Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.

Þskj. 642  —  463. mál.



Skýrsla

forsætisráðherra um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri
í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktaði 16. mars 2004 að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Forsætisráðuneytið fól iðnaðarráðuneyti framkvæmd þingsályktunarinnar og hefur Impra, nýsköpunarmiðstöð Iðntæknistofnunar Íslands, tekið saman skýrslu um efnið.

Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Á vormánuðum 1999 hóf þverfagleg þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki starfsemi undir heitinu Impra. Þjónustumiðstöðin var fyrst um sinn rekin sem þróunarverkefni á vegum Iðntæknistofnunar og iðnaðarráðuneytis en starfsemi nýsköpunarmiðstöðvar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki hefur nú verið bundin í lög nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Verkefni Impru nýsköpunarmiðstöðvar hverfast um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og starfsemin hefur það að markmiði að auðvelda mönnum að hefja atvinnurekstur, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hlutverk nýsköpunarmiðstöðvarinnar er að vinna að nýsköpun og tækniþróun í samræmi við lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins og áherslur Vísinda- og tækniráðs á hverjum tíma.
    Í þessu felst meðal annars að:
     a.      eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið,
     b.      móta sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja,
     c.      starfrækja frumkvöðlasetur til að styðja framgang nýrra hugmynda í samræmi við reglur sem iðnaðarráðherra samþykkir,
     d.      annast miðlun hvers konar hagnýtrar þekkingar um stofnun og rekstur fyrirtækja,
     e.      vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu,
     f.      miðla þekkingu um innlendar og erlendar tækninýjungar og aðgerðir sem auka framleiðni,
     g.      beita sér fyrir hagnýtingu vísindalegrar þekkingar,
     h.      aðstoða við öflun framtaksfjármagns til verkefna sem stuðla að nýsköpun og aukinni verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi,
     i.      eiga aðild að sprotafyrirtækjum sem stofnunin hefur tekið þátt í að þróa,
     j.      annast samstarf við innlendar og erlendar stofnanir sem gegna sambærilegu hlutverki vegna samstarfsverkefna og miðlunar þekkingar í samræmi við markmið 1. gr.,
     k.      sinna öðrum verkefnum sem iðnaðarráðherra felur henni.
    Í tilefni af þingsályktun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, sem samþykkt var á Alþingi 16. mars 2004, fól iðnaðarráðherra Impru nýsköpunarmiðstöð að gera sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:
     a.      kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,
     b.      aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,
     c.      kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,
     d.      aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,
     e.      kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,
     f.      kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,
     g.      skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,
     h.      stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,
     i.      stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,
     j.      stöðu frumkvöðla,
     k.      stöðu uppfinningamanna.
    Nýsköpun er forsenda fjölbreytni og sterkrar samkeppnisstöðu í íslensku atvinnulífi. Á Íslandi, eins og annar staðar í Evrópu, eru lítil og meðalstór fyrirtæki uppspretta nýsköpunar og efnahagslegrar endurnýjunar og þau skapa flest ný atvinnutækifæri. Lítil og meðalstór fyrirtæki gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og eru forsenda byggðaþróunar. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru því afar mikilvæg umhverfi sínu, en þau eru jafnframt afar viðkvæm fyrir breytingum sem kunna að verða í hinu ytra umhverfi. Efnahagslegur stöðugleiki, skilvirk þjónusta og skýrar reglur opinberra aðila eru enn mikilvægari fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, en þau sem stærri eru. Afar mikilvægt er að frumkvöðlar og lítil og meðalstór fyrirtæki hafi greiðan aðgang að faglegum stuðningi, hvatningu og aðstoð.
    Hlutverk Impru nýsköpunarmiðstöðvar er að eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið, sbr. lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Impra er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki og framvörður nýsköpunar á landinu öllu. Þar hafa frumkvöðlar og stjórnendur fyrirtækja aðgang að fjölbreyttri þjónustu og stuðningsverkefnum sem hafa það markmið að hvetja til nýsköpunar og nýrra viðskiptahugmynda. Þessi áhersla í starfsemi Impru byggist á þeirri skoðun að nýsköpun sé forsenda fjölbreytni og sterkrar samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Á Íslandi, eins og annars staðar í Evrópu, eru lítil og meðalstór fyrirtæki uppspretta nýsköpunar og efnahagslegrar endurnýjunar og þau skapa flest ný störf. Því er afar mikilvægt að frumkvöðlar og lítil og meðalstór fyrirtæki hafi greiðan aðgang að faglegum stuðningi, hvatningu og aðstoð. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru viðkvæm fyrir breytingum í ytra umhverfi sínu og er efnahagslegur stöðugleiki, skilvirk þjónusta og skýrar reglur, t.d. opinberra eftirlitsaðila, enn mikilvægari fyrir þau en þau sem stærri eru.
    Starfsstöðvar Impru eru í Reykjavík og á Akureyri, en lögð er áhersla á að fyrirtæki og einstaklingar á landinu öllu hafi greiðan aðgang að þjónustunni sem er að mestu gjaldfrjáls. Árlega eru veitt um 4.000 handleiðsluviðtöl á Impru og um 4.500 styttri fyrirspurnum er svarað. Um 2.000 heimsóknir eru á heimasíðu Impru á viku og því má fullyrða að fjöldi fólks nýti sér þá upplýsingaveitu. Meðal verkefna Impru eru fjöldi ráðgjafar- og stuðningsverkefna á sviði vöruþróunar, reksturs, markaðsmála, framleiðsluferla, klasasamstarfs og ýmissa nýsköpunar- eða úrbótaverkefna. Impra á samstarf við atvinnuþróunarfélög um allt land um verkefni til að efla atvinnulíf og fyrirtæki á starfssvæðum félaganna. Impra aðstoðar fyrirtæki við gerð umsókna um styrki í rannsóknaráætlanir Evrópusambandsins. Einnig vinnur Impra að hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna, tækniyfirfærslu og alþjóðlegu tæknisamstarfi fyrirtækja.
    Í þingsályktuninni eru tiltekin ellefu efnisatriði sem gera á grein fyrir og eftir atvikum að nefna tillögur til úrbóta. Flest þessi atriði eru nú þegar á málefnaskrá Impru, m.a. í kjölfar stefnumótandi skjals um sprotafyrirtæki, frumkvöðla og uppfinningamenn sem unnið var af norrænu ráðherranefndinni árið 2001 að frumkvæði Evrópunefndar Norðulandaráðs 1 .
    Hér á eftir eru efnisatriðin talin fram í sömu röð og í þingsályktuninni.

