Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 551. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 822  —  551. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2006.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2006 má segja að þrjú málefni hafi helst verið í brennidepli en þau tengjast öll grundvallarhlutverki Evrópuráðsþingsins um að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið.
    Í fyrsta lagi var ítarlega fjallað um ólöglega fangaflutninga og leynifangelsi í Evrópu sem bandaríska leyniþjónustan CIA stóð fyrir í samvinnu við evrópskar öryggisstofnanir. Evrópuráðsþingið brást fyrst alþjóðastofnana við fréttum fjölmiðla af ólöglegum fangaflutningum og leynifangelsum í lögsögu Evrópuríkja og hóf eigin rannsókn á málinu í desember 2005. Svissneski þingmaðurinn Dick Marty stjórnaði rannsókninni sem m.a. leiddi í ljós að einstaklingar hefðu verið handteknir af útsendurum bandarísku leyniþjónustunnar CIA án dóms og laga og verið fluttir með borgaralegum flugvélum milli landa í Evrópu. Þeim var haldið í leynilegum fangelsum, jafnvel í ríkjum sem eru alræmd fyrir pyndingar. Þessar ólöglegu handtökur og fangaflutningar fóru fram með vitund eða samvinnu öryggisstofnana í sumum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Tilgangur rannsóknarinnar var hvorki að fordæma né sakbenda aðila málsins heldur koma í veg fyrir svipaða starfsemi í framtíðinni. Fangaflugsmálið og rannsókn þess er skýrt dæmi um það hvers Evrópuráðsþingið er megnugt þrátt fyrir takmarkaðar bjargir.
    Í öðru lagi voru hinar miklu deilur og átök sem brutust út í kjölfar birtingar danska dagblaðsins Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni mjög til umfjöllunar í Evrópuráðsþinginu. Kjarni deilunnar snerist um mörk tjáningarfrelsis og virðingu fyrir trúarbrögðum en myndbirtingarnar ollu mjög hörðum viðbrögðum í ríkjum múslima og á meðal múslima í Evrópu. Evrópuráðsþingið hvatti til umburðarlyndis og virðingar gagnvart trúarbrögðum en áréttaði að ekki mætti setja hömlur á tjáningarfrelsi enda væri það óvefengjanlegur réttur.
    Í þriðja lagi var ítrekað rætt um nýja stofnun Evrópusambandsins á sviði mannréttindamála, Stofnun ESB um grundvallarréttindi (Agency of Fundamental Rights), sem tekur til starfa í Vín í ársbyrjun 2007. Margir þingmenn Evrópuráðsþingsins lýstu áhyggjum sínum af því að ESB væri með stofnuninni að seilast inn á kjarnastarfssvið Evrópuráðsins. Það gæti haft í för með sér óhagræði í formi tvíverknaðar og samkeppni á milli þessara stofnana. Því var lýst eftir skýrri verkaskiptingu á milli þessara alþjóðastofnana. Enn fremur var bent á að Evrópuráðið hefði frá stofnun sinni staðið vörð um mannréttindi og lýðræði í Evrópu og þar sem aðildarríki ráðsins væru 46 hefði Evrópuráðið mun víðari skírskotun í álfunni í þessum málaflokki en ESB.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með laga-, stjórnsýslu- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 46 talsins. Búist er við að Svartfjallaland, sem sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006, verði aðili að Evrópuráðinu á árinu 2007. Munu ríki Evrópuráðsins þá mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni aðeins að Hvíta- Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 46 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 315 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum og 24 undirnefndum þeirra. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn málefnanefnda og formenn flokkahópa í forsætisnefnd þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess, og sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og bregst við ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál og menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægir. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi árs 2006 voru aðalmenn Íslandsdeildar Birgir Ármannsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 9. mars tilkynnti forseti Alþingis að Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, tæki sæti í Íslandsdeildinni í stað Sivjar Friðleifsdóttur og jafnframt að Jónína Bjartmarz, þingflokki Framsóknarflokks, tæki sæti Birkis J. Jónssonar sem varamaður.
    Ný Íslandsdeild var kjörin 2. október í upphafi 133. þings og var skipan aðalmanna óbreytt. Sú breyting varð á skipan varamanna að Sæunn Stefánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, varð varamaður í stað Jónínu Bjartmarz. Hinn 5. október voru Birgir Ármannsson og Kristinn H. Gunnarsson endurkjörnir sem formaður og varaformaður Íslandsdeildar.
    Í upphafi árs var Arna Gerður Bang ritari Íslandsdeildar en Stígur Stefánsson tók við 1. febrúar.
    Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2006 var sem hér segir:

Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson.
Stjórnarnefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson.
Stjórnmálanefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Laga- og mannréttindanefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Jafnréttisnefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Guðrún Ögmundsdóttir.
Efnahagsnefnd: Kristinn H. Gunnarsson.
    Til vara: Sæunn Stefánsdóttir.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Kristinn H. Gunnarsson.
    Til vara: Sæunn Stefánsdóttir.
Þingskapanefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Mennta- og vísindanefnd: Kristinn H. Gunnarsson.
    Til vara: Sæunn Stefánsdóttir.
Félags- og heilbrigðismálanefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Guðrún Ögmundsdóttir.
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Guðrún Ögmundsdóttir.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2006.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Auk þess kemur stjórnarnefnd Evrópuþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiðir mál sem æðsta vald Evrópuráðsþingsins á milli þingfunda.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 23. 27. janúar fór fyrsti þingfundur Evrópuráðsþingsins árið 2006 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Birgir Ármannsson formaður, Birkir J. Jónsson og Margrét Frímannsdóttir, auk Þrastar Freys Gylfasonar, starfandi ritara. Á vorfundi Evrópuráðsþingsins bar einna hæst umræður um fangaflutninga og leynileg fangelsi í Evrópu, mannréttindabrot í Tétsníu og um ofbeldisverk kommúnistastjórna.
    Í upphafsávarpi sínu ræddi van der Linden, forseti þingsins, um fangaflug og ólögleg, leynileg fangelsi. Hann sagði að Evrópuráðið væri án vafa rétti vettvangurinn til umfjöllunar um þetta mál og fagnaði því frumkvæði sem Evrópuráðsþingið hefði tekið. Þakkaði hann Evrópuþinginu einnig fyrir pólitískan stuðning. Þá ræddi van der Linden um samskipti Evrópuráðsþingsins við Evrópusambandið. Hann sagði að Varsjárfundurinn hefði verið mikilvægur sem fyrsta skrefið í þeirri umræðu. Hann varaði við þeirri þróun sem væri fyrirsjáanleg með sérstakri mannréttindastofnun Evrópusambandsins, Stofnun ESB um grundvallarréttindi, sem fyrirhugað væri að koma á laggirnar. Hann taldi það óásættanlegt að búið væri til annað eintak af Evrópuráðinu innan Evrópusambandsins og sagði að ef Evrópusambandið þyrfti að setja á laggirnar nýja stofnun í þessum sömu efnum ætti hún að einbeita sér að því að safna upplýsingum og greina þær. Hún ætti ekki að fást við þriðju ríki eða herma eftir öðru grunnstarfi Evrópuráðsins. Að lokum kvaddi forseti þingsins framkvæmdastjóra Evrópuráðsþingsins, Bruno Haller, sem sótti sinn síðasta fund og voru honum þökkuð góð störf.
    Á þinginu kynnti svissneski þingmaðurinn Dick Marty annað minnisblað sitt um flutninga bandarísku leyniþjónustunnar CIA á föngum um evrópska lofthelgi og flugvelli og leynileg fangelsi í Evrópu. Evrópuráðið vann þá að öflun upplýsinga hjá aðildarríkjum vegna málsins. Komust færri þingmenn að en vildu í almennri umræðu um málið.
    Þingið samþykkti ályktun og tilmæli um aðlögun kvenna í hópi innflytjenda í Evrópu. Í ályktuninni hvatti Evrópuráðsþingið aðildarríki sín til að tryggja grundvallarréttindi kvenna í hópi innflytjenda sem oft horfi fram á tvöfaldan vanda þar sem aðgengi þeirra sé takmarkað hvað varðar þátttöku í opinberu, pólitísku og efnahagslegu lífi. Fordæmd var hin tvöfalda mismunun á grunni kyns og uppruna sem bæði kæmi fram í gistiríkinu og í samfélagi innflytjendanna sjálfra. Skoraði þingið á aðildarríki sín að tryggja að konum, sem flyttu í nýtt ríki undir merkjum fjölskyldusameiningar, yrði tryggt sjálfstæði í lagalegu tilliti frá maka sínum, helst innan árs frá komu. Enn fremur skoraði þingið á aðildarríkin að setja lagaramma þar sem innflytjendakonum væri tryggður rétturinn til að hafa vegabréf og dvalarleyfi og að viðurlög yrðu sett við því að taka í vörslu sína þessi skjöl úr hendi kvennanna. Evrópuráðsþingið hafnaði því að löggjöf ríkja utan Evrópu gæti kveðið á um rétt kvenna í hópi innflytjenda sem væri á skjön við mannréttindasáttmála Evrópu og sjöunda viðauka við hann eða þar sem þau stönguðust á við grundvallarréttinn um jafnrétti kynjanna. Þá hvatti þingið til verndunar kvenna gegn mansali.
    Þingið samþykkti ályktun þar sem fordæmd voru stórtæk mannréttindabrot alræðisstjórna kommúnismans og lýst yfir samúð og skilningi með fórnarlömbum. Í ályktuninni kom fram að þessi brot fælu meðal annars í sér morð og aftökur á einstaklingum og hópum, dauðsföll í þrælkunarbúðum, svelti, útlegð, pyndingar og þrælahald. Taldi þingið að borgarar fyrrum Sovétríkja væru í algerum meiri hluta fórnarlamba og skoraði á alla kommúnistaflokka og fyrrum kommúnistaflokka í aðildarríkjum Evrópuráðsins sem hefðu ekki gert svo að „endurmeta sögu kommúnismans og sína eigin sögu […] og fordæma hana fortakslaust“. Taldi þingið sig vel sett til að taka þess háttar umræðu fyrir þar sem öll fyrrum kommúnistaríki Evrópu væru nú aðilar að Evrópuráðinu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, og vernd mannréttinda og laganna reglu væru nú grundvallaratriði.
    Í tengslum við fundinn efndi Íslandsdeildin ásamt Auði Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðingi til kynningar á mænuskaðaverkefni íslenskra heilbrigðisyfirvalda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, í Evrópuhöllinni. Fjöldi evrópskra þingmanna, embættismanna og erindreka sótti kynninguna og var heimildarmyndin „Hvert örstutt spor“ sýnd þar sem meðal annars er lýst eftir þekkingu fagfólks um allan heim og upplýsingum um meðhöndlun á fólki sem hlotið hefur mænuskaða. Alþjóðlegur gagnabanki er í undirbúningi og verður þar safnað saman margvíslegum upplýsingum um mænuskaða sem verða öllum aðgengilegar, bæði fagfólki og almenningi. Birgir Ármannsson, formaður Íslandsdeildar, flutti ræðu við þetta tækifæri og lýsti verkefninu í stuttu máli og kynnti á hvaða stigi það er. Hann þakkaði Auði Guðjónsdóttur fyrir óeigingjarnt starf hennar á þessu sviði í 10 ár. Auður hefur verið hvatamaður þess að kynna málefni þeirra sem hlotið hafa mænuskaða og barist fyrir stofnun alþjóðlegs gagnabanka um mænuskaða. Íslandsdeildin stóð fyrir kynningunni í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.
    Fund Evrópuráðsþingsins ávörpuðu m.a. eftirtaldir tignargestir: Bruno Haller, framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins; Jan Eliasson, forseti 60. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna; Serguei Stanishev, forsætisráðherra Búlgaríu; Traian Bãsescu, forseti Rúmeníu; Enrique Jackson Ramírez, forseti efri deildar mexíkóska þingsins; Mihai-Rãzvan Ungureanu, utanríkisráðherra Rúmeníu og formaður ráðherranefndarinnar; og Rita Verdonk, ráðherra innflytjendamála í Hollandi.

Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í París.
    Þann 17. mars var efnt til stjórnarnefndarfundar Evrópuráðsþingsins í París. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Birgir Ármannsson formaður auk Stígs Stefánssonar alþjóðaritara.
    René van der Linden, forseti Evrópuráðsþingsins, stjórnaði fundinum. Í upphafi fundar var gengið frá kjörbréfum nýrra þingmanna Evrópuráðsþingsins og breytingum í einstökum landsdeildum. Sú breyting var gerð á Íslandsdeildinni að Siv Friðleifsdóttir hætti sem aðalmaður og Birkir J. Jónsson sem varamaður en í stað þeirra komu Kristinn H. Gunnarsson sem aðalmaður og Jónína Bjartmarz til vara.
    Kosningaeftirlit Evrópuráðsþingsins við kosningarnar í Palestínu 25. janúar 2005 var til umræðu og flutti Russell-Johnston lávarður stjórnarnefndinni skýrslu. Russell-Johnston lagði áherslu á að kosningarnar hefðu farið vel fram, raunar betur en í sumum aðildarlanda Evrópuráðsins. Það væri samdóma álit kosningaeftirlitsmanna en auk þess væru úrslitin í sjálfu sér staðfesting þessa. Kosningarnar voru skipulagðar og framkvæmdar af Al-Fatah sem laut í lægra haldi og viðurkenndi ósigur sinn að kosningunum loknum.
    Átökin og mótmælin sem brutust út í kjölfar birtingar Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni voru tekin til sérstakrar umræðu. Fjölmargir þingmenn kvöddu sér hljóðs og var sameiginlegur grunntónn í máli þeirra að tjáningarfrelsið væri ófrávíkjanlegur réttur sem tekið hefði aldir að tryggja í Evrópu. Trúarbrögð hefðu framan af hamlað rétti til frjálsrar tjáningar en á 20. öldinni hefðu alræðisstjórnkerfi kommúnismans og nasismans takmarkað hann. Tjáningarfrelsi væri órjúfanlegur hluti af vestrænni lýðræðishefð og ekki væri hægt að takmarka tjáningarfrelsi í einu landi vegna viðkvæmni eða almenningsálits í öðru landi. Þær raddir heyrðust að ljóst væri að stjórnvöld í ákveðnum ríkjum Mið-Austurlanda hefðu notfært sér skopmyndamálið til þess að beina athygli frá innlendum vandamálum og efla þjóðernishyggju og stuðning við sig. Stjórnvöld hefðu í sumum tilfellum beinlínis hvatt til og stjórnað skipulagningu mótmæla. Fulltrúi Dana á fundinum, Hanne Severinsen, skýrði frá því að saksóknari hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að ákæra Jótlandspóstinn fyrir myndbirtingarnar umdeildu. Hún greindi jafnframt frá því að samtök lýðræðissinnaðra múslima hefðu verið stofnuð í Danmörku til mótvægis við þau samtök sem vilja skerða tjáningarfrelsið þegar kemur að myndbirtingum sem sært gætu trúartilfinningar fólks. Tyrkneski þingmaðurinn Mevlüt Cavusoglu tók til máls og var sá eini sem gagnrýndi dönsk stjórnvöld og sagði það alvarleg mistök að þau hefðu ekki beðist opinberlega afsökunar á myndbirtingunum.
    Fyrir utan hefðbundin stjórnarnefndarstörf áttu nefndarmenn viðræður við Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sem var sérstakur gestur fundarins. Juncker hefur lagt fram drög að skýrslu um samband og samstarf Evrópuráðsins og Evrópusambandsins (ESB) og voru þau til umræðu. Fram kom á fundinum nokkur gagnrýni á að ESB væri að seilast inn á svið Evrópuráðsins. Hlutverk ráðsins væri fyrst og fremst að standa vörð um mannréttindi og lýðræði. Evrópuráðið væri eins konar lýðræðisskóli enda hefði ráðið gegnt mikilvægu hlutverki við lýðræðisvæðingu fyrrum austantjaldsríkja eftir fall kommúnismans. Skýr verkaskipting hefði ríkt en nú þegar breyta á miðstöð ESB sem fylgist með kynþáttahyggju og útlendingaandúð í mannréttindastofnun, Stofnun ESB um grundvallarréttindi (Agency of Fundamental Rights), er farið beint inn á kjarnasvið Evrópuráðsins. Bent var á að mörg lönd Evrópuráðsins væru ekki í ESB og að ESB hefði því ekki þá skírskotun til allrar Evrópu sem ráðið hefur.
         Að loknum föstum dagskrárliðum stjórnarnefndarfundarins var rætt um þær skýrslur og ályktunardrög sem fyrir fundinum lágu. Ástæðulaust er að rekja almennar umræður en af þeim málum sem mest kvað að má nefna skýrslu um að fordæma stjórnartíð Francos hershöfðingja á Spáni. Fulltrúi Spánar sagði í umræðunum að ef til vill þætti þetta gerast heldur seint en þó væri það svo að ekki hefði verið farið í að gera upp Franco-tímabilið og kortleggja umfang mannréttindabrota fyrr en á síðustu árum. Sú vinna stæði enn yfir.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 10. 13. apríl fór vorfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Birgir Ármannsson formaður, Kristinn H. Gunnarsson og Guðrún Ögmundsdóttir, í fjarveru Margrétar Frímannsdóttur, auk Stígs Stefánssonar ritara. Á fundinum bar hæst samband og samskipti Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, flutti þinginu sérstaka skýrslu um samskipti þessara alþjóðastofnana. Juncker lagði í framsögu sinni áherslu á að samskipti og verkaskipting þessara stofnana yrði að vera skipulögð þannig að komið væri í veg fyrir óþarfa tvíverknað og samkeppni. Meginviðfangsefni Evrópuráðsins hefði frá upphafi verið að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í Evrópu og þar sem aðildarríkin væru 46 hefði ráðið mun víðari skírskotun í álfunni í þessum málaflokki en ESB. Enginn ágreiningur væri á milli þessara stofnana um mannréttindi og lýðræðisgildi og hvatti Juncker til að ESB gerðist sjálfstæður aðili að mannréttindasáttmála Evrópu. Verkaskiptingin gæti verið á þá leið að Evrópuráðið stæði sem fyrr vörð um réttarríkið og lýðréttindi innan aðildarríkja sinna en ESB ætti í mannréttinda- og lýðræðisstarfi sínu að einbeita sér að samskiptum við grannsvæði Evrópu og samræðum við ólíka menningarheima. Tillögur Junckers ber að skoða í ljósi þess að ESB hyggst stofna sérstaka mannréttindastofnun, Stofnun um grundvallarréttindi (Agency of Fundamental Rights) í Vín en í máli margra þingmanna kom sú gagnrýni fram að með stofnuninni væri ESB að seilast inn á starfssvið Evrópuráðsins. Málaflokksins væri vel gætt hjá Evrópuráðinu og engin þörf á stofnanauppbyggingu hjá ESB á þessu sviði. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ávarpaði þingfundinn og fagnaði skýrslu Junckers. Hann sagði fyrirhugaða mannréttindastofnun mundu einbeita sér að réttri lagaframkvæmd innan ESB og að forðast skyldi tvíverknað með formlegu samstarfi og upplýsingamiðlun milli hinnar nýju stofnunar og Evrópuráðsins. Wolfgang Schüssel, kanslari Austurríkis, sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB, sagði að tryggja þyrfti skilvirkni í skipulagi og uppbyggingu evrópskra stofnana á 21. öld og þar væri ekkert svigrúm fyrir tvíverknað. Evrópuráðið hefði mikilvægu hlutverki að gegna við að hjálpa ríkjum við uppbyggingu réttarríkis og umbreytingu til lýðræðislegra stjórnkerfa. Evrópuráðinu stafaði ekki hætta af nýrri mannréttindastofnun ESB heldur byði sú stofnun upp á tækifæri til samstarfs. Á þingfundinum voru samþykkt tilmæli þar sem Evrópuráðsþingið lýsti áhyggjum sínum af stofnuninni og því að tvær samhliða alþjóðastofnanir á þessu sviði í álfunni gætu skapað nýjar klofningslínur og væru því ekki til gagns fyrir samrunaferli Evrópu.
    Sérstök umræða fór fram um mansal kvenna og barna til kynlífsþrælkunar í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram undan var í Þýskalandi. Talið var að 30.000- 60.000 konur yrðu seldar mansali til Þýskalands til vændis meðan á keppninni stæði. Samþykkt var ályktun þar sem Evrópuráðsþingið hvatti Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA til að fordæma mansal í tengslum við keppnina og axla þannig ábyrgð sem skipuleggjandi. Í ályktuninni var minnt á sáttmála Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali frá mars 2005. Þar er kveðið á um aðferðir til að berjast gegn mansali, verndun fórnarlamba og ákærur gegn þeim sem að baki mansali standa. Í ályktuninni voru ríkisstjórnir ríkja Evrópuráðsins hvattar til að staðfesta sáttmálann án tafar.
    Sérstök umræða fór einnig fram um forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi í mars 2006. Þess var krafist að þær yrðu endurteknar vegna stórfellds kosningasvindls og ofsókna gegn frambjóðendum stjórnarandstöðunnar. Krafist var nýrra og frjálsra kosninga samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Stjórnarandstaðan var jafnframt hvött til að halda einingu sinni og stjórnvöld voru krafin þess að láta lausa úr haldi alla þá pólitísku fanga sem hnepptir voru í varðhald í tengslum við kosningarnar.
    Fundinn ávörpuðu m.a. eftirtaldir tignargestir: Tomas Hammerberg, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins; Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar; Calin Popescu-Tariceanu, forsætisráðherra Rúmeníu; Wolfgang Schüssel, kanslari Austurríkis; José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB; Mihai-Razavan Ungureanu, utanríkisráðherra Rúmeníu; og Vlado Buchkovski, forsætisráðherra „fyrrverandi lýðveldis Júgóslavíu, Makedóníu“.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 26. 30. júní fór sumarfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Birgir Ármannsson formaður og Kristinn H. Gunnarsson auk Stígs Stefánssonar ritara. Á fundinum bar hæst skýrslu svissneska þingmannsins Dicks Martys um leynilega fangaflutninga og fangelsi á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í lögsögu Evrópuríkja. Í opnunarræðu sinni gerði forseti Evrópuráðsþingsins, René van der Linden, starf Martys að umræðuefni og sagði fangaflugsmálið og rannsókn þess skýrt dæmi um það hvers Evrópuráðsþingið væri megnugt þrátt fyrir takmarkaðar bjargir. Evrópuráðsþingið hefði fyrst alþjóðastofnana brugðist við fréttum af ólöglegum fangaflutningum enda væri það kjarnastarfssvið Evrópuráðsins að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið í álfunni. Van der Linden lagði áherslu á að þótt það væri mikilvægt að benda á mistök og brot fortíðar væri enn mikilvægara að tryggja að slík brot ættu sér ekki stað í framtíðinni. Það hlyti að vera aðalatriði málsins en ekki að ala á andúð gegn Bandaríkjunum. Þegar fangaflutningamálið var á dagskrá fundarins sagði Marty í framsögu sinni það vera staðreynd að einstaklingar hefðu verið handteknir af útsendurum bandarískra öryggisstofnana án dóms og laga og verið fluttir með borgaralegum flugvélum milli landa í Evrópu. Þeim hefði verið haldið í leynilegum fangelsum, jafnvel í ríkjum sem eru alræmd fyrir pyndingar. Þessar ólöglegu handtökur og fangaflutningar hefðu farið fram með vitund eða samvinnu öryggisstofnana í sumum ríkjum Evrópuráðsins. Marty lagði áherslu á að í ályktuninni sem fylgdi skýrslunni væri enginn fordæmdur en öllu máli skipti að koma í veg fyrir slíka starfsemi í framtíðinni. Vissulega væri mikilvægt forgangsverkefni að berjast gegn hryðjuverkum en sú barátta mætti ekki vera á kostnað lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins, þeirra grunngilda frjáls og opins samfélags sem baráttunni er einmitt ætlað að verja.
