Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 469. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 782  —  469. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla.

     1.      Hvenær má vænta þess að framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla verði kynnt?
    Hinn 15. mars 2003, var samþykkt þingsályktun um framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla. Í ályktuninni kemur fram að skipaður verði starfshópur með fulltrúum sjö ráðuneyta og hagsmunasamtaka fatlaðra til að semja framkvæmdaáætlun sem hefur að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af grunnreglum Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra. Starfshópnum var einnig gert að gera kostnaðaráætlun um verkefnið.
    Starfshópurinn hefur verið að störfum frá því að hann var skipaður í september 2003 og hefur haft starfsmenn sér til aðstoðar. Starfshópurinn hefur haldið um 30 fundi, auk þess sem undirhópar hans hafa haldið tugi funda.
    Við upphaf verkefnisins var ljóst að það yrði umfangsmeira en svo að unnt yrði að ljúka því innan tilgreinds tíma. Það var mat hópsins að vinna þyrfti nákvæma úttekt á stöðu aðgengismála á Íslandi og að til þess þyrfti lengri tíma. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdaáætlunin beri með sér flesta þá verkþætti sem æskilegt er að vinna að til að tryggja aðgengi fyrir alla. Starfshópurinn skipulagði vinnulag sitt þannig að verkefninu yrði skipt í sex verkáfanga.
    Um þessar mundir er unnið að fimmta verkáfanga sem felst í ítarlegri áætlun um framkvæmd og útfærslu verkþátta áætlunarinnar. Þar eru sett fram meginmarkmið, starfsmarkmið og leiðir að þeim. Gagnaöflun er að mestu leyti lokið en í henni tók þátt fjöldi fólks sem best þekkir til þeirra mála sem um er fjallað, á annað hundrað manns. Umtalsverð vinna hefur verið lögð í framsetningu áætlunarinnar í því augnamiði að efni hennar verði sem skýrast og það er fyrst og fremst framhald þeirrar vinna sem nú er eftir.
    Í sjötta áfanganum er gert ráð fyrir að unnin verði drög að kostnaðaráætlun fyrir verkþætti áætlunarinnar.
    Gert er ráð fyrir að drög að framkvæmdaáætluninni liggi fyrir til kynningar á fyrri hluta þessa árs.

     2.      Mun framkvæmdaáætlunin ná til fleiri þátta en ferlimála?

    Grunnreglur Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra taka til 22 grunnviðmiðana. Þessi viðmið flokkast í þrjá meginkafla, þ.e forsendur jafnrar þátttöku, þar sem fjallað er um mikilvægi vitundarvakningar, læknisþjónustu, endurhæfingu og stoðþjónustu. Í öðrum kafla sem ber yfirskriftina áherslur um jafna þátttöku er fjallað um aðgengi, menntun, atvinnu, tekjutryggingar og almannatryggingar, fjölskyldulíf og mannlega reisn, menningu, tómstundir, íþróttir og trúariðkanir. Í þriðja kafla er síðan fjallað um hvernig skuli staðið að framkvæmd við jafna þátttöku. Þar er kveðið á um miðlun upplýsinga og rannsóknarstarf, stefnumótun og áætlanir, löggjöf, þjálfun starfsfólks, eftirlit og mat áætlana fyrir fatlaða á landsvísu, tæknilega og efnahagslega samvinnu og alþjóðlega samvinnu. Því mun þessi framkvæmdaáætlun taka til allra þessara þátta og ná til mun fleiri þátta en ferlimála eins og þau hafa oft verið skilgreind manna á meðal, þ.e. ekki einungis til aðgengis að byggingum o.þ.h.

     3.      Verður lögð áhersla á hönnun fyrir alla?

    Samkvæmt skilningi starfshópsins tekur hugtakið aðgengi fyrir alla á öllum þeim þáttum er snerta aðgengi að samfélaginu.

     4.      Hvenær má vænta lagafrumvarpa og reglugerða sem lúta að aðgengismálum í tengslum við gerð framkvæmdaáætlunarinnar?

    Í lokaskýrslu starfshópsins verður gerð tillaga um breytingar á þeim þáttum er lúta að aðgengi fyrir alla, þar með taldar breytingar á lögum og reglugerðum.
    Jafnframt skal þess getið að í félagsmálaráðuneytinu hefur frá haustinu 2004 verið unnið að nýrri stefnu í málefnum fatlaðra. Er þar um mjög ítarlegt og viðamikið verk að ræða sem ber heitið Mótum framtíð – þjónusta við fötluð börn og fullorðna 2007–2016. Það hefur verið til kynningar sem drög á vefsíðu ráðuneytisins undanfarnar vikur eftir formlega kynningu ráðherra 9. nóvember sl. Á undan er gengið umfangsmikið samráðs- og kynningarferli sem náði til hagsmunasamtaka, notenda, starfsfólks í málaflokknum o.fl. Því verður haldið áfram næstu vikur með beinu sambandi við sveitarfélög, samtök þeirra og aðra hagsmunaaðila sem verða hvattir til þess að setja fram ábendingar um stefnudrögin. Með því móti er stefnt að víðtækri sátt um hina nýju stefnu sem gert er ráð fyrir að verði kynnt í endanlegu formi í mars nk. þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum sem berast. Þegar er hafin vinna á vegum ráðuneytisins við útfærslu stefnumiða, þ.e. að framkvæmdaáætlunum á grundvelli þeirra.
    Umrædd stefnumótun tengist verkefninu um aðgengi fyrir alla með þeim hætti að hún verður eins konar undirskjal þeirrar framkvæmdaáætlunar sem þar verður um að ræðar. Sett eru fram grundvallarsjónarmið, framtíðarsýn og meginmarkmið í málaflokknum sem síðan eru greind niður í starfsmarkmið og leiðir að þeim. Þar verður því að finna skýra stefnu ráðuneytisins hvað varðar þjónustu við þá sem búa við fötlun, jafnframt því sem lögð er áhersla á samábyrgð þjóðlífssviða sem væntanleg framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla byggist í rauninni á. Það felur í sér – eins og það er orðað í hinni nýju stefnu ráðuneytisins – að málefni fatlaðs fólks varða öll svið þjóðlífsins, jafnt menntamál, atvinnumál, fjármál, samgöngumál, dóms- og kirkjumál, húsnæðismál, heilbrigðis- og tryggingamál, umhverfismál o.s.frv. Þar eru hvorki ríki né sveitarfélög eða stofnanir þeirra undanskildar.
    Loks ber að geta stefnu og framkvæmdaáætlunar um átak í búsetu- og stoðþjónustu við geðfatlað fólk á árunum 2006–2010, sem unnar hafa verið á vettvangi ráðuneytisins í náinni samvinnu við heilbrigðisráðuneyti og verða einnig hluti af framkvæmdaáætluninni um aðgengi fyrir alla. Vinna samkvæmt þeirri stefnu og framkvæmdaáætlun hófst árið 2006.
    Því má segja að unnið hafi verið að framkvæmdaáætluninni um aðgengi fyrir alla á fleiri en einum vettvangi undanfarin missiri. Óhætt er að fullyrða að þeirri vinnu hafi miðað vel þegar á heildina er litið. Þar hefur hvert verkefnið stutt annað.