1.     Kostnaður við stofnun fyrirtækja og aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi.
    Allar upplýsingar um stofnun fyrirtækja, þjónustuaðila, nauðsynleg leyfi, skráningar og kostnað við stofnun fyrirtækja er að finna á heimasíðu Impru: www.impra.is .
    Samhengi er á milli þess hve auðvelt er að stofna fyrirtæki og hve mikil nýsköpun, efnahagsleg velsæld og atvinnuþátttaka er meðal þjóða. Niðurstöður könnunar Alþjóðabankans frá árinu 2005 2 sýna m.a. að atvinnuleysi er minna í löndum þar sem auðvelt er að stofna fyrirtæki. Í sömu könnun er Ísland í 12. sæti í heiminum á lista þeirra landa sem búa viðskiptum best skilyrði og verður það að teljast mjög góð staða.
    Kostnaður við stofnun fyrirtækja er þríþættur:
     1.      Undirbúningskostnaður sem fellur til við forvinnu og könnun á viðskiptahugmyndinni.
     2.      Skráningarkostnaður við formlega skráningu félags.
     3.      Stofnkostnaður við að hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd.

1. Undirbúningskostnaður.
    Undirbúningskostnaður er ýmis kostnaður við að kanna hagkvæmni viðskiptahugmyndar. Þar getur verið um að ræða kostnað við gerð viðskiptaáætlunar, markaðsathuganir, mat á hugmyndum, þróunarkostnað o.fl. Undirbúningskostnaður er mjög breytilegur og mjög mismunandi hversu mikla vinnu einstaklingar geta sjálfir lagt af mörkum og hversu mikla ráðgjöf þarf að kaupa. Impra nýsköpunarmiðstöð og atvinnuráðgjafar víða um land veita ókeypis aðstoð og leiðbeiningar við gerð viðskiptaáætlana og aðra undirbúningsvinnu. Nokkrir kostir eru í boði til að standa straum af kostnaði við undirbúningsvinnu. Þar má nefna styrki Átaks til atvinnusköpunar, frumkvöðlastuðning Impru, Smáverkefnasjóð landbúnaðarins, Forverkefnasjóð AVS, Kvennasjóð og forverkefni Tækniþróunarsjóðs.

2. Skráningarkostnaður.
    Skráningarkostnaður er kostnaður við formlega skráningu félags. Kostnaður vegna undirbúnings skráningar er mismikill eftir því hvað stofnandi getur unnið mikið sjálfur að verkinu. Á vef ríkisskattstjóra www.rsk.is eru greinargóðar upplýsingar um allt sem lýtur að skráningu fyrirtækja. Impra nýsköpunarmiðstöð veitir ókeypis leiðbeiningar og handleiðslu við skráningu fyrirtækis. Flest atvinnuþróunarfélög veita hliðstæða þjónustu. Skráningarkostnaður og annar kostnaður við stofnun félags er ekki mikil hindrun fyrir íslensk fyrirtæki og skráningartími er aðeins örfáir dagar. Á heimasíðu Impru eru töflur yfir kostnað við stofnun fyrirtækis og hin ýmsu og ólíku leyfi og gjöld sem koma til vegna stofnunar starfsemi af ýmsu tagi.

3. Stofnkostnaður.
    Stofnkostnaður er kostnaður sem leggja þarf af mörkum til að starfsemi geti hafist. Stofnkostnaður er afar breytilegur frá einni viðskiptahugmynd til annarrar. Stofnkostnaður er iðulega erfiðasti hjallinn við stofnun fyrirtækis. Stofnun fyrirtækis felur oft í sér fjárhagslega áhættu og allmargir veðsetja eignir eða fá fjölskyldu eða vini til að ganga í ábyrgðir fyrir lánum. Þjónusta lánastofnana er nú fjölbreyttari en áður og fleiri kostir í boði. Bankar lána nú með veði í birgðum og oft er hægt að leigja tæki og búnað og lækka þannig stofnkostnað. Kaupleiga eða fjármunaleiga er einnig kostur sem oft er fyrir hendi. Starfsfólk lánastofnana og kaupleigufyrirtækja, atvinnuráðgjafar og starfsfólk Impru nýsköpunarmiðstöðvar veita ókeypis ráðgjöf og leiðbeiningar um fjármögnun stofnkostnaðar.

