Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 475. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 871  —  475. mál.
Leiðrétt tala.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um hækkun iðgjalda tryggingafélaganna.

    Ráðuneytið fór þess á leit við Fjármálaeftirlitið að umbeðnum upplýsingum vegna 1.–5. tölul. fyrirspurnarinnar yrði komið til ráðuneytisins og óskaði eftir svari við 6. tölul. frá Samkeppniseftirlitinu. Byggir ráðuneytið svar sitt á upplýsingum sem bárust frá Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu.
    Í upphafi er rétt að geta þess að Fjármálaeftirlitinu hafa ekki verið sendir ársreikningar vátryggingafélaga og tengd gögn fyrir árið 2006, þar sem frestur skv. 47. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, er ekki liðinn. Í svörum Fjármálaeftirlitsins er því stuðst við uppgjör áranna 2001–2005.

     1.      Hver var hagnaður tryggingafélaganna og arðgreiðslur sl. 5 ár, sundurliðað eftir árum?
    Í töflunni hér á eftir sést samanlagður hagnaður allra félaganna sem hafa verið með starfsemi í ökutækjatryggingum á tímabilinu. Félögin sem um ræðir eru: Íslandstrygging hf. (2002–2004), Sjóvá – Almennar tryggingar hf., Tryggingamiðstöðin hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Vörður vátryggingafélag hf. (áður gt.) (2001–2004) og Vörður Íslandstrygging hf. (2005).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Dálkurinn fyrir arðgreiðslur sýnir arð sem ákveðinn var vegna afkomu ársins en greiddur árið eftir. Tölurnar fyrir árið 2005 eru þannig byggðar á áætlun félaganna í ársreikningum þess árs fyrir arðgreiðslur á árinu 2006.

Hagnaður Arður (ráðstöfun hagnaðar) Hlutfall
2001 1.699 589 35%
2002 1.632 669 41%
2003 6.735 5.048 75%
2004 7.834 7.676 98%
2005 19.091 3.959 21%

     2.      Hver var staða tjónaskuldar (bótasjóða) í árslok 2002, 2003, 2004, 2005 og 2006 og hve mikið af tjónaskuldinni er áætlað vegna bifreiðatrygginga?

    Taflan hér á eftir sýnir upplýsingar um tjónaskuld sömu vátryggingafélaga og talin eru upp í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.


Tjónaskuld í heild Tjónaskuld í ökutækjatryggingum Hlutfall ökutækjatrygginga
2001 34.367 23.127 67%
2002 36.415 24.657 68%
2003 38.099 25.607 67%
2004 39.314 26.412 67%
2005 40.568 26.834 66%

     3.      Hver var mismunurinn milli áætlaðrar tjónaskuldar (bótasjóða) vegna bifreiðatrygginga og uppgjörs bifreiðatjóna árlega sl. 5 ár? Hve mikið hefur losnað úr tjónaskuld árlega á þessum árum vegna ofáætlaðra tjónaskulda?
    Fyrsta taflan í svari við þessum lið fyrirspurnarinnar sýnir hvernig tjónaskuldin þróaðist á árunum 2001–2005, sundurliðað eftir því hvenær tjón varð. Reitirnir þar sem reikningsár er sama og tjónsár sýnir hvernig óuppgerð tjón þess árs voru metin í tjónaskuld vátryggingafélaganna. Reitirnir þar til hægri sýna hvernig matið á tjónum sem enn eru óuppgerð frá viðkomandi tjónsári, þróast á eftirfarandi reikningsárum. Í efstu línunni er sýnt í einni summu hvernig matið á óuppgerðum tjónum sem urðu fyrir árið 2001 þróaðist á tímabilinu. Sé lagt saman í einstökum dálkum þessarar töflu fæst tjónaskuld reikningsársins í heild eins og hún var sýnd í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

Reikningsár 2001 2002 2003 2004 2005
Ár þegar tjón varð:
Fyrir 2001 16.164 11.499 7.443 4.084 2.831
2001 6.963 6.055 4.560 3.458 1.643
2002 7.104 6.157 4.514 3.115
2003 7.447 6.498 4.485
2004 7.859 6.491
2005 8.269

    Næsta tafla sýnir uppsafnaðar greiðslur vegna tjóna sem voru óuppgerð í lok hvers árs (óuppgerð í lok ársins 2001 í tilviku efstu línunnar) á hverju ári á eftirfarandi reikningsárum.

