Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 648. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1177  —  648. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Martin Eyjólfsson og Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Guðjón Axel Guðjónsson og Lárus Ólafsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 146/2005 frá 2. desember 2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB, og 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB, ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB frá 11. nóvember 2003 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi.
    Í svokölluðum orkupakka sem samþykktur var í júní 2003 eru fjórar gerðir: reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/ 54/EB og 2003/55/EB ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt um möguleika Íslands til að fá undanþágur frá tilteknum reglum framangreindra gerða vegna smæðar markaðarins og einangrunar. Iðnaðarráðuneytið skilaði nefndinni greinargerð um innleiðingu raforkutilskipana í íslenskan rétt þar sem nánar er gerð grein fyrir aðdraganda að upptöku gerðanna í EES-samninginn, innleiðingu þeirra í íslenskan rétt og möguleikum Íslands á undanþágum frá einstökum ákvæðum gerðanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að undanþáguheimildir gerðanna verði nýttar eins og kostur er fyrir íslenska raforkumarkaðinn.
    Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hér á landi.
         Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jón Gunnarsson rita undir álitið með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 13. mars 2007.Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.


Jón Kristjánsson.Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Sæunn Stefánsdóttir.Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.