2. Aðgangur smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu.
    Sprotafyrirtæki sem starfa í framlínu nýsköpunar eru öðrum fyrirtækjum hvatning til aukinnar samkeppni og gegna þannig mikilvægu hlutverki við að knýja fram vöxt og nýsköpun í efnahagslífinu. Mikilvægi sprotafyrirtækja er sérstaklega mikið þegar litið er til getu til nýsköpunar og samkeppnishæfni atvinnulífsins til framtíðar. Stjórnvöld hafa því hlutverki að gegna að ryðja úr vegi hindrunum sem standa vexti nýsköpunarfyrirtækja fyrir þrifum. Á hinn bóginn getur fjarvera stjórnvalda viðhaldið markaðsbresti í fjármálakerfinu og komið í veg fyrir fjármögnun arðbærra nýsköpunarverkefna. Erfiðleikar við fjármögnun sprotafyrirtækja hafa verið áberandi í íslenskri umræðu um nýsköpun og frumkvöðlastarf. Í úttekt Háskólans í Reykjavík á fjármálavanda nýrra fyrirtækja á Íslandi kemur fram að aðgengi íslenskra fyrirtækja að bankafjármögnun er gott í samanburði við önnur lönd en að skortur sé á áhættufjármagni 3 .
    Fæst fyrirtæki eru rekin með væntingar um mikinn vöxt eða nýsköpun. Þó að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki séu fjöregg vaxtar í atvinnulífinu er mikilvægt að hafa í huga að þau eru margbreytileg og þarfir þeirra og möguleikar til fjármögnunar eru mjög mismunandi. Flest fyrirtæki eru stofnuð vegna þess að eigendur kjósa það sjálfstæði sem fylgir eigin rekstri og væntingar þeirra eru einna helstar að fyrirtækið reynist ásættanleg tekjulind 4 . Fyrirtæki af þessu tagi eru engu síður ákaflega mikilvæg í atvinnu- og verðmætasköpun. Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að tryggja fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum hagstætt rekstrarumhverfi og aðgang að upplýsingum, stuðningi og fjármagni. Starfsemi Impru nýsköpunarmiðstöðvar er liður í að uppfylla það hlutverk.
    Arðsemi verkefna ræður ekki alltaf ákvörðunum eigenda. Oft leggja eigendur meiri áherslu á sjálfstæði og eignarhald á viðskiptahugmynd en á arðsemi og vöxt. Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 1999 5 kom fram að 74% svarenda höfðu ekki áhuga á að opna fyrirtækið fyrir utanaðkomandi fjármagni; með öðrum orðum vildu þeir ekki afsala sér eignarhlut eða hugverkaréttindum til þess að geta fjármagnað vöxt fyrirtækisins. Þannig hafa eigendur smáfyrirtækja í raun sjálfir lokað á fjármögnunarmöguleika fyrirtækisins, jafnvel áður en á þá reynir. Leggja þarf áherslu á að styrkja og auka framboð á upplýsingaþjónustu, endurmenntun og ráðgjöf til stofnenda nýrra fyrirtækja til þess að gera þá hæfari til að skapa sér fjölbreyttari möguleika á fjármálamarkaði.
    Óhlutbundnar auðlindir eru sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi fyrirtækja. Þetta á bæði við um fyrirtæki í hefðbundinni starfsemi og nýsköpunarfyrirtæki. Fjárfestingarkostnaður slíkra fyrirtækja liggur í þróunarvinnu, vöruþróun, markaðsstarfi o.s.frv. Fyrirtæki af þessu tagi rekast gjarnan á hindranir þegar leitað er fjármögnunar þar sem áhersla er lögð á veð í hlutbundnum eignum.
    Aðgerðir Impru nýsköpunarmiðstöðvar til stuðnings litlum og meðalstórum fyrirtækjum taka mið af fjölbreytileika þeirra og ólíkum þörfum. Stuðningsaðgerðir beinast að því að bæta starfsumhverfi fyrirtækjanna, greiða aðgang að upplýsingum, fræðslu og faglegum stuðningi og auka þátttöku þeirra í verkefnum sem taka á ákveðnum þáttum í rekstri og fjármögnun. Áfram verður unnið að því með ýmsum hætti að auka þekkingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á tækifærum til áhættufjármögnunar og auka möguleika þeirra á að sýna fjárfestum fram á viðskiptamöguleika nýsköpunarhugmynda.
    Til viðbótar við leiðbeiningarþjónustu Impru um fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja er rekstur Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs og styrking Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins veigamikill liður í aðgerðum stjórnvalda til að auka stuðning við nýsköpun og sprotafyrirtæki. Verkefnið Átak til atvinnusköpunar er stuðningsverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, en markmið þess er að styrkja atvinnuskapandi verkefni og nýsköpun fyrirtækja og einstaklinga. Rannsóknarmiðstöð Íslands veitir fjölbreytta þjónustu sem lýtur að stuðningi við sprota og nýsköpunarfyrirtæki. Í tengslum við byggðaáætlun eru rekin fjölmörg verkefni sem miða að því að treysta stoðir atvinnulífs og auka sóknarfæri einstakra fyrirtækja og atvinnugreina á landsbyggðinni.

