustuaðilum koma fram í töflu 1.
    Því er við að bæta að við uppbyggingu stoð- og dagþjónustu fyrir geðfatlað fólk má gera ráð fyrir að samlegðaráhrifa gæti, einkum á fámennari þjónustusvæðum, að því leyti að framlag starfsfólks við þá þjónustu nýtist einnig öðru fötluðu fólki. Þetta kemur fram í svörum nokkurra þjónustuaðila.
    Þá er það eitt af markmiðum nýrra laga um vinnumarkaðsaðgerðir að yfirfara hvers kyns starfsendurhæfingarúrræði og gera þau markvissari og skilvirkari.
    
Áætlað er að skammtímaþjónusta við börn og fjölskyldur þeirra verði aukin á árinu 2007 þar sem gerðir hafa verið þjónustusamningar við félagsmálaráðuneytið og getið er að framan.

Önnur stuðningsúrræði.
    Starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins hefur verið efld umtalsvert á undanförnum árum og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að framhald verði þar á. Frumvarpið felur í sér 20 millj. kr. fjárveitingu til þess að efla þjónustu við einhverf börn. Tekið skal fram að þar er ekki einungis um greiningu að ræða heldur einnig ráðgjöf og eftirfylgd sem telja verður til stuðningsúrræða. Einnig hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ákveðið að styrkja Greiningar- og ráðgjafarstöðina vegna átaks um að stytta biðlista eftir þjónustu stofnunarinnar. Er um að ræða 6,5 millj. kr. á ári í tvö ár, þ.e. árin 2006 og 2007.
    Eins og að framan getur sést í töflu 1 hvaða starfsemi áætlað er að hleypa af stokkunum á árinu 2007, annarri en þeirri sem felst í átaki í þjónustu við geðfatlað fólk, samkvæmt upplýsingum þjónustuaðila (sex svæðisskrifstofa og fimm sveitarfélaga sem hafa tekið að sér þjónustu við fatlaða samkvæmt þjónustusamningi við félagsmálaráðuneytið). Hvað varðar tölur um búsetu og atvinnu/dagþjónustu í töflunni er tilgreindur fjöldi fólks sem ekki nýtur slíkrar þjónustu nú. Önnur stuðningsúrræði eru í nær öllum tilvikum skammtímaþjónusta og stuðningsfjölskyldur og er þar því tilgreindur fjöldi dvalarsólarhringa í samræmi við svör þjónustuaðila.

Tafla 1.

Fjöldi

Búseta 27 einstaklingar
Atvinna/dagþjónusta 31 einstaklingur
Önnur stuðningsúrræði 2100 sólarhringar

