Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 357. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 544  —  357. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson frá fjármálaráðuneyti og Bryndísi Kristjánsdóttur frá embætti Skattrannsóknarstjóra ríkisins. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málið.
    Með frumvarpinu er einkum verið að bregðast við agnúum sem komið hafa í ljós frá því að ný lög um olíugjald og kílómetragjald komu til framkvæmda 1. júlí 2005. Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á III. kafla laganna sem fjallar um kæruheimildir, eftirlit og refsiábyrgð og hins vegar er lögð til framlenging á lækkun olíugjalds og skal framlengingin gilda í eitt ár enn. Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að kveðið verði með skýrum hætti á um að sala olíu um borð í varðskip og skip sem notuð eru í atvinnurekstri og skráð 6 metrar eða lengri sé undanþegin olíugjaldi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem snúa að endurákvörðun, refsingum, kæruheimild, málsmeðferð og eftirliti. Stefnt er að því að refsiákvæði verði gagnsærri og beiting þeirra skilvirkari. Í þriðja lagi er lagt til að tímabundin lækkun olíugjalds verði framlengd.
    Með frumvarpinu er verið að skerpa refsiákvæði þannig að þau verði afdráttarlaus og skilyrðislaus en sök var áður óljós og sönnunarbyrði torveld.
    Nefndin mælist til þess að gert verði átak í að kynna hlutaðeigandi aðilum gjörbreyttar refsireglur.
    Ögmundur Jónasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu sem lýtur einungis að orðalagi. Lagt er til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Orðið „ökutækis“ í d-lið 7. gr. falli brott.

Alþingi, 5. des. 2006.


Pétur H. Blöndal,

form., frsm.

Jóhanna Sigurðardóttir,

með fyrirvara.

Dagný Jónsdóttir.

                                  

Lúðvík Bergvinsson,

með fyrirvara.

Birgir Ármannsson.

Ágúst Ólafur Ágústsson,

með fyrirvara.


Ásta Möller.

Sæunn Stefánsdóttir.