3. Kostnaður og aðgengi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga.
    Hvatning og greitt aðgengi að upplýsingum og stuðningi þarf að vera fyrir hendi strax í upphafi þegar hugað er að viðskiptamöguleikum hugmyndar, en einnig á síðari stigum.
    Smáfyrirtæki hafa aðgang að ýmiss konar ráðgjöf. Þar má nefna Þekkingarsetur Iðntæknistofnunar, Impru nýsköpunarmiðstöð, atvinnuþróunarfélög víðs vegar um landið, þekkingarsetur á landsbyggðinni og ýmsa sjálfstætt starfandi ráðgjafa og ráðgjafarfyrirtæki.
    Þekkingarsetur Iðntæknistofnunar býður reglulega upp á námskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja.
    Impra nýsköpunarmiðstöð veitir upplýsingar og handleiðslu, án endurgjalds, til stofnenda fyrirtækja og stjórnenda lítilla fyrirtækja um allt land. Þjónustan er í boði á starfsstöðvum Impru í Reykjavík og á Akureyri, auk þess sem sambærileg þjónusta er veitt í gegnum síma og sérstök gagnvirk handleiðsla er á vefsíðu Impru. Starfsmenn Impru ferðast um allt land í tengslum við ýmis stuðningsverkefni og veita þá handleiðslu og leiðbeiningar til frumkvöðla og fyrirtækja. Impra rekur námskeið fyrir frumkvöðla á ýmsum stigum og árlega taka um 100 konur þátt í verkefninu Brautargengi sem er nám fyrir konur sem hyggjast stofna eða reka eigið fyrirtæki í krafti eigin viðskiptahugmyndar. Impra hefur langa reynslu af rekstri ráðgjafaverkefna þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er gert kleift að fá utanaðkomandi ráðgjöf til að gera ýmsar umbætur í rekstri.
    Frumkvöðlasetur Impru fóstrar fyrirtæki sem vinna að þróun nýsköpunarhugmynda og hjálpar þeim að vaxa fyrstu rekstrarárin. Á Frumkvöðlasetri Impru hafa nú á þriðja tug fyrirtækja haft aðsetur. Frumkvöðlasetur Impru aðstoðar sprotafyrirtæki við öflun framtaksfjármagns m.a. með þátttöku í alþjóðlegum tengslanetum fjárfesta. Frumkvöðlasetur eru einnig rekin á Höfn í Hornafirði og á Akureyri.
    Atvinnuþróunarfélög víðs vegar um landið veita ráðgjöf og leiðbeiningar til stofnenda og stjórnenda fyrirtækja. Um er að ræða mjög víðtæka aðstoð sem veitt er án endurgjalds til að byrja með. Við umfangsmeiri verkefni taka Atvinnuþróunarfélögin gjald þegar ákveðinn fjöldi ráðgjafatíma hefur verið veittur án endurgjalds.
    Bankar og lánastofnanir veita almenna ráðgjöf um fjármögnun án endurgjalds.
    Ráðgjafafyrirtæki víðs vegar um landið bjóða ráðgjöf varðandi stofnun, fjármögnun og rekstur fyrirtækja gegn gjaldi. Flest smáfyrirtæki hafa ekki burði til að kaupa slíka ráðgjöf á fyrstu stigum starfseminnar.
    Smáfyrirtæki hafa því almennt greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og ráðgjöf um flest þau málefni sem þau hafa þörf fyrir á vaxtarárum sínum.

4.     Aðstaða smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu.
    
Við undirbúning og áætlanagerð hjá frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum er markaðssetning sá þáttur sem erfiðast er að áætla, en um leið sá þáttur sem ræður úrslitum um hvernig til tekst. Aðstaða smáatvinnurekstrar til markaðssetningar er breytileg og einnig skiptir máli hver vara eða þjónusta fyrirtækisins er og hvort einungis er verið er að selja vöru innan lands eða hvort um útflutning er að ræða.
    Aukin fræðsla um markaðsmál og mikilvægi þeirra er nauðsynleg fyrir stofnendur fyrirtækja og stjórnenda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ofmat á íslenska markaðinum eða afmörkuðum hlutum hans eru algeng mistök við stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Til að fyrirtæki eigi möguleika á að vaxa dugir ekki að horfa á markað í tilteknu sveitarfélagi, heldur verður að horfa til landsins alls og til markaða í öðrum löndum. Hvetja þarf stofnendur fyrirtækja til að huga að útflutningi strax á frumstigi viðskiptahugmynda. Á vegum Impru er í athugun með hvaða hætti megi auka þjónustu í markaðsmálum með það fyrir augum að bæta aðgengi að markaðsráðgjöf fyrir frumkvöðla og smáfyrirtæki á fyrstu stigum starfseminnar. Starfsfólk Impru, Útflutningsráðs og viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins hefur á undanförnum árum skipst á upplýsingum um verkefni sem unnið er að á þessu sviði og unnið er að auknu samstarfi Útflutningsráðs og Impru á sviði upplýsinga- og fræðslu um markaðsmál.
    Breytingar og samþjöppun í smásöluverslun gera það að verkum að erfitt getur verið að koma vöru á markað. Ef innkaupastjórar tveggja stærstu verslunarkeðjanna í matvöru vilja ekki taka vöruna í sölu er í mörgum tilvikum ekki öðrum til að dreifa. Kröfur frá smásöluversluninni til markaðsaðgerða og veltuhraða gerir minni fyrirtækjum oft erfitt um vik við að koma nýjum vörum á markað. Markaðssetning er kostnaðarsöm, en almennt eru ekki veittir opinberir styrkir til markaðssetningar, aðeins til markaðsathugana á undirbúningsstigi og við vöruþróun. Þetta leiðir til brests sem veldur því að lengri tími líður frá lokum vöruþróunar þar til vara kemst á markað.
    Útflutningsráð veitir víðtæka ráðgjöf og aðstoð við útflutning. Þjónusta Útflutningsráðs skiptist í fimm fagsvið; upplýsingar, ráðgjöf, fræðslu, sýningar og nýja markaði. Útflutningsráð hefur um árabil rekið ráðgjafa- og stuðningsverkefni vegna útrásar fyrirtækja á erlenda markaði. Ráðgjöf og námskeið á vegum Útflutningsráðs er ýmisst veitt án endurgjalds eða gegn gjaldi.
    Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins liðsinnir íslenskum útflytjendum á ýmsan hátt, aðstoðar við leit að samstarfsaðilum, könnun á markaðsaðstæðum og skipulagningu heimsókna og vísar íslenskum fyrirtækjum á ný markaðstækifæri.
    Impra nýsköpunarmiðstöð veitir almennar leiðbeiningar og handleiðslu við markaðssetningu án endurgjalds og hefur gefið út aðgengilegt fræðsluefni um markaðsrannsóknir. Evrópumiðstöð Impru aðstoðar fyrirtæki við að koma íslenskri tækniþróun á framfæri erlendis. Impra skipuleggur reglulega fyrirtækjaheimsóknir og svokölluð fyrirtækjastefnumót erlendis til þess að koma á samstarfi íslenskra og erlendra fyrirtækja á sviði nýsköpunar og tækniþróunar. Í sama skyni á Impra samstarf við sendiráð Bretlands.
    Atvinnuþróunarfélög 6 víðs vegar um landið aðstoða við markaðsmál.
    Sjálfstætt starfandi ráðgjafar og ráðgjafafyrirtæki veita fyrirtækjum ráðgjöf á sviði markaðsmála gegn gjaldi.
    Af framangreindu má ráða að leiðsögn og ráðgjöf er í boði fyrir smáfyrirtæki til kynningar og markaðssetningar á vöru eða þjónustu. Engu síður er markaðssetningin einn helsti veikleiki nýrra smáfyrirtækja.

