Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 1057  —  281. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um Náttúruminjasafn Íslands.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Þórisdóttur lögfræðing og Ragnheiði H. Þórarinsdóttur sérfræðing frá menntamálaráðneyti, Jón Gunnar Ottósson forstjóra Náttúrufræðistofnunar, Árna Bragason frá Umhverfisstofnun, Sigurð H. Magnússon, Regínu Hreinsdóttur og Ágúst Ú. Sigurðsson frá starfsmannafélagi Náttúrufræðistofnunar í Reykjavík, Sigurð A. Þráinsson frá umhverfisráðuneyti, Guðna Á. Alfreðsson prófessor frá líffræðiskor Háskóla Íslands, Ínu Björgu Hjálmarsdóttur og Harald R. Ingvason frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Kristínu Svavarsdóttur og Helga Torfason frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Svein Kára Valdimarsson frá Samtökum náttúrufræðistofa og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og hafa umsagnir borist frá Náttúrufræðistofnun Íslands, starfsmannafélagi Náttúrufræðistofnunar Íslands í Reykjavík, Fornleifastofnun Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, líffræðiskor Raunvísindadeild Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Umhverfisstofnun, Íslenskum orkurannsóknum, Félagi íslenskra safna og safnmanna, Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Veðurstofu Íslands, Orkustofnun, Veiðimálastofnun, Þjóðminjasafni Íslands, Samtökum náttúrustofa og Hafrannsóknastofnun.
    Frumvarið var lagt fram á 132. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram á ný með smávægilegum breytingum.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði höfuðsafn á sviði náttúrufræða, Náttúruminjasafn Íslands, og er það í samræmi við fyrirmæli safnalaga, nr. 106/2001. Í 5. gr. þeirra er kveðið á um að höfuðsöfn skuli stofna með lögum þar sem nánar sé kveðið á um starfsemi þeirra og í 5. mgr. 5. gr. er Náttúruminjasafn Íslands sérstaklega tilgreint sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Í bráðabirgðaákvæði segir hins vegar að ákvæði 5. mgr. 5. gr. komi ekki til framkvæmda fyrr en sett hafi verið sérlög um safnið í samræmi við ákvæði laganna.
    Nefndin leggur til ýmsar breytingar á frumvarpinu:
    Nefndin telur afar mikilvægt að verksvið Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðistofnunar séu skýrt afmörkuð. Nefndin leggur því til breytingu á 8. gr. frumvarpsins, sem varðar breytingu á 5. mgr. 5. gr. safnalaga, nr. 106/2001. Með þeirri breytingu er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands skilgreint á þá leið að það annist söfnun gripa, skrásetningu þeirra og varðveislu, kynni náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda með sýningum og fræðslustarfi og annist rannsóknir á starfssviði sínu, sbr. 2. gr., einkum 2. mgr. Með þeim hætti er safninu fengið rannsóknarhlutverk samkvæmt safnalögum, svo sem eðlilegt má telja fyrir höfuðsafn. Ekki er lagt til að safnið stundi grunnrannsóknir eða almennar náttúrufarsrannsóknir, t.d. með vöktun, sem eru á verksviði Náttúrufræðistofnunar.
    Náttúruminjasafni Íslands er ætlað að fjalla um náttúrufyrirbæri sem ekki eru á verksviði Náttúrufræðistofnunar og er því nauðsynlegt að eiga jafnframt samstarf við aðrar rannsóknastofnanir á sviði náttúrufræða, svo sem Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun, Íslenskar orkurannsóknir, Landbúnaðarháskóla Íslands, náttúrustofur, Orkustofnun, Veðurstofu Íslands og Veiðimálastofnun . Ljóst er þó að samstarfið við Náttúrufræðistofnun Íslands verður safninu einkar mikilvægt, sem og afnot af safnkosti þess og nýting þeirra rannsókna sem þar eru stundaðar.
    Í öðru lagi leggur nefndin til þrjár breytingar á 2. gr. Í fyrsta lagi leggur nefndin til skýrara orðalag í upphafi 2. mgr. Þannig er lagt til að í stað orðsins „sýningarmunir“ verði talað um muni sem henta starfsemi safnsins. Ástæðan er sú að allir munir sem eru hjá söfnum eru skráðir og flokkaðir sem safnmunir. Með orðalaginu „að munir henti starfsemi safnsins“ er nefndin að skerpa skilin á milli safnahlutverks Náttúruminjasafnsins annars vegar og vísindastarfs Náttúrufræðistofnunar hins vegar, sem einnig felst að hluta til í söfnun. Ekki er gert ráð fyrir að stefnt sé sérstaklega að því að á Náttúruminjasafni Íslands verði komið upp sérstöku vísindasafni heldur byggist safneign þess sjálfs á þeim munum sem best henta fræðslu- og sýningarstarfi þess, sbr. 2. mgr. 2. gr. Þá er lögð til orðalagsbreyting í 2. mgr. á rannsóknarhlutverki safnsins þannig að ljóst sé að það skuli stunda rannsóknir á starfssviði sínu. Að lokum er lögð til orðalagsbreyting í 4. mgr.
    Í þriðja lagi leggur nefndin til tvær breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Sú fyrri er að ekki verði kveðið á um í 1. mgr. að Náttúrufræðistofnun annist að verulegu leyti rannsóknarskyldu Náttúruminjasafnsins, og er hún í samræmi við þá breytingu sem lögð er til á 8. gr. frumvarpsins þar sem skerpt er á skilum á milli starfssviða þessara stofnana. Með síðari breytingartillögu nefndarinnar er lögð til orðalagsbreyting á 2. mgr.
    Í fjórða lagi er lögð til orðalagsbreyting á 5. gr. frumvarpsins þannig að í stað orðsins „starfsemi“ verði fjallað um þekkingu forstöðumanns á starfssviði safnsins. Ekki þykir rökrétt að ætla umsækjanda um starf forstöðumanns sérstaka þekkingu á sjálfri starfsemi safnsins frá degi til dags. Hins vegar er eðlilegt að gera kröfur um staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
    Að lokum leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði til bráðabirgða að orðin „en ekki vísindagildi“ falli brott þar sem hægt er að fullyrða að gripir sem hafa fyrst og fremst sýningargildi geti einnig haft vísindagildi.
    Í tilefni af ákvæði til bráðabirgða vill nefndin benda á að hinn 16. júní 1947 gerðu stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags og menntamálaráðuneytið með sér samning, sbr. fylgiskjal, þar sem m.a. var kveðið á um að stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags afhenti ráðuneytinu f.h. ríkissjóðs náttúrugripasafn félagsins til fullrar eignar og umráða, ásamt sjóði þeim er félagið hafði myndað í því skyni að reisa safninu hús, svo og bækur, áhöld, skjöl og allt annað, er safninu hafði fylgt og fylgir. Auk þessa afhenti félagið einnig allt það er varðaði fuglamerkingastarfsemi félagsins og útgáfu vísindaritsins Acta naturalia islandica. Fram kom í samningnum að í staðinn hafi menntamálaráðuneytið m.a. skuldbundið sig til að láta Hinu íslenska náttúrufræðifélagi í té ókeypis eitt herbergi í hinni nýju náttúrugripasafnsbyggingu. Telur nefndin eðlilegt að tekið sé tillit til þessa samnings við ákvörðun um safnkost Náttúruminjasafns Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Magnús Þór Hafsteinsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. mars 2007.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.



Björgvin G. Sigurðsson.


Einar Már Sigurðarson.


Kjartan Ólafsson.



Mörður Árnason.


Sæunn Stefánsdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.





Fylgiskjal.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.