Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 231. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 508  —  231. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sesselju Árnadóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ingvar Sverrisson frá Alþýðusambandi Íslands og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og Vinnueftirliti ríkisins.
    Frumvarpið er að efni til innleiðing á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB og hefur það að markmiði að stuðla að aukinni samvinnu atvinnurekenda og starfsmanna þeirra. Er miðað við að fyrirtækjum þar sem starfa að minnsta kosti 50 manns verði gert skylt að kynna tiltekin málefni fyrir starfsmönnum sínum og gefa þeim undir ákveðnum kringumstæðum kost á samráði. Þessi skylda atvinnurekanda er þó ekki takmarkalaus því að við mismunandi aðstæður getur hann bundið upplýsingar trúnaði eða látið hjá líða að veita þær. Fyrra úrræðinu getur hann beitt ef lögmætir hagsmunir fyrirtækis krefjast en hinu síðara aðeins ef upplýsingagjöfin gæti leitt til alvarlegs tjóns fyrir starfsemina.
    Frumvarpið tekur aðeins til aðila í atvinnurekstri og því eiga opinberar stofnanir sem hafa með höndum stjórnsýsluhlutverk ekki undir ákvæði þess. Þá er í samræmi við aðlögunarheimildir tilskipunarinnar gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að gildissvið frumvarpsins verði takmarkað fram til 1. mars 2008 við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að þarfir launafólks fyrir upplýsingar og samráð og heimildir atvinnurekenda til stjórnunar eru hvort tveggja mikilvægir hagsmunir sem erfitt getur verið að gera jafn hátt undir höfði í lagatexta. Verði frumvarp þetta að lögum leggur nefndin því mikla áherslu á að aðilar vinnumarkaðarins nýti heimild sína skv. 6. gr. og útfæri nánar tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs innan fyrirtækja, eftir atvikum í kjarasamningi eða með samkomulagi á vinnustað.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Jóhanna Sigurðardóttir og Ellert B. Schram skrifa undir álitið með fyrirvara. Þau áskilja sér jafnframt rétt til að leggja fram breytingartillögur. Þau vilja að gildissvið frumvarpsins verði rýmkað og að aðilum vinnumarkaðarins verði ekki heimilað að semja sig frá þeim lágmarkskröfum sem frumvarpið gerir.
    Magnús Þór Hafsteinsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Einar Oddur Kristjánsson og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álitið.

Alþingi, 29. nóv. 2006.

Dagný Jónsdóttir,


form., frsm.


Guðjón Hjörleifsson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.Ellert B. Schram,


með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal.


Birkir J. Jónsson.Magnús Þór Hafsteinsson,


með fyrirvara.