Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 465. máls.

Þskj. 644  —  465. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Sá sem tálmar því á annan hátt að handhafi lögregluvalds eða tollgæsluvalds gegni skyldustörfum sínum skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Geri maður öðrum opinberum starfsmanni slíkar tálmanir þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
                      Nú hefur sá sem dæmdur er sekur um brot á þessari grein áður sætt refsingu samkvæmt greininni eða honum hefur verið refsað fyrir brot sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi, og má þá hækka refsingu allt að helmingi.
     d.      3. mgr., er verður 4. mgr., orðast svo:
                      Jafnfætis þeim opinberu starfsmönnum, sem ekki hafa heimild að lögum til líkamlegrar valdbeitingar, standa þeir menn sem dómari eða yfirvald kveður sér til aðstoðar við rekstur opinbers starfs.

2. gr.

    2. málsl. 107. gr. laganna orðast svo: Aðrir þátttakendur upphlaupsins, sem ofríki hafa haft í frammi eða ekki hafa hlýðnast skipun yfirvalds er skorað hefur á mannsöfnuðinn að sundrast, skulu sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum ef brot er smáfellt.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Róbert R. Spanó, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Ásgerður Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, voru fengin til að semja drög að frumvarpinu.
    Mikilvægt er að opinberir starfsmenn geti sinnt skyldustörfum sínum í þágu almannaheilla án ólögmætra hindrana. Ákvæði 106. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, miðar að því að greiða fyrir störfum þeirra að viðlagðri refsiábyrgð þeim til handa sem brjóta gegn fyrirmælum ákvæðisins. Í 1. mgr. 106. gr. er lögð refsing við því að ráðast á opinberan starfsmann með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því. Eins skal sá sæta refsingu sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfs eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan. Í 2. mgr. 106. gr. er síðan lögð refsing við því að gera á annan hátt opinberum starfsmanni tálmanir í því að gegna skyldustörfum sínum.
    Ákvæði 106. gr. hegningarlaga gerir ekki greinarmun á eðli þeirra starfa sem opinberir starfsmenn hafa með höndum. Refsimörk og refsitegundir 106. gr. eru því þær sömu hvort sem brot beinist að opinberum starfsmanni, svo sem lögreglumanni, tollverði eða starfsmanni Landhelgisgæslunnar, sem getur eðli máls samkvæmt þurft að beita líkamlegu valdi við framkvæmd skyldustarfs síns á grundvelli lagaheimildar þess efnis. Að undanförnu hefur farið fram umræða í þjóðfélaginu þar sem því hefur verið haldið fram að refsingar vegna brota gegn 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga séu of vægar og í ósamræmi við alvarleika brotanna, a.m.k. þegar brot beinast að opinberum starfsmönnum sem þurfa gjarnan að beita líkamlegu valdi við framkvæmd starfa og hafa til þess heimild í lögum. Við samningu þessa frumvarps hefur verið lagt mat á þær röksemdir og þau sjónarmið sem fram hafa komið. Þá hefur verið horft til þess að af dómaframkvæmd síðustu ára verður dregin sú ályktun að refsingar vegna brota gegn ákvæðum 106. gr. hegningarlaga hafa að jafnaði verið við lægri mörk refsirammans, þar á meðal þegar brotaþolar eru í hópi þeirra opinberu starfsmanna sem hafa að lögum heimild til líkamlegrar valdbeitingar við framkvæmd starfa sinna, sjá fylgiskjal I þar sem er að finna reifanir dóma um beitingu 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga frá árinu 2003.
