Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 474. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 718  —  474. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir gegn fátækt.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Helgi Hjörvar,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir,
Kristján Möller, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að sporna við fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins. Í því skyni verði gerð framkvæmdaáætlun til fimm ára sem komi til framkvæmda frá og með 1. janúar 2008. Framkvæmdaáætlunin verði unnin í samráði við Samtök sveitarfélaga og heildarsamtök launafólks.
    Sérstaklega skal höfð hliðsjón af þeim aðgerðum til að vinna bug á fátækt sem lagðar eru til í skýrslu ASÍ, Velferð fyrir alla, frá mars 2003, skýrslu forsætisráðherra um fátækt á Íslandi, 981. mál 130. löggjafarþings, og skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra, 184. mál 133. löggjafarþings.
    Framkvæmdaáætlun ásamt nauðsynlegum lagabreytingum skal leggja fyrir Alþingi á haustþingi 2007.

Greinargerð.


    Á sl. 10 árum hafa þrjár skýrslur um fátækt komið fram á Alþingi. Á 121. löggjafarþingi 1996–1997 lagði þáverandi forsætisráðherra fyrir Alþingi skýrslu um þróun og umfang fátæktar á Íslandi að beiðni þingmanna jafnaðarmanna. Á 130. löggjafarþingi lagði forsætisráðherra aftur fram skýrslu um fátækt, sem unnin var af samráðshópi nokkurra ráðuneyta eftir að á Alþingi hafði ítrekað verið gengið eftir aðgerðum gegn fátækt. Undanfari þeirrar skýrslu var flutningur þingsályktunartillögu frá þingmönnum Samfylkingarinnar um að félagsmálaráðherra yrði falið að láta fara fram úttekt á umfangi, orsökum og afleiðingum fátæktar á Íslandi, félagslegum og fjárhagslegum, með það að markmiði að leggja fram tillögur um úrbætur sem treystu öryggisnet velferðarkerfisins. Skilgreina átti lágmarksframfærslukostnað eftir fjölskyldugerð og gera tillögur til úrbóta sem miðast skyldu við að enginn hefði sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum Loks var á yfirstandandi löggjafarþingi lögð fram skýrsla forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra, að beiðni þingmanna Samfylkingarinnar undir forustu Helga Hjörvars. Þar komu fram athyglisverðar tölur um fátækt barna á Íslandi en áætlað er að á fimmta þúsund íslenskra barna búi við fátækt. Fleiri börn hlutfallslega búa við fátækt á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum, um 7% hér en 2%–3,5% annarra norrænna barna.
    Eins og hér hefur verið lýst hafa þingmenn Samfylkingarinnar ítrekað haft forystu um að spornað verði gegn fátækt með markvissum aðgerðum, en lítið hefur orðið um framkvæmdir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Sú tillaga sem nú er lögð fram er að meginuppistöðu sú sama og tillaga sem lögð var fram á síðasta þingi, en lagt er til að stjórnvöld einbeiti sér strax að aðgerðum sem sporni við fátækt og treysti öryggisnet velferðarkerfisins.
    Í tillögunni er m.a. lagt til að höfð verði hliðsjón af þeim aðgerðum sem lagðar voru til í skýrslu ASÍ, Velferð fyrir alla, frá mars 2003. Sú skýrsla var kynnt rétt fyrir kosningar 2003 og á fjölmennum fundi sem ASÍ boðaði til um málið tóku formenn allra flokka undir að brýnt væri að hrinda tillögunum í framkvæmd. Tillögurnar fylgja hér í fylgiskjali.