5.     Kostnaður og eftir atvikum aðrar hindranir sem torvelda kynslóðaskipti í atvinnurekstri.
    Kynslóðaskipti í atvinnurekstri hefur töluvert vægi í umfjöllun um smáfyrirtæki erlendis, bæði í fræðilegri umfjöllun og meðal stuðningsaðila lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Erlendis bjóða opinberir stuðningsaðilar, bankar og ráðgjafastofur upp á aðstoð við áætlanir um kynslóðaskipti fyrirtækja. Umfjöllun um kynslóðaskipti í atvinnurekstri gengur jafnan út frá því að um fjölskyldufyrirtæki sé að ræða, en getur líka átt við um stjórnendaskipti í fyrirtækjum þar sem fjölskyldutengsl koma ekki við sögu.
    Umfjöllun um kynslóðaskipti er hluti af stjórnunar- og viðskiptanámi í háskólum landsins, en lausleg könnun meðal háskólakennara við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík bendir til að vægi þess sé takmarkað, bæði í rannsóknum og kennslu. Könnun á lokaritgerðum BS-, Cand. oecon- og MS-nema í viðskiptafræði við Háskóla Íslands leiddi í ljós að ekkert lokaverkefni hefur fjallað um kynslóðaskipti í atvinnurekstri frá árinu 1997 til 2004.
Spurningar tengdar stjórnun fjölskyldufyrirtækja og kynslóðaskiptum í atvinnurekstri eru engu síður áhugaverðar og í fullu gildi í íslensku samhengi, enda fjöldi fjölskyldufyrirtækja starfandi, bæði stór og smá. Íslenskar skattareglur og erfðalög geta ekki talist verulegar hindranir við kynslóðaskipti í atvinnurekstri. Ástæða er til að bæta þekkingu á sérkennum fjölskyldufyrirtækja og kynslóðaskiptum hjá Impru nýsköpunarmiðstöð og öðrum stuðningsaðilum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þannig að almennt upplýsinga-, handleiðslu- og fræðslustarf geti tekið mið af sérkennum fjölskyldufyrirtækja og vandamálum sem upp kunna að koma við kynslóðaskipti.
    Ráðgjafar í fyrirtækjaráðgjöf hafa mismikla reynslu af kynslóðaskiptum í atvinnurekstri sem sérstöku viðfangsefni. Stjórnendaskipti hjá fjölskyldufyrirtækjum gerast með margvíslegum hætti og þar sem nú er orðið auðveldara að kaupa og selja fyrirtæki en áður er ekki sjálfgefið að börn taki við af foreldrum sínum. Endurskipulagning, sala eða upplausn fjölskyldufyrirtækja á það sammerkt að vera oft mjög flókið og erfitt ferli þar sem nánir ættingjar, tilfinningabönd og flókin eignatengsl koma við sögu.