    Við samningu þessa frumvarps hefur verið lagt til grundvallar að haldbær rök standi til þess að gera greinarmun á eðli þeirra starfa sem starfsmenn hins opinbera hafa með höndum þegar til greina kemur að refsa fyrir brot gegn þeim á grundvelli 106. gr. hegningarlaga. Er þá horft til þess að refsivernd sú sem opinberir starfsmenn njóta í störfum sínum verður að efni til að vera í réttu hlutfalli við þá hættu á líkams- eða heilsutjóni sem leiðir af eðli starfsins. Af þessum sökum eru með 1. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á 106. hegningarlaga. Er markmið þeirra að skerpa á og auka þá refsivernd sem opinberum starfsmönnum, sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar, er veitt í refsilögum. Lenda þeir enda mun oftar í þeirri aðstöðu að sæta ofbeldi eða hótunum um ofbeldi en aðrir opinberir starfsmenn. Ef brot skv. 106. gr. hegningarlaga beinist að opinberum starfsmönnum, sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar, þá verður heimilt samkvæmt ákvæðum frumvarpsins að ákvarða strangari refsingu en þegar brot beinist að öðrum opinberum starfsmönnum sem standa eðli máls samkvæmt ekki frammi fyrir því í skyldustörfum sínum að þurfa að bregðast við aðsteðjandi hættu í þágu almannahagsmuna.
    Nánar tiltekið er lagt til í a-lið 1. gr. frumvarpsins að refsihámark 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga verði hækkað úr allt að sex ára fangelsi í allt að átta ára fangelsi þegar um er að ræða brot gegn opinberum starfsmanni sem hefur að lögum heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Með þessari hækkun á hámarki fangelsisrefsingar er fyrst og fremst leitast við að gera dómstólum kleift að ákveða þyngri refsingar vegna brota gegn þeim opinberu starfsmönnum sem falla undir frumvarpsgreinina. Er þess vænst að hækkun á refsihámarki ákvæðisins hafi aukin varnaðaráhrif og greiði fyrir störfum þessara opinberu starfsmanna.
    Jafnframt er lagt til með b-lið 1. gr. frumvarpsins að viðhaldið sé refsihámarki 2. mgr. 106. gr. þegar um er að ræða brot gegn handhafa lögregluvalds eða tollgæsluvalds, þ.e. að þá verði heimilt að dæma sektir eða fangelsi allt að 2 árum. Þegar um aðra opinbera starfsmenn er að ræða er gert ráð fyrir að brot gegn 2. mgr. 106. gr. varði sektum eða fangelsi allt að einu ári.
    Þá er með c-lið 1. gr. frumvarpsins mælt fyrir um sérgreinda ítrekunarheimild vegna brota sem falla undir 106. gr. hegningarlaga, en nánar er fjallað um þessa tillögu í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins.
    Breytingar þær sem mælt er fyrir um í d-lið 1. gr. og 2. gr. frumvarpsins eru nauðsynlegar vegna þeirra breytinga sem að framan eru nefndar.
    Nú verður stuttlega fjallað um þá opinberu starfsmenn sem breytingar þær sem frumvarpið gerir ráð fyrir beinast að.
    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, fara ríkislögreglustjóri, vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar, varalögreglustjórinn í Reykjavík, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, löglærðir fulltrúar lögreglustjóra og lögreglumenn með lögregluvald. Það athugast að með 4. gr. laga nr. 46/2006, sem tekur gildi 1. janúar 2007, kemur í stað orðsins „vararíkislögreglustjóri“ í 1. mgr. 9. gr. laganna „aðstoðarríkislögreglustjórar“, og í stað orðanna „varalögreglustjórinn í Reykjavík“ í sömu málsgrein „aðstoðarlögreglustjórar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum“.
    Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögreglulögum er vikið að því hvað felst í lögregluvaldi, en þar segir:
    „Fræðilega er lögregluvald ein tegund opinbers valds sem stjórnvöld fara með. Nánar telst lögregluvald til réttarvörsluvalds eins og fullnustuvald sýslumanna, enda felst í hvoru tveggja valdbeitingarheimild ef þörf krefur. Með „lögregluvaldi“ er nánar átt við vald sem lögreglunni einni er falið til að gefa fyrirskipanir og til að grípa til aðgerða gagnvart þegnunum, með valdbeitingu ef nauðsynlegt er. Slíkt vald hafa aðeins þeir starfsmenn lögreglu sem beinlínis hafa það hlutverk að halda uppi lögum og reglu í samfélaginu frá degi til dags og þeir sem eru í stöðum æðstu yfirmanna, sbr. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins.“
    Samkvæmt þessu hafa lögreglumenn og aðrir handhafar lögregluvalds að lögum heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 52/2006, um Landhelgisgæslu Íslands, að eftirtaldir starfsmenn Landhelgisgæslunnar fari með lögregluvald þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu samkvæmt lögunum í efnahagslögsögu Íslands: forstjóri og löglærðir fulltrúar hans, áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands, sprengjusérfræðingar og yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga. Einnig er kveðið á um það í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að ákvörðun dómara um að víkja manni úr þinghaldi megi framfylgja með lögregluvaldi ef með þarf. Samsvarandi heimild er að finna í 9. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Þá er vakin athygli á því að ákvæði um meðferð lögregluvalds er einnig að finna í 6. gr. laga nr. 32/1965, um hreppstjóra, og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.
