Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 386. máls.

Þskj. 428  —  386. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Í stað orðanna „Bókfært eigið fé fjármálafyrirtækis“ í 8. mgr. 14. gr. laganna kemur: Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis skv. 84. og 85. gr.

2. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálafyrirtæki skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Hjá fjármálafyrirtæki skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar til að meta nauðsynlega stærð, samsetningu og innri dreifingu eiginfjárgrunns með hliðsjón af þeim áhættum sem starfsemin felur í sér hverju sinni. Innri ferlarnir skulu endurmetnir reglulega til að tryggja að þeir séu fullnægjandi með hliðsjón af eðli, umfangi og margbreytileika starfseminnar.
    Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypna.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eigin fé“ í 1. og 2. mgr. kemur: eiginfjárgrunni.
     b.      4. málsl. 2. mgr. orðast svo: Tímabundinn eignarhlutur fjármálafyrirtækis, þó ekki eignarhlutur í veltubók, í fyrirtæki í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu í þeim tilgangi að verja kröfur fjármálafyrirtækisins skal undanþeginn við útreikning skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar.
     c.      Í stað orðanna „eigin fjár“ í 3. mgr. kemur: eiginfjárgrunns.
     d.      6. mgr. fellur brott.

4. gr.

    1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
     a.      1.–4. mgr. orðast svo:
                  Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis eins og hann er skilgreindur í 4. mgr. skal á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni. Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu reglulega leggja mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess og skal niðurstaða slíks mats, sem ekki getur verið lægra en skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar, teljast hlutfall eiginfjárgrunns af áhættugrunni. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að fjármálafyrirtæki sem ekki uppfyllir ákvæði þessarar greinar grípi tímanlega til nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta. Til að fylgja eftir kröfum Fjármálaeftirlitsins er því heimilt að mæla fyrir um:
                  a.      hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni,
                  b.      endurbætur á innri ferlum,
                  c.      niðurfærslu á eignum við útreikning á eiginfjárgrunni,
                  d.      hömlur á eða takmörkun á starfsemi fjármálafyrirtækis,
                  e.      að dregið sé úr áhættum sem starfsemi fjármálafyrirtækis felur í sér.
                  Áhættugrunnur er samtala veginna áhættuþátta, svo sem útlánaáhættu, hlutabréfaáhættu, vaxtaáhættu, gjaldmiðlaáhættu, hrávöruáhættu og rekstraráhættu, sem starfsemi fjármálafyrirtækis felur í sér. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um áhættuþætti, áhættuvogir og útreikning á áhættugrunni. Undanþegin mati á rekstraráhættu samkvæmt þessari grein eru verðbréfafyrirtæki sem ekki hafa starfsheimildir skv. b- og d-lið 1. tölul. 25. gr., verðbréfamiðlanir sem ekki hafa heimildir til viðskipta fyrir eigin reikning og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Fjármálafyrirtækjum er heimilt að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins að beita innramatsaðferð við mat á áhættuþáttum í útreikningi á áhættugrunni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um kröfur sem fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá heimild til að beita innramatsaðferð.
                  Eiginfjárgrunnur skv. 1. mgr. skal einnig gilda um samstæðureikning. Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning á eiginfjárgrunni og áhættugrunni fyrir fjármálasamsteypur sem byggjast á tilskipun ráðsins 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu.