Reikningsár: 2002 2003 2004 2005
Ár þegar tjón varð:
Fyrir 2001 3.143 5.285 6.629 7.448
2001 1.280 2.761 3.770 4.272
2002 1.325 2.924 3.933
2003 1.666 3.521
2004 1.890

    Með því að leggja saman gildin í töflunum tveimur hér að framan fæst svokölluð matsþróun tjónaskuldar á tímabilinu. Matsþróunin sýnir hvernig tjónaskuld eins og hún er ákveðin á tilteknum tíma, þróast á milli reikningsára eftir því sem tjón eru uppgerð og tjón sem enn eru útistandandi eru endurmetin.
    Í aftasta dálkinum er sýndur mismunurinn á annars vegar mati á óuppgerðum tjónum viðkomandi tjónsárs í lok ársins (í lok ársins 2001 í efstu línunni) og hins vegar á mati sömu tjóna í árslok 2005. Munurinn í heild er 5.908 millj. kr.

Reikningsár: 2001 2002 2003 2004 2005 Mismunur uppgjörs
Ár þegar tjón varð:
Fyrir 2001 16.164 14.642 12.728 10.713 10.279 5.885
2001 6.963 7.335 7.321 7.228 5.915 1.048
2002 0 7.104 7.482 7.438 7.048 56
2003 0 0 7.447 8.164 8.006 -559
2004 0 0 0 7.859 8.381 -522
2005 0 0 0 0 8.269 0

    Eftirfarandi tafla sýnir hvernig breytingin á mati, þ.e. umræddar 5.908 millj. kr. sundurliðast á hvert reikningsár á tímabilinu.

Reikningsár Matsþróun
2002 1.150
2003 1.550
2004 1.435
2005 1.773

    Eðlilegt er vátryggingafélög meti tjónaskuld af varfærni þannig að mat tjóna lækki heldur en hækki frá upphaflegu mati í ljósi reynslunnar. Því tekur Fjármálaeftirlitið ekki afstöðu til að um ofáætlun hafi verið ræða, miðað við það sem talist getur eðlileg varfærni.

     4.      Hefur Fjármálaeftirlitið lagt mat á hvort hækkun iðgjalda tryggingafélaganna á liðnu ári og um sl. áramót sé eðlileg í ljósi afkomu tryggingafélaganna og stöðu tjónaskuldar (bótasjóðanna) sl. 5 ár? Hve miklar voru þessar hækkanir umfram verðbólgu?

Samanburður á þróun vísitölu bílatrygginga og vísitölu neysluverðs 2001–2006.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á myndinni sést að vísitala bílatrygginga samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hækkaði um 19% frá desember 2005 til desember 2006. Á sama tíma var hækkun vísitölu neysluverðs 7%. Raunhækkun iðgjalda ökutækjatrygginga var því 11,4%. Myndin sýnir jafnframt að árin þar á undan var hækkunin lítil eða að iðgjöld lækkuðu.
    Auglýstar hækkanir vátryggingafélaga í ökutækjatryggingum frá 1. janúar 2006 hafa verið sem hér segir:

Hækkun frá
Sjóvá – Almennar tryggingar hf. 1. janúar 2006 1. febrúar 2007
    Lögboðnar ökutækjatryggingar 4% 7%
    Kaskótryggingar 2% 5%
Tryggingamiðstöðinhf. 1. júlí 2006 1. janúar 2007
    Ökutækjatryggingar 5%
        Þar af lögboðnar 4%
    Ábyrðgðartrygging og kaskó 5%
    Slysatrygging ökumanns 3%
Vátryggingafélag Íslands hf. 1. ágúst 2006 1. janúar 2007
    Lögboðnar ökutækjatryggingar 5% 5%
    Kaskótryggingar 6% 9%
Vörður Íslandstrygging hf. 1. júlí 2006 1. október 2006
    Ökutækjatryggingar 12% 8%