    Í 147. gr. tollalaga, nr. 88/2005, eru tilgreindir þeir opinberu starfsmenn sem fara með tollgæsluvald. Í tollgæsluvaldi felst heimild til þess að beita úrræðum samkvæmt XXI. kafla tollalaga til þess að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem tollstjórar bera ábyrgð á að framfylgja, sbr. 146. gr. Í fyrri málslið 1. mgr. 151. gr. tollalaga er kveðið á um að handhöfum tollgæsluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna, og í 2. mgr. sömu greinar segir að þeim sé heimilt, ef brýna nauðsyn ber til, að nota handjárn og gasvopn við skyldustörf.
    Þá skal getið að skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, er starfsmönnum fangelsa heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna ef það telst nauðsynlegt til: 1. að koma í veg fyrir strok, 2. að verjast yfirvofandi árás, yfirbuga grófa mótspyrnu, að hindra að fangi skaði sjálfan sig eða aðra og til að koma í veg fyrir skemmdarverk, 3. að framkvæma fyrirskipaðar aðgerðir sem þörf er á að framkvæma þegar í stað og fangi hafnar eða lætur ógert að fylgja fyrirmælum um. Skv. 2. mgr. sömu greinar getur valdbeiting falist í líkamlegum tökum eða beitingu viðeigandi varnartækja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með a-lið greinarinnar er lagt til að refsihámark 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga verði hækkað úr allt að sex ára fangelsi í allt að átta ára fangelsi þegar um er að ræða brot gegn opinberum starfsmanni sem „að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar“. Þessi framsetning hefur tvíþættan tilgang: Í fyrsta lagi miðar hún að því að láta alla þá opinberu starfsmenn, sem á hverjum tíma gegna skyldustörfum á grundvelli slíkra valdheimilda, njóta þeirrar auknu refsiverndar sem lagabreytingin stefnir að. Í öðru lagi er með þessari framsetningu komið í veg fyrir að breyta þurfi ákvæðinu taki löggjafinn þá ákvörðun að gera breytingar á gildandi lagareglum um slíkar valdheimildir einstakra hópa opinberra starfsmanna. Við beitingu ákvæðisins í þessari mynd verður hverju sinni að staðreyna hvort sá opinberi starfsmaður, sem brot hefur beinst gegn, hafi haft að lögum heimild til líkamlegrar valdbeitingar enda hafi brot verið framið þegar hann var að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, eða á sama hátt hafi verið leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn. Hér að framan er að finna almennt yfirlit yfir gildandi lagaheimildir í þessum efnum.
    Gert er ráð fyrir að hámarkstími fangelsis vegna sambærilegra brota gegn öðrum opinberum starfsmönnum verði óbreytt, þ.e. sex ára fangelsi. Þá mun heimildin til að beita sektum „ef brot er smáfellt“ í síðari málslið 1. mgr. 106. gr. hegningarlaga, sem verður 3. málsl., eiga við hvort sem brot beinist gegn þeim opinberu starfsmönnum sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar eða öðrum opinberum starfsmönnum.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að hámarkstími fangelsisrefsingar skv. 2. mgr. 106. gr. laganna verði óbreyttur þegar um er að ræða brot gegn handhafa lögregluvalds og tollgæsluvalds, þ.e. allt að tveggja ára fangelsi, en allt að eins árs fangelsi þegar um er að ræða brot gegn öðrum opinberum starfsmanni. Í báðum tilvikum verður sem fyrr heimilt að dæma sektir. Í ljósi eðlis þeirra verkefna sem handhafar lögregluvalds og tollgæsluvalds hafa með höndum er talið rétt að einskorða heimildina til að ákvarða fangelsi í allt að tvö ár við brot skv. 2. mgr. 106. gr. sem beinast gegn þeim. Sem dæmi um brot sem falla undir 2. mgr. 106. gr. má nefna það ef einstaklingur reynir að sporna við handtöku án þess að grípa til ofbeldis eða hlýðir ekki fyrirmælum lögreglumanns eða tollvarðar. Þess má jafnframt geta að í 19. og 21. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er að finna ákvæði sem taka til brota af þessu tagi þegar um lögreglu er að ræða. Er þar mælt fyrir um skyldu almennings til að hlýða fyrirmælum lögreglu og lagt bann við því að tálma lögreglu í störfum sínum. Varða brot gegn þessum ákvæðum sektum „nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum“, sbr. 41. gr. lögreglulaga.