                  Eiginfjárgrunnur skv. 1. mgr. skal samsettur af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C, og frádráttarliðum skv. 85. gr. Séu eiginfjárliðir byggðir á árshlutauppgjöri skal það vera áritað sem endurskoðað eða kannað af endurskoðanda. Eftirfarandi takmarkanir gilda um einstaka eiginfjárþætti:
              1.      Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eiginfjárgrunns fyrir frádrátt skv. 85. gr.
              2.      Eiginfjárþáttur B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.
              3.      Eiginfjárþáttur C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má eiginfjárþáttur C hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni vegna markaðsáhættu liða í veltubók skv. 28. gr. og gengisáhættu.
     b.      Í stað orðsins „eign“ í lokamálslið 5. mgr. kemur: eigin fé.
     c.      2. og 3. málsl. 7. mgr. orðast svo: Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárkrafa hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis er undir lágmarkskröfu skv. 1. mgr. eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárkrafan fer undir tilvitnað lágmark. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu ef slík greiðsla veldur því að eiginfjárgrunnur sem hlutfall af áhættugrunni fer niður fyrir mark sem er 2% stigum hærra en lágmarkið skv. 1. mgr.
     d.      Í stað orðanna „eigið fé“ í 1. og 3. málsl. 9. mgr. og „eigin fé“ í 10. mgr. kemur: eiginfjárgrunnur; og: eiginfjárgrunni.
     e.      Tvær nýjar málsgreinar bætast við greinina, svohljóðandi:
                  Fjármálafyrirtæki skal upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um slíka upplýsingagjöf.
                  Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis til viðskiptamanns um lánshæfismat hans þegar ákvörðun um lánveitingu er á því byggð og lánshæfismatið jafnframt notað við mat á lánaáhættu í útreikningi á áhættugrunni samkvæmt innramatsaðferð.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr.:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Frá eiginfjárgrunni skv. 4. mgr. 84. gr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi kröfum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Þegar um er að ræða eignarhluti sem nema allt að 10% af hlutafé í hverju einstöku fjármálafyrirtæki takmarkast frádrátturinn þó við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi krafna sem er umfram 10% af eiginfjárgrunni eins og hann er reiknaður skv. 4. mgr. 84. gr. fyrir frádrátt samkvæmt þessari grein.
     b.      Í stað orðanna „eigin fé“ í 3. mgr. kemur: eiginfjárgrunni.
     c.      Í stað orðanna „eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 4. mgr. 84. gr.“ í 4. mgr. kemur: eiginfjárgrunni skv. 84. gr.
     d.      Í stað orðanna „eigin fé dragast enn fremur“ í 5. mgr. kemur: eiginfjárgrunni skv. 84. gr. dragast.
     e.      Þrjár nýjar málsgreinar bætast við greinina, svohljóðandi:
                  Frá eiginfjárgrunni skv. 84. gr. dregst neikvæður mismunur á reikningsskilalegri niðurstöðu og niðurstöðu samkvæmt innramatsaðferð, sbr. 2. mgr. 84. gr., á væntu tapi á eignum og skuldbindingum, öðrum en verðbréfuðum stöðum.
                  Frá eiginfjárgrunni skv. 84. gr. dregst enn fremur sá hluti af verðbréfuðum stöðum sem er metinn með 1.250% áhættuvog í útreikningi áhættugrunns.
                  Samtala frádráttarliða samkvæmt þessari grein skal að 50% hluta dragast frá niðurstöðu útreiknings á eiginfjárþætti A skv. 84. gr. og að 50% hluta frá niðurstöðu útreiknings á eiginfjárþætti B skv. 84. gr. Fari frádráttur skv. 1. málsl. umfram fjárhæð eiginfjárþáttar B skal umframfjárhæðin dragast frá eiginfjárþætti A.