    Franco Frattini, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sem jafnframt fer með dóms-, frelsis- og öryggismál innan stjórnarinnar, tók til máls og sagði skýrsluna gott dæmi um farsæla samvinnu Evrópuráðsins og ESB en framkvæmdastjórnin hefði aðstoðað Marty við rannsóknina. Skýrslan sýndi fram á að umbætur þyrfti einkum á tveimur sviðum. Annars vegar yrði að auka eftirlit með öryggisstofnunum Evrópuríkja svo að þær athöfnuðu sig ekki án dóms og laga. Hvatti Frattini til að ríkisstjórnirnar ykju samstarfið sín á milli til að tryggja að sameiginleg grunngildi réttarríkisins og reglur yrðu í heiðri höfð í samstarfi öryggisstofnana. Þá hvatti hann til þess að eftirlit þjóðþinga með öryggisstofnunum yrði aukið. Hins vegar væru umbætur á loftferðalöggjöf og reglum um flugvelli nauðsynlegar og þyrftu að gerast á vettvangi ESB.
    Tjáningarfrelsi og virðing fyrir trúarbrögðum var annað stórmál á sumarfundinum. Málið komst á dagskrá í kjölfar átaka og mótmæla sem brutust út síðasta vetur vegna birtingar Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni. Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, ávarpaði fundinn og benti á að umburðarlyndi og fjölmenningarhyggja væru mikilvæg til að viðhalda friði, jafnt í Evrópu sem heiminum öllum. Tjáningarfrelsi væri hornsteinn lýðræðis og nútímalegra stjórnarhátta en því fylgdi jafnframt mikil ábyrgð. Tjáningarfrelsi og mannréttindi gætu vel samrýmst virðingu fyrir trúarbrögðum. Tjáningarfrelsi væri ekki frelsi til að móðga. Tjáningarfrelsi er ekki algert heldur fylgja því einhver takmörk í öllum menningarheimum. Margir þingmenn tóku til máls að loknu ávarpi Erdogans og voru flestir sammála um að engar hömlur mætti setja á tjáningarfrelsi og að trúarbrögð ættu ekki rétt á sérstakri vernd umfram almennar lífsskoðanir eða lífsstefnur.
    Barátta þjóðþinga gegn ofbeldi gegn konum var þriðja stórmálið á dagskrá þingsins og flutti Minodora Cliveti, talsmaður jafnréttisnefndar, skýrslu um málið. Hún minnti á að þriðji leiðtogafundur Evrópuráðsins hefði ákveðið að hrinda af stað herferð gegn ofbeldi gegn konum. Þjóðþingum ráðsins hefði verið boðið að gerast aðilar að átakinu og ráðast í aðgerðir gegn þessu samfélagsmeini á tímabilinu nóvember 2006 til mars 2008. Í skýrslu jafnréttisnefndar var fjöldi tillagna um baráttu þjóðþinganna og voru þau hvött til að grípa til aðgerða og gera baráttuna gegn ofbeldi gegn konum að forgangsmáli á árinu 2007. Yakin Ertürk, sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum, tók einnig til máls og fagnaði átaki Evrópuráðsþingsins. Hún lagði áherslu á að heimilisofbeldi gegn konum ætti sér stað um allan heim þvert á menningarsvæði og óháð efnahagslegu þróunarstigi samfélaga. Ýmsar ástæður væru fyrir því af hverju svo illa hefði gengið að berjast gegn ofbeldi gegn konum. Í fyrsta lagi væri skortur á upplýsingum um þessa glæpi þar sem ofbeldið færi fram inni á heimilum og væri því ekki sýnilegt. Í öðru lagi hefði ofbeldi gegn konum þar til nýlega ekki verið ofarlega á baugi í alþjóðlegum mannréttindalögum eða mannréttindabaráttu. Í þriðja lagi væri ofbeldi gegn konum ólíkt öðrum mannréttindabrotum sem yfirleitt beindust gegn afmörkuðum hópi innan samfélags. Ofbeldi gegn konum á sér stað þvert á stéttir, kynþætti og þjóðerni. Í fjórða lagi hefði barátta fyrir jafnrétti kynjanna að miklu leyti beinst gegn mismunun og því að ná jöfnum tækifærum á opinberum vettvangi og atvinnulífi en ekki náð að taka á ofbeldi innan veggja heimilisins.
    Sérstök aukaumræða fór fram um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Svartfjallalandi þar sem Svartfellingar ákváðu að slíta ríkjasambandi við Serbíu. Lord Russel-Johnston gagnrýndi fjölmiðla fyrir að gera ekkert úr atburðinum vegna þess hversu átakalítill hann var. Þetta væri þvert á móti stórkostlegur viðburður, fyrsti aðskilnaður ríkja á Balkanskaga sem fram fer með friðsamlegum hætti. Lord Russel-Johnston og aðrir sem tóku til máls gagnrýndu ESB harðlega fyrir að hafa krafist þess að 55% kjósenda yrðu að samþykkja viðskilnað svo að hann væri gildur. Það hefði getað valdið djúpstæðri stjórnmálakreppu og átökum ef til dæmis 54% hefðu verið hlynnt sambandsslitum og Svartfellingar þurft að búa við áframhaldandi ríkjasamband gegn vilja meiri hluta landsmanna. Í ályktun Evrópuráðsþingsins var lögð áhersla á að í þjóðaratkvæðagreiðslum um sjálfstæði í framtíðinni skyldi reglan vera sú að einfaldur meiri hluti réði úrslitum kosninga.
    Fundinn ávörpuðu m.a. eftirtaldir tignargestir: Franco Fattini, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB; Sergey Mironov, forseti efri deildar rússneska þingsins; Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands; Jean Lemierre, forseti Þróunar- og endurreisnarbanka Evrópu; og Yakin Ertürk, sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.


Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins.
    Dagana 2. 6. október fór fjórði þingfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Margrét Frímannsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í upphafsávarpi sínu ræddi René van der Linden, forseti Evrópuráðsþingsins, starf þess við að kortleggja og vekja athygli á leynilegu fangaflugi og fangelsum á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í lögsögu Evrópuríkja. Van der Linden fagnaði því að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefði viðurkennt að grunaðir hryðjuverkamenn hefðu verið í leynilegu haldi CIA. Þetta staðfesti niðurstöður rannsóknar Evrópuráðsþingsins undir forustu svissneska þingmannsins Dick Marty þrátt fyrir að þeim hefði verið mótmælt þegar þær komu fyrst fram. Þá ræddi van der Linden um tengsl tjáningarfrelsis og trúarbragða sem hafa verið ofarlega á baugi í starfi þingsins síðan skopmyndadeilan braust út í lok síðasta árs með birtingu Jótlandspóstsins á skopmyndum af Múhameð spámanni. Van der Linden hefur lagt til að trúarhópar geti fengið sérstaka aðkomu að Evrópuráðinu sem þannig gæti orðið vettvangur samræðu á milli trúarbragða og menningarheima til þess að auka skilning og umburðarlyndi.
    Málefni Balkanskaga komu mikið við sögu fundarins og fluttu forsætisráðherrar Króatíu og Albaníu ávörp, auk formanns ráðherraráðs Bosníu og Hersegóvínu. Í máli Ivos Sanders, forsætisráðherra Króatíu, kom fram að eina lausnin við langvarandi sundurlyndi í Evrópu væri samruni og samþætting álfunnar. Króatía tæki þátt í samrunaþróuninni af fullum krafti og vildi jafnframt leggja sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika í Suðaustur-Evrópu. Vonaðist Sander til þess að ekki liði langur tími þar til Króatía væri orðið aðildarríki að bæði ESB og NATO og að nágrannaríkin á Balkanskaga mundu sömuleiðis verða aðilar í framtíðinni. Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu, þakkaði Evrópuráðinu hjálp við umbreytinguna frá alræðiskerfi til lýðræðis í landinu og aðrar nauðsynlegar umbætur, t.d. við að draga úr miðstýringu og á sviði menntunar, tæknivæðingar og eignarréttar. Barátta við spillingu og skipulagða glæpastarfsemi væru forgangsverkefni stjórnvalda og þar hefði þegar náðst árangur í að draga úr fíkniefnasmygli. Adnan Terzic, formaður ráðherraráðs Bosníu og Hersegóvínu, lýsti áhyggjum sínum af því að ESB væri að hægja á stækkunaráformum sínum og sagði að það kæmi niður á ríkjunum á Balkanskaga. Hann gerði grein fyrir að brýnna umbóta væri þörf á flestum sviðum þjóðlífsins þar, svo sem í skattamálum, löggæslu og baráttunni gegn spillingu. Ungverski þingmaðurinn Mátyás Eörsi kynnti skýrslu og ályktunardrög stjórnmálanefndar Evrópuráðsþingsins um ástandið á Balkanskaga. Samþykkt var ályktun sem m.a. sagði að alþjóðasamfélaginu bæri að axla sína ábyrgð á lýðræðisþróun og umbótum á svæðinu. ESB var sérstaklega hvatt til að milda reglur um vegabréfsáritanir fyrir borgara ríkjanna á vestanverðum Balkanskaga og leggja fram skýran vegvísi með skilyrðum og mögulegri tímaáætlun fyrir aðild ríkjanna að ESB. Þá eru ríki Balkanskaga hvött til þess að sýna trúverðugleika í fordæmingu á stríðsglæpum og samstarfi sínu við stríðsglæpadómstólinn í Haag og tryggja verndun þjóðarbrota sem búa í eða eru að snúa aftur til ríkjanna.
    Rússland er stærsta aðildarríki Evrópuráðsins og fer nú í fyrsta skipti með formennsku þess. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra landsins, ávarpaði þingið og sagði að hlutverk Evrópuráðsins við að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið væri óumdeilt en ekki mætti gleyma öðrum markmiðum sem tilgreind eru í stofnskrá ráðsins en þau eru að efla efnahagslega og félagslega þróun aðildarríkjanna með sameiginlegum aðgerðum. Þannig mætti efla Evrópuráðið og hlutverk þess en það væri keppikefli rússneskra stjórnvalda og mundu þau vinna að því markmiði í formennskutíð sinni.
    Umræða fór fram um stofnanir Evrópuráðsins sem eru þingið, ráðherranefndin og ráðstefna sveitar- og héraðsstjórna og mannréttindadómstóllinn. Stofnanaverki ráðsins var komið á fót árið 1949 og þrátt fyrir að það hafi breyst í samræmi við þróunina í álfunni telur laganefnd Evrópuráðsþingsins þær ekki í fullum takti við gerbreyttar aðstæður í Evrópu. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum er hvatt til þess að vægi Evrópuráðsþingsins verði aukið. Þingið var upphaflega samráðsvettvangur en hefur smám saman hlotið stærra hlutverk. Þingið ætti að koma að gerð nýrra sáttmála á fyrri stigum en nú er, taka þátt í viðræðum við aðrar alþjóðastofnanir og hafa aukin áhrif á fjárreiður Evrópuráðsins. Þá ætti þingið að hafa rétt til þess að vísa málum til mannréttindadómstólsins, auk þess sem ráðherranefndin ætti að hafa meira samráð við þingið við meðferð mála í ráðherranefndinni. Loks þarf að auka gagnsæi í störfum ráðherranefndarinnar samkvæmt ályktuninni.
    Fundinn ávörpuðu m.a. eftirtaldir tignargestir: Ivo Sander, forsætisráðherra Króatíu; Sali Berisha, forsætisráðherra Albaníu; Adnan Terzic, formaður ráðherraráðs Bosníu og Hersegóvínu; Sergei Lavro, utanríkisráðherra Rússlands; Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD.