    Með c-lið greinarinnar er lagt til að lögfest verði sérgreind ítrekunarheimild sem kveður á um að heimilt sé að hækka refsingu allt að helmingi hafi sá sem dæmdur er sekur um brot á 106. gr. hegningarlaga áður sætt refsingu samkvæmt greininni eða honum hefur verið refsað fyrir brot sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi. Er með því skýrt kveðið á um ítrekunaráhrif brota af þessu tagi þannig að fullnægt sé almennum ákvæðum 71. gr. hegningarlaga, en til þessa hefur verið óljóst hvort ítrekunarheimild 1. mgr. 218. gr. b sömu laga dugi þar til.
    Með d-lið greinarinnar er lagt til að þeir menn sem dómari eða yfirvald kveður sér til aðstoðar við rekstur opinbers starfs njóti sömu refsiverndar og þeir opinberu starfsmenn sem ekki hafa heimild að lögum til líkamlegrar valdbeitingar. Þessir aðilar hafa ekki heimild til líkamlegrar valdbeitingar og eiga þau sérstöku sjónarmið sem gilda um þá opinberu starfsmenn sem hafa slíka heimild, og vikið er að hér að framan, því ekki við um þá.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að heimil refsing samkvæmt síðari málslið 107. gr., þar sem mælt er fyrir um aðra þátttakendur í upphlaupinu sem hafa haft ofríki í frammi eða ekki hlýðnast skipun yfirvalds, verði allt að sex ára fangelsi eða sektir ef brot er smáfellt, en samkvæmt núgildandi ákvæði skal refsað eftir því sem í 106. gr. segir. Er þessi breyting á 107. gr. nauðsynleg vegna ákvæðis 1. gr. frumvarpsins um breytingu á 106. gr.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Íslensk dómaframkvæmd.

    Hér á eftir fara reifanir á helstu dómum á árunum 2003–2006 þar sem einstaklingar hafa verið sakfelldir fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga. Aðeins eru teknir fyrir dómar þar sem dæmt er fyrir brot gegn ákvæðinu eða önnur brot eru smávægileg og ekki líkleg til að hafa mikil áhrif til refsiþyngingar. Í reifunum er gerð grein fyrir verknaðarlýsingu, afleiðingum árásar, sakaferli dómþola og dæmdum viðurlögum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa skallað lögreglumann, sem var við skyldustörf, í andlitið með þeim afleiðingum að gleraugu hans brotnuðu, auk þess sem hann hlaut vægan roða á augnslímhúð og bólgu og roða á húð yfir kinnbeini. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að bíta annan lögreglumann í handlegginn með þeim afleiðingum að hann hlaut tvö nokkuð djúp sár og mar. Tekið var fram að A hefði ekki áður verið dæmdur til refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 90 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sparkað í höfuð lögreglumanns, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðgúl og grunnt sár undir hægri augabrún. Tekið var fram að A hefði ekki áður verið dæmdur til refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa skallað lögreglumann, sem var við skyldustörf, í andlitið með þeim afleiðingum að hann bólgnaði og marðist á augabrún og kinnbeini, auk þess sem hann hlaut tímabundnar sjóntruflanir og verk í auga. Með brotinu rauf A skilorð fyrri dóms þar sem ákvörðun um refsingu hafði verið frestað skilorðsbundið. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að lögreglumanni, sem var við skyldustörf, og slegið hann hnefahöggi með þeim afleiðingum að hann hlaut yfirborðsáverka á kinnbeini. Tekið var fram að ákvörðun um refsingu A vegna gripdeildar hafði verið frestað skilorðsbundið ári áður. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið í 1 ár.