6.     Kostnaður uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar.
    
Allar upplýsingar um kostnað varðandi einkaleyfi er að finna á heimasíðu Einkaleyfastofunnar á slóðinni www.einkaleyfastofan.is .
    Kostnaður vegna einkaleyfa getur verið afar mismunandi eftir eðli verkefna, hvar sótt er um einkaleyfi, hversu mikillar sérfræðivinnu umsóknin krefst, hversu langan tíma umsóknarferli tekur og hversu lengi einkaleyfi er viðhaldið. Mikilvægi hönnunarverndar, þekking á gerð trúnaðar- eða leyndarsamninga og hvers kyns verndun á þekkingu og verðmætum upplýsingum getur verið mikilvægur þáttur í viðskiptaþróun fyrirtækja, án þess að um einkaleyfishæfa hugmynd sé að ræða. Unnið er að því að bæta upplýsingar og faglegan stuðning við fyrirtæki á þessu sviði. Í því skyni hefur verið komið á samstarfi Einkaleyfastofu, Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og Impru nýsköpunarmiðstöðvar um rekstur Upplýsingasetra um einkaleyfi á Akureyri og í Reykjavík í þeim tilgangi að auka fræðslu og upplýsingagjöf til frumkvöðla og fyrirtækja.
    Einkaleyfastofa hefur tekið upp formlegt samstarf við Impru og Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands um stuðningsþjónustu og miðlun upplýsinga um einkaleyfi. Starfsmenn Impru og rannsóknarþjónustunnar gegna aukastarfi hjá Einkaleyfastofu til þess að efla og bæta samstarf þessara aðila. Liður í að bæta þjónustu Impru á sviði hönnunarverndar, trúnaðar- og leyndarsamninga og verndun verðmætra upplýsinga er upplýsingavefur sem birtur verður á heimasíðu Impru snemma árs 2007. Þar verður að finna hagnýtar upplýsingar um einkaleyfi og hönnunarvernd. Markmiðið er að aðstoða frumkvöðla við að vinna að þróun viðskiptahugmyndar með það að leiðarljósi að einkaleyfishæfi hugmyndar, framsal og/eða hönnunarvernd sé tekið með í áætlanagerð strax í upphafi.
    Heildarkostnaði við einkaleyfi má skipta í fimm þætti, og er þá undanskilinn kostnaður sem kann að hljótast af því að verja rétt einkaleyfishafa.
     1.      Kostnaður við nýnæmisleit. Almennt sjá umsækjendur hag sinn í að framkvæma nýnæmisleit áður en sótt er um einkaleyfi í þeim tilgangi að meta verðmæti, samkeppnisaðstæður og einkaleyfishæfi uppfinningar. Slíkur kostnaður er yfirleitt lítill hluti af heildarkostnaði og ræðst af því hvort umsækjandi fær fagaðila til að sjá um leitina eða leitar sjálfur í gjaldskyldum eða gjaldfrjálsum gagnagrunnum.
     2.      Kostnaður vegna aðstoðar fagaðila. Almennt leita umsækjendur til fagaðila eftir aðstoð við að semja einkaleyfisumsókn og svara athugasemdum einkaleyfayfirvalda um einkaleyfishæfi uppfinningar auk annarrar þjónustu.
     3.      Kostnaður hjá einkaleyfisyfirvöldum. Þá er átt við kostnað vegna umsóknar, nýnæmisrannsóknar, alþjóðlegrar forathugunar, útgáfugjalds og fleira sem umsækjandi þarf að greiða yfirvöldum.
     4.      Kostnaður við þýðingu umsóknar.
     5.      Kostnaður vegna árgjalda. Umsækjandi þarf að greiða árgjöld til að viðhalda einkaleyfisumsókn og einkaleyfi sem fara stighækkandi eftir árafjölda.
    Kostnaður við að sækja um einkaleyfi hér á landi er 34.500 kr. Því til viðbótar eru 1.700 kr. fyrir hverja einkaleyfiskröfu umfram 10. Þá þarf umsækjandi að greiða útgáfugjald að upphæð 16.000 kr. fyrir fyrstu 40 blaðsíður einkaleyfisins og 700 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram það, verði umsóknin samþykkt sem einkaleyfi. Umsækjandi þarf að greiða árgjald á gildistíma umsóknar og einkaleyfis sem fer stighækkandi eftir árafjölda.
    Kostnaður við að sækja um einkaleyfi erlendis er mun hærri. Að hefja svokallaða PCT (Patent Cooperation Treaty) umsókn kostar um 220.000 kr. Efnislegar rannsóknir vegna PCT umsóknar kosta ýmist 84.000 kr. eða 156.000 kr. eftir því hver er framkvæmdaraðili. Kostnaður vegna árlegrar endurnýjunar á PCT umsókn fer hæst upp í 31.000 kr.
    Kostnaður við að hefja EPO umsókn (European Patent Office) er 1.730 evrur og kostnaður vegna efnislegra rannsókna er 1.490 evrur. Árlegur endurnýjunarkostnaður fer stighækkandi en fer ekki upp fyrir 1.065 evrur. Algengur umsóknarferill einkaleyfis til EPO er fimm ár en getur farið upp í tíu ár. Umsóknir um bæði PCT og EPO leyfi geta falið í sér fjölda annarra kostnaðarliða og útilokað að gera á því tæmandi úttekt 7 . Þessu til viðbótar gæti þurft að sækja um leyfi í einstökum löndum með tilheyrandi kostnaði.
    Kostnaður við aðkeypta vinnu einkaaðila til að útbúa umsókn um einkaleyfi er eðli málsins samkvæmt mishár, en gróft mat sérfræðinga er að yfirleitt sé lágmarkskostnaður við að útbúa umsókn um 500.000 kr.