5. Nefndarfundir utan þinga.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu nokkra nefndafundi á árinu. Kristinn H. Gunnarsson sótti fund efnahagsnefndar í Moskvu og Irkutsk í maí þar sem efnahagsþróunin í Rússlandi var í brennidepli. Kristinn sótti einnig fund umhverfis- og landbúnaðarnefndar í Ríga í júní og sat þar ráðstefnu um orkusamvinnu við Eystrasaltið. Margrét Frímannsdóttir sótti fundi heilbrigðisnefndar og jafnréttisnefndar í París í september þar sem jafnréttisnefndin gekkst m.a. fyrir málstofu um vændi.

Alþingi, 1. febrúar 2007.



Birgir Ármannsson,


form.


Kristinn H. Gunnarsson,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.


         
Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2006.

    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum Evrópuráðsþingsins árið 2006:

Fyrsti hluti þingfundar, 23.–27. janúar:

Á fundinum voru ræddar skýrslur og gerðar samþykktir í eftirtöldum málum:
          ályktun nr. 1476, um þingmannasamstarf við Sameinuðu þjóðirnar,
          tilmæli nr. 1731, um framlag Evrópu til bættrar vatnsnýtingar,
          tilmæli nr. 1732, um aðlögun kvenna í hópi innflytjenda í Evrópu,
          ályktun nr. 1477, um skuldbindingar Georgíu á vettvangi Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1478, um aðlögun kvenna í hópi innflytjenda í Evrópu,
          ályktun nr. 1479, um mannréttindabrot í Tétsníu: ábyrgð ráðherranefndarinnar og þingsins,
          tilmæli nr. 1733, um mannréttindabrot í Tétsníu: ábyrgð ráðherranefndarinnar og þingsins,
          ályktun nr. 1480, um rannsókn óstaðfestra kjörbréfa þingmanna Aserbaídsjan vegna vafaatriða,
          ályktun nr. 1481, um þörf á alþjóðlegri fordæmingu á ofbeldisverkum kommúnistastjórna,
          tilmæli nr. 1734, um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi fyrir forsetakosningarnar,
          ályktun nr. 1482, um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi fyrir forsetakosningarnar,
          ályktun nr. 1483, um réttarstöðu hælisleitenda sem snúið er frá Hollandi,
          tilmæli nr. 1735, um hugtakið „þjóð“,
          ályktun nr. 1484, um tilfærslu á framleiðslu til útlanda og efnahagslegar framfarir í Evrópu,
          ályktun nr. 1485, um áhrif á Evrópu vegna efnahagslegrar endurvakningar Kína,
          álit nr. 258, um drög að siðareglum til að forðast ríkisfangsleysi þegar ríki tekur við framkvæmd utanríkismála landsvæðis af öðru ríki.

Stjórnarnefndarfundur 17. mars:
          ályktun nr. 1486, um virka húsnæðisstefnu til að tryggja félagslega einingu í Evrópu,
          ályktun nr. 1487, um framtíð og enduruppbyggingu kolavinnslusvæða í Evrópu,
          ályktun nr. 1488, um endurskipulagningu landbúnaðarjarða í Mið- og Austur-Evrópu,
          ályktun nr. 1489, um aðferðir til að tryggja þátttöku kvenna í ákvarðanatöku,
          ályktun nr. 1490, um túlkun á grein 15a í samkomulagi um réttindi og friðhelgi Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1491, um viðbót við starfsreglur Evrópuráðsþingsins um nýja reglu um samstarf við Evrópuþingið,
          tilmæli nr. 1736, um nauðsyn alþjóðlegrar fordæmingar á stjórnartíð Franco-stjórnarinnar,
          tilmæli nr. 1737, um nýja stefnu og úrlausnarefni fyrir stefnu í innflytjendamálum á Evró-Miðjarðarhafssvæðinu,
          tilmæli nr. 1738, um aðferðir til að tryggja þátttöku kvenna í ákvarðanatöku,
          tilmæli nr. 1739, um kynjasjónarhorn við fjárlagagerð.