7. gr.

    Í stað orðanna „eigið fé“ í 1.–4. mgr. 86. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli:
eiginfjárgrunnur.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    
Fjármálafyrirtækjum, öðrum en þeim sem fengið hafa leyfi til að beita innramatsaðferð við mat á áhættuþáttum, er heimilt við útreikning á eigin fé og áhættugrunni á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2007 að beita þeim ákvæðum sem giltu um eigið fé og áhættugrunn í árslok 2006.

II.


    Eiginfjárkrafa fjármálafyrirtækis, sem fengið hefur leyfi til að beita innramatsaðferð við mat á lánaáhættu eða þróaðri aðferð við mat á rekstraráhættu, skal á árunum 2007, 2008 og 2009 að lágmarki nema, í sömu röð, 95%, 90% og 80% af þeirri eiginfjárkröfu sem ákvæðin um eigið fé og áhættugrunn, sem í gildi voru í árslok 2006, hefðu leitt af sér.

III.


    Við setningu reglna samkvæmt ákvæðum 84. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að vísa til birtingar á viðaukum tilskipana 2006/48/EB og 2006/49/EB í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Nýjar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja ganga í gildi í ársbyrjun 2007. Reglurnar eru byggðar á staðli frá Basel-nefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli, sem gefinn var út í júní 2004 og uppfærður í nóvember 2005. Hann kemur í stað eldri staðals um eigið fé alþjóðlegra fjármálafyrirtækja sem að stofni til er frá 1988.
    Nýju reglurnar eru teknar upp á hinu Evrópska efnahagssvæði með breytingum á tveimur tilskipunum. Upphaflegu tilskipanirnar, nr. 2000/12/EB og 93/6/EB, hafa verið lögfestar hér á landi með lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og reglum sem settar eru samkvæmt fyrirmælum í þeim lögum. Eðlilegt er að lögfesta breytingar á þessum tilskipunum með samsvarandi breytingum á gildandi lögum og reglum. Tilskipanir þær sem um ræðir eru nr. 2006/48/EB (áður nr. 2000/12/EB) og nr. 2006/49/EB (áður nr. 93/6/EB).
    Hugmyndin um að lögbinda ákveðið lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja, sem þó ákvarðist af umfangi starfseminnar, byggist á því að fjármálafyrirtæki þurfa að geta þolað talsverð áföll sem leiða til fjárhagslegs taps, án þess að þau lendi í greiðsluþroti. Reglur Basel-nefndarinnar hafa það að markmiði að samræma reglur milli aðildarríkja nefndarinnar hvað varðar starfsemi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja. Á Evrópska efnahagssvæðinu hefur frá upphafi verði farin sú leið að láta Basel-reglurnar gilda um öll fjármálafyrirtæki, hvort sem starfsemi þeirra er alþjóðleg eða bundin við eitt land.
    Markmiðið með breytingunum er einkum að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hefur verið stuðst við, þannig að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Þetta er gert með tvennum hætti: Meginreglur eru ítarlegri en áður, auk þess sem stór fjármálafyrirtæki með öflugt skipulag geta fengið að byggja eiginfjárkröfuna á eigin áhættumati að hluta.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til gera ráð fyrir hliðstæðri afmörkun og verið hefur á milli laga um fjármálafyrirtæki annars vegar og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra hins vegar. Einungis meginatriði eru tekin í lögin sjálf, en útfærslum og tækniatriðum vísað í reglur sem settar eru af Fjármálaeftirlitinu. Þær tilskipanir sem verið er að lögfesta eru mjög nákvæmar og ekki ástæða til að taka meira af efni þeirra upp í lög en hér er lagt til, og í samræmi við eldri löggjöf.
    Ákvæði um eigið fé eru í 84. og 85. gr. í X. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Í þremur fyrstu málsgreinum 84. gr. eru ákvæði um lágmark eigin fjár sem lagt er til að breytist nokkuð, þannig að nýjar málsgreinar komi í staðinn. Síðari hluti greinarinnar er einkum skilgreining á eigin fé í þessu samhengi og eru þar gerðar nokkrar breytingar. Lagt er til að hugtakið eiginfjárgrunnur verði notað í 84. gr. í stað hugtaksins eigin fjár sem hefur í för með sér breytingar á nokkrum lagagreinum. Breytingar verða á 85. gr. sem fjallar um liði sem draga þarf frá eigin fé áður en það er borið saman við lágmarkið. Þá er lögð til breyting á 17. gr. vegna innleiðingar á ákvæði tilskipunar 2006/48 um fullnægjandi innri ferla við mat á áhættum og eiginfjárþörf fjármálafyrirtækis og breyting á 28. gr. vegna lagfæringar á undanþáguákvæði um hámark á virkum eignarhlutum en það ákvæði hefur áhrif á hvaða liðir dragast frá eiginfjárgrunni skv. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002.
    Nýjar eiginfjárreglur verða mun umfangsmeiri en gildandi reglur og munu því krefjast aukins mannafla við setningu og viðhald reglna og tilmæla og við eftirfylgni með að eftir þeim sé farið. Þá fela nýjar eiginfjárreglur í sér aukin erlend samskipti Fjármálaeftirlitsins við erlendar systurstofnanir vegna þeirra innlendu fjármálafyrirtækja sem eru með starfsemi utan Íslands. Samkvæmt áætlunum Fjármálaeftirlitsins má gera ráð fyrir að í náinni framtíð muni þurfa að fjölga stöðugildum um 1–2 umfram það sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun fyrir árið 2007.
    Hér á eftir er nánar gerð grein fyrir efni umræddra tveggja tilskipana.