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 19. maí 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist á lögreglumann, sem var við skyldustörf, tekið hann kverkataki og hert að þannig að honum lá við köfnun. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að lögreglumaðurinn fékk höfuðverk, kenndi stirðleika og eymsla í hálsi, hlaut húðblæðingar aftan á hálsi og blæðingu inn á auga. Tekið var fram að A ætti langan sakaferil að baki, en honum hafði áður verið gerð refsing í 9 skipti. Dæmdur til að sæta fangelsi í 3 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni og vopnalögum með því að hafa beint ólöglegum fjaðrahnífi á ógnandi hátt að tveimur lögreglumönnum sem voru við skyldustörf. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 1 mánuð, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist á lögreglumann, sem var við skyldustörf, skallað í andlit hans og sparkað með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og yfirborðsáverka á hné, fótlegg og umhverfis munn. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 1 mánuð, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 1 ár.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 18. september 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið í fingur lögreglumanns, sem var við skyldustörf, svo af hlaust bólga. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa slegið til annars lögreglumanns með krepptum hnefa og handjárnum sem læst voru um annan úlnlið hans. Tekið var fram að A ætti talsverðan sakaferil að baki. Dæmdur til að sæta fangelsi í 2 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 3 ár. B var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa skallað lögreglumann í andlitið með þeim afleiðingum að efri vör hans sprakk og sár kom á hana innanverða. Tekið var fram að B ætti talsverðan sakaferil að baki. Með dóminum var 3 mánaða fangelsisrefsing samkvæmt fyrri dómi dæmd upp. Dæmdur til að sæta fangelsi í 4 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. nóvember 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið í hönd lögreglumanns, sem var að sinna skyldustörfum, með þeim afleiðingum að hann marðist á lófa og handarbaksmegin. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til greiðslu 70.000 króna sektar og vararefsing ákveðin fangelsi í 16 daga.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. nóvember 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veitt lögreglumanni, sem var við skyldustörf, högg í andlitið með þeim afleiðingum að hann bólgnaði yfir augabrún og marðist um bæði augu. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2003.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið lögreglumann sem var að sinna skyldustörfum. Ekki var vikið að sakaferli A í dóminum. Dæmdur til greiðslu 50.000 króna sektar og vararefsing ákveðin fangelsi í 12 daga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2004.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist að lögreglumanni, sem var við skyldustörf, tekið hann kverkataki, hrint honum, slegið hann hnefahögg í andlitið, klipið hann og klórað, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á neðri vör, sár á munnviki, mar og klórför við handarkrika og mar á herðablaði, olnboga og úlnlið. Tekið var fram að A hefði ekki áður sætt refsingu. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2004.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa skallað lögreglumann, sem var við skyldustörf, í höfuðið með þeim afleiðingum að hann bólgnaði aftan við eyra. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. maí 2004.