Annar hluti þingfundar 10.–13. apríl:
          tilmæli nr. 1740, um móðurmálskennslu í skólum,
          ályktun nr. 1492, um fátækt og baráttu gegn spillingu í aðildarríkjum Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1741, um félagslega enduraðlögun fanga,
          tilmæli nr. 1742, um mannrétti hermanna,
          ályktun nr. 1493, um stöðu mála í Miðausturlöndum,
          ályktun nr. 1494, um að stöðva mansal kvenna fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Þýskalandi,
          ályktun nr. 1495, um baráttu gegn endurreisn nasískrar hugmyndafræði,
          tilmæli nr. 1743, um samkomulag milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins,
          tilmæli nr. 1744, um Evrópuráðið og Stofnun ESB um grundvallarréttindi,
          ályktun nr. 1496, um Hvíta-Rússland að loknum forsetakosningum 19. mars 2006,
          ályktun nr. 1497, um flóttafólk í Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu,
          tilmæli nr. 1745, um Hvíta-Rússland að loknum forsetakosningum 19. mars 2006.

Þriðji hluti þingfundar 26.–30. júní:
          ályktun nr. 1505, um framkvæmd ályktunar 1480, um kjörbréf landsdeildar Aserbaídsjan,
          tilmæli nr. 1753, um utanríkissamskipti Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1506, um utanríkissamskipti Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1754, um meintar leynilegar handtökur og ólöglega fangaflutninga á milli landa, m.a. milli landa Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1755, um mannréttindi óreglulegra farandverkamanna,
          ályktun nr. 1507, um meintar leynilegar handtökur og ólöglega fangaflutninga á milli landa, m.a. milli landa Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1508, um framlag Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu til efnahagsþróunar í Mið- og Austur-Evrópu,
          ályktun nr. 1509, um mannréttindi farandverkamanna,
          ályktun nr. 1510, um tjáningarfrelsi og virðingu fyrir trúarbrögðum,
          tilmæli nr. 1756, um að framfylgja ákvörðunum þriðja leiðtogafundar Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1757, um fólksflutninga og flóttafólk í ljósi þriðja leiðtogafundar Evrópuráðsins,
          tilmæli nr. 1758, um eftirfylgni við þriðja leiðtogafundinn: forgang menningarlegrar samvinnu,
          tilmæli nr. 1759, um sameiginlegt átak þjóðþinga í baráttunni gegn heimilisofbeldi gegn konum,
          tilmæli nr. 1760, um afstöðu Evrópuráðsþingsins til aðildarríkja og áheyrnarríkja Evrópuráðsins sem ekki hafa afnumið dauðarefsingu,
          ályktun nr. 1511, um fólksflutninga og flóttafólk í ljósi þriðja leiðtogafundar Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1512, um sameiginlegt átak þjóðþinga í baráttunni gegn heimilisofbeldi gegn konum,
          ályktun nr. 1513, um umbætur á stjórnarskrá Bosníu og Hersegóvínu,
          ályktun nr. 1514, um afleiðingar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svartfjallalandi,
          ályktun nr. 1515, um framvindu eftirlitsstarfs Evrópuráðsþingsins (maí 2006 til júní 2006),
          tilmæli nr. 1761, um hindrun skógarelda,
          tilmæli nr. 1762, um akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla.

Fjórði hluti þingfundar 2.–6. október:
          tilmæli nr. 1763, um stofnanir Evrópuráðsins,
          tilmæli nr 1764, um innleiðingu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu,
          ályktun nr. 1516, um innleiðingu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu,
          tilmæli nr 1765, um almennar stjórnmálaviðræður um ástandið á Balkanskaga,
          ályktun nr. 1517, um almennar stjórnmálaviðræður um ástandið á Balkanskaga,
          ályktun nr. 1518, um OECD og hagkerfi heimsins,
          tilmæli nr. 1766, um fullgildingu aðildarríkja Evrópuráðsins á sáttmála um vernd þjóðarbrota,
          ályktun nr. 1519, um menningarlega stöðu Kúrda,
          ályktun nr. 1520, um þróunina í Líbanon í ljósi ástandsins í Miðausturlöndum,
          ályktun nr. 1521, um straum innflytjenda til Suður-Evrópu,
          tilmæli nr. 1767, um straum innflytjenda til Suður-Evrópu,
          ályktun nr. 1522, um stofnun evrópskrar miðstöðvar til minningar um fórnarlömb nauðungarflutninga og þjóðernishreinsana,
          tilmæli nr. 1768, um ímynd hælisleitenda, flóttamanna og innflytjenda í fjölmiðlum,
          tilmæli nr. 1769, um þörfina á að samþætta atvinnu og fjölskyldulíf,
          ályktun nr. 1523, um hagsmuni Evrópu af áframhaldandi efnahagsþróun í Rússlandi,
          tilmæli nr. 1770, um styrkingu sveitarstjórna við landamæri Evrópuráðsríkjanna.

Stjórnarnefndarfundur 13. nóvember:
          ályktun nr. 1524, um þörf á auknu gagnsæi í vopnaviðskiptum,
          tilmæli nr. 1771, um stöðugleikabandalag á Suður-Kákasussvæðinu,
          tilmæli nr. 1772, um réttindi þjóðernisminnihluta í Lettlandi,
          ályktun nr. 1525, um stöðugleikabandalag á Suður-Kákasussvæðinu,
          ályktun nr. 1526, um ástandið í Kasakstan og tengsl landsins við Evrópuráðið,
          ályktun nr. 1527, um réttindi þjóðernisminnihluta í Lettlandi,
          tilmæli nr. 1773, um leiðarvísi frá 2003 um notkun tungumála þjóðernisminnihluta í ljósvakamiðlum og staðla Evrópuráðsins: nauðsyn þess að efla samvinnu við ÖSE,
          tilmæli nr. 1774, um Tyrki í Evrópu: farandverkamenn og nýja evrópska borgara,
          tilmæli nr. 1775, um stöðu Sama og finnsk-úgrísks fólks,
          ályktun nr. 1528, um óánægju stúdenta með raunvísindanám,
          ályktun nr. 1529, um opnar og gagnsæjar atkvæðagreiðslur á Evrópuráðsþinginu,
          tilmæli nr. 1776, um selveiðar.