    Þrátt fyrir að stór hluti íslensku þjóðarinnar búi við bærileg efni býr alltof stór hluti hennar við sára fátækt. Laun þeirra tekjulægstu, lífeyrir eða atvinnuleysisbætur eru svo lág að þau duga ekki fyrir allra brýnustu nauðþurftum, jafnvel þótt unninn sé fullur vinnudagur og sama hversu mikið er sparað. Raunar er mörgum svo naumt skammtað að hjálparsamtök þurfa að hlaupa undir bagga með fjölda heimila í landinu og flestum er það þungbært að þurfa að leita á náðir slíkra samtaka.
    Skýrsla forsætisráðherra um fátækt sem lögð var fram á 130. löggjafarþingi sýnir að tekjur í lægsta tekjuhópnum hafa hækkað hlutfallslega mun minna en hjá hinum efnameiri. Tekjur þeirra lægst launuðu hækkuðu á tímabilinu 1995–2002 um 17% en á sama tíma var hækkunin 45% meðal hinna tekjuhæstu. Bilið milli ríkra og fátækra fer því sívaxandi í þjóðfélaginu. Á sama tíma eykst skattbyrði láglaunafólks. Í dag greiðir fólk með 110 þús. kr. í mánaðartekjur tæplega 14% skatt en greiddi 2–3% af samsvarandi tekjum árið 1995. Upplýsingar frá ýmsum aðilum, svo sem hjálparstofnunum, stéttarfélögum og félagsþjónustu sveitarfélaga, benda einnig til þess að fátækum hafi fjölgað verulega. Stefán Ólafsson prófessor bendir í þessu sambandi á að á árunum 1995–98 hafi dregið úr fátækt, einkum í kjölfar minnkandi atvinnuleysis. Atvinnuleysi hafi hins vegar aukist aftur og fátækt samfara því, enda séu atvinnuleysisbætur undir fátæktarmörkum. Hann telur auk þess að aðgerðir ríkisstjórnar í lífeyrismálum almannatrygginga, skattamálum og húsnæðismálum hafi stuðlað að frekari fjölgun fátækra. Tölur frá ASÍ benda til þess að hlutfall fátækra skattframteljenda hafi hækkað úr 8,8% árið 1995 í 13,2% árið 2001.
    Í nýjustu neyslukönnun Hagstofunnar sem birt var undir lok árs kom fram að meðalneysluútgjöld einstaklinga á árunum 2003–2005 voru tæpar 193 þús. kr. á mánuði, hjóna með tvö börn tæpar 450 þús. kr. á mánuði og einstæðra foreldra tæpar 314 þúsund kr. á mánuði. Ástæða er til að benda á til samanburðar að lágmarkslaun í dagvinnu á vinnumarkaðnum er um 125 þús. kr. á mánuði og að á árinu 2005 voru um 17 þúsund aldraðir, eða 63% aldraðra, með tekjur undir 140 þús. kr. Af 12 þúsund örorkulífeyrisþegum voru tæplega 8 þúsund, eða 65%, með tekjur undir 140 þús. kr. Af þessum tekjum eru greiddar um 20 þús. kr. í skatt.
    Benda má einnig á rannsókn Hörpu Njálsdóttur félagsfræðings sem rannsakað hefur fátækt í íslensku þjóðfélagi. Þar kemur fram að miðað við lágmarksframfærslu vantar 40 þús. kr. mánaðarlega upp á fullan lífeyri frá Tryggingastofnun til þess að bótaþegar sem ekki hafa aðrar tekjur en bætur frá ríkinu geti framfleytt sér. Mæðrastyrksnefnd hefur upplýst að þeir sem leituðu sér aðstoðar og matargjafa hafi verið 40% fleiri árið 2003 en árið 2001, en þá fengu 1.150 fjölskyldur aðstoð í desembermánuði. Árið 2003 var þessi tala komin upp í 1.700 en auk þess var 1.000 fjölskyldum veitt aðstoð hjá nefndinni í 3.115 skipti á árinu. Árið 2004 fékk Mæðrastyrksnefnd 5.301 heimsókn, að meðaltali 115 á viku og á árinu 2005 fékk nefndin 6.669 heimsóknir eða að meðaltali 158 á viku. Fram hefur komið hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík að á árinu 2005 þurfti að auka fé til fjárhagsaðstoðar um 150 millj. kr. og að fjárhagsaðstoðin jókst um 43,4% milli áranna 2001 og 2002. Alls var 594 millj. kr. veitt í fjárhagsaðstoð á vegum félagsþjónustunnar árið 2001, árið 2002 var fjárhæðin komin upp í rúmar 853 millj. kr., 995 millj. kr. 2003 og áætlun fyrir árið 2004 hljóðaði upp á 993 millj. kr. Milli áranna 2001 og 2003 jókst aðstoðin því um 67,6%. Heimilum sem þegið hafa aðstoð hefur fjölgað úr 2.625 árið 2001 í 3.300 árið 2003. Ef skoðaður er norrænn samanburður á fátækt kemur fram að þeir sem búa við fátækt eru hlutfallslega flestir á Íslandi. Mæling 1997–98 sýndi að um 6,8% búa við fátæktarmörk á Íslandi, í Danmörku eru það 5,3%, í Finnlandi 4,1%, í Noregi 3,5% og í Svíþjóð 4,9%. Skýringin á vaxandi fátækt er m.a. sú að jöfnunarmarkmið velferðarkerfisins hafa vikið, kerfið er fullt af fátæktargildrum og mikil tekjutenging hefur breytt kerfinu nánast í ölmusukerfi.