    A var sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var við skyldustörf, ítrekað í höfuð og búk, sparkað í sköflung hans og klórað í andlit, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut sár á efri vör, fjóra marbletti og skafsár á hægri fótlegg. Tekið var fram að A hefði ekki áður sætt refsingu. Dæmd til að sæta fangelsi í 60 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 10. september 2004.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veitt lögreglumanni, sem var við skyldustörf, högg á vinstri vanga svo af hlutust eymsl og doði. Tekið var fram að A ætti nokkurn sakaferil að baki. Með dóminum var 7 mánaða fangelsisrefsing samkvæmt fyrri dómi dæmd upp. Dæmdur til að sæta fangelsi í 8 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2004.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var við skyldustörf, með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hann marðist í andliti, vör sprakk og fjarlægja þurfti tönn sem losnaði. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var að sinna skyldustörfum, hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann bólgnaði á nefhrygg og hlaut sár á innanverðri vör. Tekið var fram að A ætti engan sakaferil að baki. Dæmdur til að sæta fangelsi í 45 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið nokkrum sinnum til lögreglumanns sem var við skyldustörf. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa hrint öðrum lögreglumanni svo hann féll í götuna, sparkað í andlit hans og slegið ítrekað í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann marðist og bólgnaði á kinnbeini og hlaut rispur á enni, úlnlið, olnboga og hné. Tekið var fram að A ætti talsverðan sakaferil að baki og hefði í sex skipti hlotið refsingu fyrir líkamsárás. Dómur þessi var hegningarauki við 15 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt fyrri dómi. Dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. maí 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið lögreglumann, sem var við skyldustörf, í hnésbótina með þeim afleiðingum að hann hlaut fleiðusár. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir ölvunarakstur. Tekið var fram að A hefði gengist undir sátt vegna fíkniefnalagabrots í september 2003. Dæmdur til að sæta fangelsi í 40 daga, en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Jafnframt dæmdur til að greiða 130.000 króna sekt og sviptur ökurétti í 1 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veitt lögreglumanni, sem var við skyldustörf, hnefahögg aftan á hálsinn þannig að hann féll með þeim afleiðingum að hann marðist, bólgnaði á hálsi og hruflaðist á hné. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa veitt öðrum lögreglumanni hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann marðist og bólgnaði í andliti. Tekið var fram að A hefði ekki áður sætt refsingu. Dæmdur til að sæta fangelsi í 4 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist að heilsugæslulækni, sem var að sinna skyldustörfum, tekið hana kverkataki og gripið í öxl hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut roða og skrámur á bringu, hálsi og öxl. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir ölvunarakstur. Með brotunum rauf A skilyrði reynslulausnar á 240 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt fyrri dómi. Dæmdur til að sæta fangelsi í 9 mánuði og sviptur ökurétti í 2 ár.

Viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumanni, sem var að sinna skyldustörfum, með því að lyfta dúkahnífsblaði ógnandi í átt að honum líkt og hann ætlaði að leggja til hans. Málinu var lokið með viðurlagaákvörðun og A gert að greiða 50.000 króna sekt, en vararefsing ákveðin fangelsi í 4 daga.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. október 2005.
    A og B voru sakfelldir fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að stefnuvotti, sem var við skyldustörf, með þeim hætti að A tók hann hálstaki, keyrði hann niður og dró hann ásamt B inn í hús. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 60 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 1 ár. Dæma bar B hegningarauka við tvo sektardóma fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 1 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2005.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sparkað í síðu lögreglumanns, sem var að sinna skyldustörfum, með þeim afleiðingum að hann tognaði í millirifjavöðvum og hlaut hugsanlega sprungu eða brot á rifi. Tekið var fram að A væri ungur að árum og hefði ekki áður sætt refsingu. Ákvörðun refsingar var frestað skilborðsbundið í 1 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2005.
    A var sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað fyrrum starfsmanni félagsmálayfirvalda, starfsmönnum barnaverndar og yfirfélagsráðgjafa lífláti. Hún var jafnframt sakfelld fyrir að hafa hótað félagsmálastjóra lífláti, að ræna börnum hennar og kveikja í heimili hennar. Þar að auki var A sakfelld fyrir brot gegn 120. gr. a almennra hegningarlaga. Tekið var fram að A hefði hlotið fangelsisdóma í september 2001 og maí 2002. Dæmd til að sæta fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 3 ár.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað að lífláta lögreglumann, sem var við skyldustörf, og börn hans. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir hótanir, vörslur fíkniefna og ölvunarakstur. Með brotinu rauf A skilorð fyrri dóms þar sem refsing hafði verið ákveðin fangelsi í 45 daga. Dæmdur til að sæta fangelsi í 4 mánuði. Með dómi Hæstaréttar 14. september 2006 var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 17. febrúar 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hrækt á lögregluvarðstjóra sem var við skyldustörf. Tekið var fram að A hefði gengist undir greiðslu sektar vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni og vegna minni háttar eignarspjalla rúmlega þremur árum áður. Dæmdur til greiðslu 30.000 króna sektar og vararefsing ákveðin fangelsi í 4 daga.

Viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 15. mars 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa klórað tvo lögreglumenn, sem voru að sinna skyldustörfum, með þeim afleiðingum að annar þeirra hlaut fleiður á kinn og hinn skurð á gagnauga og rispur á upphandlegg. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna. Málinu var lokið með viðurlagaákvörðun og A gert að greiða 125.000 króna sekt, en vararefsing ákveðin fangelsi í 10 daga. Honum var jafnframt gert að sæta upptöku á fíkniefnum.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 24. mars 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið lögreglumann, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hann hlaut fleiður á handarbaki sem úr blæddi. A var smitaður af lifrarbólgu C og lét í veðri vaka að hann væri einnig smitaður af HIV-veirunni, en sú var ekki raunin. Dómur þessi var hegningarauki við fyrri dóm og rauf A jafnframt skilorð reynslulausnar á 160 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 7 mánuði, en vegna dráttar málsins var fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 3 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var við skyldustörf, hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og yfirborðsáverka. Ekki var vikið að sakaferli A í dóminum. Dæmdur til greiðslu 75.000 króna sektar og vararefsing ákveðin fangelsi í 6 daga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að sýslumanni, sem var við skyldustörf í Héraðsdómi Suðurlands, er hann stöðvaði för hans með því að þrífa í öxl hans og brá fyrir hann fæti svo hann hrasaði við. Tekið var fram að A hefði með brotinu í annað skipti rofið skilorð og í þriðja sinn verið fundinn sekur um ofbeldisbrot á rúmlega þriggja ára tímabili. Með dóminum var 3 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing samkvæmt fyrri dómi dæmd upp. Dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ekið bifreið á lögreglumann og slegið hann í kviðinn. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir umferðarlagabrot. Tekið var fram að A hefði gengist undir sátt á árinu 1997 fyrir fíkniefnalagabrot og árið 1998 verið dæmdur fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 4 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 3 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist að lögreglumanni, sem var að sinna skyldustörfum, tekið hann hálstaki, snúið hann niður og haldið honum föstum um stund. Marðist lögreglumaðurinn á öxl, upphandlegg, olnboga og framhandlegg og tognaði á hálsi, auk þess sem einkennisskyrta hans rifnaði. Tekið var fram að A hefði verið veitt ákærufrestun árið 2001 vegna þjófnaðar, en að hann hefði ekki sætt refsingu áður. Dæmdur til að sæta fangelsi í 2 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. maí 2006.
    A var sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið til og sparkað í fótlegg lögreglumanns, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hann hlaut marblett og húðrof á vinstra læri. Hún var jafnframt sakfelld fyrir umferðarlagabrot. Tekið var fram að A hefði verið dæmd í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi arið 2000 og ári síðar verið dæmd til greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot. Dæmd til að sæta fangelsi í 2 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Jafnframt dæmd til greiðslu 50.000 króna sektar.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumönnum, sem voru að sinna skyldustörfum, og fjölskyldum þeirra ofbeldi og lífláti. Dómur þessi var hegningarauki við fyrri dóma, en með brotinu rauf hann jafnframt skilorð tveggja dóma og voru refsingar samkvæmt þeim dæmdar upp. Dæmdur til að sæta fangelsi í 5 mánuði, en fullnustu 3 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í 3 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist að lögreglumanni, sem var við skyldustörf, og slegið hann ítrekað með krepptum hnefum. Tekið var fram að sakaferill A hefði ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði, en fullnustu 3 mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sparkað í tvo lögreglumenn, sem voru við skyldustörf, með þeim afleiðingum að þeir hlutu báðir mar og yfirborðsáverka á fótlegg. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir eignaspjöll með því að hafa sparkað í lögreglubifreið með þeim afleiðingum að afturljós brotnaði. Dómur þessi var hegningarauki við fyrri dóm vegna umferðarlagabrots. Dæmdur til að sæta fangelsi í 1 mánuð, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. júní 2006.