    Hinn 11. júní 2004 birti Fjármálaeftirlitið á heimasíðu sinni frétt um niðurstöður athugunar sinnar á iðgjaldagrundvelli og tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum. Þar kom m.a. fram að á því ári hefðu sést þess merki að félögin væru í auknum mæli farin að lækka tilboð í vátryggingar einstakra viðskiptamanna. Af því tilefni beindi Fjármálaeftirlitið því til félaganna að takmarka frávik frá iðgjaldaskrá svo að allir viðskiptavinir ,,njóti góðs af hagstæðri stöðu greinarinnar“.
    Fjármálaeftirlitið hefur á þessari stundu vitneskju um að verulega hafi dregið úr frávikum frá iðgjaldaskrá og útskýrir það væntanlega að hluta til að auglýstar hækkanir félaganna eru lægri en hækkanir samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands.
    Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, segir að Fjármálaeftirlitið skuli fylgjast með að iðgjöld séu sanngjörn í garð vátryggingataka og í samræmi við þá áhættu sem í vátryggingum felst og eðlilegan rekstrarkostnað. Í þessu ákvæði felst lágmarksvernd fyrir vátryggingataka sem tryggir að vátryggingafélög þurfa að byggja iðgjaldaákvarðanir sínar á traustum og sanngjörnum forsendum en þau þurfa ekki að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrirfram. Þar sem lögin skilgreina ekki hvað teljist eðlileg arðsemi af vátryggingarekstri verður að túlka ákvæðið svo að svigrúm félaganna til breytinga iðgjalda sé nokkuð rúmt.
    Á allra síðustu árum hefur hagnaður af rekstri vátryggingafélaga einkum verið af fjárfestingastarfsemi. Hluti þeirra tekna skilar sér í einstakar vátryggingagreinar í formi liðarins,,fjárfestingartekjur af vátryggingarekstri“ í rekstrarreikningi. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar ávallt litið á afkomu rekstrarins í heild í mati á afkomu vátryggingafélaga. Til langs tíma litið ætti viðvarandi góð afkoma félaganna af fjárfestingastarfsemi að skila hagstæðari rekstrarskilyrðum í ökutækjatryggingum.
    Fjármálaeftirlitið hefur ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við umræddar iðgjaldahækkanir vátryggingafélaganna í ökutækjatryggingum. Félögin hafa rökstutt að kostnaður hafi aukist á undanförnum árum og afkoma greinarinnar til skamms tíma því versnað. Fjármálaeftirlitið mun áfram fylgjast með afkomu félaganna í greininni og stöðu tjónaskuldar og grípa til aðgerða ef þurfa þykir.

     5.      Er það mat Fjármálaeftirlitsins að framlög í bótasjóðina hafi verið eðlileg með tilliti til áætlaðra tjónaskulda og uppgjörs bifreiðatjóna sl. 5 ár?

    Í áðurnefndri athugun Fjármálaeftirlitsins á iðgjaldagrundvelli og tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum frá árinu 2004 sem tók til uppgjörs tjóna á árunum 1995–2002, komst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að ,,tjónaskuld hafi á fyrri árum heldur verið ofmetin, en að dregið hafi úr því ofmati síðustu ár, m.a. vegna bætts verklags við mat á tjónum og aukins aðhalds.“
    Þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi ekki ráðist í jafn viðamikla heildarathugun frá þessum tíma telur eftirlitið að á síðustu árum hafi dregið úr öryggisálagi í tjónaskuld. Eins og sjá má í þriðju töflunni í svari við 3. tölul. fyrirspurnarinnar er lækkun mats á óuppgerðum tjónum á tímabilinu einkum vegna tjóna sem áttu sér stað á árunum fyrir 2001, sem einkenndust til dæmis af takmarkaðri reynslu félaganna af áhrifum breytinga á skaðabótalögum sem tóku gildi 1. maí 1999.
    Eftirlit með tjónaskuld vátryggingafélaga var aukið árið 2004 með setningu reglna Fjármálaeftirlitsins nr. 903/2004, um mat á tjónaskuld og gagnaskil, í því sambandi. Þar er kveðið á um almennar verklagsreglur sem Fjármálaeftirlitið fylgist með að farið sé eftir. Einnig eru í 7. gr. reglnanna sérákvæði um lágmörk tjónaskuldar í slysatjónum ábyrgðartrygginga ökutækja og slysatryggingu ökumanns og eiganda. Í 8. gr. þeirra eru ákvæði um efri viðmiðunarmörk í sömu greinum sem kalla eiga á sérstaka athugun Fjármálaeftirlitisins.
    Reglurnar miðast við að hægt sé að nálgast uppgjörshraða tjóna með því að reikna hlutfall tjónaskuldar og bókfærðra tjóna á reikningsárinu. Taflan hér að neðan sýnir að vátryggingafélögin í heild hafa verið innan markanna og heldur nær neðri mörkunum síðan reglurnar tóku gildi.
    
Hlutföll tjónaskuldar af bókfærðum tjónum Slysatjón ábyrgðartrygginga Slysatrygging ökumanns og eiganda
Lágmarksviðmið 4,0 3,2
Hlutfall 2004 5,0 4,6
Hlutfall 2005 5,0 4,3
Hámarksviðmið 6,7 6,1