    Í áðurnefndri rannsókn, sem Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur stóð fyrir, er til að skýra og mæla fátækt notað lágmarksframfærsluviðmið sem byggist á opinberum skilgreiningum, þ.e. lágmarkstekjum sem hið opinbera ákvarðar lífeyrisþegum og skilgreindum framfærsluþáttum sem hið opinbera telur að séu nauðsynlegir til að komast af. Harpa bendir m.a. á að í leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins frá 1996 komi skýrt fram hvaða þættir séu álitnir nauðsynlegir einstaklingum til að framfleyta sér. Í leiðbeiningunum er gert ráð fyrir að lágmarksfjárþörf fólks miðist við þann lágmarksframfærslukostnað sem ætlaður er einstaklingum eða fjölskyldum til að lifa af. Sömuleiðis er bent á að árið 2001 hafi verið gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar þar sem lágmarksframfærsla var ítrekuð og að hlutverk almannatrygginga væri að vera öryggisnet sem byggðist ekki á skilgreindum réttindum heldur tæki mið af framfærslu.
    Á undanförnum missirum hefur líka komið glöggt fram að vinnandi fólk þarf í auknum mæli að leita sér aðstoðar. Í hópi fátækra eru einkum öryrkjar og aldraðir, einstæðir foreldrar, einstæðingar og barnmargar fátækar fjölskyldur. Það sýnir líka glöggt að öryggisnet velferðarkerfisins er brostið að stöðugt fjölgar í hópi þeirra sem ekki hafa efni á að leita til læknis eða leysa út lyfin sín. M.a. er það orðið áberandi að læknar vísi fólki til sérfræðinga eða í rannsóknir en það skili sér ekki þangað. Svo langt hefur verið gengið að fólki sem hvorki á fyrir lyfjum né mat, t.d. mörgum þeirra sem lifa þurfa af lífeyri almannatrygginga eða sambærilegum tekjum, er gert að greiða skatt til samfélagsins sem samsvarar mánaðarlífeyrisgreiðslum þeirra. Á árinu 2005 greiddu þeir sem eru með tekjur undir 100.000 kr. á mánuði 2 milljarða kr. í skatt.
    Athyglisvert er að í öllum þeim skýrslum sem lagðar hafa verið fram um fátækt er lögð áhersla á að hækka verulega barnabætur. Það er því kaldhæðnislegt að á árunum 1996–2005 hafa barnabætur rýrnað um 1 milljarð kr. á ári að meðaltali eða samtals um 10 milljarða kr. Á árunum 1995–2005 hækkaði neysluvísitalan um 41% á sama tíma og barnabætur hækkuðu um 14% . Einungis 6% hjóna og 8% einstæðra foreldra fá óskertar barnabætur á árinu 2006. Þrátt fyrir hækkun barnabóta á þessu ári, sem verkalýðshreyfingin knúði fram í kjarasamningum, eru barnabætur áfram mjög lágar. Nú byrja barnabæturnar að skerðast við 92 þús. kr. á mánuði hjá einstæðu foreldri og við 185 þús. kr. samanlagðar tekjur hjóna.
    Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að undirbúin verði framkvæmdaáætlun til fimm ára í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök launafólks sem hafi það verkefni að gera tillögur til úrbóta til að sporna gegn fátækt. Ástæða er einnig til að benda á að nauðsynlegt er að leita samráðs við samtök lífeyrisþega, samtök einstæðra foreldra, samtök gegn fátækt og önnur þau félagasamtök sem vel þekkja til stöðu og aðbúnaðar fátækra á Íslandi. Mikilvægt er líka að við þetta verkefni verði höfð til hliðsjónar áfangaskýrsla Alþýðusambands Íslands, Velferð fyrir alla, en þar er að finna áherslu og framtíðarsýn Alþýðusambands Íslands í velferðarmálum. Þar er að finna sérstaka greinargerð vinnuhóps um fátækt og áhersluatriði sem ASÍ telur mikilvægt að víðtæk samstaða verði um til að koma í veg fyrir fátækt á Íslandi.