    A var sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist að félagsmálastjóra, sem var að gegna skyldustörfum, og slegið hana í höfuðið með öskubakka með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð í hársvörð. Tekið var fram að A hefði ekki áður sætt refsingu. Dæmd til að sæta fangelsi í 1 mánuð, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 19. júní 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglumanni lífláti og öðrum lögreglumanni lífláti, líkamsmeiðingum og því að lífláta föður hans þegar verið var að færa hann á lögreglustöð og á meðan hann var í fangageymslu. Tekið var fram að A hefði ekki áður sætt refsingu. Dæmdur til að sæta fangelsi í 1 mánuð, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa bitið lögreglumann, sem var að sinna skyldustörfum, í höndina þannig að hann hlaut fleiður á handarjarkann. Tekið var fram að A hefði tvívegis hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot. Dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sparkað í andlit lögreglumanns, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að brot kom í tvær tennur og fylling brotnaði í annarri tönninni. Tekið var fram að A hefði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Dæmdur til að sæta fangelsi í 3 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 8. september 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað þremur lögreglumönnum, sem voru að sinna skyldustörfum, að taka þá, fjölskyldur þeirra og börn af lífi. Tekið var fram að A hefði sætt sektarrefsingu fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga með viðurlagaákvörðun rúmu ári áður. Dæmdur til að sæta fangelsi í 2 mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að dómverði, sem var við skyldustörf í Héraðsdómi Reykjavíkur, með því að sparka í fótlegg hans svo hann féll með þeim afleiðingum að hann hlaut tognun og mar á mjöðm. Tekið var fram að A ætti allnokkurn sakaferil að baki, en hefði þó ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Dæmdur til að sæta fangelsi í 3 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að tveimur lögreglumönnum, sem voru við skyldustörf, með því að slá og sparka til þeirra og sparka einu sinni í vinstra læri annarrar þeirra og grípa síðan í hana með þeim afleiðingum að hún meiddist á litla fingri. Tekið var fram að A hefði ekki áður gerst sekur um brot gegn hegningarlögum. Dæmdur til að sæta fangelsi í 1 mánuð, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. október 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að tveimur lögreglumönnum, sem voru við skyldustörf, með því að leitast við að hindra handtöku á pilti og slá til annars lögreglumannsins með þeim afleiðingum að einkennishúfa fór af höfði hans. Með brotinu rauf A skilyrði reynslulausnar á 120 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt fyrri dómi. Dæmdur til greiðslu 120.000 króna sektar, en vararefsing ákveðin fangelsi í 10 daga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að lögreglumanni, sem var við skyldustörf, og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli og þrýstingsóþægindi yfir nefi og út í kinnar. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna og umferðarlagabrot. Tekið var fram að A ætti langan sakaferil að baki. Dæma bar A hegningarauka og var talið að þau brot sem hann var nú sakfelldur fyrir hefðu ekki haft áhrif á ákvörðun refsingar í fyrri dómum. Var honum því ekki gerð sérstök refsing.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að lögreglumanni, sem var við skyldustörf ásamt öðrum lögreglumanni, rifið í jakka hans og reynt að ryðjast inn í hús sem lögreglan hafði lokað og þannig stofnað til átaka við lögreglumennina. Tekið var fram að A hefði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Dæmdur til að greiðslu 150.000 króna sektar og vararefsing ákveðin fangelsi í 12 daga.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa skallað lögregluvarðstjóra, sem var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hann hlaut yfirborðsáverka á andliti og snert af heilahristing. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hóta þremur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra ofbeldi og lífláti. A rauf með brotinu skilorð reynslulausnar á 200 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt fyrri dómi. Dæmdur til að sæta fangelsi í 11 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. nóvember 2006.
    A var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist að lögreglumanni, sem var við skyldustörf, tekið hann hálstaki og slegið hann með krepptum hnefa á munninn með þeim afleiðingum að hann hlaut tognunaráverka á hálsi og kjálka og nokkuð djúpan skurð þvert í gegnum vörina. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna. Tekið var fram að A hefði sjö sinnum verið gerð refsing fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Dómur þessi var hegningarauki við fyrri dóm þar sem A hafði verið dæmdur til greiðslu sektar. Með brotunum rauf A jafnframt skilorð fyrri dóms og var 7 mánaða fangelsisrefsing samkvæmt honum dæmd upp. Dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum,
nr. 19/1940, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að skerpa á og auka þá refsivernd sem opinberum starfsmönnum, sem hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar, er veitt í refsilögum.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.