Tilskipun 2006/48/EB, lánastofnanatilskipunin.
    Tilskipun 2006/48/EB (áður tilskipun 2000/12/EB) fjallar um kröfur um heimild til að setja á laggirnar og reka fyrirtæki sem lánastofnun. Breytingar á henni fela í sér breytingar á eiginfjárkröfum vegna liða utan veltubókar og ákvæðum um áhættusamþjöppun á einstaka lánþega/viðskiptavini ásamt tengdum aðilum (stórar áhættuskuldbindingar). Tilskipunin felur þannig í sér nýjar og talsvert breyttar aðferðir við uppgjör á eiginfjárkröfunum.
    Framvegis munu lánastofnanir geta valið á milli ýmissa aðferða við uppgjör á eiginfjárkröfum vegna lánaáhættu. Annaðhvort verður unnt að velja tiltölulega einfalda aðferð (sem kallast staðlaða aðferðin) eða þá að velja aðra tveggja flóknari aðferða sem m.a. byggjast á eigin útreikningi fyrirtækja á áhættu (sem kallast innramatsaðferðir). Notkun innramatsaðferða er háð heimild frá Fjármálaeftirlitinu sem jafnframt mun hafa reglulegt eftirlit með því hvort aðferðirnar sem beitt er standist ýmsar kröfur sem gerðar eru.
    Staðlaða aðferðin minnir á þá aðferð sem nú er notuð til að reikna út eiginfjárkröfu. Líklegt er að langstærstur hluti fjármálafyrirtækjanna miðað við fjölda muni velja hana. Innramatsaðferðirnar gera strangar og kostnaðarsamar kröfur til áhættumats fyrirtækjanna og er því búist við að einungis stærri fyrirtæki sæki um leyfi til að nýta þær aðferðir.
    Eiginfjárkröfunum er jafnframt breytt þannig að þær feli í sér nýja tegund af áhættu. Um er að ræða svokallaða rekstraráhættu. Með rekstraráhættu er átt við áhættu á tapi sem afleiðingu óhagstæðra eða ófullkominna innri starfshátta, mannlegra mistaka og kerfisbundinna galla eða áhættu á tapi sem stafar af ytri atburðum, þar með talinni lagalegri áhættu.
    Tilskipunin gerir einnig þær kröfur til fjármálafyrirtækja að þau leggi sjálf mat á lágmarkseiginfjárkröfu. Með eigin mati á eiginfjárkröfum er átt við eigið mat fyrirtækis á því hversu mikið eigið fé sé nauðsynlegt til að reka fyrirtækið sem um ræðir. Í matinu ber að taka tillit til áhættuþátta sem sérstaklega eiga við viðkomandi fjármálafyrirtæki, t.d. samþjöppunaráhættu vegna fárra stórra lánþega og/eða fárra atvinnugreina eða fastvaxtaáhættu í lánabók. Eigin eiginfjárkrafa þarf að vera hærri en eða jöfn lágmarkseiginfjárkröfunni sem nemur 8%.
    Sem lið í mati á eigin eiginfjárkröfum gerir tilskipunin einnig kröfur til fjármálafyrirtækja um að taka í notkun innri starfsreglur/ferla og innra eftirlit fyrir áhættumælingu og áhættustjórnun með það að markmiði að eigið fé sé ávallt hæfilegt með hliðsjón af áhættu fyrirtækisins.
    Tilskipunin gerir jafnframt ráð fyrir að fjármálaeftirlit hafi heimild til að ákvarða hærri lágmarkseiginfjárkröfu en samsvarar 8% eiginfjárhlutfalli og möguleika á að fyrirskipa fyrirtækjunum að lækka verðgildi eigna sem notaðar eru við uppgjör á eiginfjárgrunni. Ákvæði um möguleika fyrir fjármálaeftirlit að ákvarða hærra lágmarkseiginfjárhlutfall fyrir fjármálafyrirtæki er nú þegar í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Tilskipunin, eins og hún er eftir breytingar, felur einnig í sér ákvæði um að fjármálafyrirtæki skuli kunngjöra fyrir markaðinum og fjárfestum upplýsingar um áhættu þess. Þessari kröfu var bætt við til þess að markaðurinn gæti beitt svonefndu markaðsaðhaldi á áhættustjórnun fyrirtækjanna og til þess að fjárfestar gætu lagt mat á áhættur eins fyrirtækis í samanburði við önnur.