    Helstu ástæður fátæktar sem ASÍ bendir á eru eftirfarandi:
     1.      Hár húsnæðiskostur og skortur á félagslegu húsnæði.
     2.      Skortur á menntun, m.a. mikið brottfall úr framhaldsskólum. Auk þess er bent á mikinn skólakostnað.
     3.      Hátt verðlag á nauðsynjavörum, svo og lyfjum og heilbrigðisþjónustu.
     4.      Uppsafnaðan fjárhagsvanda, sem leiðir til þess að margir missa fótanna og lenda í vítahring fátæktar.
     5.      Lágar atvinnuleysisbætur, sérstaklega þeirra sem búa við langtímaatvinnuleysi.
     6.      Félagsleg staða margra einhleypra karla, en þeir eru stærsti hópur þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, eru oft atvinnulausir og skulda margir hverjir meðlög sem eru meiri en þeir ráða við að greiða.
     7.      Lágar bætur og miklar tekjutengingar valda því að þeir sem að öllu eða mestu leyti þurfa að treysta á bætur sér til framfærslu, búa við mjög kröpp kjör. Kaupmáttaraukning bóta hefur verið minni en almennra launa á liðnum árum. Hluti af þeim kaupmáttarauka hefur farið í greiðslu á tekjuskatti þar sem skattleysismörk hafa ekki haldið í við hækkun bóta.
    Í skýrslunni eru settar fram leiðir til úrbóta og fylgja þær hér í fylgiskjali.
    Jafnframt er hér lagt til að höfð verði hliðsjón af skýrslu forsætisráðherra um fátækt á Íslandi sem lögð var fram á 130. löggjafarþingi. Í henni er einnig bent á ýmsar leiðir til úrbóta sem rétt er að nefna:
     1.      Barnabætur: Hækkun á skerðingarmörkum gætu komið hluta fátækra til góða en þó ekki þeim sem hafa allra lægstu tekjurnar og því er ef til vill hagstæðara fyrir þann hóp að heildarkerfið verði tekið til endurskoðunar og jafnvel að öðru kerfi verði komið á.
     2.      Laun: Það sé meginhlutverk stjórnvalda að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi kaupmáttaraukningu lægstu launa.
     3.      Atvinnumál: Hægt er að leysa vanda þeirra sem tímabundið glíma við fátækt vegna atvinnuleysis með nægu starfsframboði.
     4.      Leikskólagjöld: Ekki er óeðlilegt að leikskóli yrði gjaldfrjáls þar sem hann er nú talinn fyrsta skólastigið en einnig gæti tekjutenging leikskólagjalda létt undir með fátæku barnafólki.
     5.      Íþrótta- og tómstundastarf barna: Sveitarfélög niðurgreiði þátttöku barna í slíku starfi til að börn frá efnaminni heimilum hafi sömu tækifæri og önnur til að taka þátt í því.
    Á 130. löggjafarþingi var lögð fram þingsályktunartillaga um sama efni. Þá leitaði Alþingi umsagnar ýmissa fagaðila sem hafa með þessi mál að gera, BSRB, Félagsbústaða ehf., Samtaka gegn fátækt, Verslunarráðs Íslands, Alþýðusambands Íslands, Landsambands eldri borgara, Samtaka atvinnulífsins, fjölskylduráðs, Jafnréttisstofu, Félags einstæðra foreldra, Öryrkjabandalags Íslands og félagsmálaráðuneytis. Í langflestum tilfellum voru umsagnir þessara aðila jákvæðar, almennur vilji virðist til að grípa til aðgerða til að sporna við fátækt þótt sumir leggi til aðrar aðferðir og áherslur.
    Von flutningsmanna er að um þessa þingsályktunartillögu geti náðst víðtæk samstaða á Alþingi. Það hlýtur að vera forgangsverkefni í þjóðfélaginu að treysta á nýjan leik öryggisnet velferðarkerfisins þannig að hægt sé að losa fólk úr fjötrum fátæktarinnar sem verður sífellt sýnilegri í þjóðfélaginu.


