Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 668, 133. löggjafarþing 296. mál: upplýsingalög (endurnot opinberra upplýsinga, EES-reglur).
Lög nr. 161 15. desember 2006.

Lög um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996.


1. gr.

     1. mgr. 3. gr. laganna hljóðar svo:
     Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.

2. gr.

     1. mgr. 10. gr. laganna hljóðar svo:
     Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.

3. gr.

     Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og hljóðar svo:
     Þegar veittur er aðgangur að gögnum, sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt höfundalögum, skal veita upplýsingar um nafn rétthafa, liggi þær fyrir.

4. gr.

     12. gr. laganna hljóðar svo:
Ljósrit eða afrit af gögnum.
     Stjórnvöld taka ákvörðun um hvort gögn, sem heimilt er að veita aðgang að, skuli sýnd eða veitt af þeim ljósrit eða afrit.
     Eftir því sem við verður komið er stjórnvöldum þó skylt, sé þess óskað, að láta í té ljósrit eða afrit af gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum, sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi á rafrænu formi. Þegar skjöl eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili krafist þess að fá þau prentuð á pappír, nema 3. mgr. eigi við.
     Þegar fjöldi skjala er mikill getur stjórnvald ákveðið að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Hið sama á við hafi stjórnvald ekki aðstöðu til að ljósrita skjöl. Aðili skal þá greiða þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna. Hið sama gildir um afrit af öðrum gögnum en skjölum eftir því sem við á.
     Forsætisráðherra ákveður með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir ljósrit og afrit gagna sem veitt eru samkvæmt lögum þessum. Heimilt er að mæta öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.

5. gr.

     Við lögin bætist nýr kafli er verður VIII. kafli, Um endurnot opinberra upplýsinga, með fimm nýjum greinum, 24.–28. gr., svohljóðandi:
     
     a. (24. gr.)
Markmið og gildissvið.
     Markmið þessa kafla er að auka endurnot opinberra upplýsinga til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Jafnframt eru lögleiddar samræmdar lágmarksreglur um endurnot opinberra upplýsinga, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 um að fella inn í IX. viðauka við EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
     Endurnot opinberra upplýsinga vísar til þess að einkaaðili noti slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en ætlunin var þegar þeirra var aflað af hálfu stjórnvalda. Miðlun upplýsinga á milli stjórnvalda í þágu starfa þeirra telst ekki til endurnota á upplýsingum í þessum skilningi.
     Ákvæði kaflans gilda einvörðungu um endurnot á fyrirliggjandi upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda og almenningur á rétt til aðgangs að á grundvelli 3. gr. laga þessara eða annarra ákvæða laga sem veita almenningi slíkan rétt.
     Ákvæði þessa kafla gilda ekki um:
 1. Upplýsingar sem teknar eru saman af stjórnvöldum í viðskiptalegum tilgangi.
 2. Gögn, skrár og upplýsingar úr gagnagrunnum sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt höfundalögum. Ákvæði kaflans gilda hins vegar eigi ríki, sveitarfélög eða stofnanir þeirra í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. ein slík réttindi yfir upplýsingum, enda falli það stjórnvald sem fer með fyrirsvar réttindanna ekki undir 3. mgr. 25. gr.

     
     b. (25. gr.)
Skilgreining á opinberum aðilum sem falla undir ákvæði þessa kafla.
     Ákvæði þessa kafla taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.
     Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
 1. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af rekstrarkostnaði. Tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun.
 2. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
 3. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ákvæði þessa kafla þó ekki um:
 1. Ríkisútvarpið.
 2. Skóla, bóka- og skjalasöfn eða rannsóknastofnanir.
 3. Menningarstofnanir.

     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. getur hlutaðeigandi ráðherra mælt svo fyrir í reglugerð að starfsemi stjórnvalds, sem undir hann heyrir og ákvæðið tekur til, falli engu að síður undir ákvæði þessa kafla í heild eða að hluta.
     
     c. (26. gr.)
Almennir skilmálar fyrir endurnotum opinberra upplýsinga.
     Heimilt er að endurnota opinberar upplýsingar sem eru almenningi aðgengilegar lögum samkvæmt, enda séu eftirfarandi skilyrði ávallt uppfyllt:
 1. Endurnot upplýsinganna mega ekki brjóta í bága við lög, þ.m.t. ákvæði almennra hegningarlaga, höfundalaga og laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eða réttindi þriðja manns.
 2. Geta skal uppruna upplýsinganna.
 3. Skýrt skal koma fram hver ber ábyrgð á vinnslu upplýsinganna þegar þær eru gerðar öðrum aðgengilegar.

     
     d. (27. gr.)
Endurnot upplýsinga úr opinberum skrám.
     Þegar veittur er aðgangur að upplýsingum úr opinberum skrám skv. 3. mgr. 3. gr. eða ákvæðum sérlaga er stjórnvaldi heimilt að áskilja að endurnot upplýsinganna séu leyfisskyld og uppfylli sérstök skilyrði, svo sem um gæði upplýsinga, uppfærslu þeirra o.fl. Gæta skal samræmis og jafnréttis við útfærslu slíkra skilyrða og mega þau ekki takmarka möguleika á endurnotum upplýsinganna eða samkeppni óhóflega.
     Stjórnvöld skulu birta á heimasíðu sinni lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og þau skilyrði sem slík endurnot eru bundin.
     Umsókn um leyfi fyrir endurnotum á upplýsingum úr opinberum skrám skal beint til þess stjórnvalds sem lögum samkvæmt ber ábyrgð á færslu og vinnslu upplýsinganna í hlutaðeigandi skrá.
     Stjórnvald skal afgreiða umsókn um leyfi til endurnota á upplýsingum úr opinberum skrám svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan 20 daga frá því umsókn barst skal skýra frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
     Synji stjórnvald að veita leyfi fyrir endurnotum á upplýsingum á grundvelli 2. tölul. 4. mgr. 24. gr. skal tilgreina nafn rétthafa eða umboðsmanns hans.
     Heimilt er að taka gjald fyrir að veita aðgang að upplýsingum úr opinberum skrám á grundvelli 3. og 4. mgr. 12. gr. Skal hlutaðeigandi stjórnvald setja sér gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda auk þess sem hún skal vera aðgengileg á heimasíðu stjórnvaldsins.
     Ekki þarf að greiða fyrir endurnot á upplýsingum, sem falla undir ákvæði þessa kafla og eru háðar höfundarétti ríkis og sveitarfélaga, umfram það sem segir í 6. mgr., nema lög mæli sérstaklega svo fyrir.
     Tilgreina skal nafn rétthafa þegar stjórnvöld gera upplýsingar almenningi aðgengilegar á netinu á grundvelli samnings við þriðja mann sem á lögvarin réttindi yfir þeim samkvæmt höfundalögum.
     
     e. (28. gr.)
Bann við samningum um sérleyfi.
     Stjórnvöld mega ekki gera samninga um sérleyfi um endurnot opinberra upplýsinga sem ákvæði þessa kafla taka til, sbr. þó 2. mgr.
     Ef ætla má að opinberar upplýsingar verði ekki endurnotaðar í þágu almannahagsmuna nema á grundvelli sérleyfis er heimilt að gera slíkan samning enda komi fram í honum rökstuðningur fyrir því. Endurmeta ber rök fyrir sérleyfissamningnum reglubundið og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

6. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
     Sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 28. gr. skulu renna út eigi síðar en 31. desember 2008.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2006.