     6.      Hvernig hefur eftirliti samkeppnisyfirvalda verið háttað frá árinu 1999 með því að eðlileg samkeppni ríki á tryggingamarkaði?
    Málefni vátryggingafélaganna hafa komið til kasta samkeppnisyfirvalda í fjölda mála á árunum 1999–2007. Í fyrsta lagi má nefna að samkeppnisráð beindi áliti til viðskiptaráðherra árið 2000 varðandi samkeppnishamlandi ákvæði í þágildandi reglugerð um lögboðna brunatryggingu húseigna, sbr. álit nr. 3/2000, Kvörtun vegna samkeppnishamlandi áhrifa reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna. Taldi stofnunin að ákvæði reglugerðarinnar um að vátryggjandi mætti ekki brunatryggja húseign hjá öðru vátryggingafélagi, ef hann skuldaði eldri brunatryggingu vegna sömu húseignar, fara gegn markmiði samkeppnislaga. Samkeppnisstofnun benti á að upplýsingamiðlun á milli keppinauta um viðskiptavini sína færi gegn markmiði samkeppnislaga, einkum í ljósi þess að íslenskur vátryggingamarkaður væri fákeppnismarkaður.
    Í öðru lagi má nefna að yfirgripsmikilli rannsókn samkeppnisyfirvalda á íslenskum vátryggingamarkaði lauk með ákvörðun samkeppnisráðs nr. 17/2004, Rannsókn á samkeppnishindrandi samstarfi á íslenska vátryggingamarkaðnum. Rannsóknin átti upphaf sitt að rekja til húsleitar samkeppnisyfirvalda hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga (SÍT) og Íslenskri endurtryggingu hf. (ÍE) árið 1997 vegna vísbendinga um að aðildarfélög SÍT hefðu brotið gegn bannákvæðum samkeppnislaga á vettvangi nefndra félaga. Í ákvörðuninni var komist að þeirri niðurstöðu að samvinna vátryggingafélaganna innan SÍT og ÍE hefði farið gegn samkeppnislögum. Með ákvörðuninni voru vátryggingafélögunum sett ýmis skilyrði varðandi stjórnarsetu, upplýsingamiðlun, opinbert fyrirsvar og hagsmunagæslu innan SÍT og ÍE með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari röskun á samkeppni.
    Í þriðja lagi tók samkeppnisráð ákvörðun 23. febrúar 2005 í máli nr. 9/2005, Ólögmætt samráð tryggingafélaganna við að taka upp Cabas-tjónamatskerfi við bifreiðaréttingar og sprautun. Í málinu var komist að þeirri niðurstöðu að Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS), Sjóvá – Almennar tryggingar hf. og Tryggingamiðstöðin hf. hefðu haft með sér ólögmætt samráð við innleiðingu á kerfi við mat á bifreiðatjónum. Var félögunum gert að greiða stjórnvaldssekt vegna samráðsins.
    Í fjórða lagi beitti samkeppnisráð íhlutun vegna kaupa VÍS á Íslandstryggingu hf. og vegna samruna Íslandstryggingar og Varðar vátryggingafélags, sbr. ákvörðun ráðsins nr. 14/2005. Var samrunanum sett ýmis skilyrði sem miðuðu að því að koma í veg fyrir hugsanlega röskun á samkeppni. Skilyrðin lutu m.a. að rekstrarlegum og stjórnunarlegum aðskilnaði á milli rekstrar VÍS og rekstrar Varðar Íslandstryggingar, en að auki voru upplýsingaskiptum á milli félaganna settar ýmsar skorður. Málefni sömu félaga komu til kasta samkeppnisyfirvalda í annari ákvörðun síðla ársins 2005 þar sem samvinnu nefndra félaga á sviði bókhalds, innheimtu, upplýsingatækni og tjónaskoðunar voru sett takmörk, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2005, Samvinna Vátryggingafélags Íslands hf. og Varðar Íslandstryggingar hf.
    Að lokum má nefna að málefni vátryggingafélaganna komu til kasta samkeppnisyfirvalda með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2006 þar sem beiðni SÍT um undanþágu frá bannreglu 10. gr. samkeppnislaga vegna sameiginlegs útboðs f.h. allra bifreiðatryggingafélaganna á flutningum tjónabifreiða af vettvangi á höfuðborgarsvæðinu var hafnað. Var beiðninni hafnað á þeim grundvelli að öll samvinna keppinauta á fákeppnismarkaði væri varhugaverð en ekki var talið að skilyrði væru til að veita undanþágu frá ákvæðinu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga.
    Af framangreindu má ljóst vera að málefni vátryggingafélaganna og samkeppni á vátryggingamarkaði hafa verið til ítarlegrar skoðunar hjá samkeppnisyfirvöldum í fjölda mála á þeim árum sem fyrirspurnin lýtur að. Hér ber einnig að athuga að fyrir utan framangreind mál þar sem teknar voru ákvarðanir sem birtar voru opinberlega hafa ýmis smærri stjórnsýslumál tengd vátryggingafélögunum jafnframt komið til ákvörðunar samkeppnisyfirvalda á sama tíma.