Tilskipun 2006/49/EB, eiginfjárkröfutilskipunin.
    Tilskipun 2006/49/EB (áður 93/6/EB) fjallar um eiginfjárkröfur til liða í veltubók og tekur auk lánastofnana einnig til verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Liðir í veltubók ná yfir verðbréf og afleiður (t.d. framvirk viðskipti, staðlaða framvirka samninga og valrétti). Tilskipunin felur jafnframt í sér ákvæði um að verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða þurfi að lúta ákvæðum lánastofnanatilskipunarinnar um eiginfjárkröfur til liða utan veltubókar.
    Tilskipunin, eins og hún er eftir breytingar, felur í sér ný ákvæði sem gera það að verkum að verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða heyra undir nýju ákvæðin í lánastofnanatilskipuninni hvað varðar eiginfjárkröfu vegna lánaáhættu, þar með talin mótaðilaáhætta og rekstraráhætta, og hvað varðar eigið mat á eiginfjárkröfum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið felur í sér að í stað þess að vísa til bókfærðs eigin fjár er vísað til eiginfjárgrunns, sbr. 84. og 85. gr. Með breytingunni er ákvæðið fært til samræmis við kröfur 123. gr. tilskipunar 2006/48.

Um 2. gr.


    Fyrsti málsliður 1. mgr. er óbreyttur frá núgildandi 1. málsl. 17. gr. 2. og 3. málsl. eru nýir og fela í sér að hjá hverju fjármálafyrirtæki sé til fullnægjandi eigið fé með hliðsjón af áhættustigi og fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar til að hægt sé að leggja mat á eiginfjárþörfina. Krafan um nægilegt eigið fé með hliðsjón af áhættustigi er grundvallarþáttur í hinum nýju eiginfjárákvæðum í tilskipunum 2006/48 og 2006/49. Ákvæði 2. og 3. málsl. samsvarar 22. gr. tilskipunar 2006/48.
    2. mgr. er samhljóða 2. málsl. núgildandi 17. gr.

Um 3. gr.


     Um a-lið.
    Ákvæðið felur í sér að í stað hugtaksins eigið fé er tekið upp hugtakið eiginfjárgrunnur. Fyrrnefnda hugtakið er gjarnan notað um bókfært eigið fé sem er hluti af skilgreiningu eiginfjárgrunns og er með breytingunni komið í veg fyrir rugling á hugtökum.
     Um b-lið.
    Sá málsliður sem gerð er tillaga um breytingu á er upphaflega innleiðing á 121. gr. tilskipunar 2006/48 (áður 4. mgr. 51. gr. tilskipunar 2000/12). Við nánari skoðun hefur komið í ljós að umrætt ákvæði tilskipunarinnar hefur ekki verið innleitt með réttum hætti þannig að gera þarf tvær efnisbreytingnar á 4. málsl. 2. mgr. 28. gr. Ákvæðið hefur áhrif á útreikning á eiginfjárgrunni eins og hann er reiknaður skv. 84. gr. og 85. gr. laga nr. 161/2002 þegar um er að ræða eignarhluti í fyrirtækjum, öðrum en fjármálafyrirtækjum og fyrirtækjum tengdum fjármálasviði, sem eru umfram þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 28. gr.
    Í fyrsta lagi er gerð sú breyting að vísað er til tímabundins eignarhlutar í fyrirtæki í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu í þeim tilgangi að verja kröfur fjármálafyrirtækis. Í gildandi lagaákvæði er vísað til 22. gr. laga nr. 161/2002 en þar er um að ræða tímabundinn eignarhlut í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila. Sambærilegt ákvæði í 121. gr. tilskipunar 2006/48/EB er tímabundin hlutabréfaeign vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar eða vegna björgunaraðgerða (shares held temporarily during a financial reconstruction or rescue operation).
    Í öðru lagi er gerð sú breyting að eignarhlutur í veltubók fellur ekki undir undanþáguákvæði 4. málsl. 2. mgr. 28. gr. Í gildandi ákvæði er því öfugt farið sem stafar af því að viðeigandi ákvæði tilskipunarinnar var ranglega innleitt.
     Um c-lið.
    Breyting frá gildandi ákvæði felur í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um a-lið.
    Um d-lið.
    Gerð er tillaga um að ákvæði 6. mgr. 28. gr., sem skilgreinir hugtakið veltubók, verði fellt úr lögunum. Samhljóða ákvæði er nú þegar í reglum um eiginfjárhlutfall lánastofnana en þær reglur munu breytast, þ.m.t. ákvæðið um veltubók, vegna innleiðingar á nýjum eiginfjárreglum. Ekki er talið nauðsynlegt að hafa skilgreiningu á veltubók í lagaákvæði.