Fylgiskjal.


Velferð fyrir alla.
Úr skýrslu ASÍ.

(Mars 2003.)



Leiðir til úrbóta.
    Hér verður fjallað um nauðsynlegar aðgerðir til að vinna bug á fátækt. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða, til þess er vandamálið allt of stórt, viðamikið og flókið.

Húsnæðismál.
    Afar brýnt er að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði og ennfremur að tryggja niðurgreiðslu á kostnaði í formi vaxtaniðurgreiðslu, stofnstyrkja og eða með auknum húsaleigubótum þannig að leigukjörin verði viðráðanleg. Þessu til viðbótar er mikilvægt að bæta stöðu þeirra sem eru á almennum leigumarkaði með því að hækka húsaleigubætur og hækka jafnframt tekjuviðmið þeirra sem geta fengið húsaleigubætur.

Menntun.
    Mikilvægt er að fjölga námstilboðum í framhaldsskólum og efla sérstaklega starfstengt nám. Samhliða þarf að vinna slíku námi viðurkenningu á vinnumarkaði. Efla þarf símenntun og starfsendurhæfingu þeirra sem eru á vinnumarkaði. Slíkt verði gert í samvinnu aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Taka þarf upp skólastyrki til framhaldsskólanema úr tekjuminni fjölskyldum til að gera þeim kleift að stunda nám til jafns við aðra. Þetta gætu t.d. verið styrkir til bóka- og tölvukaupa. Æskilegt er að kenna nemendum um fjármál í skólakerfinu og gera þá þannig færari að takast á við eigin fjármál.

Barnafjölskyldur/einstæðir foreldrar.
    Til að koma til móts við barnafólk er nauðsynlegt að barnabætur verði hærri en nú er, ótekjutengdar og nái til barna allt að 18 ára aldri. Til að koma til móts við börn tekjuminni foreldra og til að koma í veg fyrir stéttaskiptingu meðal barna er mikilvægt að sveitarfélög dragi umtalsvert úr gjaldtöku vegna skólagöngu, hvort sem um er að ræða fyrir gæslu yngri barna eftir skóla, aðstoð við heimanám, skólamáltíðir eða tónlistarskóla. Einnig þurfa sveitarfélög að gera börnum kleift að stunda íþróttir og æskulýðsstörf án tilltis til efnahags foreldra. Til að koma til móts við kostnað fjölskyldna í dreifbýli af því að senda börn í framhaldsskóla er mikilvægt að hækka styrki til jöfnunar á námskostnaði (dreifbýlisstyrki) og greiða þá oftar og jafnar út.

Öryrkjar.
    Hækka þarf bætur öryrkja og taka sérstakt tillit til þeirra sem eru á örorkubótum lengi og þá jafnvel alla starfsæfina. Þeir eiga þess lítinn kost að mynda eignir, s.s. eigið húsnæði. Búa þarf þannig um hnútana að kerfi bóta hvetji fólk til sjálfshjálpar og ýti undir þátttöku í atvinnulífinu. Hér þarf sérstaklega að huga að þætti tekjutenginga. Vegna hárra jaðarskerðinga sem tekjutengingar og skattar hafa í för með sér, eiga margir öryrkjar erfitt með að bæta fjárhagsstöðu sína, jafnvel þó að þeir hafi einhverja starfsgetu. Einnig þarf að efla starfsendurhæfingu öryrkja og þannig aðstoða þá betur til að taka þátt í atvinnulífinu.

Eldri borgarar.
    Staða þeirra eldri borgara sem hafa litlar eða engar greiðslur úr lífeyrissjóði eru óviðunandi. Greiðslur af eigin húsnæði fara illa með marga tekjulitla eldri borgara. Lækka þarf álögur hins opinbera á húsnæði eldri borgara og gera þeim þannig kleift að búa sem lengst í eigin íbúð. Þetta á bæði við um fasteignagjöld sveitarfélaga og eignaskatta. Bæta þarf stöðu eldri borgara sem eru í leiguhúsnæði á amentum leigumarkaði. Þetta má t.d. gera með því að veita þeim forgang að félagslegu leiguhúsnæði. Fjölga þarf bæði þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum.

