Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 457. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1038  —  457. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um húsnæði heilsugæslustöðva.

     1.      Hver eru áform ráðherra um uppbyggingu nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu?

    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra telur mikilvægt að ákvarðanir um staðsetningu heilsugæslustöðva byggist á bestu fáanlegu upplýsingum hverju sinni og að þessar ákvarðanir taki mið af heildarsýn á uppbyggingu á svæðinu öllu. Til þess að tryggja góðan grunn slíkra ákvarðana óskaði ráðherra eftir því við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að unnar yrðu greinargerðir sem tækju m.a. til þróunar mannfjölda, samgangna og ýmissa staðhátta í hverfum borgarinnar. Fyrsta greinargerðin var samin með tilliti til nýrra hverfa í norður- og austurhluta borgarinnar, og er hún nú til skoðunar í ráðuneytinu.
    Á grundvelli slíkra greinargerða munu heilbrigðisyfirvöld taka ákvarðanir um endurbætur á eldri heilsugæslustöðvum og um byggingu nýrra. Þessi vinna mun nýtast vel á komandi árum og er forsenda þess að unnt sé að taka faglegar ákvarðanir um uppbyggingu í samræmi við þörf hverju sinni. Ljóst er nú þegar að nokkur hverfi verða sett í forgang og er verið að vinna að nýrri áætlun um röðun verkefna. Þar má nefna suðurhverfi Hafnarfjarðar, Garðabæ, vesturhluta Reykjavíkur ásamt Seltjarnarnesbæ, auk fyrrnefndrar uppbyggingar í norðausturhluta höfuðborgarsvæðisins.
    Á undanförnum fjórum árum hafa verið opnaðar þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og ein stöð að auki flutt í nýtt og betra húsnæði. Nú er verið að auglýsa eftir nýju og stærra húsnæði fyrir heilsugæslustöðina á Árbæjarhverfi.

     2.      Er það stefna stjórnvalda að allar nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu verði í leiguhúsnæði og þá helst í verslunarhúsnæði?
    Það er stefna stjórnvalda að nýjar heilsugæslustöðvar verði í því húsnæði sem best hentar hverju sinni. Reynt er að velja stöðvunum stað sem næst íbúðahverfum þar sem aðgengi er gott, bæði fyrir gangandi vegfarendur og þá sem ferðast með einkabílum, leigubílum eða með almenningsfarartækjum. Einnig er mikilvægt að við heilsugæslustöðvar séu næg bílastæði. Markmiðið er að sjálfsögðu að heilsugæslustöðvarnar mæti sem best þörfum þeirra er leita þar þjónustu. Í sumum tilvikum er hagkvæmast að velja húsnæði í tengslum við verslanir eða verslunarmiðstöðvar, en í öðrum tilvikum er málum ekki svo farið.
    Á undanförnum árum hafa verið teknar í notkun margar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, sumar í verslunarkjörnum, aðrar ekki. Sem dæmi um hið fyrra má nefna heilsugæslustöðvarnar í Mosfellsbæ, Grafarvogi, Voga- og Heimahverfi og í Hafnarfirði, en dæmi um hið síðara eru heilsugæslustöðvarnar í Hamraborg og Salahverfi í Kópavogi.
    Þessi upptalning ber þess vitni að stjórnvöld hafa þá stefnu að staðsetja heilsugæslustöðvar þar sem talið er að þær þjóni íbúunum best.
    Val á því hvort heilsugæslustöðvar eru í leiguhúsnæði eða í húsnæði í eigu ríkisins ræðst af hagkvæmni hverju sinni, og hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um að velja einungis annan kostinn.

     3.      Telur ráðherra að stór verslunarhúsnæði henti notendum þjónustunnar, t.d. slösuðum, fólki með brjóstverk, þunglyndum, fötluðum, viðkvæmum börnum og öldruðum með skerta hreyfigetu, svo að dæmi séu tekin?
    Ráðherra telur að verslunarhúsnæði geti hentað notendum þjónustunnar í mörgum tilvikum, enda sé aðgengi að þjónustunni tryggt og auðvelt, samgöngur góðar og bílastæði næg og truflanir vegna annarrar starfsemi í umhverfinu í lágmarki.

     4.      Ef ekki, hvað ætlar ráðherra að gera til að ráða bót á ástandinu hvað þetta varðar?
    Eins og fram hefur komið telur ráðherra að staðsetning heilsugæslustöðva eigi að ráðast af aðstæðum á hverjum stað, og telur að dæmin sem tilgreind eru í svörum við spurningum hér að framan sýni að heilsugæslustöðvum hefur verið valinn staður með það að leiðarljósi.