Um 4. gr.


    Breyting frá gildandi ákvæði felur í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um a-lið 3. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Um a-lið.
    Fyrsti málsliður 1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 84. gr. gildandi laga að því undanskildu að hugtakið eiginfjárgrunnur er tekið upp í stað hugtaksins eigið fé, sbr. umfjöllun um a-lið 3. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. leggja þá skyldu á herðar stjórn og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis að meta eiginfjárþörf þess með hliðsjón af áhættustigi og setja niðurstöðu slíks mats fram sem hlutfall eiginfjárgrunns af áhættugrunni, sbr. einnig í þessu samhengi ákvæði 17. gr. laganna eftir breytingu skv. 2. gr. þessa frumvarps. Aðkoma stjórnar fjármálafyrirtækis að þessu mati felur m.a. í sér að niðurstaða þess sé bókuð á stjórnarfundi. Ákvæði þessara málsliða samsvarar 123. gr. tilskipunar 2006/48 og (d) lið 16. gr. tilskipunar 2006/49.
Ákvæði 3. og 4. málsl. 1. mgr. felur í sér heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að grípa til ýmissa ráðstafana, sbr. a–d-lið, til að fylgja eftir kröfum um úrbætur af hálfu fjármálafyrirtækja sem ekki uppfylla eiginfjárákvæði laga nr. 161/2002. Sá hluti ákvæðisins sem felur í sér heimild fyrir Fjármálaeftirlitið að ákvarða hærri eiginfjárgrunn en nemur 8% af áhættugrunni er nú þegar að finna í 2. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Ákvæði þessara málsliða samsvara 136. gr. tilskipunar 2006/48, sbr. 20. gr. tilskipunar 2006/49.
    Fyrstu tveir málsliðir 2. mgr. eru efnislega sambærilegir ákvæðum 2. mgr. gildandi laga að því undanskildu að rekstraráhættu er bætt við sem lið í áhættugrunni. Ákvæðið samsvarar 75. gr. tilskipunar 2006/48.
    Þriðji málsliður 2. mgr. undanþiggur verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlun með takmörkuð starfsleyfi, svo og rekstrarfélag verðbréfasjóða, frá mati á rekstraráhættu eins og kveðið er á um í 2. málsl. málsgreinarinnar. Ákvæði 9. mgr. taka m.a. á rekstraráhættu umræddra fjármálafyrirtækja. Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 20. gr. tilskipunar 2006/49.
    Fjórði málsliður 2. mgr. er innleiðing á ákvæði 1. mgr. 84. gr. tilskipunar 2006/48. Ákvæðið felur í sér að mögulegt verður fyrir fjármálafyrirtæki að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins að beita svonefndri innramatsaðferð (Internal Ratings Based Approache, IRB) á áhættuþætti við útreikning á áhættugrunni.
    Fimmti málsliður 2. mgr. mælir fyrir um að Fjármálaeftirlitið setji nánari reglur um þær kröfur sem fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá heimild til að beita innramatsaðferðum. Með slíkum reglum eru innleidd ákvæði 84.–89. gr. og 105. gr. tilskipunar 2006/48. Með beitingu innramatsaðferða við mat á áhættuþáttum er líklegt að áhættugrunnur fjármálafyrirtækis lækki í samanburði við svonefnda staðalaðferð sem þýðir vægari eiginfjárkröfu. Vegna kostnaðar við innleiðingu innramatsaðferða er líklegt að einungis stærstu fjármálafyrirtæki hér á landi sæki um heimild til Fjármálaeftirlitsins til að beita þeim.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 2. og 3. málsl. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002.
    Breyting á ákvæði 4. mgr. frá gildandi ákvæði felur í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um a-lið 3. gr. frumvarpsins.
    Um b-lið..
    Breyting frá gildandi ákvæði felur í sér leiðréttingu á texta í ákvæðinu en vegna mistaka hafði verið lögfest orðið eign í stað eigin fé.
    Um c-lið.
    Breyting frá gildandi ákvæði felur í sér að vísað er til lágmarkseiginfjárkröfu samkvæmt 1. mgr. 84. gr. í stað þess að vísa til 8% lágmarks eiginfjárhlutfallsins. Lágmarkseiginfjárkrafa kann í einstökum tilvikum að vera hærri vegna sérstakrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins en 8% lágmarkið.
     Um d-lið.
    Breytingin felur í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um a- lið 3. gr. frumvarpsins.
    Um e-lið.
    Ákvæði 1. efnismgr. tiltekur að fjármálafyrirtækjum sé skylt að upplýsa opnberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur. Ákvæðið samsvarar 145.–149. gr. tilskipunar 2006/48 og 39. gr. tilskipunar 2006/49.
    Ákvæði 2. efnismgr. veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til að setja reglur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis til viðskiptamanns um lánshæfismat hans þegar ákvörðun um lán er byggð á slíku lánshæfismati sem jafnframt er notað við mat á lánaáhættu í útreikningi á áhættugrunni samkvæmt innramatsaðferð. Ákvæðið samsvarar 4. mgr. 145. gr. tilskipunar 2006/48. Í ákvæði tilskipunarinnar er gert ráð fyrir þeim möguleika að samtök fjármálafyrirtækja í einstökum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu geti gefið út leiðbeinandi reglur fyrir aðildarfyrirtæki sín sem gætu komið í stað reglna eftirlitsaðila enda uppfylli þær kröfurnar sem tilgreindar eru í 4. mgr. 145. gr. tilskipunar 2006/48.