Atvinnulausir.
    Nauðsynlegt er að hækka atvinnuleysisbætur. Atvinnuleysisbætur eru nú um kr. 77.000 á mánuði og hafa ekki haldið í við launaþróun á liðnum árum. Sérstaklega þarf að huga að vanda langtímaatvinnulausra, þ.e. þeirra sem hafa verið án atvinnu lengur en 6 mánuði. Nauðsynlegt er að fjölga námstilboðum fyrir þennan hóp og gera atvinnulausum kleift að stunda nám án þess að missa bæturnar. Einnig þarf að efla starfsendurhæfingu. Brýnt er að auka atvinnuframboð víða í dreifbýli.

Einhleypir karlar.
    Vanda þessa hóps verður að leysa með margvíslegum hætti. Til skemmri tíma má m.a.:
*     Veita húsaleigubætur vegna leigu á herbergjum.
*    Styrkja fjárhagsstöðu þeirra feðra sem eru það illa staddir fjárhagslega að þeir eiga erfitt með að umgangast börn sín með sómasamlegum hætti.
*    Veita þeim feðrum sem eru með sameiginlegt forræði aukna möguleika á félagslegri aðstoð, t.d. í formi leiguhúsnæðis og ráðgjafar.
    Til að taka á málefnum þessa hóps til lengri tíma er æskilegt að myndaður verði þverfaglegur vinnuhópur sem geri úttekt á aðstæðum hópsins og komi með tillögur til úrbóta.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
    Sveitarfélögin byggja fjárhagsaðstoð sína á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Lögin eru almennt orðuð og ekki tryggt að einstaklingar geti sótt svipaðan rétt óháð því hvar þeir búa. Mikilvægt er að samræma og útfæra skyldur sveitarfélaga í lögunum eða setja ákveðnar viðmiðunarreglur. Hækka þarf viðmið sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð en þau eru hjá flestum sveitarfélögum um kr. 70.000 á mánuði fyrir einstakling.
    Einnig þarf að afnema ýmsar íþyngjandi reglur sem sveitarfélög hafa sett varðandi aðstoð. Þetta á sérstaklega við um skilyrði fyrir búsetu í lágmarkstíma í sveitarfélagi áður en einstaklingur getur sótt um félagslegt leiguhúsnæði.

Tillögur um bráðaaðgerðir.
    Starfshópur um fátækt hefur í vinnu sinni fjallað um vísbendingar um umfang fátæktarvandans, ástæður fátæktar og leiðir til úrbóta. Að mati hópsins er eftirfarandi brýnast:
*     Húsnæðismál:
          .      Húsaleiga verði niðurgreidd umfram það sem nú er gert og framboð á félagslegu leiguhúsnæði aukið.
*     Menntun:
          .      Koma þarf sérstaklega til móts við ungt fólk úr tekjuminni fjölskyldum þannig að það geti stundað nám til jafns við aðra.
*     Heilbrigðismál:
          .      Brýnt er að draga úr kostnaði sjúklinga vegna lyfja og heilbrigðisþjónustu.
*     Afkomuvandi:
          .      Barnabætur verði hærri en nú er, ótekjutengdar og nái til barna allt að 18 ára aldri. Sveitarfélögin dragi úr gjaldtöku vegna skólaþjónustu og tómstunda og geri börnum kleift að stunda íþróttir og æskulýðsstörf án tillits til efnahags foreldra.
          .      Lægstu samsettu bætur öryrkja verði a.m.k. kr. 110.000 á mánuði auk barnalífeyris.
          .      Draga þarf úr álögum hins opinbera á húsnæði eldri borgara og gera þeim þannig kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.
          .      Lagt er til að atvinnuleysisbætur verði nú þegar hækkaðar úr kr. 77.452 í kr. 93.000 á mánuði.
          .      Mótuð verði atvinnustefna sem hefur það að markmiði að auka atvinnuframboð í dreifbýli.
          .      Sveitarfélög hækki tekjumarki einstaklinga fyrir fjárhagsaðstoð.