Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 211. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1103  —  211. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um sjónvarpsefni frá sjálfstæðum framleiðendum.

     1.      Hvaða skilgreiningu á „efni frá sjálfstæðum framleiðendum“ er stuðst við í 3. gr. draga að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem ráðherra kynnti í september?
    Skilgreiningin á sjálfstæðum framleiðendum byggist á skilgreiningu EBU (European Broadcasting Union), en hún er:
    „Fyrirtæki sem er sjálfstæður lögaðili aðskilinn frá útvarpsfyrirtækinu og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu, þar með talið það sem lýtur að vinnu fyrir aðra en útvarpsfyrirtækið sjálft.“
    Í drögum að samningi menntamálaráðuneytis og RÚV, sem kynnt hafa verið, er byggt á framangreindri skilgreiningu í 3. gr. þar sem kveðið er á um nýsköpun í dagskrárgerð.

     2.      Hve miklu fé varði Ríkisútvarpið, sjónvarp árlega árin 1999–2005 til slíks efnis frá sjálfstæðum framleiðendum, annaðhvort með kaupum eða meðframleiðslu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu hefur stofnunin á sl. sjö árum varið eftirfarandi upphæðum til kaupa eða meðframleiðslu á efni frá sjálfstæðum framleiðendum:

Ár Upphæð
í millj. kr. án vsk.
1999 147
2000 144
2001 146
2002 138
2003 141
2004 104
2005 101

    Eins og sést á töflunni hefur upphæðin sem varið er til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum verið lægri árin 2004 og 2005 en árin þar á undan. Sú upphæð sem Ríkisútvarpið hefur á síðustu árum varið til kaupa á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum hefur ákvarðast af áherslum í dagskrárframboði og fjárhagsstöðu stofnunarinnar.
    Í þeim drögum að samningi sem fylgdi frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf. er markmiðið að stofnunin verji að lágmarki 150 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008. Árið 2009 hækkar upphæðin í 200 millj. kr. og verður við lok samningstímabilsins 250 millj. kr.