Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 426. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 791  —  426. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um styrki AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mikið af öllum styrkjum AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi fór beint eða óbeint aftur sem greiðslur til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, til að greiða ferðalög stjórnar AVS, sem greiðslur til starfsmanna AVS eða til fyrirtækja sem tengjast stjórnendum AVS? Í svarinu óskast þessar greiðslur sundurliðaðar þau ár sem sjóðurinn hefur starfað.

    Á árinu 2004 var í fyrsta skipti veitt fjárveiting á fjárlögum til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs. Frá byrjun var unnið eftir þeirri reglu að styrkir sjóðsins til rannsóknaverkefna gætu aldrei orðið hærri en 50% af heildarkostnaði verkefnis.

Árið 2004.
    Úthlutað var styrkjum til 44 verkefna að fjárhæð 96.120.000 kr. Framgangur tveggja verkefna breyttist þannig að styrkjum að upphæð 4.200.000 kr. var skilað. Styrkir urðu því 91.920.000 kr.
    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fékk styrki til 14 rannsókna- og þróunarverkefna. Öll verkefnin utan tveggja eru unnin í samvinnu við fyrirtæki í sjávarútvegi, háskóla eða aðrar stofnanir. Styrkupphæð samtals: 24.600.000 kr.

Árið 2005.
    Úthlutað var styrkjum til 61 verkefnis að fjárhæð 197.790.000 kr.
    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fékk styrki til 20 rannsókna- og þróunarverkefna. Öll verkefnin utan sex eru unnin í samvinnu við fyrirtæki í sjávarútvegi, háskóla eða aðrar stofnanir. Styrkupphæð samtals: 70.800.000 kr

Árið 2006.
    Úthlutað var styrkjum til 61 verkefnis að fjárhæð 211.869.000 kr.
    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins fékk styrki til 13 rannsókna- og þróunarverkefna. Öll verkefnin utan sex eru unnin í samvinnu við fyrirtæki í sjávarútvegi, háskóla eða aðrar stofnanir. Styrkupphæð samtals: 50.400.000 kr.

    Auk þess að gera tillögur um styrki AVS-rannsóknasjóðs hefur sjóðsstjórnin öll árin gert tillögur um úthlutun sérstakra styrkja til fiskeldis sem gert er ráð fyrir á fjárlagalið 05-190-1.20. Sú sérstaka fjárveiting er 19 millj. kr. á ári og eru þeir styrkir ekki taldir með í framangreindum upplýsingum um úthlutanir úr AVS-rannsóknasjóði.

Ferðalög stjórnar AVS.
    Samkvæmt bókhaldi ráðuneytisins hefur kostnaður vegna ferðalaga á vegum AVS-sjóðsins verið eftirfarandi:
    2004: 26.000 kr.
    2005: 78.586 kr.
    2006: 21.100 kr.

Greiðslur til starfsmanna AVS.
    Skipulag starfseminnar er með þeim hætti að stjórninni til aðstoðar er einn starfsmaður, svonefndur verkefnisstjóri AVS. Þá starfa fjórir faghópar á vegum stjórnar.
    Hlutverk verkefnisstjóra AVS er að sjá um samskipti við umsækjendur. Í því felst gerð leiðbeinandi reglna og eyðublaða fyrir umsóknir, móttaka umsókna, samskipti og vinna með faghópum sem meta umsóknir um styrki, umsjón með gerð samninga við styrkþega og greiðslum til þeirra, eftirfylgni með verkefnum, þ.m.t. að niðurstöðum rannsókna sé skilað á réttum tíma og allt annað sem nauðsynlegt er að gera til að starfsemin sé samkvæmt samþykktum stjórnar og leiðbeiningum frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá hefur verkefnisstjórinn umsjón með vefsvæðinu avs.is og birtingu efnis. Þau ár sem AVS-sjóðurinn hefur starfað hefur hann móttekið ríflega 100 umsóknir um styrki ár hvert.
    Kostnaður vegna framangreindrar starfsemi hefur verið eftirfarandi:
        2004: 7.500.000 kr.
        2005: 7.500.000 kr.
        2006: 8.000.000 kr.
    Faghóparnir eru fjórir; fiskeldis-, markaðs-, líftækni- og vinnsluhópur. Hlutverk faghópanna er að leggja faglegt mat á umsóknir um styrki og taka þátt í stefnumótunarvinnu auk annarra verkefna sem stjórnin beinir til þeirra. Hver faghópur hefur einn verkefnisstjóra. Samtals taka 35 aðilar þátt í starfsemi faghópanna. Styrkir til faghópanna hafa verið sem hér segir:
        2004: 1.850.000 kr.
        2005: 2.730.000 kr.
        2006: 4.680.000 kr.

Fyrirtæki sem tengjast stjórnendum AVS.
    Þær vinnureglur gilda við afgreiðslu umsókna um styrki að fjárhagslega tengdur aðili víkur af fundi á meðan umsókn viðkomandi fyrirtækis/aðila er til umfjöllunar.
    Forstjóri Stofnfisks hefur setið í stjórn AVS og víkur hann af fundi þegar kemur að umsóknum frá því fyrirtæki. Stofnfiskur er einnig stór eigandi í Icecod og hefur sami háttur verið hafður á þegar umsóknir frá IceCod hafa verið teknar til umfjöllunar hjá stjórn AVS.
    Tvö verkefni þar sem starfsmaður Stofnfisks er verkefnisstjóri fengu styrk árið 2004, samtals 14.300.000 kr. og einnig fengu tvö verkefni styrkur 2005, samtals 13.300.000 kr.
    IceCod í eigu Stofnfisks, Hafrannsóknastofnunarinnar og fleiri aðila fékk styrk til kynbóta í þorskeldi árið 2006 samtals 25.000.000 kr.