7.     Skattalög og aðrir þættir sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja.
    
Skattalagaumgjörð er í megindráttum sú sama hvað varðar lítil og meðalstór einkahlutafélög og stærri hlutafélög. Hlutfall tekjuskatts er það sama, eða 18%, og bæði greiða jafnhátt tryggingagjald. Einkarekstur margra frumkvöðla og einyrkja er þó rekinn á kennitölu eiganda sem greiðir því hærri skatt, eða 38% eins og aðrir einstaklingar greiða í tekjuskatt.
    Með lagabreytingu frá árinu 2002 var einstaklingum gert auðveldara að flytja rekstur af eigin kennitölu yfir í einkahlutafélag án þess að þurfa að greiða skatt af þeirri eignamyndun sem í mörgum tilvikum hafði orðið til í einkarekstrinum. Fjölmargir hafa nýtt sér þennan möguleika á undanförnum árum. Þessi tæplega 20% munur á skattlagningu hefur verulegt gildi í fyrirtækjum frumkvöðla sem þurfa að geta nýtt sem allra mest af hugsanlegum hagnaði til að byggja upp reksturinn. Töluvert meiri kröfur eru gerðar til bókhalds og skattskila einkahlutafélags en einkareksturs og viðtöl við stjórnendur minnstu fyrirtækjanna sýna að stór hluti skattalegs ávinnings getur farið í aukinn kostnað við bókhald og endurskoðun.
    Endurgreiðsla þróunarkostnaðar til fyrirtækja sem vinna að þróun á vörum eða þjónustu er möguleg. Meðal stjórnenda smáfyrirtækja sem vinna að þróun, en hafa takmarkaðar eða litlar tekjur, hefur komið fram sú skoðun að ekki liggi fyrir nógu greinargóðar reglur um endurgreiðslu innskatts af þróunarkostnaði. Ef þróunarvinna stendur í langan tíma kemur fyrir að skattayfirvöld hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts og gera kröfu um að fyrri endurgreiðslur séu endurgreiddar. Fram hefur komið að frumkvöðlar eru margir hverjir ósáttir við að þurfa að endurgreiða innskatt af þróunarstarfi ef þróunin leiðir ekki til söluhæfrar vöru og þar með sölu. Frumkvöðlar hafa einnig bent á að hækka mætti viðmiðunarmörk virðisaukaskatts við sölu þannig að þróunarfyrirtæki gæti selt allt að 1 milljón kr. árlega án þess að innheimta virðisaukaskatt af sölu. Á árinu 2006 breyttust aðstæður nokkuð hvað þetta varðar þar sem svokölluð fyrirframskráning á grunnskrá virðisaukaskatts getur nú verið til 12 ára og lágmarksfjárhæð án þess að innheimta virðisaukaskatt var hækkuð úr kr. 220.000 kr. í 500.000 kr. á ári.

8.     Staða smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir.
    Skilvirkt laga- og reglugerðaumhverfi er nauðsynlegt í opnu og siðmenntuðu samfélagi. Markmiðið er að koma í veg fyrir fyrir markaðsbresti, stuðla að jafnræði, eðlilegri samkeppni og að tryggja velferð og öryggi almennings. Lög, reglur og eftirlit hins opinbera skapa fyrirtækjum ramma sem eru m.a. forsenda eðlilegra viðskiptahátta, samkeppni og vinnuöryggis og er þeim einnig ætlað að verja hagsmuni neytenda. Ónauðsynlegar og óskýrar reglur geta komið í veg fyrir eðlilega samkeppni og tafið nýsköpun og frumkvöðlastarf. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að færri fyrirtæki eru stofnuð í löndum þar sem reglubyrði er mikil og stjórnsýsla flókin. Í löndum þar sem auðvelt er að stofna fyrirtæki er atvinnuleysi minna en þar sem erfitt er að stofna fyrirtæki. Fylgni er einnig með mikilli reglubyrði og minni framleiðni 8 . Samkvæmt alþjóðlegum könnunum hefur skilvirkni og gagnsæi íslenskrar stjórnsýslu mælst mikil og viðskiptahindranir lágar 9 . Stofnun og skráning nýs fyrirtækis er einnig fljótleg, einföld og ódýr á Íslandi miðað við önnur lönd.
    Auðvelda má smáfyrirtækjum að halda utan um ýmiss konar eftirlitsskyldar upplýsingar. Framkvæmd rafrænna skattskila eru góð fyrirmynd að notkun upplýsingatækni til að einfalda starfsumhverfi fyrirtækjanna.
    Á heimasíðu Impru er að finna allar upplýsingar um stofnun og rekstur fyrirtækja, svo sem upplýsingar um öll nauðsynleg leyfi, reglugerðir o.s.frv., í hverri atvinnugrein. Þar er einnig að finna gagnagrunn með upplýsingum um alla þjónustuaðila sem leita þarf til við stofnun fyrirtækis, auk upplýsinga um úrræði og stuðning sem stendur litlum og meðalstórum fyrirtækjum til boða. Unnið verður að því að bæta þessa þjónustu enn frekar. Meðal annars þarf að skoða hvernig auðvelda megi smáfyrirtækjum að halda utan um ýmiss konar eftirlitsskyldar upplýsingar.
    Í stefnuræðu sinni á haustþingi 2005 skýrði forsætisráðherra frá þeirri ákvörðun sinni að láta hefja vinnu sem miðar að því að einfalda stjórnsýsluna og gera hana markvissari og meira í takt við tímann. Ríkisstjórnin hefur af þessu tilefni ákveðið að hrinda af stað sérstöku átaki um Einfaldara Ísland. Gert er ráð fyrir að hvert ráðuneyti fari yfir lög og reglur, sem undir það heyra, með það fyrir augum að einfalda regluverkið, minnka skriffinnsku og auka skilvirkni enn frekar.
    Þá er rétt að nefna að ráðgjafanefnd um opinberar eftirlitsreglur er starfandi á vegum forsætisráðuneytis 10 . Nefndin er skipuð til þriggja ára í senn og er ætlað að vinna að framgangi laga um opinberar eftirlitsreglur og auka þannig hagkvæmni og skilvirkni í opinberu eftirliti. Þá hafa Samtök atvinnulífsins verið sá sjálfstæði hagsmunaaðili sem mest hefur látið sig varða áhrif reglubyrði á íslenskt atvinnulíf. Á vegum samtakanna hafa verið gefnar út tvær skýrslur í samráði við fyrirtæki og aðra aðila, svo sem stjórnsýslu og háskóla 11 . Samtökin koma þar fram með ítarlegar tillögur sem varða hagsmunaaðila samtakanna og einstakar starfsgreinar.