     2.      Hve margir eru á biðlista eftir þjónustu, sbr. 1. lið fyrirspurnarinnar, sundurliðað á sama hátt?
    
Þegar fjallað er um biðlista ber að hafa í huga hverjar þjónustuþarfir notenda eru. Þær hafa hingað til verið metnar eftir svonefndu sjö flokka mati þar sem lýst er í fáum orðum hverjar þjónustuþarfir eru í hverjum flokki fyrir sig. Þeir notendur eru metnir í 1. þjónustuflokk sem hafa minnstar þarfir og í 7. þjónustuflokk sem hafa mestar þarfir, aðrir í flokka 2–6. Til glöggvunar skal þess getið að fólk sem telst til 1. og 2. þjónustuflokks er talið sjálfbjarga, með lágmarksþjónustu eða nokkurri þjónustu sem nemur 5–10 klst. á viku. Það er fært um að búa og fara ferða sinna að öllu eða mestu leyti á eigin spýtur. Í 3. þjónustuflokki er gert ráð fyrir að fólk hafi talsverða færni til sjálfsbjargar, geti sinnt persónulegum þörfum (hreinlæti, að klæðast, matast o.fl.), almennum heimilisstörfum (matargerð, þrifum o.fl.), farið ferða sinna með fremur lítilli aðstoð/eftirliti og þarfnist að jafnaði ekki næturvaktar. Í 4.–7. þjónustuflokki er hins vegar gert ráð fyrir þörfum fyrir meiri þjónustu.
    Félagsmálaráðuneytið lítur svo á að félagsþjónusta sveitarfélaga skuli almennt veita þeim notendum þjónustu sem teljast til 1. og 2. þjónustuflokks og um helmingi þeirra sem metnir eru í 3. þjónustuflokk, en þessir notendur þarfnast að jafnaði ekki viðveru starfsfólks heldur stuðnings annað veifið. Er það í samræmi við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem kveða á um að þau skuli „sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar“. Enn fremur segir í lögunum að „með félagslegri heimaþjónustu [skuli] stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður“. Í þessu sambandi er einnig að geta lögbundinna skyldna sveitarfélaga samkvæmt lögum um málefni fatlaðra til að annast þjónustu við fatlað fólk með liðveislu og almennri félagsþjónustu. Í mörgum sveitarfélögum er slík þjónusta veitt að ákveðnu marki af hálfu félagsþjónustu þeirra og má nefna öfluga þjónustu á Akureyri sem dæmi.
    Því ber við mat á biðlistum að líta til þess hverjar þjónustuþarfir þeirra eru sem í hlut eiga til þess að skera úr um hver ber ábyrgð á þjónustu við þá. Sem að framan greinir er það mat ráðuneytisins að það beri meginábyrgð á þjónustu við þá sem metnir eru í 4.–7. þjónustuflokk og um helmingi þeirra sem metnir eru í 3. flokk. Sveitarfélög komi til að öðrum kosti með liðveislu og heimaþjónustu. Mismunandi viðhorf kunna að ríkja í þessum efnum og telur félagsmálaráðuneytið brýnt að þau verði samræmd með viðræðum aðila, m.a. hver hlutdeild sveitarfélaga skuli vera gagnvart þeim sem hafa meiri þjónustuþarfir en minni. Í þeim tölum sem hér fara á eftir er gert ráð fyrir að um 20% notenda sem eru á biðlistum svæðisskrifstofa og sveitarfélaga teljist til þeirra sem metnir eru í 1., 2. og helming 3. þjónustuflokks og eru því ekki taldir með í þeirri tölu sem fram kemur í töflu 2.
    Samkvæmt gildandi þjónustusamningum við sveitarfélög sem hafa tekið að sér þjónustu við fatlað fólk skal hámarksbiðtími frá því réttur til búsetuþjónustu er staðfestur vera tvö ár. Eftir þann tíma telst viðkomandi á biðlista. Sú viðmiðun er viðhöfð hér hvað sveitarfélögin varðar en hjá svæðisskrifstofum eru umsóknir um búsetuþjónustu tilgreindar án tillits til aldurs umsókna.
    Þess má geta að í stað framangreinds sjö flokka mats, sem notað hefur verið undanfarin ár, mun fljótlega verða tekið upp svonefnt SIS-mat til þess að meta þjónustuþarfir, enda viðameira og áreiðanlegra.
    Í töflu 2 eru tilgreindar upplýsingar þjónustuaðila um þennan lið fyrirspurnarinnar. Tölur hvað búsetu varðar byggjast á framangreindum forsendum og miðast við búsetu í sambýli eða íbúðakjarna með reglubundna viðveru starfsfólks, sólarhringsviðveru þar sem þjónustuþarfir eru mestar. Jafnframt er miðað við að þessarar búsetuþjónustu sé þörf innan þriggja ára.
    Eins og fram kemur í töflu 1 er gert ráð fyrir því að á árinu 2007 verði komið til móts við búsetuþarfir 27 af þeim sem taldir eru á biðlista í töflu 2. Þannig að gert er ráð fyrir að búsetubiðlistinn styttist sem því nemur. Sama gildir um atvinnu/dagþjónustu þar sem gert er ráð fyrir að komið verði til móts við 31 einstakling á árinu 2007, m.a. með endurskipulagningu þjónustunnar. Gert er ráð fyrir að biðlistinn styttist sem því nemur.

Tafla 2.

Fjöldi

Búseta 99 einstaklingar
Atvinna/dagþjónusta 158 einstaklingar
Önnur stuðningsúrræði 185 einstaklingar

    Rétt er að benda á að það er að töluverðu leyti sama fólkið sem sækir um búsetu og atvinnu/dagþjónustu. Ekki er greint á milli þeirra sem óska eftir stuðningi til atvinnuþátttöku, vinnu á vinnustað fyrir fatlað fólk eða annarri dagþjónustu enda ekki eftir því leitað. Lesa má þó úr svörum þjónustuaðila að um 3/4 þeirra sem í hlut eiga óska eftir „atvinnu með stuðningi“ (AMS) eða starfsþjálfun.
    Haft skal í huga varðandi upplýsingar um önnur stuðningsúrræði í töflunni að í flestum tilvikum er sótt bæði um skammtímaþjónustu og stuðningsfjölskyldu fyrir sama barnið.
    Þá skal tekið fram að þarfir fyrir skammtímavistun og stuðningsfjölskyldur eru mjög mismunandi, allt frá fáum sólarhringum á ári upp í fulla nýtingu samkvæmt reglugerð. Þannig geta til dæmis margir einstaklingar nýtt eitt og sama plássið á skammtímaheimili.