Um 6. gr.


    Um a-lið.
    Breyting frá gildandi ákvæði felur annars vegar í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins. Hins vegar felur breytingin í sér að fellt er út ákvæði um sérstaka meðferð á eignarhlutum sparisjóða sem eiga yfir 10% eignarhlutdeild í Sparisjóðabanka Íslands hf. enda á slíkt ákvæði sér ekki stoð í tilskipun 2006/48.
     Um b–d-lið.
    Breyting frá gildandi ákvæðum felur í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um a-lið 3. gr. frumvarpsins.
     Um e-lið.
    Ákvæði 1. mgr. áskilur að draga skuli sérstaklega frá eiginfjárgrunni reiknað tap samkvæmt innramatsaðferð sem er umfram reikningsskilalegt tap og tengist eignum og skuldbindingum öðrum en svonefndum verðbréfuðum stöðum, sbr. næstu málsgrein. Ákvæðið á eingöngu við þau fjármálafyrirtæki sem heimild hafa fengið til að beita innramatsaðferðum við mat á áhættum. Ákvæði þessarar málsgreinar samsvarar 1. mgr., lið q, í 57. gr. tilskipunar 2006/48.
    Ákvæði 2. mgr. áskilur að draga skuli frá eiginfjárgrunni niðurstöðu mats á verðbréfuðum stöðum með hæsta (1.250%) áhættuvægi í útreikningi áhættugrunns. Verðbréfun (securitisation) merkir viðskiptasamning eða kerfisfyrirkomulag þar sem lánaáhættu ákveðinnar kröfu eða kröfusafns er lagskipt í hluta með eftirfarandi hætti:
     a.      greiðslur samkvæmt viðskiptasamningnum eða kerfisfyrirkomulaginu eru háðar afkomunni af kröfunni eða kröfusafninu, og
     b.      forgangsröðun laganna ákvarðar dreifingu taps á líftíma viðskiptasamningsins eða kerfisfyrirkomulagsins.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar 1. mgr., lið r, í 57. gr. tilskipunar 2006/48.
    Ákvæði 3. mgr. kveður á um að frádráttarliðir skv. 85. gr. skuli að 50% hluta dragast frá eiginfjárþætti A eins og hann reiknast skv. 84. gr. og að 50% hluta dragast frá eiginfjárþætti B, sbr. 84. gr. Dugi eiginfjárþáttur B ekki til að standa undir frádrætti samkvæmt framangreindu skal sú fjárhæð sem umfram er dragst frá eiginfjárþætti A. Þessi breyting leiðir til þess að eiginfjárgrunnur samkvæmt eiginfjárþætti A yrði sýndur lægri en samkvæmt gildandi ákvæðum sem nemur áhrifum af framangreindri frádráttaraðferð. Ákvæði þessarar málsgreinar samsvarar 2. mgr. 66. gr. tilskipunar 2006/48, sbr. 20. gr. tilskipunar 2006/49.

Um 7. gr.