9.–11.     Staða sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna í atvinnurekstri.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingar, frumkvöðlar og uppfinningamenn eru einn stærsti viðskiptahópur Impru. Einstakir aðilar eru allt í senn, uppfinningamenn, frumkvöðlar, einyrkjar og sjálfstætt starfandi einstaklingar, en aðra er auðvelt að skilgreina í fleiri en einn af framangreindum hópum. Staða þessara hópa er um margt lík og því verður fjallað um þá sameiginlega.
    Á frumkvöðlaþingi sem haldið var af Impru nýsköpunarmiðstöð árið 2004 lýstu fulltrúar þessara hópa stöðu þeirra og komu með ábendingar um úrbætur. Fjárhagsstaða þessara aðila er yfirleitt mjög þröng og skortur á fjármagni algengt vandamál. Oft þurfa uppfinningamenn og frumkvöðlar að vinna fulla vinnu jafnframt því að vinna að viðskiptahugmynd sinni. Langur þróunartími getur svo leitt til þess að hugmynd er orðin úrelt þegar hún loks kemst á markað. Þeir styrkir sem í boði eru gera í flestum tilvikum ráð fyrir jafnháu framlagi frá umsækjanda sem getur þýtt að þessir fjármunir renna til kaupa á utanaðkomandi aðstoð og ráðgjöf, en ekki til að greiða hluta af framlagi umsækjanda. Margir uppfinningamenn og frumkvöðlar hafa það ekki að markmiði að stofna fyrirtæki í kringum verkefni sín, heldur kjósa að koma þeim í verð hjá fyrirtækjum eða fjárfestum, hérlendis eða erlendis. Kvartað hefur verið yfir litlum áhuga fjárfesta og að fjárfestar verðleggi hugmyndirnar lágt. Stuðningsaðgerðir sem staðið hefur verið fyrir til að koma á tengslum milli fjárfesta og fyrirtækja, t.d. á vegum Seed Forum International sem er samstarfsverkefni nokkurra stuðningsaðila atvinnulífsins, henta ekki einyrkjum og uppfinningamönnum sem starfa einir. Því þarf að huga að öðrum leiðum til þess að koma til móts við þessa hópa. Uppfinningamenn og hluti frumkvöðla starfa oft á tíðum einir og geta átt það á hættu að einangrast með verkefnum sínum.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingum, einyrkjum, frumkvöðlum og uppfinningamönnum stendur til boða ýmis þjónusta, bæði á vegum Impru nýsköpunarmiðstöðvar og annarra stuðningsaðila atvinnulífsins. Þeir leita eftir upplýsingum og aðstoð frá Impru í sívaxandi mæli, síst þó sá hópur sem skilgreinir sig sem uppfinningamenn. Sífellt er tilefni til að fylgjast vel með málefnum þessara hópa og greina stöðu þeirra og þarfir. Á vegum Impru nýsköpunarmiðstöðvar er m.a. unnið að vefútgáfu á stuðningsefni sem sérstaklega er ætlað frumkvöðlum og uppfinningamönnum undir vinnuheitinu „Framkvæmdaáætlun fyrir frumkvöðla“. Áfram þarf að vinna að því að veita þessum hópum upplýsingar sem miðar sérstaklega að þeirra þörfum og vinna markvisst að því að rjúfa einangrun þeirra og auðvelda þeim að nýta þá þjónustu sem í boði er.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Nordisk Råd Europaudvalg. 2001. Et Nordisk Charter for små innovative virksomehder, iværksættere og selvstændige opfindere.
Neðanmálsgrein: 2
    2 The International Bank for Reconstruction and Development. 2005. Doing business 2006. The World Bank. Sjá nánar á slóðinni www.doingbusiness.org .
Neðanmálsgrein: 3
    3 Rögnvaldur J. Sæmundsson et. al. 2004. Úttekt á fjármálavanda nýrra fyrirtækja á Íslandi. Global Entrepreneurship Monitor 2003. Háskólinn í Reykjavík.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Enterprise Britain. A modern approach to meeting the enterprise challenge. 2002. HM Treasury. U.K.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Kristjana Blöndal et al. 1999. Könnun á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Háskóli Íslands. Félagsvísindastofnun.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Þróunarsetur Austurlands, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtök sveitarfélaga á Vesturalndi, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
Neðanmálsgrein: 7
    7 Sjá nánar www.european-patent-office.org/index.en.php og www.patent.is .
Neðanmálsgrein: 8
    8 Enterprise Britain: A modern approach to meeting the enterprise challenge. 2002. HM Treasury. U.K. pp: 38-39. Sjá líka The International Bank for Reconstruction and Development. 2005. Doing buiness 2006. The World Bank á slóðinni: www.doingbusiness.org .
Neðanmálsgrein: 9
    9 Schwab K, et. al. 2004. The Global Competitiveness Report 2003 - 2004. Word Economic Forum. Sviss. Sjá líka The International Bank for Reconstruction and Development op.cit 2005.
Neðanmálsgrein: 10
    10 Sjá nánar: www.forsaetisraduneyti.is/raduneyti/verkefni/Opinb_eftirlitsreglur/.
Neðanmálsgrein: 11
    11 Samtök atvinnulífsins. 2004. Bætum lífskjörin – Skýrsla um leiðir til lífskjarabóta með kerfisumbótum. og Eftirlit með atvinnustarfsemi – tillögur til úrbóta. Ritstj. Gústaf Adólf Skúlason.