     3.      Hve margar nýjar umsóknir bárust svæðisskrifstofum og öðrum þjónustuaðilum vegna þeirra þjónustuþarfa sem fram koma í 1. lið, skipt eftir svæðum og þjónustuúrræðum, og hvað má áætla að þeim berist margar nýjar umsóknir um þjónustu árið 2007 ef tekið er mið af nýliðun síðustu ára?
    Töflur 3 og 4 geyma upplýsingar sem bárust frá þjónustuaðilum hvað þennan lið fyrirspurnarinnar varðar. Tölur fyrir árið 2006 miðast við lok október en fyrir árið 2007 eru tölur áætlaðar fyrir allt árið. Hér eru umsóknir um önnur stuðningsúrræði (að jafnaði skammtímaþjónusta og stuðningsfjölskyldur) tilgreindar í fjölda einstaklinga þar sem ekki liggur fyrir hve mikillar þjónustu (þ.e. fjölda sólarhringa) er óskað í hverju tilviki og aðstæður breytilegar frá einum tíma til annars.
    Nokkrir þjónustuaðilar utan höfuðborgarsvæðisins tóku fram að á árinu 2006 hefði verið komið til móts við óskir um atvinnu/dagþjónustu og önnur stuðningsúrræði jafnóðum þannig að ekki ber að líta á allar umsóknir 2006 þannig að þær hafi farið á biðlista.

Tafla 3.

2006 SSR SMFR SMFVel SMFVfj SMFAu SMFSu SSNV Akureyri Þingey Höfn Vestm.
1.a 27 28 4 1 2 4 0 11 5 0 0
1.b 72 47 5 1 2 4 1 62 4 0 0
1.c 35 154 14 4 4 4 8 14 5 2 0

Samtölur:
1.a –    Búseta: 82 (að meðtöldum þeim sem hafa minni þjónustuþarfir og sinna mætti með liðveislu/heimaþjónustu sveitarfélags og/eða frekari liðveislu).
1.b –    Atvinna/dagþjónusta: 198 (flestir óska eftir Atvinnu með stuðningi eða starfsþjálfun).
1.c –    Önnur stuðningsúrræði: 244 (í flestum tilvikum skammtímaþjónusta og/eða stuðningsfjölskylda).

Tafla 4.

2007 SSR SMFR SMFVel SMFVfj SMFAu SMFSu SSNV Akureyri Þingey Höfn Vestm.
1.a 30 35 4 2 2 5 0 16 3 1 1
1.b 82 58 5 2 2 6 2 68 3 1 0
1.c 42 164 18 4 4 4 10 17 8 2 0

Samtölur (sömu athugasemdir gilda hér og um nýjar umsóknir 2006):
1.a –    Búseta: 99
1.b –    Atvinna/dagþjónusta: 229
1.c –    Önnur stuðningsúrræði: 273

     4.      Hversu miklu fé verður varið til að bæta þjónustu við fatlaða árið 2007, ef frá er talið það fé sem ætlað er til átaks í málefnum geðfatlaðra sérstaklega og til almennra launa- og verðlagsbreytinga?
    
Þessum lið verður ekki fullsvarað fyrr en að lokinni umfjöllun Alþingis um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Í frumvarpinu er á þessu stigi gert ráð fyrir 61 millj. kr. til aukinnar þjónustu við fatlaða (41 millj. kr. til Svæðisskrifstofu Reykjavíkur og 20 millj. kr. til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins), auk um 350 millj. kr. vegna átaksins í þjónustu við geðfatlað fólk. Þar að auki er rétt að taka eftirfarandi fram:
    Eitt sambýli Svæðisskrifstofu Reykjavíkur hefur starfsemi á árinu 2007 á grundvelli fjárveitingar frá 2006 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir öðru sambýli sem væntanlega verður ekki tekið í notkun fyrr en á árinu 2008. Þangað til er gert ráð fyrir að nýta þá fjárveitingu tímabundið til skammtímaþjónustu.
    Allir þjónustuaðilar sem hafa þjónustusamning við félagsmálaráðuneytið, sem áformað er að endurnýja nú fyrir áramótin, hyggja á ýmiss konar aukningu á þjónustu sinni við fötluð börn og fullorðna á árinu 2007. Hver sú aukning verður er hins vegar undir efni nýrra samninga komið.
    Að lokum má geta þess að ríkisstjórnin hefur veitt félagsmálaráðherra heimild til að undirrita samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga um tímabundna lausn vegna lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Er gert ráð fyrir kostnaðarþátttöku ríkissjóðs vegna lengri viðveru barna í 5.–10. bekk að fjárhæð 60 millj. kr. á árinu 2007 og sömu fjárhæð á árinu 2008. Á samkomulagstímanum verða lög um málefni fatlaðra endurskoðuð í því skyni að kveða skýrt á um hlutverk og ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að því er varðar lengri viðveru fatlaðra grunnskólabarna.