    Breyting frá gildandi ákvæði felur í sér að vísað er til eiginfjárgrunns í stað eigin fjár, sbr. umfjöllun um a-lið 3. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Ákvæði 157. gr. tilskipunar 2006/48 og 49. gr. tilskipunar 2006/49 sem þetta frumvarp byggist á gera ráð fyrir að breyttar eiginfjárreglur taki gildi frá og með 1. janúar 2007.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki, önnur en þau sem fengið hafa heimild til að beita innramatsákvæðum, munu hafa val um það á árinu 2007 að beita þeim ákvæðum um eigið fé og áhættugrunn sem í gildi eru fyrir breytinguna sem þetta frumvarp hefur í för með sér. Fjármálafyrirtækin hafa þannig meira svigrúm en ella til að laga sig að hinum nýju ákvæðum. Ákvæðið samsvarar 8. mgr. 152. gr. tilskipunar 2006/48.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir að eiginfjárkrafa fjármálafyrirtækis, sem fengið hefur leyfi til að beita innramatsaðferðum við mat á lánaáhættu (Internal Ratings Based Approach) eða rekstraráhættu (Advanced Measurement Approach), geti á árunum 2007, 2008 og 2009 ekki farið niður fyrir tiltekið hlutfall, 95%, 90% og 80%, af þeirri eiginfjárkröfu sem gildandi reglur hefðu leitt af sér, þ.e. þær reglur sem í gildi voru í árslok 2006. Tilgangur þessa ákvæðis er að milda fyrstu áhrif nýju eiginfjárreglnanna á mögulega aukningu umsvifa hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem beita munu þróaðri aðferðum við mat á áhættum en vísbendingar eru um að lækkun á eiginfjárkröfu þeirra fjármálafyrirtækja geti í sumum tilvikum orðið umtalsverð. Ákvæðið samsvarar 3.–5. mgr. 152. gr. tilskipunar 2006/48, sbr. 50. gr. tilskipunar 2006/49.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir að við setningu reglna skv. 84. gr. sé Fjármálaeftirlitinu heimilt að vísa til enskrar útgáfu Stjórnartíðinda Evrópusambandsins á viðaukum með tilskipunum nr. 2006/48 og 2006/49 þar til íslensk þýðing viðaukanna liggur fyrir. Umræddir viðaukar lýsa nánari útfærslu á einstökum ákvæðum viðkomandi tilskipana. Innihald þeirra er í mörgum tilvikum mjög tæknilegs eðlis og snýr fyrst og fremst að stærstu fjármálafyrirtækjunum. Allar líkur eru á að íslensk þýðing viðaukanna muni ekki liggja fyrir við gildistöku nýrra eiginfjárreglna í ársbyrjun 2007. Stefnt er að því að vísa til birtingar tilskipananna í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, þegar íslensk þýðing liggur fyrir.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum.

    Tilgangur með frumvarpi þessu er að leiða í íslenskan rétt nýjar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja sem teknar eru upp á Evrópska efnahagssvæðinu með breytingum á tveimur tilskipunum. Hinar nýju tilskipanir eru tilskipun 2006/48/EB, lánastofnanatilskipunin, áður 2000/12/EB, og tilskipun 2006/49/EB, eiginfjárkröfutilskipunin, áður 93/6/EB. Markmið með breytingunum er einkum það að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hefur verið stuðst við og að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Meginreglur eru ítarlegri en áður og stór fjármálafyrirtæki með öflugt skipulag geta fengið að byggja eiginfjárkröfuna á eigin áhættumati að hluta. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu gera ráð fyrir hliðstæðri afmörkun og verið hefur milli laga um fjármálafyrirtæki og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra. Einungis meginatriði eru tekin í lögin sjálf en útfærslum og tækniatriðum vísað í reglur sem settar eru af Fjármálaeftirlitinu.
    Eins og áður sagði eru nýju eiginfjárreglurnar mun umfangsmeiri en gildandi reglur og munu því krefjast aukins mannafla við setningu og viðhald reglna og tilmæla og eftirfylgni með því að eftir þeim sé farið. Eins er ætlað að hinar nýju reglur muni leiða til aukinna erlendra samskipta Fjármálaeftirlitsins við erlendar systurstofnanir. Fjármálaeftirlitið áætlar að af þessum sökum muni þurfa að bæta einu eða tveimur stöðugildum við hjá stofnuninni í náinni framtíð. Rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með ríkistekjum af eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og mun kostnaði verða mætt af þeim tekjum.